16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

Skýrsla um utanríkismál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þá skýrslu, sem hann hefur flutt hinu háa Alþ. um utanríkismál. Að vísu kemst ég ekki hjá að harma, hversu seint skýrslan er á ferðinni, því að það veldur því, að í raun og veru geta ekki farið fram þess konar almennar umr. um utanríkismál, sem æskilegt er, að geti átt sér stað, þar eð alkunnugt er, að þessi dagur mun væntanlega verða næstsíðasti starfsdagur Alþ. Ég mun því láta við það sitja að mæla fáein orð, en tel þó rétt, að í þessum orðum mínum komi fram nokkur almenn ummæli af hálfu míns flokks varðandi utanríkismál eða nokkur þeirra efna, sem hæstv. utanrrh. fjallaði um í skýrslu sinni.

Fyrstu orð mín vil ég láta verða þau að láta í ljós einlægan fögnuð yfir því, að styrjöldinni í Víetnam og öllum þeim hörmungum, sem henni hafa fylgt á undanförnum árum, skuli vera lokið.

Varðandi ástand utanríkismála í okkar álfu, Vestur-Evrópu, vil ég taka fram, að Alþfl. íslenzki eins og jafnaðarmannaflokkar VesturEvrópu yfir höfuð að tala, hefur stutt og styður þá stefnu, sem kanzlari sambandslýðveldisins Þýzkalands, Willy Brandt, hefur verið upphafsmaður að og miðar að því að draga úr spennu í Evrópu, sérstaklega í Mið-Evrópu, og minnka þar herafla. Alþfl. telur þá samninga, sem gerðir hafa verið milli Sambandslýðveldisins Þýzkalands annars vegar og Þýzka alþýðulýðveldisins, sem og Sovétríkjanna og Póllands, hins vegar tvímælalaust vera spor í rétta átt. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hvorki við íslenzkir jafnaðarmenn né skoðanabræður okkar í nálægum löndum aðhyllumst hugmyndakerfi kommúnismans né stjórnarfar það, sem ríkir í löndum Austur-Evrópu. En við teljum engu að síður og leggjum á það áherzlu, að þetta eigi ekki að standa í vegi fyrir samvinnu á milli lýðræðisríkja annars vegar og ríkjanna í Austur-Evrópu hins vegar og sameiginlegri viðleitni þessara ríkja allra til þess að efla frið og tryggja öryggi í okkar heimshluta. Þess vegna vonum við einlæglega, að sú viðleitni til aukins friðar og aukins öryggis, sem nú fer fram í Helsingfors og Vínarborg, muni leiða til jákvæðrar niðurstöðu. Við munum styðja hæstv. ríkisstj. í sérhverri viðleitni hennar til þess að leggja sitt lóð á vogarskálina, til þess að í þessum mikilvægu samningum, sem þarna eiga sér stað, verði jákvæð niðurstaða. Þetta læt ég nægja um ástandið og viðhorfin í utanríkismálum heimsins og Evrópu yfir höfuð að tala.

Nokkur orð tel ég einnig rétt að segja um hin sérstöku viðhorf í utanríkismálum Íslands, og er þá auðvitað fyrst fyrir að nefna landhelgismálið. Ég vil enn sem fyrr leggja megináherzlu á þá grundvallarskoðun Alþfl., að nauðsynlegt sé að vernda einingu Alþ. í þessu máli og þar með einingu þjóðarinnar. Alþfl. hefur frá upphafi stuðlað að því, að svo mætti takast, og að engu leyti gert eða sagt neitt, sem torveldað gæti það, að Íslendingar gætu staðið einhuga að baki síns rétta og ótvíræða málstaðar í landhelgismálinu. Ég tel. að einhugur þings og þjóðar í þessu máli sé beittasta vopnið, sem við höfum til sóknar og varnar í málinu, og við Alþfl.-menn munum hér eftir sem hingað til fylgja þessari stefnu. Ég kemst þó ekki hjá að segja að ég tel meiri deilur hafa orðið um þetta mál hér innanlands en ástæða er til og heppilegt er. Sérstaklega á ég þar við þær deilur, sem orðið hafa, sérstaklega í blöðum, minna hér á hinu háa Alþ., sem betur fer, um landhelgissamninginn við Breta og Vestur-Þjóðverja 1961. Ég skal ekki, allra sízt nú undir þinglokin, verða til þess að stuðla að deilum hér um þetta efni. En þó tel ég óhjákvæmilegt að segja í tilefni af þeim mörgu og oft þungu orðum, sem um þennan samning hafa fallið, að í raun og veru var 12 mílna lögsaga Íslendinga ekki tryggð í reynd fyrr en með gerð samningsins 1961. Það var ekki reglugerðin frá 1958, sem tryggði Íslendingum í reynd 12 mílna landhelgi. Reglugerðin, svo réttmæt, nauðsynleg og sjálfsögð sem hún var og rökin fyrir henni ótvíræð og þótt allir Íslendingar hafi þá líka staðið að baki þeim rökstuðningi, sem beitt var í sambandi við setningu reglugerðarinnar, þá þýðir ekki að loka augunum fyrir hinu að reglugerðin færði Íslendingum ekki 12 mílna landhelgi í raun og veru. Sá sigur vannst ekki fyrr en með samningunum 1961 og þá ekki aðeins 12 mílna landhelgi, heldur stækkun á raunverulegri landhelgi með útfærslu grunnlínanna. Ég segi þetta ekki til þess að vekja hér á þessari stundu deilur um þetta, heldur af því, hversu sjaldan þetta hefur verið sagt og hversu mikið virðist á það skorta, að almenningur, jafnvel þm., hvað þá þjóðin sjálf, geri sér grein fyrir því, að þetta er sannleikurinn í málinu og í rann og veru mergur málsins.

Að því er snertir ákvæði samningsins um aðild Haag-dómstólsins í framtíðarskiptum Íslendinga annars vegar og Breta og Vestur-Þjóðverja hins vegar, vil ég aðeins minna á orð þáv. ráðh. Bjarna Benediktssonar og Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem of lítið hefur verið á lofti haldið, eingöngu vegna þess að við, sem þeirra minnumst vel og þeirra ættu raunar allir þm. að minnast, höfum ekki viljað taka þátt í þeim deilum, sem um þetta hafa átt sér stað. En orð þeirra, margsögð í umr. hér á hinu háa Alþ., voru þau efnislega séð, að ákvæði samningsins um aðild dómstólsins í Haag að framtíðarskiptum Íslendinga annars vegar og Breta og Þjóðverja hins vegar væru þau fyrst og fremst að tryggja smáríkið Ísland, að tryggja okkur Íslendinga fyrir endurtekningu á vopnaðri íhlutun í landhelgismáli Íslendinga, eins og átt hafði sér stað á undanförnum þremur árum, eða allt frá því að landhelgisreglugerðin hafði verið sett og þangað til samningurinn var gerður. Með samningnum hurfu ekki aðeins brezk skip af Íslandsmiðum, heldur var með honum einnig tryggt, að Íslendingar þyrftu ekki framvegis að óttast slíka atburði eins og þá, sem höfðu verið að gerast á miðunum undanfarin ár. Þeir litu þannig á dómstólinn, og ég vona, að allir hv. þm. hafi þá litið eins á dómstólinn og aðild hans að framtíðarskiptum Íslendinga og þessara tveggja þjóða eins og kom fram í þeim mjög viturlegu og raunsæju ummælum hæstv. núv. forsrh., sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til, að auðvitað ætti smáþjóð eins og Íslendingar ekki athvarf að betra réttaröryggi en í skjóli dómstóls Sameinuðu þjóðanna og þeirra reglna, sem hann hefði eftir að fara og mundi að sjálfsögðu fara eftir.

Engum gat á því ári, 1961, dottið í hug, að þróunin næstu 10 ár mundi verða sú, sem raun ber vitni. Ummæli hæstv. núv. forsrh., ég endurtek: svo viturleg og raunsæ sem þau voru, báru því órækt vitni, að sú þróun, sem síðar hefur átt sér stað, gat ekki verið fyrirsjáanleg nokkrum manni á þeim árum.

Ég tel, að ósanngjarnari orð hafi varla verið sögð í öllum umr. um landhelgismálið, sem undanfarnar vikur hafa átt sér stað, en þau, að fyrrv. ríkisstj. hafi vanrækt aðgerðir í landhelgismálinu. Það má öllum vera ljóst, að sá, sem gegndi embætti utanrrh. síðari hluta áratugsins, Emil Jónsson, lét ekkert tækifæri á alþjóðavettvangi ónotað til þess að kynna málstað Íslendinga í landhelgismálinu og búa heiminn allan undir það, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar væri á næstu grösum eins og þróun mála var þá að verða á miðjum 7. áratugnum og einkum og sér í lagi eftir að á hann leið. Þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson, lét ekki heldur sitt eftir liggja í þessum efnum og gerði margar ráðstafanir, sem báru þessa ótvíræðan vott. Mátti það vera ljóst öllum innlendum mönnum og erlendum, að þróun mála, sérstaklega á síðari hluta 7. áratugsins var með þeim hætti, að þess hlyti að verða örskammt að bíða, að Íslendingar gripu til ráðstafana í þessum efnum.

Á það má líka minna og er óhjákvæmilegt að minna, að till. um útfærslu í 50 mílna landhelgi komu ekki fram fyrr en um það bil ári áður en vitað var, að kosningar ættu sér stað. Mér dettur ekki í hug, hef aldrei viðhaft þau orð og mun ekki viðhafa þau orð né stuðla að því, að nokkur annar geri það, að halda því fram, að tillögugerð um 50 mílna landhelgi, um það bil ári áður en von var á kosningum, hafi staðið í sambandi við kosningaundirbúning. Það væri ósanngjarnt í garð þáv. stjórnarandstöðu og núv. stjórnarflokka. En einmitt með hliðsjón af því og vegna þess eins minni ég á þetta, að slík brigzl hafa ekki átt sér stað af hálfu þess flokks, sem ég tala fyrir, að ég vil eindregið hvetja til aukinnar varfærni í málflutningi af hálfu þeirra, sem eru málsvarar hæstv. ríkisstj., um þetta efni. Ég held, að hagsmunum Íslands sé það tvímælalaust hollast, að við forðumst öll brigzlyrði um þessi efni, annars vegar, að við forðumst brigzlyrði um það, að samningurinn 1961 hafi ekki verið gerður af beztu samvizku og að mjög vandlega yfirlögðu ráði af hálfu þeirra, sem hann gerðu á sínum tíma, rétt eins og sá flokkur, sem ég tala fyrir, mun ekki eiga neina aðild að því að brigzla núv. stjórnarflokkum um, að eitthvað annað hafi vakað fyrir þeim í tillöguflutningi sínum á síðasta ári stjórnarandstöðu þeirra en einlægur áhugi á því, að landhelgina mætti stækka og stækka sem fyrst og komast í raunverulega framkvæmd sem fyrst. Þetta held ég, að við ættum allt saman að hafa í huga og reyna að leggja okkur alla fram um að halda þeim hætti að standa saman um þann málstað, sem við öll erum sammála um, að er lífshagsmunamál Íslendinga nú í dag, á næstu árum og næstu áratugum.

Að síðustu skal ég fara örfáum orðum um hinn meginþátt íslenzkra utanríkismála, þ.e.a.s. um varnarmálin.

Í samræmi við hina nýju stefnu í utanríkismálum og varnarmálum Evrópu, sem ég fór um örfáum orðum áðan, tel ég rétt að taka fram, að við Alþfl.-menn teljum, og eigum það sammerkt með skoðanabræðrum okkar í VesturEvrópu yfir höfuð að tala, að nú sé ástandi mála í heiminum svo komið, að heppilegast væri og farsælast að tryggja öryggi og frið í Evrópu og um víða veröld með alþjóðasamningum í stað hernaðarbandalaga. En meðan öryggi og friður í heiminum og þá ekki sízt á Atlantshafssvæðinu er tryggt með varnarbandalögum, teljum við Alþfl.-menn, að Íslendingar eigi heima í samtökum vestrænna lýðræðisríkja, þ.e.a.s. í Atlantshafsbandalaginu. En við Alþfl.-menn höfum í sérstakri þáltill. vakið athygli á breyttri afstöðu í varnarmálum heimsins og þá um leið breyttri afstöðu Íslendinga í því sambandi. Þessi till. okkar er flutt í framhaldi af ályktun, sem gerð var á síðasta flokksþingi Alþfl. á s.l. hausti. Í þeirri ályktun eru þessar setningar, með leyfi hæstv. forseta:

„Tæknibreytingar síðustu ára hafa valdið því, að hernaðarleg þýðing Íslands felst nú að langmestu leyti í eftirliti með siglingum í og á hafinu milli Grænlands, Íslands og Færeyja, en um þessi sund fara kjarnorkubátar risaveldanna. Öryggi Íslands hefur verið og mun verða bezt tryggt með aðild að varnarsamtökum, en vopnað varnarlið hefur verið hér aðallega til eftirlits og viðvörunar. Þessar breytingar valda því, að rannsaka þarf, hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við öryggisbandalag það, sem landið hverju sinni er aðili að, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna.“

Enn fremur eru þessar setningar í grg. till., með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt sambúð stórvelda haldi áfram að batna og líkur á heimsófriði að minnka, bendir ekkert til þess, að vígbúnaðarkapphlaupið á hafinu verði stöðvað í náinni framtíð. Er því með öllu óraunhæft, að varnarliðið hverfi frá Íslandi, án þess að eitthvað komi í staðinn. Ef óvopnað eftirlitsflug og annað, sem því fylgir, skiptir nú mestu máli, hljóta Íslendingar að athuga vandlega, hvort þeir geti tekið það hlutverk að sér og þar með rekstur varnarstöðvanna.“

Svo mörg eru þau orð. Hér er farið fram á athugun á hernaðaraðstöðu Íslands og þeirri breytingu, sem á henni hefur orðið á undanförnum árum. Það er engu slegið föstu um það, til hvers slík athugun kynni að leiða. Ef athugun á því markmiði, sem sett er fram í till. og hlýtur að vera markmið allra Íslendinga, allra flokka, að hér þurfi ekki að vera vopnað erlent herlið um aldur og ævi, leiðir slíkt í ljós, ber að sjálfsögðu að hafa fullkomna hliðsjón af því og miða endurskoðun á varnarkerfi okkar og þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu við þá niðurstöðu. Ef athugun leiðir í ljós, að slíkt sé ekki hægt, ekki að öllu leyti, ber líka að hafa hliðsjón af því og miða endurskoðun varnarsamningsins við þá niðurstöðu. En í öllu falli held ég, að enginn ágreiningur geti orðið um það, að endurskoðun á varnarsamningnum sjálfum, sem er orðinn meira en 20 ára gamall, er þegar fyrir alllöngu orðin tímabær.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í samningi núv. stjórnarflokka eru ákvæði um brottflutning varnarliðsins. Ég segi það enn og aftur, líka að því er þessi atriði varðar, að það, sem ég segi, er ekki til þess ætlað að vekja deilur á þessum degi og þessari stundu um þetta efni. En ég vil þó vekja athygli á því, að hæstv. utanrrh. hefur sagt, að endanleg ákvörðun í þessu máli, varðandi brottflutning varnarliðsins, verði ekki tekin fyrr en að loknum þeim viðræðum, sem nú eru hafnar við ríkisstj. Bandaríkjanna. Ég vil taka það fram og lýsa því yfir fyrir hönd Alþfl., að við styðjum þessa skoðun hæstv. utanrrh. og vonum, að það geri raunar fleiri, bæði í hans flokki og öðrum stuðningsflokkum hæstv. ríkisstj. Við teljum að vísu, að megináherzlu í íslenzkum utanríkismálum eigi nú að leggja á landhelgismálið og baráttu til sigurs í því. En síðustu orð mín skulu vera þau, að við Alþfl.-menn lítum einnig á varnarmálin og hugsanlegar aðgerðir í þeim sem annan meginþátt íslenzkra utanríkismála. Við styðjum skynsamlega endurskoðun á varnarsamningnum út frá þeirri breytingu, sem við teljum, að hafi orðið á hernaðarástandi og sé að verða á hernaðarástandi og varnarmálum í Vestur-Evrópu, og þá ekki sízt hugsanlega breytingu á aðild Íslendinga að þessu varnarsamstarfi. Við teljum hins vegar, að meðan Atlantshafsbandalagið er til, verðum við að eiga aðild að því, og tökum skýrt fram, að við teljum ekki rétt, á meðan samningar fara fram á milli Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar um fækkun á herafla í Mið-Evrópu, að þá séu breytingar gerðar, sem rýri varnarmátt og styrk Atlantshafsbandalagsins. Við teljum, að Atlantshafsbandalagið þurfi að geta samið við Varsjárbandalagið á þeim jafnréttisgrundvelli, sem nú á sér stað, og það mætti engan veginn verða hlutverk Íslendinga að stuðla að því að torvelda samningsaðild Atlantshafsbandalagsins í þessum efnum. En ég endurtek það, og það skulu vera síðustu orð mín í þessum umr., að við Alþfl.-menn viljum styðja endurskoðun á varnarsamningnum við Bandaríkin í ljósi þess efnis, sem fram kemur í till. okkar, og við styðjum þá stefnuyfirlýsingu hæstv. utanrrh., að engin endanleg ákvörðun verði tekin um brottflutning varnarliðsins eða uppsögn varnarsamningsins, fyrr en þeim viðræðum, sem nú eru hafnar við ríkisstj. Bandaríkjanna, er lokið.