16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

258. mál, eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. flytur þetta frv. samkv. ósk fjmrh. Í grg. með frv. segir m.a., að lífeyrissjóðsréttindi eða eftirlaun fyrir starfsmenn stjórnmálaflokkana hafi verið til athugunar um skeið og viðræður um þau efni hafi byrjað fyrir rúmum tveimur árum og ýmsir þættir athugaðir í því sambandi. Þá segir enn fremur, að hér sé um að ræða fámennan hóp, sem eigi fyllilega samleið með öðrum starfsmönnum. Pólitísk veðrabrigði geta valdið því, að starf þeirra er ótryggt líkt og þingseta alþm. Þeir eiga ekki fyllilega samleið með skrifstofufólki vegna sérstaks eðlis starfsins. Vinnutími þessara manna getur ekki verið fastbundinn við ákveðinn skrifstofutíma og verður stundum næsta óreglulegur. Eftir athugun þessara mála hefur orðið samkomulag um að leggja til, að starfsmennirnir skuli vera í sérstakri deild innan lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með sérstöku reikningshaldi. Lagt er til, að lífeyrisréttindi þeirra verði að nokkru leyti sniðin eftir réttindum þingmanna. Verður að telja það eðlilegt m.a. með tilliti til þess, hversu líkt er um atvinnuöryggi þessara tveggja starfshópa. Þeir starfsmenn, sem fengju rétt til aðildar að lífeyrissjóði samkv. þessu frv., eru 10–15 talsins, flestir tiltölulega ungir, og yrði því lítið um greiðslu ellilífeyris til þeirra fyrstu tíu árin, svo að fé mundi safnast fyrir á þeim tíma. — Þessar skýringar úr grg. frv. vildi ég láta fylgja nú, þegar málið er kynnt við 1. umr.