16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3626 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

Skýrsla um utanríkismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Skýrsla hæstv. utanrrh. um utanríkismálin nú gefur ekki tilefni að mínu áliti til langra eða mikilla umr. um utanríkismálin almennt. Þó eru viss atriði, sem fram koma í þessari skýrslu, sem snerta alveg sérstaklega landhelgismálið, sem mér finnst nauðsyn bera til að víkja nokkuð að og leggja þar meiri áherzlu en fram kemur í sjálfri skýrslunni á þau sjónarmið, sem legið hafa til grundvallar málstað okkar Íslendinga í því mikla máli. Í skýrslunni á bls. 13 er vikið að því, að það beri allmikið á milli í sambandi við víðáttu lögsögu strandríkja og þess vegna sé gert ráð fyrir því, að þar sem samkomulag næst ekki, verði mismunandi textar lagðir fyrir hafréttarráðstefnuna sjálfa, þegar þar að kemur. Hæstv. utanrrh. telur, að hámark landhelgi sem slíkrar verði 12 mílur, en að vaxandi fylgi verði við 200 mílna efnahagslögsögu og að sum ríki muni leggja mikla áherzlu á, að lögsaga yfir auðlindum sjávarbotnsins sjálfs nái svo langt sem hann verður nýttur. Það hlýtur vissulega að valda okkur vonbrigðum, ef það er rétt mat, að hámark landhelgi sem slíkrar verði, þegar hafréttarráðstefnan hefur fjallað um málið, 12 mílur. En það fer þá líka eftir því, hvað felst í því, að vaxandi fylgi verði við 200 mílna efnahagslögsögu sem hámark, eins og þar stendur. Mér finnst, að það gæti gefið tilefni til frekari áréttingar af hálfu ráðh., hvað átt er við með efnahagslögsögu í þessu sambandi, og það er að vissu leyti nokkuð nýtt hugtak. Af hálfu okkar Íslendinga hefur alltaf verið lögð megináherzla á, að landgrunnið og landið allt væri eitt og hið sama og íslenzkt yfirráðasvæði tæki til landgrunnsins eins og landsins sjálfs. Frá þessu sjónarmiði eigum við ekki að hvika. Það kom fram á. sínum tíma í landgrunnslögunum frá 1948 og þegar Alþ. samþykkti ályktun um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið 7. apríl 1971. Þá var m.a. áréttað eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt ályktar Alþ. að árétta þá stefnu, sem ríkisstj. Íslands mótaði í orðsendingu til alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna 5. maí 1952, að ríkisstj. Íslands sé rétt og skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á einhliða grundvelli til þess að vernda auðlindir landgrunnsins, sem landið hvílir á.“

Þetta sama sjónarmið var einnig áréttað í hinni merku ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972, sem samkomulag varð um hér í þinginu, en hún hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ítrekar þá grundvallarstefnu Íslendinga, að landgrunn Íslands og hafsvæðið yfir því sé hluti af íslenzku yfirráðasvæði.“

Síðan kemur svo hin efnislega ályktun í framhaldi af þessari skoðun. Um þetta er enginn ágreiningur milli okkar Íslendinga.

Mér er alveg ljóst, að við höfum haft góða fyrirsvarsmenn við undirbúning hafréttarráðstefnunnar. Einnig má það ljóst vera, að við Íslendingar verðum að leggja megináherzlu á þessi sjónarmið, sem ég nú hef verið að undirstrika, þ.e.a.s. að við séum í algerri sérstöðu að því leyti, sem tekur til landgrunns Íslands, þar sem Ísland hvílir á þeim sökkli, sem við höfum kallað landgrunnið, hvort tveggja sé íslenzkt yfirráðasvæði og að því höfum við alltaf stefnt.

Það kom einnig fram í ræðu hæstv. ráðh., að nýlega hefðu farið fram í Reykjavík viðræður við embættismenn frá bæði Þjóðverjum og Bretum, og hæstv. ráðh. segir einnig svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Er það von mín, að málin þokist í átt til bráðabirgðasamkomulags, sem tryggi réttmæta hagsmuni Íslands og aðlögunartímabil fyrir fiskimenn þessara þjóða.“

Ég tek heils hugar undir þessa skoðun hæstv. ráðh. Það var einmitt á föstudaginn var, 13. apríl, að haldinn var fundur í landhelgisnefndinni eftir minni beiðni, til þess að við fengjum nánari upplýsingar um þær viðræður, sem fram hefðu farið, og einnig þær viðræður, sem fram undan eru. Ég legg mjög mikla áherzlu á, að haldið sé traustu samráði við landhelgisnefndina, og á þessum fundi komu fram mjög athyglisverður upplýsingar, sem gætu gefið einhverja vísbendingu um það, að hugsanlegt væri að ná bráðabirgðasamkomulagi, eins og hæstv. ráðh. er að vonast til, að takast muni.

Varðandi afstöðuna til Haag-dómstólsins eða hvort við ættum að flytja mál okkar fyrir Haag-dómstólnum eða ekki urðu einnig umr. á þessum fundi. Það var meðal þeirra verkefna, sem ég taldi, að nauðsynlegt væri að ræða vandlega innan landhelgisnefndarinnar. Og það kom í ljós, að þar voru nokkuð skiptar skoðanir, en þó mun meiri hl. landhelgisnefndarinnar vera þeirrar skoðunar, að mjög vandlega beri að íhuga aðstöðu okkar, áður en endanleg ákvörðun er tekin um það, hvort við eigum að flytja mál okkar

fyrir dómstólnum eða ekki. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að það var skoðun hæstv. ráðh., sem sitja nú á þessum fundi, a.m.k. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., að við ættum eftir að fjalla gaumgæfilega um það mál, áður en endanleg ákvörðun væri tekin. Þess vegna eru mér nokkur vonbrigði að því. sem fram kom í máli hæstv. utanrrh.. að við Íslendingar gætum ekki átt úrslit í slíku lífshagsmunamáli sem landhelgismálið er undir erlendu dómsvaldi. Ég held, að það sé enginn að gera því skóna eða við höfum nokkurn tíma ætlað okkur að eiga það undir erlendu dómsvaldi. Alþjóðadómstóllinn er að sjálfsögðu allt önnur stofnun en erlent dómsvald í þessu sambandi, og sjálfur hefur hæstv. forsrh. lagt á það mikla áherzlu, hversu mikils virði það sé fyrir okkur Íslendinga að virða einmitt alþjóðastofnanir eins og Alþjóðadómstóllinn er í raun og veru. Það hefur áður verið vitnað til þess hér á Alþ., og mér finnst ekki ástæðulaust að endurtaka það, sem hæstv. forsrh., þáv. prófessor, sagði einmitt um þetta atriði 14. nóv. 1960. Hann sagði eftirfarandi :

„Vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín undir úrlausn alþjóðadómstóls, því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekara skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til þess að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin. Og þess vegna hefði að mínu viti hvert slíkt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls: `

Þetta voru orð hæstv. forsrh. á þeim tíma, og þó að menn kunni að hafa skiptar skoðanir um það, hvort við eigum að flytja mál okkar fyrir Alþjóðadómstólnum nú eða ekki, verður hann að hafa það í huga, og það sjónarmið kom fram á landhelgisnefndarfundinum, að það gæti haft úrslitaáhrif á það, hvenær dómur yrði felldur af Alþjóðadómstólnum. M.a. kynnum við að geta haft aðstöðu til þess, ef við viljum ekki sniðganga dóminn fullkomlega. að úrskurður dómsins geti dregizt fram yfir hafréttarráðstefnuna. Nú má segja, að ef ríkisstj. tekst að ná bráðabirgðasamkomulagi við Breta og Þjóðverja, eins og hún hefur stefnt að, kunni hún einnig að ná bráðabirgðasamkomulagi um frestun málarekstrarins fyrir Haag-dómstólnum. Þá er það út af fyrir sig ekki deilumál lengur og vildi ég mega vænta, að svo gæti orðið.

Það vakir ekki fyrir okkur sjálfstæðismönnum og allra sízt mér að hefja neinar deilur í landhelgismálinu. í sjálfu sér verð ég að harma þær ásakanir, sem fram komu hjá nokkrum þm. í sambandi við nýloknar almennar stjórnmálaumr. á þinginu í garð okkar og annarra um það að vilja skapa sundrungu í landhelgismálinu. Það höfum við sjálfstæðismenn aldrei viljað. Þvert á móti höfum við lagt okkur mjög mikið í líma til þess að halda þeirri einingu og samstöðu, sem um málið hefur skapazt, eins og kunnugt er.

Ég spurðist fyrir um það á landhelgisnefndarfundinum 13. apríl, nú fyrir helgina, hvenær væru tímamörk fyrir okkur Íslendinga að taka ákvörðun um það, hvort við vildum sinna að einhverju leyti málarekstri fyrir dómnum. Þá var það upplýst, að við hefðum til þess frest fram til 15. jan. 1974, en Bretar munu hafa frest til 1. ágúst á þessu ári til þess að leggja fram sína skriflegu grg. Af þessum sökum höfum við góðan tíma til þess að átta okkur efnislega á því, hvort við e.t.v. með því að sniðganga algerlega dóminn setjum okkur úr færi um að hafa sterkari aðstöðu en ella væri, alveg sérstaklega eins og málin horfa nú, þegar ákveðið hefur verið, að hafréttarráðstefnan komi saman á næsta ári.

Það er enginn efi á því, að það er mjög margt, sem gerzt hefur á síðari tímum, sem hefur styrkt aðstöðu okkar Íslendinga, bæði útfærsla einstakra ríkja á þeirra fiskveiðilögsögu, allt upp í 30, 50 og 200 mílur, og einnig er það upplýst, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., að ýmsar till. liggja þegar fyrir undirbúningsnefndunum undir hafréttarráðstefnuna, sem styrkja okkar málstað. Ég legg því mjög mikla áherzlu á það, fyrst það hefur gefizt sérstakt tilefni til þess, að vandlega verði athugað innan landhelgisnefndarinnar og í samráði við Alþ., hvernig hagsmunum okkar yrði bezt borgið. Ég tel, að það geti orðið algerlega ágreiningslaust og sundrungarlaust, þó að við athugum þau mál betur en gert hefur verið fram til þessa.

Við þm. Sjálfstfl. höfum að sjálfsögðu rætt þetta vandamál og höfum hnigið að því ráði að flytja ekki till., sem e.t.v. gætu skapað sundrung hér í þinginu. En ég vil leyfa mér vegna þessa máls að lýsa yfir eftirfarandi fyrir hönd Sjálfstfl., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef ríkisstj. tekst ekki að ná bráðabirgðasamkomulagi í fiskveiðideilunni við Breta og Vestur-Þjóðverja, svo sem hún hefur stefnt að. í samræmi við einróma ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972. og þ.á.m. með þeim afleiðingum, að fallið verði frá málarekstri fyrir Alþjóðadómstólnum, telur Sjálfstfl., að ríkisstj. beri að hafa samráð við Alþ. og landhelgisnefnd um framvindu málsins, svo sem um sókn og vörn af Íslands hálfu fyrir Alþjóðadómstólnum, um efnisatriði fiskveiðideilunnar og þá lífshagsmuni þjóðarinnar, sem í húfi eru.“

Þetta er í samræmi við þær niðurstöður, sem ég taldi verða á landhelgisnefndarfundinum nú fyrir helgina, að þessi mál yrðu öll rækilega íhuguð og rækilegar en mér virðist þegar hafa verið gert. Þar sem upplýst er, að við höfum nógan tíma til stefnu, getur málið einnig komið til kasta Alþ. þótt það yrði ekki fyrr en á næsta hausti. En að sjálfsögðu væri mjög æskilegt, ef við gætum losnað við deilur í þessu máli, þ.e.a.s. með jákvæðum niðurstöðum úr þeim tilraunum. sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, að ná samkomulagi við Breta og Þjóðverja. Ég tek heils hugar undir það og veit, að hagsmuna Íslands við slíka samningagerð yrði fyllilega gætt.