16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3615 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

Skýrsla um utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Í samræmi við venju, sem skapazt hefur hér á hv Alþ., og ákvæði í málefnasamningi ríkisstj. mun ég nú gera stuttlega grein fyrir helztu utanríkismálum.

Í þeim yfirlitsskýrslum, sem ég gaf Alþ. í nóv. 1971 og í maí 1972 um utanríkismál, rakti ég í mjög stórum dráttum þróun alþjóðamála. Mun ég halda þeim upptekna hætti og síðan gera grein fyrir því athyglisverðasta í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir, bæði tvíliða samskiptum og starfi á vettvangi nokkurra þeirra fjölþjóðlegu og alþjóðlegu stofnana, sem Ísland á aðild að.

Þegar litið er á þróunina síðustu mánuði í alþjóðamálum, ber hæst vopnahléssamkomulagið í Víetnam og samkomulag þýzku ríkjanna um að koma samskiptum sín á milli í eðlilegt horf.

Með samningi þýzku ríkjanna um grundvallarsamskipti þeirra á milli, sem undirritaður var 21. des. 1972, náðist mjög merkur áfangi í samskiptum austurs og vesturs. Í kjölfar þessa samnings skapast möguleikar á samstarfi Evrópuþjóða, sem með góðum vilja kann að valda aldahvörfum í álfunni. Stjórnmálasambandi hefur nú verið komið á við Þýzka alþýðulýðveldið og þar með eðlilegum samskiptum við það ríki. Bæði þýzku ríkin munu innan tíðar verða fullgildir aðilar að Sameinuðu þjóðunum og sérstofnunum þeirra. Þótt ekki kæmi fleira til, er hér um að ræða mjög stórt skref í þá átt að útrýma leifum kalda stríðsins í Evrópu.

Fundir, sem nú standa yfir í Helsingfors til undirbúnings ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, og viðræður um niðurskurð herafla í Evrópu í Vínarborg bera einnig vitni um vaxandi viðleitni til að draga úr spennunni í framhaldi af innbyrðis samningi þýzku ríkjanna og staðfestingu á samningum Þýzka sambandslýðveldisins við Sovétríkin og Pólland á síðasta ári.

Um viðræðurnar í Vínarborg virðist ekki mikið hægt að segja að svo stöddu, en Ísland á ekki fulltrúa þar, eins og kunnugt er. Það eru röskir 2 mánuðir síðan fundirnir hófust, og hafa þeir að mestu farið í umræður um formsatriði og fundarsköp, en nú virðist sem lausn sé fundin þar á. Er þess því að vænta, að málefnaleg skoðanaskipti geti nú hafizt fyrir alvöru. Það er fyrirsjáanlegt, að samningar um niðurskurð herafla í Evrópu eru mjög viðkvæmir og mjög vandasamir og taka langan tíma og krefjast mikillar þolinmæði. Hins vegar er ljóst, að miklu skiptir, að vel takist um framkvæmd þessara umr., því að vissulega eru það hinir óvígu herir í Evrópu og reyndar um heim allan og stöðug aukning þeirra og fullkomnun, sem á mestan þátt í að ala á tortryggni milli ríkja og öryggisleysi. Ber því að vona, að tilætluður árangur verði af þessum viðræðum og ekki verði látið þar við sitja. Hef ég þá einkum í huga hinn sívaxandi vígbúnað stórveldanna á höfunum. ekki hvað sízt við bæjardyrnar hjá okkur á Norður-Atlantshafi, sem að mínu áliti ber nauðsyn að stemma stigu við.

Fundirnir í Helsingfors til undirbúnings ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu hófust 22. nóv. 1972. Í fundunum taka þátt samtals 34 ríki, öll ríki Evrópu nema Albanía, og auk þess Bandaríkin og Kanada. Ísland hefur átt fulltrúa á fundum þessum frá upphafi. Fyrirsjáanlegt var, að þessir fundir mundu taka langan tíma, þegar þess er gætt, að 34 ríki með að ýmsu leyti ólík viðhorf og talandi ólíkum tungum þurfa að vera sammála um allar ákvarðanir, sem teknar eru. Hafa fundirnir nú staðið í röska 4 mánuði, að vísu með nokkrum hléum, og standa nú vonir til, að þeim verði lokið með jákvæðum árangri seint í maí n.k. Ef þær vonir rætast, má gera ráð fyrir, að sjálf ráðstefnan hefjist síðari hluta júnímánaðar. Heita má, að náðst hafi samkomulag um fyrirkomulag ráðstefnunnar, þannig að hún verði haldin í þremur áföngum. Fyrst yrði tiltölulega stuttur fundur utanrrh., þar sem fram færu almennar umræður og dagskrá ráðstefnunnar verði samþykkt. Síðan verður nefndum og undirnefndum falið það hlutverk að fjalla um hina einstöku dagskrárliði og reyna að ná þar sameiginlegum niðurstöðum. Má gera ráð fyrir, að sá áfangi geti tekið alllangan tíma. Þessar niðurstöður munu síðar verða lagðar fyrir ráðherrafund til endanlegar samþykktar.

Á undirbúningsfundunum hefur enn ekki náðst samkomulag um dagskrá ráðstefnunnar, og hafa komið fram mörg torleyst ágreiningsefni. Þó liggur nokkuð ljóst fyrir, að dagskráin muni í stórum dráttum fjalla um eftirfarandi atriði:

1. Öryggismál, þ.á.m. grundvallarreglur varðandi samskipti ríkja.

2. Samvinnu á sviði viðskipta-, efnahags-, vísinda-, tækni-, menningar- og umhverfismála.

3. Mannleg samskipti, aukin samskipti á sviði menntnunar- og upplýsingastarfsemi.

4. Ráðgefandi n. til að fjalla um málefni viðkomandi öryggi og samvinnu.

Þessi fjögur dagskráratriði, sem ég hef rakið hér á undan, eru aðeins rammi um fjölmarga málaflokka, og enn virðist nokkuð langt í land, að samkomulag náist um þau. Varðandi fjórða dagskráliðinn, þess efnis, að ráðstefnan ákveði um skipan ráðgefandi n. til að skiptast á upplýsingum og hugmyndum um öryggismál og samvinnu í Evrópu og undirbúa ráðstefnur Evrópuþjóða um þessi mál í framtíðinni, skal þess getið, að skoðanir eru skiptar um, hvort tímabært sé að ákveða um þetta, fyrr en séð verður, hver heildarárangur ráðstefnunnar verður.

Mér finnst ástæða til þess að þakka einarðlegt frumkvæði Finna að undirbúningi þessa máls nú um alllanga hríð og fyrir þá frábæru aðstöðu, sem þeir hafa látið þessum fundum í té og örugga stjórn á þeim.

Ísland styður þá hugmynd. að allir þrír áfangar sjálfrar ráðstefnunnar verði haldnir í Helsingfors, og má telja góðar horfur á, að svo geti orðið.

Frá því að hugmyndin um slíka öryggismálaráðstefnu kom fram, hafa ýmsir verið vantrúaðir á, að hún kæmi nokkrum verulegum framfaramálum til leiðar, en yrði aðeins til þess að tryggja formlega status quo í Evrópu. Íslenzka ríkisstj. hefur frá upphafi haft jákvæða afstöðu til slíkrar ráðstefnu, og mér virðist nú, að nokkur ástæða sé til bjartsýni um, að hún geti náð tilætluðum árangri og aukið samvinnu og öryggi í Evrópu.

Áður en að ég lýk þessu yfirliti að því er varðar Evrópumálin, vildi ég aðeins minnast á þann merka áfanga, er aðildarríkjum Efnahagsbandalags Evrópu fjölgaði úr 6 í 9 nú um síðustu áramót. EBE var þegar fyrir stækkunina orðið stórveldi í viðskiptaheiminum, og áhrif þess munu fyrirsjáanlega enn aukast, ekki aðeins viðskiptalega, heldur og á stjórnmálasviðinu. Tíminn einn mun leiða í ljós, hvort þessi aukni efnahags- og stjórnmálastyrkur þessara ríkja muni jafnframt stuðla að auknu öryggi í álfunni. Slíkt ber að vona.

Ég mun síðar í skýrslu minni gera grein fyrir samskiptum Íslands við EBE.

Ástæða er til að fagna þeirri þróun, sem ég hef lýst hér á undan og hnígur í þá átt að lægja öldur sundurlyndis í okkar hluta heims. Þegar öllu er á botninn hvolft, eru það ekki síður tvílita samskipti risaveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem skipta sköpum um þróun heimsmála. Þessi ríki ráða nú yfir tækja og vopnabúnaði, sem tortímt getur heimsbyggðinni. Gífurleg ábyrgð hvílir því á herðum þessara ríkja. Það er því ánægjulegt, að þróun samskipta Bandaríkjanna og Sovétríkjanna upp á síðkastið hefur einnig verið jákvæð. Heimsókn Nixons, forseta Bandaríkjanna, til Moskvu í maí 1972 var mjög mikilsverður liður í að auka skilning milli ríkjanna á sviði stjórnmála og viðskipta.

Önnur lota í viðræðum ríkjanna um takmörkun kjarnorkuvopna hefur nú hafizt. Fyrri lotunni lauk í maí s.l. með undirskrift á samningi um takmörkun á gagnflugskeytakerfum og bráðabirgðasamkomulagi um vissar ráðstafanir varðandi takmörkun á kjarnrokuárásarvopnum. Mjög mikilvægt er, að árangur verði í þessum viðræðum, svo að unnt verði að stemma stigu við hinu geigvænlega kapphlaupi um framleiðslu og fullkomnun kjarnorkuvopna.

Styrjöldin í Víetnam hefur nú um árabil ekki aðeins valdið óumræðanlegum þjáningum fólksins í þessu stríðshrjáða landi og annarra, sem þar hafa átt beinan hluta að, heldur jafnframt eitrað andrúmsloftið milli stórveldanna og legið eins og mara á eðlilegum samskiptum þeirra.

Íslenzka ríkisstjórnin hefur við margvísleg tækifæri lýst áhyggjum sínum vegna þeirrar harðýðgi, sem sýnd hefur verið við stríðsreksturinn í Víetnam. Hún hefur bent á, að hernaðarleg lausn vandamálanna í Indókína væri óhugsandi, og því hvatt til, að deilan yrði leyst á pólitískum grundvelli, þar sem tryggður væri sjálfsákvörðunarréttur íbúanna. Það var því mikið fagnaðarefni, að samningar tókust milli stríðsaðila í lok jan. s.l. um vopnahlé í Víetnam, sem síðan var staðfest af alþjóðlegri ráðstefnu 112 ríkja um Víetnam, sem lauk 2. marz s.l. Komið hefur verið á fót eftirlitsnefnd til þess að fylgjast með vopnahléinu, en hún hefur ekki fengið fullnægjandi starfsskilyrði. Gengið hefur á ýmsu um framkvæmd vopnahlésins, og hafa deiluaðilar sakað hvor annan margsinnis um að hafa brotið vopnahléssamkomulagið. Veldur það áhyggjum, að árekstrar í Víetnam hafa farið vaxandi upp á síðkastið og það ekki síður, að ástandið er nú mjög alvarlegt í Kambódíu, þar sem nú er barizt af jafnvel meiri hörku en fyrr. Þrátt fyrir þetta verður að vona, að deiluaðilar beri gæfu til að nýta það tækifæri, sem gafst með vopnahléinu, til að koma á varanlegum friði í Suðaustur-Asíu .

Með lausn Víetnamstríðsins er ástæða til að vænta, að möguleikar skapist til að leggja meiri áherzlu á að leysa önnur alþjóðleg deilumál, svo sem í Miðausturlöndum. Deila Arabaríkjanna og Ísraels er enn í fullkominni sjálfheldu og fátt, sem bendir til skjótrar lausnar. Þessi deila er enn sem fyrr ein af helztu ógnunum við friðinn í heiminum. Án frekari aðstoðar eða afskipta stórveldanna af deilunni eru vonir um lausn hennar takmarkaðar á næstunni.

Aukin umsvif Alþýðulýðveldisins Kína á alþjóðavettvangi hafa verið mjög athyglisverð, og áhrif þessa stórveldis eiga eftir að hafa vaxandi áhrif á heimsmálin. Merkur áfangi náðist, þegar Japan og Kína náðu nýlega samkomulagi um stjórnmálasamband og viðskipti. Mikil umskipti hafa og orðið á sambandi Bandaríkjanna og Kína. Með heimsókn forseta Bandaríkjanna til Kína í febr. 1972 virðist nú eftir algert sambandsleysi landanna um árabil hilla undir eðlileg samskipti þeirra.

Hið nýja ríki Bangladesh, sem reis upp að loknu stríði Indlands og Pakistans snemma á síðasta ári, hefur átt í vök að verjast af völdum matarskorts og almennrar fátæktar. Bangladesh hefur fengið víðtæka viðurkenningu sem sjálfstætt og fullvalda ríki, en enn ekki Pakistans né heldur upptöku í Sameinuðu þjóðirnar. Samskipti Indlands og Pakistans eru hins vegar smátt og smátt að færast í eðlilegra horf eftir stríðið.

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að málefnum Kóreu, en eins og kunnugt er, hefur aldrei gróið um heilt milli Suður- og Norður-Kóreu eftir Kóreustríðið 1950-1953. Á síðasta ári virtist rofa nokkuð til í samskiptum ríkjanna, eftir að viðræður hófust þeirra á milli til að reyna að leysa ágreiningsefnin. Síðustu vikur hafa sendinefndir frá báðum löndunum komið til Reykjavíkur og rætt við mig. Bæði ríkin segjast hafa áhuga á sameiningu landanna með friðsamlegum hætti, en ásaka hvort annað jafnframt um að vinna ekki heils hugar að samningum til að ná því takmarki. Erfitt er úr fjarlægð, þegar mati samningsaðila ber ekki saman, að gera sér grein fyrir raunverulegum árangri þeirra viðræðna landanna, sem nú standa yfir. Síðasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að fresta umr. á þinginu um Kóreumálið, og studdi Ísland þá ákvörðun. Sú afstaða byggðist á þeirri von, að verulegur árangur yrði af innbyrðis samningsviðræðum landanna og að ekkert yrði gert á allsherjarþinginu til að torvelda þessar viðræður, sem þá voru ekki löngu hafnar. Á fundi utanrrh. Norðurlandanna í Osló í lok síðasta mánaðar var það sameiginlegt álit ráðh., að það mundi hafa hagstæð áhrif á ástandið í Kóreu, ef sem flest ríki kæmu á sem eðlilegustu sambandi við ríkistj. beggja landanna. Í samræmi við þetta hafa Svíþjóð og Finnland fyrir nokkrum dögum, fyrst Norðurlandanna, tilkynnt stofnun stjórnmálasambands við Norður-Kóreu. Ísland mun innan tíðar einnig koma á stjórnmálasambandi við Norður-Kóreu, en slíkt samband höfum við nú þegar við Suður-Kóreu.

27. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stóð yfir í New York frá 19. sept. til 22. des. 1972. Ég mætti á þinginu í þingbyrjun og flutti þar ræðu 29. sept. í hinum almennu umr. utanrrh. Að þessu sinni fjallaði ræða mín eingöngu um landhelgismálið og sjónarmið Íslendinga í þeim efnum, og vildi ég með því leggja sérstaka áherzlu á, hversu mjög lífshagsmunir íslenzku þjóðarinnar eru tengdir farsælli lausn þessa máls á alþjóðavettvangi.

Auk fulltrúa fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og utanrrn. sóttu fulltrúar frá þingflokkum allsherjarþingið eins og undanfarin ár. Fulltrúar sendinefndarinnar sátu að venju í hinum ýmsu nefndum allsherjarþingsins og fjölluðu þar um ákveðin sérmál, er þeir síðar rituðu frásagnir og grg. um. Sú nýlunda var tekin upp af utanrrn., að þessar grg. voru jafnóðum sendar nm. í utanrmn. Alþ.. og hafði n. því betra tækifæri en oft áður til að fylgjast með gangi mála á allsherjarþinginu.

Á allsherjarþinginu er fjallað um aragrúa af málum, og mun ég því aðeins stikla á nokkrum atriðum, þar sem Ísland hefur einkum haft sig í frammi.

Íslenzka sendinefndin flutti á þinginu till. um óskoruð yfirráð yfir auðlindum hafsins yfir landgrunninu og hafsbotninum. Var till. gerð í samráði við sendinefnd Perú og lögð fram í 2. nefnd. Lagði íslenzka sendinefndin mjög mikla vinnu í þessa till., sem var samþ. í n. og síðan á allsherjarþinginu 18. des. með 102 atkv. gegn engu, en 22 ríki sátu hjá.

Í framhaldi af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, sem haldin var í Stokkhólmi í júní 1972, voru umhverfismálin eitt af meginmálum allsherjarþingsins. Voru á þinginu samþ. fjölmargar till. í þessum málum. Samþ. var skýrsla Stokkhólmsráðstefnunnar og till., sem þar komu fram um umhverfisvarnir þ.á.m. um samvinnu ríkja almennt á sviði umhverfismála, stofnun stjórnarnefndar í umhverfismálum, stofnun umhverfismálasjóðs og sérstakrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál. Ákveðið var eftir allmiklar deilur, að umhverfismálastofnunin yrði staðsett í Nairobi í Kenýa, og var Ísland því fylgjandi.

Ísland var kjörið í hið nýja umhverfisráð Sameinuðu þjóðanna til tveggja ára, en í ráðinu eiga sæti 50 ríki. Af Norðurlöndunum á Svíþjóð þar sæti auk Íslands.

Í umr. um þessi mál á þinginu var af Íslands hálfu einkum lögð áherzla á verndun auðlinda hafsins og dýralífs á norðurhjara jarðar.

Ísland hefur einnig verið kjörið í auðlindanefnd Sameinuðu þjóðanna til tveggja ára. Verksvið þeirrar n. er m.a. að gera till. til efnahags- og félagsmálaráðsins og til annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna varðandi skynsamlega nýtingu og varðveizlu náttúruauðlinda.

Á 26. allsherjarþinginu var samþ. till. um áframhaldandi athuganir á stofnun háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fyrir síðasta allsherjarþingi lá skýrsla Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna og sérfræðinganefndar, sem sérstaklega hafði verið falið að kanna málið. Samþykkti þingið stofnun háskólans. Hefur íslenzka ríkisstj. látið í ljós áhuga á að veita háskólanum aðstöðu á Íslandi fyrir vísinda- og rannsóknastofnun í haf- og fiskifræðum, ef hagstæð niðurstaða verður á fjármögnun til skólans.

Allt frá upphafi Sameinuðu þjóðanna hafa kynþátta- og nýlendumálin verið þar mjög ofarlega á baugi. Réttarbætur til handa undirokuðum þjóðum hafa verið mjög hægfara, einkum vegna þess, að nokkur ríki hafa algerlega virt að vettugi réttmætar kröfur um sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsforræði. Vandamálin í Namebíu, Suður-Ródesíu og landsvæðum undir stjórn Portúgala voru að vanda mikið rædd á síðasta allsherjarþingi, og kom fram fjöldi till. og ályktana um þau. Norðurlöndin höfðu nána samvinnu og víðtæka samstöðu um afgreiðslu þessara mála á þinginu. Byggist afstaða þeirra á ríkri samúð með kröfum allra þjóða til sjálfsagðra mannréttinda og andúð á ofbeldi og kúgun.

Alda flugrána, mannrána og margs konar hryðjuverkastarfsemi veldur sívaxandi áhyggjum, og rík áherzla er nú lögð á að finna ráð til að stemma stigu við slíkum ofbeldisverkum. Afstaða ríkja til þess, hvað sé helzt til úrbóta, er í höfuðdráttum tvenns konar. Í fyrsta lagi eru ríki, sem ákveða vilja þung viðurlög við alþjóðlegum hryðju- og hermdarverkum, og í öðru lagi ríki sem vilja láta rannsaka orsakir hermdarverkanna. Vegna þessara ólíku viðhorfa til málsins fékk það ekki viðhlítandi afgreiðslu á allsherjarþinginu. Norðurlöndin og nokkur Evrópuríki önnur hafa lagt til, að farið yrði bil beggja, og í þá átt gengur ályktun, sem utanrrh: fundur Norðurlanda gerði nýlega um málið.

Vík ég nú máli mínu að hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem ráðgert er, að hefjist í Santiago í Chile í aprílmánuði næsta árs. Miðað er við, að í okt. n.k. verði fjallað um skipulagningu ráðstefnunnar á tveggja vikna fundi í New York. Undirbúningsnefnd hafréttarráðstefnunnar hélt fundi í New York 5. marz til 6. apríl s.l. Var ötullega unnið í hinum þrem undirnefndum, þ.e. í 1. undirn, sem fjallar um hið alþj.lega hafsb.svæði, 3. undirn., sem fjallar um mengun og vísindal. rannsóknir. og 2. undirn., sem hefur til meðferðar öll önnur atriði, þ.á.m. lista yfir verkefni ráðstefnunnar, víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu, landgrunnið og fiskveiðar á úthafinu. Verkefnið er að ganga frá uppkasti að samningstextum fyrir hafréttarráðstefnuna, og miðar því starfi eftir atvikum talsvert áfram í 1. og 3. n. Í 2. n. stóð lengi á því, að ekki náðist samkomulag um lista yfir verkefni ráðstefnunnar, en niðurstaða fékkst í því efni á sumarfundinum í fyrra. Á nýafstöðnum fundi í New York þokaðist mikið áleiðis í annarri n., og varð að samkomulagi að skipa vinnunefnd, sem öll ríki, er sæti eiga í undirbúningsnefndinni, taka þátt í. Hlutverk vinnunefndarinnar er að ræða þær till., sem fram koma í 2. nefnd, og reyna að ná samkomulagi um samningstexta fyrir ráðstefnuna.

Ýmsar till. liggja nú fyrir varðandi víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu, landgrunn og fiskveiðar á úthafinu. Þannig hafa Sovétríkin lagt fram till. um 12 mílna landhelgi, sem jafnframt yrði ytri mörk fiskveiðilögsögu, en þó þannig, að þróunarríki og ríki, sem byggja hagsmuni sína á fiskveiðum, hefðu forgangsrétt á hafinu fyrir utan, eftir því sem þörf væri á fyrir þau. Japan hefur lagt fram svipaða till. Bandaríkin og Kanada hafa lagt fram till., sem miða að því, að greint sé á milli strandfiskstofna og flökkufiskstofna, þannig að lögsaga strandríkja nái til hinna fyrrnefndu, en milliríkjasamningar fjalli um hina. Kenýa hefur lagt fram till. um efnahagslega lögsögu innan 200 mílna hámarks, og Mexíkó, Kambódía og Venezúela hafa nú lagt fram till. um 200 mílna efnahagslögsögu, en að yfirráð yfir hagsbotninum nái svo langt sem nýting auðlinda þar er möguleg. Argentína hefur dreift óformlegu uppkasti, þar sem miðað er við allt að 12 mílna landhelgi, 200 mílna efnahagslögsögu varðandi landgrunnsbotn og hafið yfir honum og lögsögu yfir landgrunnsbotni þar fyrir utan, svo langt sem nýting er möguleg. Ástralía hefur lagt fram svipaða till. Loks er vitað, að Indland hefur í undirbúningi till. um 200 mílna lögsögu, sem ekki hefur enn verið lögð fram.

Íslenzka sendinefndin vann að því að skapa samstöðu með þeim ríkjum, sem fylgjandi eru víðtækri lögsögn yfir auðlindum undan ströndum. en þegar ljóst varð undir lok síðasta fundar annars vegar, að nokkur tími mun líða, þangað til grundvöllur yrði fyrir samræmdri till. þessara ríkja, og hins vegar, að vinnunefnd 2. nefndar mundi brátt hefja umr. um hinar einstöku till., þótti rétt að flytja íslenzka till. Var hún lögð fram hinn 5. apríl s.l. og hljóðar þannig í íslenzkri þýðingu:

„Lögsaga strandríkja yfir auðlindum á hafsvæðum utan landhelgi þeirra.

Strandríki er heimilt að ákveða ytri mörk lögsögu og yfirráða yfir auðlindum og hafsvæðum utan landhelgi þess. Ytri mörk svæðisins skulu ákveðin innan sanngjarnrar fjarlægðar með hliðsjón af landfræðilegum, jarðfræðilegum, vistfræðilegum, efnahagslegum og öðrum aðstæðum á staðnum, sem máli skipta, og skulu ekki ná lengra en 200 sjómílur.“

Allar ofangreindar till. verða nú í athugun hjá ríkisstj. fram að Genfarfundinum í sumar, en þá verður reynt að samræma þær, eftir því sem unnt er, og hefur Ísland þá tryggt sér aðild að öllum slíkum tilraunum. Auk þess er ráðgert, að tíminn fram að sumarfundinum verði notaður til að hafa nánari samráð.

Að lokum skal þess getið, að engar atkvgr. fara fram í undirbúningsnefndinni, heldur er reynt að fá sem viðtækasta samstöðu. En þar sem mikið ber á milli, sérstaklega að því er varðar víðáttu lögsögu strandríkisins, er ráðgert, að þar sem samkomulag næst ekki, verði mismunandi textar lagðir fyrir ráðstefnuna sjálfa, þegar þar að kemur. Vaxandi líkur eru nú fyrir því, að hámark landhelgi sem slíkrar verði 12 mílur, að vaxandi fylgi verði fyrir 200 mílna efnahagslögsögu sem hámarki og að sum ríki muni leggja mikla áherzlu á, að lögsaga yfir auðlindum sjávarbotnsins sjálfs nái svo langt sem hann verður nýttur. Er það síðastnefnda í samræmi við þá ákvörðun, sem tekin var á Genfarráðstefnunni 1958, en vegna vaxandi tækni gæti þar í sumum tilvikum verið um að ræða svæði, sem ná nokkur hundruð mílur frá ströndum. Ofangreind till. Íslands er miðuð við, að sem flest ríki geti sameinazt um það, sem þar segir.

Ljóst er, að fundur undirbúningsnefndarinnar í sumar ætti að geta orðið mjög árangursríkur, þar sem nú er búið að ryðja úr vegi ýmsum byrjunarörðugleikum. Verður þá hægt að kryfja öll mál til mergjar og gera lokatilraun til að ná sem víðtækustu samkomulagi fyrir ráðstefnuna. Að svo miklu leyti sem samkomulag næst ekki, er ráðgert, að hinar mismunandi till. verði lagðar fyrir ráðstefnuna sjálfa.

Samstarf Norðurlandanna á sviði utanríkismála, menningarmála og félagsmála hefur haldið áfram í svipuðu formi og áður til ávinnings fyrir öll löndin. Sá ótti, sem ýmsir hafa borið í brjósti um að nánari efnahagsleg og pólitísk tengsl sumra landanna við Efnahagsbandalag Evrópu yrðu til að torvelda hið hefðbundna samband Norðurlandanna, er að mínu viti ástæðulaus. Tengsl landanna standa á traustari stoðum en aðeins pólitískum og viðskiptalegum. Sameiginlegur uppruni, saga, tunga og menning eru fyrst og fremst grundvöllurinn að samvinnu þeirra.

Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna, sem haldinn var í Osló í lok síðasta mánaðar, ályktaði um mörg þau alþjóðamál, sem á döfinni eru. Fundurinn lýsti skilningi á þeim ástæðum, sem liggja að baki ákvörðunar Íslands um að færa út fiskveiðlandhelgina, og bar fram von um, að á hafréttarráðst. fengist hagstæð lausn varðandi fiskv.lögsögu Ísl. og annarra strandríkja.

Á miðju árinu 1971 gekk í gildi breyting á samstarfssamningi Norðurlandanna frá 1962. Samkvæmt þessari breytingu var m.a. sett á stofn norræn ráðherranefnd, sem heldur reglulega fundi, og er hæstv. forsrh. fulltrúi Íslands í n. Í kjölfar þessara breytinga hefur verið komið á sérstakri skrifstofu í Osló, og einnig hafa fjárráð fyrir sameiginlega starfsemi aukizt allverulega.

Hinn 1. jan. 1972 gekk í gildi samningur um samstarf á sviði menningarmála, sem hefur að markmiði að efla norræn menningartengsl á breiðum grundvelli.

Samningur Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum tók gildi 1. jan. 1973, en þessi samningur kveður á um gagnkvæma aðstoð í skattamálum, t.d. að því er varðar rannsókn slíkra mála og innheimtu skatta.

Í febr. s.l. var undirritaður í Osló samningur um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð.

Öll Norðurlöndin, þ.á.m. Ísland, hafa nú fullgilt samkomulag um samstarf á sviði flutninga og samgangna, sem gekk í gildi 1. marz 1973.

Til að ljúka þessari upptalningu, sem sýnir ljóslega, að samvinna Norðurlandanna er ekki bara orðin tóm, eins og sumir vilja halda fram, vil ég geta þess, að langt er komið undirbúningi að aðild Íslands að samstarfssamningi Norðurlandanna um aðstoð við þróunarlöndin, og kemur sú aðild væntanlega til framkvæmda á miðju þessu ári.

Áður en ég lýk þessum hluta skýrslu minnar um Norðurlandasamvinnu, vil ég þakka þann hlýja bróðurhug, sem öll Norðurlöndin hafa sýnt Íslendingum í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. Á ég hér ekki aðeins við hið stórkostlega rausnarlega farmlag ríkisstj. Norðurlandanna, heldur og hina víðtæku samúð og framlög einstaklinga, fyrirtækja, félagssamtaka og bæjarfélaga á öllum Norðurlöndum. Þessi samúð og aðstoð hefur hlýjað okkur um hjartaræturnar og fært okkur áþreifanlega heim sanninn um einlæga vináttu og drengskap bræðraþjóðanna á Norðurlöndum í okkar garð. Jafnframt minnist ég með þakklæti samúðar og framlaga fjölmargra erlendra ríkisstj. og einkaaðila í sambandi við eldgosið í Vestmannaeyjum.

Skoðanaskipti um hlutverk Evrópuráðsins eftir stækkun Efnahagsbandalagsins hafa nú staðið alllengi, og sýnist sitt hverjum, eins og gengur. Ísland hefur látið þá skoðun í ljós, að Evrópuráðið ætti að halda áfram að vera vettvangur lýðræðisríkjanna í Evrópu fyrir frjáls skoðanaskipti á jafnræðisgrundvelli. Þörf fyrir stofnun til að rækja þetta hlutverk hefur síður en svo minnkað við stækkun Efnahagsbandalags Evrópu.

Í byrjun febr. s.l. kom til Reykjavíkur starfsnefnd á vegum Evrópuráðsins, sem hefur einmitt það hlutverk með höndum að ræða þessi breyttu viðhorf. Átti ég gagnlegar viðræður við þessa n. um ofangreint mál og önnur varðandi Evrópuráðið. Var t.d. rætt um Evrópuráðið sem vettvang til að kynna landhelgismálið, og í framhaldi af því hef ég þegið boð um að flytja erindi um landhelgismálið á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins 17. maí n.k. Starfsemi Evrópuráðsins á sviði félagsmála, menningarmála, mannréttindamála o.fl. hefur verið gagnleg, og ráðið væntanlega í ríkara mæli geta stuðlað að aukinni og bættri sambúð við ríki A-Evrópu á ýmsum sviðum.

Alþ. hefur nýlega fjallað um samning Íslands við Efnahagsbandalagið, og tel ég ekki ástæðu til að gera grein fyrir honum í þessu yfirliti. Samningurinn var fullgiltur af báðum aðilum 28. febr., og tók hann gildi 1. apríl s.l. Enn sem komið er nær samningurinn aðeins til iðnaðarvara. Umsamdar tollalækkanir fyrir íslenzkar sjávarafurðir eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí 1973. Þó ríkir enn mikil óvissa um, að svo verði, vegna fyrirvarans í bókun nr. 6 um, að Efnahagsbandalagið þurfi ekki að láta tollfríðindi fyrir sjávarafurðir taka gildi, ef ekki næst viðunandi lausn fyrir aðildarríki bandalagsins og Ísland á efnahagserfiðleikum, sem leiðir af ráðstöfunum Íslands varðandi fiskveiðiréttindi.

Tvívegis hefur Efnahagsbandalagið frestað að taka ákvörðun um beitingu fyrirvarans, fyrst í sambandi við fullgildingu samningsins og síðar með ályktun ráðs bandalagsins 22. marz s.l. Þá ákvað ráðið að athuga á nýjan leik fyrir 30. júní n. k., hvort fyrirvaranum skuli beitt eða ekki. Við getum vel sætt okkur við það, að Efnahagsbandalagið hefur ekki enn þá tekið ákvörðun um beitingu fyrirvarans. En því miður gefur þessi frestur ekki tilefni til neinnar bjartsýni. Þótt fyrirvarinn hafi sætt gagnrýni á þingi bandalagsins, eru ekki horfur á öðru en vilji brezku og þýzku ríkisstj. ráði afstöðu Efnahagsbandalagsins í þessu máli og að fríðindin fyrir sjávarafurðir komi ekki til framkvæmda, nema samkomulag hafi áður náðst í landhelgismálinu.

Í þessu sambandi er ástæða til að láta í ljós ánægju yfir því, að danska ríkisstj. hefur nýlega beitt sér fyrir því, að Efnahagsbandalagið endurskoðaði fiskimálastefnu sína með það fyrir augskoði fiskimálastefnu sína með það fyrir augum að viðurkenna sérréttindi þeirra ríkja og landshluta, sem eru sérstaklega háð sjávarútvegi, til veiða utan 12 mílna markanna. Samkv. till. Dana er hér átt við Ísland, Færeyjar, Grænland, Norður-Noreg, Hjaltland og Orkneyjar. Þessi till. dönsku ríkisstj. var samþ. á fundi ráðs Efnahagsbandalagsins 2. apríl s.l. og gert ráð fyrir, að framkvæmdastjórnin skili áliti um málið fyrir 30. júní n. k. Þótt ekki sé við því að búast, að þessi athugun geti haft veruleg áhrif á ákvörðun bandalagsins um gildistöku tollfríðinda fyrir sjávarafurðir, er hún samt gleðilegur vottur þess, að skilningur á hinum sérstöku vandamálum okkar og annarra fiskveiðiþjóða í N-Atlantshafi fer vaxandi, einnig innan EBE.

Eins og kunnugt er, hafa einnig önnur EFTA-lönd gert fríverzlunarsamning við Efnahagsbandalagið. Samningar Austurríkis, Portúgals, Sviss og Svíþjóðar við Efnahagsbandalagið tóku gildi 1. jan. 1973, en eins og í íslenzka samningnum átti fyrsta tollalækkunin sér stað í viðskiptum þessara landa og Efnahagsbandalagsins 1. apríl s.l. Noregur hefur undanfarna mánuði staðið í samningum við Efnahagsbandalagið, og er gert ráð fyrir, að þeim samningum ljúki í þessum mánuði. Finnland lauk samningum sínum við Efnahagsbandalagið um leið og Ísland, 22. júlí 1972, en sá samningur hefur ekki enn þá verið undirritaður. Er búizt við því, að undirritun fari fram síðar á þessu ári og samningurinn verði fullgiltur, þannig að hann geti tekið gildi ekki síðar en um næstu áramót. Með þessum samningum hefur verið tryggt, að smám saman verði komið á fríverzlun milli 16 Evrópulanda.

Fríverzlunarsamtök Evrópu halda áfram starfsemi sinni með þátttöku 7 landa: Austurríkis, Finnlands, Íslands, Portúgals, Noregs, Sviss og Svíþjóðar. EFTA hefur enn þá mikla þýðingu fyrir viðskipti þessara landa, en einnig fyrir samskipti landanna við Efnahagsbandalagið. Samkv. till. Íslands fer nú fram athugun á því innan EFTA, hvort hægt sé að ná samkomulagi um, að fríverzlunin nái til fleiri sjávarafurða en hún hefur hingað til gert. Enn sem komið er, er of snemmt að spá nokkru um niðurstöður þessarar athugunar.

Um störf Atlantshafsbandalagsins mun ég ekki fjölyrða að þessu sinni. Auk starfsemi bandalagsins til að tryggja sameiginlegar varnir Atlantshafssvæðisins fara þar fram gagnleg skoðanaskipti um pólitísk málefni varðandi samskipti austurs og vesturs, niðurskurð herafla í Evrópu og undirbúning að ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, svo að nokkur séu nefnd.

Landhelgismálið er enn aðalviðfangsefni ríkisstj. út á við. Eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1. sept. s.l. hefur verið haldið áfram þeim tilraunum, sem hófust í ágúst 1971 til að ná bráðabirgðalausn um landhelgismálið við Breta og Þjóðverja, en þær þjóðir eru þær einu, sem haldið hafa uppi ólöglegum veiðum innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar. Þessar tilraunir eru í samræmi við ályktun Alþingis frá 15. febr. 1972 um að halda áfram samkomulagstilraunum við þessi ríki um þau vandamál, sem sköpuðust vegna útfærslunnar. Nýlega hafa farið fram í Reykjavík viðræður við embættismenn frá báðum þessum ríkjum, og er ráðgert, að ráðherraviðræður fari fram við Breta í byrjun næsta mánaðar, og fyrr í dag hefur forsrh. átt viðræður við sérstakan sendimann Willy Brandts kanzlara. En það er von mín, að málin þokist í átt til bráðabirgðasamkomulags, sem tryggi réttmæta hagsmuni Íslands og aðlögunartímabil fyrir fiskimenn þessara þjóða.

Aðrar þjóðir hafa í reynd virt hina nýju íslenzku fiskveiðilögsögu, og við tvær þjóðir, Belga og Færeyinga, hafa verið gerðir samningar um heimild til takmarkaðra veiða innan fiskveiðitakmarkanna.

Um málshöfðun Breta og Þjóðverja fyrir Alþjóðadómstólnum vil ég aðeins taka fram, að sú ákvörðun Íslands að mæta ekki fyrir dómstólnum var rökrétt afleiðing af þeirri ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972, að vegna breyttra aðstæðna gætu samningarnir við þessi ríki frá 1961 ekki lengur átt við og Íslendingar séu því ekki lengur bundnir af ákvæðum þeirra. Varðandi málsmeðferð, er dómstóllinn í lok þessa árs tekur fyrir efnisatriðin, virðist mér augljóst, að Íslendingar geti ekki átt úrslit í slíku lífshagsmunamáli undir erlendu dómsvaldi og það sé því rökrétt og eðlilegt, að Ísland eigi ekki fulltrúa við þennan málarekstur fremur en hingað til. Það er von mín, að samstaða þjóðarinnar um framkvæmd þessara mála geti haldizt.

Eins og ég hef áður skýrt Alþ. frá, hefur um nokkurt skeið verið unnið að könnun og upplýsingasöfnun varðandi varnarmálin. M.a. liggur fyrir álit Atlantshafsbandalagsins um hernaðarlegt mikilvægi Íslands, sem kynnt hefur verið utanrmn. Alþ. Varnarmálin hafa einnig nokkuð ítarlega verið rædd við bandarísk stjórnvöld. Í maímánuði í fyrra ,er Rogers, utanríkisrh. Bandaríkjanna, var hér í Reykjavík, var frá báðum hliðum gerð grein fyrir sjónarmiðum til málsins. Í jan. s.l. fór ég til Washington og ræddi þá við bandaríska utanrrh. og embættismenn úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Fóru þar fram gagnleg skoðanaskipti, en niðurstaða viðræðnanna var sú, að athuga þyrfti nánar ýmis atriði, til þess að heildarmyndin lægi fyrir. Það er ásetningur minn, að endanleg ákvörðun ríkisstj. geti byggzt á sem fullkomnustum upplýsingum, en það fer ekkert á milli mála, að það er algerlega á valdi íslenzku ríkisstj., hver sú endanlega ákvörðun verður og hvenær hún verður tekin. Ákvörðun ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins verður því væntanlega tekin bráðlega.

Samstarf við utanrmn. hefur verið með ágætum á því þingi, sem nú er að ljúka, og vil ég þakka það. Hafa samráð utanrrn. við n. farið vaxandi, og er það að mínu áliti til mikilla bóta. Fundir n. frá ársbyrjun 1972 hafa verið 25, og hef ég mætt á flestum þeirra og reynt að gera n. grein fyrir helztu utanríkismálum, sem á dagskrá hafa verið hverju sinni