16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

236. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf. vil ég endurtaka það, sem ég sagði hér í vetur, að ég mun sjá um, að fyrir næsta Alþ. verði lagt fram frv., sem aðgreinir þessa liði, sem hér er um að ræða, og að byggingarsjóðnum verði ekki blandað inn í þennan bráðabirgðaskatt. Það get ég staðfest.

Hitt er annað, að þetta mál hér er sérstaks eðlis og er bundið við samninga. Ég sá ekki ástæðu til að fara að blanda þeirri lagasmíð inn í það, því hér er um sérstakt atriði að ræða, en mun hins vegar sjá um, að það verði tekið fyrir, eins og ég gaf fyrirheit um. Frekari atriði sé ég ekki ástæðu til að ræða í sambandi við þetta mál, af því að það er einangrað við samning. En hitt málið skal fara í þann farveg, sem um var rætt.