07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

273. mál, reglugerð samkvæmt útvarpslögum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með, að það skuli vera búið að koma því í verk að gefa út reglugerð fyrir Ríkisútvarpið. En það var ekki það, sem kom mér til þess að standa hér upp, heldur að það hefur verið vikið að fjármálum Ríkisútvarpsins.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það er stór vandi á höndum í sambandi við fjármál Ríkisútvarpsins. Þetta hefur legið fyrir nú um nokkurt skeið.

Eins og öllum er kunnugt, eru tekjur Ríkisútvarpsins fólgnar í afnotagjöldum annars vegar og auglýsingatekjum hins vegar. Það varðar miklu, hve þessar tekjur eru háar. En Ríkisútvarpið á það undir viðskiptavinum sínum, hvað tekjurnar af auglýsingunum eru háar, en hvað tekjurnar af afnotagjöldum eru háar, á Ríkisútvarpið undir stjórnvöldum landsins, ríkisstj. á hverjum tíma. Og það er rétt, að það komi hér fram, að í áætlunum Ríkisútvarpsins hefur verið gert ráð fyrir, að það þyrfti mun hærri afnotagjöld á þessu ári heldur en ríkisstj. hefur viljað heimila.

Núna er afnotagjaldið fyrir þetta ár 1300 kr. fyrir hljóðvarp og 3100 kr. fyrir sjónvarp. En samkv. því, sem Ríkisútvarpið sjálft telur, hefðu þessi afnotagjöld þurft að vera á þessu ári 1700 kr. fyrir hljóðvarp í stað 1300 kr. og 4100 kr. fyrir sjónvarp í stað 3100 kr.

Ég vil vekja athygli á því, að þetta getur ekki gengið svo til lengdar, að það sé jafnmikill munur á raunverulegum tekjum Ríkisútvarpsins og þeim tekjum, sem það þarf að hafa, miðað við þá starfsemi, sem er í dag. Og mér sýnist, að eins og málin standa nú, þá sé það alvarleg áminning til hæstv. ríkisstj. um að horfast í augu við þann vanda, sem hér er við að glíma.