16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3595 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og kom fram fyrir stuttu við 1. umr. um þetta mál, er hér um tiltölulega einfalda lagasmíð að ræða. Það eru aðeins tvö efnisatriði, sem felast í þessu frv.: Annars vegar það, að lánsfjárhæð í hinu almenna húsnæðiskerfi hækki allt að 800 þús. kr. á hverja íbúð, þó ekki meira en 3/4 af verðmæti íbúða samkv. mati trúnaðarmanns veðdeildar Landsbankans, og síðan, að þessari upphæð megi breyta árlega til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Hér er að svo komnu aðeins um staðfestingu að ræða á því, sem þegar hefur verið gert samkv. heimildum í lögum, en nýmælið er, að framvegis skuli þetta breytast eða megi breytast í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar. Í öðru lagi er svo um að ræða, að heimilað er að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, sem nema allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. laga nr. 97 22. des. 1965 og íbúar þess ekki átt kost á íbúðum, sem þar um ræðir. Lán þessi skulu vera með svokölluðum Breiðholtskjörum, þ.e.a.s. þau skulu vera til 33 ára og afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum, en að öðru leyti eru lánakjörin hin sömu eins og lánakjör byggingarsjóðs ríkisins. Heimilt er að veita lán út á 1000 slíkar íbúðir á næstu 5 árum. Síðan er kveðið svo á, að ráðherra geti sett nánari ákvæði um úthlutun þessara lána.

Það er sama að segja um þetta mál að mestu leyti og fyrra málið, að það gat ekki dvalizt lengi til athugunar í félmn. og var því frekar skemmri skírn á athugun málsins þar. Hins vegar höfðu 2 hv. þdm. áður flutt frv. um svipað efni, þ.e.a.s. hv. 1. og 5. þm. Vestf., þannig að þessi mál hafa nokkuð borið á góma hér í hv. þd.

Meðan málið var til afgreiðslu í Nd., var það sent til umsagnar húsnæðismálastjórnar, og meiri hl. húsnæðismálastjórnar fagnar þeim breytingum, sem í frv. felast, báðum tveim, og í raun og veru má líka segja um álit minni hl., að þau séu talin jákvæð, þessi atriði, sem frv. felur í sér. Hins vegar benti meiri hl. húsnæðismálastjórnar á þann fjárskort, sem húsnæðislánakerfið búi við, og telur, að þar þurfi mjög um að bæta og sé það ekki gert, þá sé í raun og veru tilgangslítið að gefa út nýjar heimildir til sérstakra og aukinna lána. Svipað sjónarmið með öðru orðalagi og nokkru ákveðnara kemur fram hjá minni hl. n.

Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, sem hér var byrjað að kveða í sambandi við 1. umr. málsins, um þau efni. Það er augljóst, að húsnæðislánakerfið, byggingarsjóður ríkisins, hefur átt við fjárskort að stríða allengi, misjafnlega mikinn, en þó má segja, að í höfuðatriðum hafi blessazt að standa við þær lagaheimildir, sem fyrir hendi hafa verið. Og ég segi fyrir mitt leyti og býst við, að ég tali þar fyrir hönd nm., að ég vonast til þess, að þær heimildir, sem hér er verið að veita, verði hægt að nota og takist að útvega í húsnæðiskerfið það fjármagn, sem til þess þarf, að það verði gert með sómasamlegum hætti, jafnvel þó að það liggi ekki að fullu fyrir í dag.

Ég vil líka benda á það, sem kom fram hjá hæstv. félmrh. í sambandi við þetta mál, þegar það var hér til 1. umr., að þær heimildir, sem aðallega hefðu mikla útgjaldaaukningu í för með sér, þ.e.a.s. lánin til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, sem yrðu vafalaust mjög miklar fjárhæðir, það er næsta ólíklegt, að þar verði um nokkuð umtalsverð útgjöld að ræða á þessu ári. Það er nú svo, að byggingar þurfa sinn tíma til undirbúnings, og það er ekki líklegt, að það yrði fyrr en á næsta ári, sem hér yrði um mjög verulegar upphæðir að ræða, þannig að þessi heimild hefur að mínu viti ekki ákaflega mikla aukna fjármagnsþörf í för með sér á þessu ári, sem nú er að líða.

Í hv. félmn. voru menn sammála um þau atriði, sem í frv. eru, svo langt sem þau ná. Sumir nm. munu þó vilja ganga lengra í þessum heimildum, og liggja fyrir brtt. þar að lútandi, en ég tel ástæðulaust að fara út í þá sálma, a.m.k. ekki fyrr en fyrir þeim hefur verið gerð sérstök grein. En sem sagt, með þeim fyrirvara, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt., mælir n. með samþykkt frv.