16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir tilheyrandi að segja hér örfá orð við 1. umr. málsins, áður en það fer til n. Að vísu er þetta orðið miklu viðaminna frv. en það var, þegar málinu var útbýtt hér í hv. Alþ. fyrir fáum dögum. Það hefur breytzt allmikið í meðförum hv. Ed., þar sem II. og III. kafli frv. hafa verið felldir í burtu, og er það vitanlega mikið atriði, vegna þess að eins og frv. var, þegar það var lagt fram, var það bundið við önnur frv., sem einnig er búið að leggja fram, en ekki er ætlað að fái afgreiðslu á þingi að þessu sinni. Ef frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins hefði verið samþ. óbreytt, hefði raunverulega um leið verið tekin afstaða til þeirra frv., sem ekki koma til umr. á þessu þingi. Það var sannarlega til of mikils mælzt að ætlast til þess, að hv. Alþ. færi að samþ. eða taka afstöðu til frv., sem ekki verða til umr. eða koma til afgreiðslu nú.

Þetta frv., eins og það nú er, fjallar aðallega um tekjuöflun fyrir Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þess gerist þörf, eins og fram hefur komið, vegna þess, að eigið fé stofnlánadeildarinnar hefur rýrnað í verðbólgunni, eins og raun ber vitni. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé ábyrgðarhluti að setja fótinn fyrir það, að stofnlánadeildin fái auknar tekjur. Stofnlánadeildarlögin, sem nú eru í gildi, voru sett fyrri hluta árs 1962. Á haustþinginu 1961 var borið fram frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins til þess að rétta hlut landbúnaðarsjóðanna, sem þá voru algerlega fjárvana. Það var þá, sem lagt var til að leggja 1% á búvörur, sem bændur bæru sjálfir, og 0.75% á heildsöluverð landbúnaðarvara. Ríkissjóður lagði hins vegar á mótí jafnhátt framlag og búvörugjaldinu nam. Með þessari ráðstöfun átti að vera tryggt, að stofnlánadeildin gæti byggt sig upp og orðið sjálfstæð fjárhagslega. Gekk þetta nokkuð vel lengi vel, en nú er svo komið, að augljóst er, að eigið fé stofnlánadeildarinnar rýrnar mjög mikið á hverju ári, þannig að það fé, sem stofnlánadeildin hefur til ráðstöfunar á þessu ári, er 30 millj. kr. lægra en á s. l. ári, og ef ekkert væri gert stofnlánadeildinni til hjálpar, hefði hún enga möguleika til útvegunar lánsfjár t.d. á árinu 1974. Við svo búið má vitanlega ekki standa. Ástæðan til þess, hvernig komið er fyrir stofnlánadeildinni, er dýrtíðin og verðbólgan og gengistöp af eldri lánum.

Í 12. gr. stofnlánadeildarlaganna frá 1962 var sett inn ákvæði til að tryggja það, að deildin yrði ekki fyrir gengistapi af þeim lánum, sem tekin væru, eftir að þau lög gengju í gildi. Gengistöpin eru þess vegna af eldri lánum. Ætlazt er til, að þetta ákvæði 12. gr. stofnlánadeildarlaganna verði áfram í lögunum, þar sem það er tekið upp í frv.

Stofnlánadeildin þarf vitanlega á auknu fjármagni að halda, þegar krónan minnkar. Það eru fleiri krónur, sem þarf að lána, og framkvæmdir í landbúnaði fara alltaf eftir árferðinu. Árferði hefur batnað nú, eins og kunnugt er, 1970, 1971 og 1972, og vonandi verður áfram gott árferði. Á árunum 1963, 1964, 1965 og 1966 voru miklar framkvæmdir í landbúnaði og þó mest 1966, enda var það gott ár. En þegar kuldinn kom og kalið, minnkuðu framkvæmdir aftur, eins og vænta mátti.

Yfirleitt ráðast bændur ekki í þær framkvæmdir, sem eru ekki nauðsynlegar, og vegna þess er nauðsynlegt að tryggja fé til þess, að þeir fái lán til þeirra framkvæmda, sem gerðar eru. Nú er það svo, að jafnvel þó að þetta frv. verði samþ. óbreytt, lítur ekki út fyrir, að á þessu ári verði unnt að fullnægja lánsfjárþörfinni. Samkv. þeim gögnum, sem fram hafa komið um framkvæmdaáætlun og annað, sem hv. þm. hafa séð í sambandi við stofnlánadeildina, lítur út fyrir, að það fjármagn, sem deildin fái til umráða á þessu ári, muni nema 420 millj. kr., en lánsþörfin hins vegar muni vera 640 millj. kr. Lítur þá út fyrir, nema hæstv. ríkisstj. útvegi frekari lán, að það muni vanta um 220 millj. kr. á þessu ári. Er það vitanlega mjög bagalegt, því að fram að þessu hefur verið unnt að sinna þeim umsóknum, sem stofnlánadeildinni hafa borizt, og þeir bændur, sem hafa uppfyllt öll skilyrði til lántöku, hafa fengið lán. Það má vel vera, að hæstv. landbrh. hugsi sér að fjármagna deildina enn frekar en fram hefur komið fram að þessu. Ef þetta frv. verður samþ., kemur það vitanlega í ljós síðar á árinu, enda ekki gengið frá lánum til bænda fyrr en á haustin.

Ég tel, að það sé ekki um annað að ræða en að samþ. frv. að mestu leyti í því formi, sem það nú er komið, hvað tekjuöflunina snertir. Hins vegar eru hengd hér aftan í 1. kafla frv. nokkur atriði, sem ég tel að orki tvímælis. Þar er gert ráð fyrir því, að hér eftir annist stofnlánadeildin jarðakaupalánin. Ef svo verður, sýnist mér, að ekki sé um annað að ræða en að leggja niður veðdeild Búnaðarbankans, því að aðalhlutverk hennar hefur verið að veita jarðakaupalán. Það hefur ekki verið gert enn, og skýtur þá dálítið skökku við að taka af veðdeildinni þau verkefni, sem hún hefur haft með höndum, en láta hana samt vera til í lögum. Þetta sýnist vera dálitið hjákátlegt, en þessu mætti breyta síðar meir með því að fella veðdeildina úr lögum. Ef stofnlánadeildinni er falið það verkefni, sem veðdeildin hefur haft, mætti leggja deildina niður að skaðlausu.

Verkefni stofnlánadeildarinnar eru að öðru leyti óbreytt frá því, sem verið hefur. Það hefur stundum verið talað um það, að í tíð núv. ríkisstj. hafi verkefni stofnlánadeildarinnar verið færð út, því að nú sé farið að lána til hinnar félagslegu uppbyggingar, sláturhúsa og vinnslustöðva. Þetta hefur verið sagt í þeim tón og með þeim orðum eins og þetta hafi ekki verið gert áður. En ef einhver hv. þm. er í vafa um það, að byrjað hafi verið að lána til sláturhúsa og vinnslustöðva landbúnaðarins, áður en núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, er bezt að taka af öll tvímæli um það og vitna í útlánaskýrslur stofnlánadeildinnar frá fyrri árum. Sýna þær, að á þessu hefur verið byrjað, áður en núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda.

Verksvið stofnlánadeildarinnar var stóraukið með lögum frá 1962 frá því, sem landbúnaðarsjóðirnir höfðu áður haft. T.d. lánuðu landbúnaðarsjóðirnir ekki út á vélar, dráttarvélar eða aðrar vélar, svo sem stofnlánadeildin hefur alltaf gert. Um þetta er óþarfi að fara mörgum orðum, allra sízt þegar tíminn er takmarkaður. Mér hefur skilizt á hæstv. landbrh., að hann óski helzt eftir, að 1. umr. málsins verði lokið á þessum fundi. Ég ætla þess vegna ekki að teygja tímann og halda langa ræðu.

Ég vil þó minna á, að hæstv. ríkisstj. talaði mikið um, að lengja þyrfti lánstímann og lækka vexti af lánum til landbúnaðarins. Þessu hefur hæstv. ríkisstj. algerlega gleymt, og ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv. að lengja lánstímann og ekki heldur að lækka vexti. Hins vegar er gert ráð fyrir því að hækka vexti á tilteknum lánum, eins og fram kemur í þessu frv. Gert er ráð fyrir því, að bóndi, sem hefur meir en 11/2 vísitölubú, fái óhagstæðari lán en sá bóndi, sem er með bústærð undir þeirri stærð. Ég tel þetta mjög hæpið ákvæði og það verkar eins og refsing á þá, sem eru duglegir og reka myndarleg og stór bú. Sannleikurinn er sá, að það er enginn mælikvarði á efnahag mannsins, hvort hann standi fjárhagslega betur, þótt hann hafi meira en 11/2 vísitölubú eða þó að hann hafi jafnvel 2 vísitölubú. Hann getur skuldað mikið, vegna þess að hann hefur flýtt uppbyggingunni, húsabyggingum, ræktun og bústofnskaupum. Maður með stærra bú gæti því haft þörf fyrir að fá hagstæð lán eins og þeir, sem minni bú hafa. Auk þess býður þetta upp á það, að farið verði í kringum löggjöfina, þannig að telja tvo menn fyrir búinu, enda þótt það sé raunverulega einn, sem á það og rekur. Það er gert ráð fyrir heimild til þess að greiða sérstaklega fyrir þeim, sem lítil bú hafa, en það hefur áður verið gert með því að veita þeim styrki, og þegar styrkirnir voru upp teknir til byggingar íbúðahúsa, — sem voru lengi vel 60 þús. kr., en hafa verið 120 þús. kr. á hvert íbúðarhús síðan á fyrri hluta árs 1971, — þá átti það að koma sem mótvægi til þeirra, sem voru efnaminni. En í framkvæmd mun þetta hafa verið þannig síðustu árin, að flestir hafi fengið þessi framlög. Fram til síðustu tíma að þeir, sem höfðu minni ræktun en 25 hektara, fengu hærri jarðræktarframlag en hinir, sem voru komnir lengra með ræktunina.

Ég ætla ekki að fara að ræða fylgifrv., sem áttu að vera með þessu frv., en ég ætla aðeins í fáum orðum að benda á, að þau frv. þurfa mikla athugun. Ég fagna því, að það gefst tími til þess til haustsins. Eg er ekki viss um, að það sé rétt stefna að leggja niður Landnámið, og til sparnaðar leiðir það ekki samkv. þeim till., sem í þessum frv. eru. Þar sýnist vera, að koma eigi margar n. og mörg ráð í staðinn, stjórnir og skrifstofur, sem gætu kostað miklu meira en Landnámið kostar með því fyrirkomulagi, sem þar er. En það gefst tækifæri til að athuga það nánar fyrir haustið. Ég gæti bezt trúað því, að það næðist samkomulag um að gerbreyta þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að marka í landbúnaðarmálum með flutningi þessara mörgu frv., sem hér hafa nú séð dagsins ljós.

Vegna þess, hve tíminn er naumur, skal ég ekki orðlengja þetta frekar, en hv. landbn. fær málið til athugunar, og þótt það sé komið frá Ed., verður hv. n. að gefast tími til að athuga um flutning á nauðsynlegum brtt. við nokkur atriði í frv. Það þarf ekki að hindra framgang frv., þótt landbn. flytji 2–3 brtt., sem gætu orðið til bóta.