07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

273. mál, reglugerð samkvæmt útvarpslögum

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. minni og læt í ljós sérstaka ánægju yfir því, að reglugerðin skuli nú hafa verið gefin út. Ég vona, að fsp. mín um málið hafi átt einhvern þátt í því. Þótt það hafi ekki verið, þá er ég jafnglaður samt.

Hins vegar er það misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ákvæði 25. gr. séu eins og venjuleg heimildarákvæði til útgáfu reglugerðar. Algengasta orðalagið í löggjöf um reglugerðir er það, að ráðh. sé heimilt að gefa út reglugerð, þar sem kveðið sé á um nánari framkvæmd laga. Þetta er hv. þm. eflaust kunnugt. Þetta er langalgengasta orðalagið, ef gert er ráð fyrir reglugerð til þess að kveða nánar á um framkvæmdir um einstök atriði. En 26. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh, setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstaka kafla þeirra. Ákveða má í reglugerð, að brot gegn ákvæðum hennar varði refsingu skv. lögum.“

Fyrri setningin er tvímælalaust fyrirmæli til ráðh. um að gefa út reglugerð. Seinni setningin er heimild til hans um það að ákveða refsingu fyrir brot á ákvæðum laganna. Segja má, að úr því sem komið er sé þetta aukaatriði, og fjölyrði ég ekki meira um það. Ég endurtek aðeins ánægju mína yfir því, að reglugerðin skuli nú loksins vera komin, þó að ég hafi óskað þess, að hún hefði, útvarpsins vegna og hlustenda, komið allmiklu fyrr.