16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3606 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 748 er frv. til l. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild

landbúnaðarins, eins og gengið var frá því í hv. Ed. Þetta frv. var flutt í Ed., og var þar gerð grein fyrir því. Jafnframt fylgdi frv. ítarleg grg. Jafnhliða þessu frv. eru lögð fyrir á hv. Alþ. frv. að þrennum lögum, er varða landbúnaðarmál og aðeins verða sýnd á þessu þingi, en ekki gert ráð fyrir afgreiðslu þeirra eða fyrir þeim verði talað, heldur eru þau aðeins lögð fram til þess að kynna þau þeim, sem áhuga hafa á þessum málum, á milli þinga. Hér er um að ræða frv. að jarðalögum, frv. að lögum um heykögglaverksmiðjur og frv. að ábúðarlögum. Þessi mál snerta þetta frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, eins og það var lagt fram hér fyrst á hv. Alþ. En það varð að samkomulagi í hv. Ed. að taka l. kafla frv., eins og það var lagt fyrir, og afgreiða aðeins hann að þessu sinni, þar sem síðari kaflar snerta þau mál, sem síðar yrðu til umr., sérstaklega að því er varðar Landnám ríkisins, sem gert er ráð fyrir, að lagt verði niður, þegar þau frv., sem ég greindi frá áðan, verða orðin að lögum, en þá væri búið að fela öðrum stofnunum, sem fyrir eru, starfsemi Landnámsins. Það þótti því sanngjarnt í alla staði að bíða með afgreiðslu á seinni hluta frv. þessa, eins og það var upphaflega lagt fram, og það yrði afgr. í heild jafnhliða þessum frv., sem ég hef nú greint frá.

Það, sem um er að ræða í þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, er í fyrsta lagi að styrkja tekjur Stofnlánadeildar landbúnaðarins, þannig að meira hlutfall af lánsfé deildarinnar verði eigið fé, en til þess ber brýna nauðsyn. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hlutfall eigin fjár í lánum Stofnlánadeildar landbúnaðarins hefur farið lækkandi, og stafar af því m.a., að deildin hefur orðið að taka óhagkvæmari lán en útlán hennar eru, hún hefur orðið að taka lán til styttri tíma en þau lán, sem hún lánar aftur, og í þriðja lagi, að lánin hafa farið hækkandi ár frá ári, ekki sízt nú síðustu árin. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess, að deildin fái auknar tekjur og hlutfall eigin fjár deildarinnar í útlánum vaxi miðað við lánsfé. Að öðrum kosti getur starfsemi deildarinnar ekki orðið eðlileg í framtíðinni. Þetta frv. stefnir í þá átt, að svo verði, og er það höfuðatriði frv.

Í öðru lagi er svo um að ræða, að sérstakur forstöðumaður á að verða fyrir stofnlánadeildinni, en þó með þeim hætti, að deildin starfar áfram innan vébanda Búnaðarbanka Íslands og bankastjórnin hefur yfirumsjón og stjórn á henni.

Í þriðja lagi er um það að ræða, að bændasamtökin í landinu fái aðild að bankaráði Búnaðarbankans, þegar um er að ræða meðferð á málum stofnlánadeildarinnar.

Ástæðan til þess, að inn á þessa braut er farið, er sú, að gert er ráð fyrir, að deildin verði meira afgerandi aðili í stefnumótun á sviði landbúnaðar en verið hefur. Hér er ekki hugsunin, að verið sé að breyta til afgreiðslu einstakra lána, heldur til þess að móta þá stefnu, sem deildin á að fylgja í útlánum hverju sinni. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ekkert vopn er jafnsterkt til þess að hafa áhrif í stefnumótun og lánveitingar stofnlánasjóða, og það hefur verið áhugamál félagssamtaka bændanna að fá aðild að þessari stefnumótun með þessum hætti. Þess vegna eiga fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands að taka þátt í þessari stefnumótun, enda ekki aðrir, sem hafa þar betri skilning á eða meiri þekkingu til að bera. Þessi stefnumótun getur verið með margvíslegum hætti. Hún á að verða m.a. til þess að styrkja aukinn félagsbúskap í landinu og einnig að takmarka það, hvað hugsanlegt er að einyrkinn geti afkastað í sínum búskap. Hún getur einnig haft áhrif á það, hvort sauðfjárrækt eða nautgriparækt verður meira ráðandi búgrein í búskap bænda.

Ég vona, að þetta, sem hér er gert, verði til þess að efla íslenzkan landbúnað og til þess að koma á þeirri heilbrigðu stefnumótun, sem nauðsyn ber til og aðlagast þeim markaðamöguleikum, sem eru á hverjum tíma.

Ég skal ekki tímans vegna fara að eyða að þessu fleiri orðum. Ég vil segja það, að landbn. hv. Nd. mun að einhverju leyti a.m.k. hafa kynnt sér þetta mál ásamt landbn. hv. Ed., og ég verð því að leyfa mér að fara fram á það við hv. n. og hv. d. að höfð verði snör handtök í sambandi við afgreiðslu þessa máls nú fyrir þinglokin, enda var sú breyting, sem gerð var í Ed., við það miðuð, að sem bezt samstaða næðist um þetta mál. — Ég treysti því, að hv. landbn. verði fljót að afgreiða málið frá sér og hv. d. einnig, svo að það verði að lögum nú fyrir þinglok.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. landbn.