16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

Skýrsla um utanríkismál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða hér um landhelgismálið, þar sem ég lít svo á, að það sé fyrst og fremst og eðli sínu samkv. íslenzkt innanríkismál. Ég get þó ekki á mér setið að víkja hér örfáum orðum að ummælum hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, í tilefni af því, að hann sagði hér áðan, að samningurinn frá 1961 hefði fyrst og fremst átt að tryggja það, að atburðir eins og þeir, sem þá gerðust, að erlend herskip voru hér á miðunum, endurtæki sig ekki. Ég verð að segja það, að ég fæ ekki skilið, hvernig í ósköpunum þessi samningur átti að geta tryggt, að slíkt endurtæki sig ekki, nema þá ef samningnum var ætlað að koma í veg fyrir, að við færðum landhelgina frekar út. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og við öll vitum, sem hér erum inni, að samningurinn hefur verið og er sterkasta vopn Breta. Þeir hefðu aldrei látið sér til hugar koma að halda uppi því andófi, sem þeir hafa haldið uppi, hefðu þeir ekki þennan samning í höndunum. Ég held, að menn þurfi ekki annað en lesa bráðabirgðaúrskurð Alþjóðadómstólsins, kynna sér málflutning Breta og rökstuðning dómstólsins til þess að sjá, að Bretar fara hvergi leynt með það„ að það er fyrst og fremst þessi samningur, sem er þeirra öflugasta vopn og á honum byggja þeir allan sinn ímyndaða rétt.

En svo að ég víki að utanríkismálunum almennt, öryggismálum og herstöðvamálum, vil ég að sjálfsögðu í upphafi þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæta skýrslu.

Það er mikið fagnaðarefni, að á þeim tíma, sem liðinn er, síðan seinast fóru fram almennar umr. á Alþ. um utanríkismál, fyrir einu ári, hefur þróun heimsmála eindregið stefnt í átt til friðar og bættrar sambúðar milli þjóða. Það fer ekkert á milli mála, að klakarnir frá dögum kalda stríðsins halda áfram að bráðna, þótt hér og hvar sé þó enn eftir talsvert íshröngl óleystra vandamála. Ekki leikur heldur neinn vafi á því, að viðhorf manna og hugsunarháttur hefur verið að breytast jafnt og þétt í fullu samræmi við minnkandi spennu í samskiptum austurs og vesturs. Færri og færri telja það óhjákvæmilega nauðsyn, að smáþjóðirnar láti risaveldin í austri og vestri reka sig í dilka eins og fénað í rétt, og almennt verður vart við, að hin fráleita oftrú manna á forustu risaveldanna, hvort heldur er í efnahagsmálum, stjórnmálum eða hernaðarlegum efnum, fer nú loksins minnkandi, og táknar það að sjálfsögðu fyrst og fremst, að smáþjóðirnar ætla sér sjálfstæðari hlut en áður var og hafa óháðari afstöðu til mála. Við hljótum eindregið að vænta þess, að þessi þróun í átt til bættrar sambúðar með þjóðum, sem hafa ólíkt hagkerfi, haldi áfram. Enginn vafi er á því, að öryggismálaráðstefna Evrópu, sem nú er í undirbúningi, getur orðið mjög mikilvægur áfangi í þá átt að draga úr hernaðarlegri spennu í þessum heimshluta, og þróunin mun vonandi leiða til þess, að hernaðarbandalögin tvö verði leyst upp. En jafnframt verðum við að gera okkur ljóst, að beinir samningar risaveldanna um gagnkvæma fækkun í herafla og minnkandi hernaðarspennu í tengslum við þessa öryggismálaráðstefnu tekur vafalaust talsverðan tíma, og þessi leið til friðar og bættrar sambúðar er alls ekki sú eina, sem unnt er að fara á sama tíma. Aukið traust í samskiptum þjóða og minnkandi spenna getur sem sagt ekki aðeins orðið með skipulögðu átaki og allsherjarsamkomulagi stórra og smárra þjóða í Evrópu og við Atlantshaf. Hér getur einnig og ekki síður orðið um að ræða hægfara þróun, sem mótast af víxlverkunum, þannig að þegar einn slakar á, hefur það áhrif á alla hina.

Frá tímum kalda stríðsins eru enn við lýði kenningar um, að það sé beinlínis háskalegt öryggi á tilteknu svæði, að einn aðili dragi einhliða úr þeirri hernaðarógnun, sem frá honum stafar. Þá er sagt, að verið sé að raska valdajafnvægi á viðkomandi svæði og við þetta skapist svokalláð tómarúm. Sem betur fer eru þeir stöðugt fleiri, sem gera sér grein fyrir, að hér er um að ræða innantóma orðaleikfimi, sem ekki á sér neina stoð í veruleikanum. Þetta er hentug kenning í munni hershöfðingja og annarra þeirra, sem horfa einhliða á viðfangsefnið út frá hernaðarlegu sjónarmiði, manna, sem komast ævinlega að þeirri niðurstöðu hver í sínu horni, að sem mestur vígbúnaður sé öruggasta leiðin til friðar. Eða hver getur haldið því fram í fullri alvöru, að valdajafnvægi í Evrópu hafi raskazt eða skapazt hafi háskalegt tómarúm, þótt Rúmenía hafi fyrir nokkrum árum dregið sig að verulegu leyti út úr hernaðarkerfi Varsjárbandalagsins? Og hverjum dettur í hug, að öryggi Evrópu væri nú tryggara og stöðugra, ef Danir og Norðmenn hefðu á sínum tíma látið undan kröfum hernaðarsérfræðinga Atlantshafsbandalagsins og leyft erlenda hersetu í löndum sínum til að fylla upp ýmis tómarúm, sem þar eru sögð vera?

Nei, smáþjóðir Evrópu, hvort heldur í austri eða vestri, verða að hugsa sjálfstætt og taka afstöðu til mála út frá eigin hagsmunum og skynsamlegu mati, en ekki út frá þröngum hernaðarhagsmunum risaveldanna. Og þær geta með sjálfstæðri stefnu átt afgerandi þátt í að hrinda af stað hraðfara skriðu í átt til afvopnunar og minnkandi hernaðarspennu.

Við Alþb.-menn höfum alltaf talið, að Íslendingar ættu einnig að leggja lóð sitt á vogarskál friðar og afvopnunar í Evrópu, í fyrsta lagi með því að leyfa ekki lengur erlenda hersetu í landinu, í öðru lagi með því að leggja niður herstöðvar í landinu og afnema önnur þau mannvirki, sem eingöngu eru ætluð til hernaðar, og í þriðja lagi með því að hverfa úr hernaðarbandalagi og lýsa yfir hlutleysi landsins í hernaði. Með málefnasamningi núv. stjórnarflokka var mörkuð stefna í utanríkis- og sjálfstæðismálum, sem felur í sér veigamiklar breytingar frá þeirri stefnu, sem áður ríkti í þessum efnum. Í fyrsta lagi er íslenzk utanríkisstefna sjálfstæðari nú en áður var. Nægir að minna á breytta afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi til ýmissa mála. Við erum ekki lengur taglhnýtingar Bandaríkjastjórnar við atkvgr. á þingi Sameinuðu þjóðanna, eins og áður hafði of lengi verið. Hvað varðar afstöðuna til erlendra herstöðva og hernaðarbandalaga, náðist að vísu ekki fram í málefnasamningi stjórnarflokkanna stefnubreyting varðandi öll þau atriði, sem Alþb. leggur áherzlu á. Af þeim þremur stefnumiðum, sem ég nefndi hér áðan, þ.e.a.s. að erlendur her hverfi á brott, erlendar herstöðvar séu afnumdar og Ísland hætti þátttöku sinni í hernaðarbandalagi, varð aðeins samkomulag um það fyrsta, að herinn hverfi af landi brott. Um þetta efni eru hins vegar ótvíræðar yfirlýsingar í málefnasamningnum. Þar segir ótvírætt, að stefnt sé að brottför hins bandaríska herliðs og að hún skuli eiga sér stað á því kjörtímabili, sem nú er að líða.

Ég held, að þeim Íslendingum fari fjölgandi, ekki sízt meðal ungu kynslóðarinnar, sem gera sér grein fyrir, að hinn erlendi her er okkur ekki að neinu gagni. Þvert á móti er augljóst, að það er gæfulegast fyrir Íslendinga að láta ekki draga sig inn í hernaðarkerfi stórveldanna. Við eigum því að stefna að því að draga úr hernaðargildi landsins, að svo miklu leyti sem það er til komið af mannavöldum, með því að hafa hér ekki her og herstöðvar. Þar að auki ætti að vera ljóst, að erlendur her í landinu til frambúðar er ekki samboðin virðingu þjóðarinnar. Erlendur her hlýtur að hafa margs konar áhrif á þjóðlífið, bæði bein og óbein, og enginn vafi leikur á því, að vaxandi eiturlyfjaneyzla á Íslandi á að talsverðu leyti rætur sínar að rekja til hersetu hinna erlendu manna.

Ég vil að lokum fyrir hönd þingflokks Alþb. lýsa yfir eftirfarandi:

Alþb. hefur að sjálfsögðu fallizt á það sjónarmið, að landhelgismálið ætti að hafa sérstakan forgang, og með hliðsjón af því hefur flokkurinn sætt sig við, að brottför hersins í áföngum ætti sér stað á síðari hluta kjörtímabilsins. En þar sem kjörtímabilið er nú senn hálfnað, væntir Alþb. þess mjög eindregið, að ekki dragist lengur, að hafnar verði viðræður við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins með það fyrir augum, að herinn hverfi frá Íslandi. Alþb. telur sjálfsagt og eðlilegt, að meðan samningum við Bandarfkjamenn um brottför hersins er ólokið, verði sjónvarpssendingar Bandaríkjamanna takmarkaðar við herstöðina eina, og að gefnu tilefni telur flokkurinn að sjálfsögðu óviðeigandi, að heimilaðar séu nokkrar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, sem ganga í berhögg við þá stefnu ríkisstj., að herinn hverfi af landi brott.