16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3637 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

Skýrsla um utanríkismál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls færa utanrrh. þakkir, ekki aðeins fyrir þessa skýrslu, heldur engu síður, jafnvel fremur, fyrir hið ágæta samstarf, sem hann hefur haft við utanrmn. Hann hefur gert n. grein fyrir gangi mála og haft að mínu viti fyllsta samráð við hana hverju sinni, og tel ég það mjög vel farið og öðrum utanrrh. til fyrirmyndar í framtíðinni.

Hins vegar vaknar sú spurning, sem ég vil aðeins ræða nánar, hvort staða utanrmn. í þingkerfinu sjálfu sé nægilega veigamikil. Eins og nú standa sakir, má segja, að utanrmn. sé fyrst og fremst n., sem tekur við grg., sem fær að vita, hvað gerist, miklu fremur en að hún sé mótandi afl í utanríkismálum. Þannig hefur þetta verið hér hjá okkur, og ég er ekki sannfærður um, að rétt sé að haga málum þannig. Ég vil benda á, að við hlið utanrmn. hafa sprottið upp nefndir, svo sem landhelgisnefndin, sem fjallar um veigamikinn þátt íslenzkrar utanríkisstefnu. Að mínu viti ætti sú n. ekki að vera til, heldur ætti utanrmn. að vera vettvangur þeirra mála, sem rædd eru í landhelgisnefndinni.

Það gegnir svipuðu máli um varnarmálin. Þegar þau eru rædd, væri ekki óeðlilegt, að utanrmn. væri virkur aðili að slíkri endurskoðun varnarmálanna, sem nú fer fram. Við Íslendingar sendum menn á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, hafréttarráðstefnur o.s.frv., en utanrmn. er þarna ekki beinn aðili, heldur fær hún aðeins að fylgjast með því, sem gerist. Ég skal ekki ræða þetta lengur, en ég vil bara benda á, hvort ekki ætti að gefa utanrmn. betri og meiri háttar stöðu en nú er, um leið og ég vil sérlega þakka utanrrh. fyrir það samstarf og samráð, sem hann hefur haft við utanrmn.

Áður en ég kem að sjálfri skýrslunni, vil ég líka drepa á eitt atriði, sem hefur oft komið upp í huga mínum í sambandi við utanríkismál og reyndar aðra málaflokka. Það er sú spurning, sem vaknar, þegar vitað er, að ýmsir menn, sem í fyrrv. ríkisstj. höfðu allt aðra skoðun á utanríkismálum en borin er uppi af núv. ríkisstj., hvernig unnt er að láta þá vera í veigamiklum trúnaðarstöðum fyrir þessa ríkisstj. Hef ég þá í huga t.d. fyrrv. utanrrh., sem starfaði í anda kalda stríðsins, og þá kannske sérlega hinn fyrri í viðreisnarstjórninni, og hvort ekki sé eðlilegt að hafa meiri hreyfingu og jafnvel skipti á mönnum í utanríkisþjónustunni, þegar nýir menn taka við. Það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir utanrrh., þegar hann vill koma fram með nýja stefnu, að hafa þá menn kannske í trúnaðarsendiherrastöðum, sem hafa beinlínis verið málsvarar allt annarrar stefnu hér á Alþ. en núv. stjórn stefnir að. Þetta finnst mér dálitið merkilegt, hvað erfitt virðist vera að hreyfa menn til í okkar ágæta þjóðfélagi. Það er ekkert óeðlilegt við það, ef menn hafa allt aðra skoðun á málunum, að þeir geti ekki setið trúnaðarstöður, þar sem þarf beinlínis að taka pólitískar ákvarðanir eða þjóna undir pólitískar ákvarðanir. Þetta skal ég ekki ræða lengur, en þetta snertir vafalaust ekki aðeins utanríkisþjónustuna, heldur yfirleitt alla meginflokka þjóðmála. En það hlýtur að vera erfitt að gera verulega stefnubreytingu, þegar sömu menn halda um málin og var í fyrri stjórn. Hún hafði allt aðra utanríkismálastefnu, a.m.k. í veigamiklum atriðum, en núv. ríkisstj. Nóg um það.

Í málefnasamningi ríkisstj. er vikið að því, að stefnan í utanríkismálum verði sjálfstæðari og einbeittari. Þetta hefur tekizt, og ég vil segja það, að enginn málaflokkur hjá núv. stjórn sýnir jafn berlega breytta stefnu og utanríkismálin. Þar eru skiptin alveg ljós og ótvíræð, og ég vil óska utanrrh. til hamingju með það. Skýrslan er líka öll í samræmi við málefnasamninginn. Í skýrslunni er rakin þróun utanríkismálanna, einkanlega árið 1972 og fram á fyrstu mánuði þessa árs, og það er öllum ljóst, að árið 1972 var alveg óvenjulegt ár hvað snertir það að breyta um skoðun og viðhorf í utanríkismálum. Á því herrans ári sigraði stefna Willy Brandts að taka upp samstarf við Austur-Evrópuþjóðirnar, einkanlega við Austur-Þýzkaland, Pólland og Rússland, og öðrum þræði ferðir Nixons forseta til Moskvu og Peking. Þetta hefur haft geysileg áhrif í utanríkismálum og líklega miklu meiri áhrif en við gerum okkur fulla grein fyrir. Og þessi ríkisstj. er svo heppin, ef ég má nota það orð, að starfa í þessari asahláku samstarfs og skilnings á alþjóðavettvangi. Á einu ári hefur það gerzt, að Kína hefur verið viðurkennt, Austur-Þýzkaland viðurkennt, stjórnmálasamband á að taka upp innan tíðar við Norður-Kóreu og væntanlega við Víetnam. Allt þetta hefur gerzt á örstuttum tíma. Og þessi þróun er á allan máta æskileg og í fullri andstöðu við þá utanríkispólitík, sem rekin var hér á dögum viðreisnarinnar.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um hernaðarblokkir. Ég tel, að Ragnar Arnalds hafi komizt mjög vel frá því efni, og ég fer ekki að rekja það nánar. En það eru tvö atriði, sem ég vil víkja að sérstaklega, sem eru náttúrlega meginmálin, og það eru annars vegar varnarmálin og hins vegar landhelgismálið.

Satt að segja fá varnarmálin og varnarliðið harla lítið rúm í skýrslunni, og ástæðurnar eru augljósar. Það hefur lítið þokazt í þeim málum. Að vísu fer fram rannsókn, eins og hæstv. utanrrh. tekur fram, en allt er þetta mál á nokkuð óskýrum grunni og það hefur horfið í skuggann fyrir landhelgismálinu, sem flestir munu vera sammála um, að eigi að hafa forgang. Hins vegar er erfitt að sætta sig við það, hversu málum miðar hægt áleiðis. Í skýrslunni er komizt svo að orði: „Ákvörðun ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins verður því væntanlega tekin bráðlega.“ Ég fagna þessari yfirlýsingu, en vil þó taka alveg sérstaklega fram, að þarna er notað orðið „endurskoðun“, vegna þess að það fullnægir öllum. En það, sem átt er við í málefnasamningi ríkisstj., er fyrst og fremst, að varnarliðið hverfi á brott. Það var efni þessa málefnaákvæðis og ekkert annað.

Það vakti athygli mína, hvað hv. 1. þm. Reykv., sem talaði sem aðalforingi stjórnarandstöðunnar, var linur í utanríkismálum, linur í andstöðunni. Hvers vegna? Vegna þess að varnarmálin standa mjög óljóst og landhelgismálið stendur líka óljóst. Hann vill ekki láta neitt til skarar skríða, eins og málin standa núna, og það er að vissu leyti skiljanlegt. En ég vil taka það alveg skýrt fram, að endurskoðun merkir í mínum munni ekkert annað en það, að herinn fari héðan af landi brott í áföngum. Hins vegar er ég alveg opinn fyrir því í sambandi við flug og annað, að fá, ef unnt er, einhvern annan aðila frá Sameinuðu þjóðunum til þess að hafa hér uppi eitthvert tæknilegt eftirlit með flugi eða á annan hátí. Um það er ekkert að fást, finnst mér. En um hermenn gildir allt öðru máli.

Ég skal aðeins víkja að landhelgismálinu. Ég fagna því, hvað utanrrh. hefur tekið skýra afstöðu í því máli, einkanlega því máli, sem mestum deilum hefur valdið síðustu daga, og það er, hvort eigi að mæta fyrir dómstólnum í Haag. Ég styð í einu og öllu stefnu ríkisstj. í þessu máli, eins og Alþ. og hún sjálf hefur mótað hana, og þess vegna vil ég benda þingheimi á bls. 20, þar sem hæstv. utanrrh. færir skýr og góð rök fyrir því, að það sé, eins og nú standa sakir, fráleitt að mæta fyrir dómstólnum í Haag, eins og orðrétt segir í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi málsmeðferð, er dómstóllinn í lok þessa árs tekur fyrir efnisatriði, virðist mér augljóst, að Íslendingar geti ekki átt úrslit í slíku lífshagsmunamáli sínu undir erlendu dómsvaldi og það sé því rökrétt og eðlilegt, að Ísland eigi ekki fulltrúa við þennan málarekstur fremur en hingað til. Það er von mín, að samstaða þjóðarinnar um framgang þessara mála geti haldizt:

Undir þetta tek ég eindregið.

Hins vegar hefur sú óheillaþróun átt sér stað í þessu máli, að það hafa komið upp skoðanir um, og það jafnvel innan ríkisstj., að það eigi að halda á málum á annan hátt, þ.e.a.s. mæta fyrir dómstólnum í Haag. Við þetta verður alls ekki unað. Ég vil benda á það, að fulltrúi Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, benti á það réttilega, að það, sem skipti meginmáli, væri einhugur þjóðarinnar í þessu máli. Og það felur þá í sér að minni hl., og þá væntanlega stjórnarandstaðan, verður að gera svo vel að sýna þann einhug að fylgja meiri hl. hér á þingi. Þetta er sá ábyrgðarhluti, sem hvílir á stjórnarandstöðunni. Þetta er meginatriði málsins. Það má aldrei vera neinn vafi á því, hvaða stefnu Íslendingar hafa í landhelgismálinu, fiskveiðilögsögunni, og hvernig eigi að reka það. Þetta er grundvallaratriði. Þess vegna má segja, að það bregði nokkuð undarlega við, að hæstv. félmrh. í veizlu hjá ágætum félagsskap, sem kallar sig Junior Chambers, skuli gefa yfirlýsingu um, að það væri skynsamlegt og rétt að senda málsvara til Haag. Þar með hafði þessi hæstv. ráðh. gengið í berhögg við stefnu stjórnarinnar, gengið í berhögg við vilja Alþ. og hina mótuðu stefnu, rofið samstöðu þjóðarinnar. Við þetta verður ekki unað. Það má lesa í blöðum sífelldar deilur hér, hvort eigi að senda eða ekki senda, mæta eða ekki mæta o.s.frv., og þetta er óheillaþróun fyrir gang þessa mikilvæga máls. Það hlýtur öllum að vera ljóst. Og ég tel nauðsynlegt, bæði fyrir stjórnarandstöðuna og ríkisstj., að ganga úr skugga um það, eins fljótt og kostur er, hver sé raunverulegur vilji Alþ. í þessu máli. það er ekki hægt að láta þetta mál reka á reiðanum.

Hv. 1. þm. Reykv. lét svo ummælt, að í landhelgisn. hefði verið vilji meiri hl. að athuga mjög gaumgæfilega, hvort ekki ætti að mæta fyrir dómnum, hins vegar lægi ekkert á, því að málið kæmi ekki upp fyrr en um áramótin. En þetta er reginmisskilningur. Þjóðin getur ekki búið að því að karpa og deila um þetta mál allt þetta ár. Það er mikilvægt, að það sé einhugur í málinu, en við eyðum ekki tíma, kröftum og samstöðunni í að karpa um þetta. Um þetta efni má aldrei vera neinn vafi. Þess vegna tel ég það skyldu stjórnarandstöðunnar að kanna, hvort það sé vilji Alþ. að senda mann til Haag, og ég tel það líka skyldu ríkisstj. að gera það, því að hún þarf að hafa markaða og ótvíræða stefnu í þessu máli. Það væri t.d. athugandi, hvort hæstv. félmrh. vildi nú ávarpa þingið og gera nokkra grein fyrir stefnu sinni í þessu máli, hvort hann hefði breytt um skoðun eða hvort hann mundi vinna að því, að við sendum mann til Haag. Þetta þurfum við að vita. Við getum ekki setið uppi bæði með ráðlausa stjórnarandstöðu og ráðlausa ríkisstj. í þessu máli, menn bara bíði og sitji við skákborðið og tefli. Það þarf að hreinsa til, hreinsa andrúmsloftið. þess vegna vil ég mælast til þess við hæstv. félmrh. að hann geri nú þinginu grein fyrir skoðun sinni og hvert sé hans viðhorf í þessu máli, og að ríkisstj. gangi úr skugga um það, hver sé vilji Alþ. í þessu máli. Ef svo er, að Alþ. og ríkisstj. treysta sér ekki til þess að ganga þegar úr skugga um það, eigum við þá smám saman að kljúfa þjóðina í þessu máli? Eigum við að lesa dag eftir dag karp í blöðum, hvort eigi að senda eða ekki senda, mæta eða ekki mæta? Það þarf að fá einu sinni úr þessu skorið fyrir fullt og allt, tvímælalaust. Ef svo skyldi fara, að það væri þingmeirihl. fyrir því, að senda mann til Haag, ef hæstv. félmrh. getur tekið með sér sinn fjölmenna þingflokk til þess að styðja þetta, er bezt, að við leitum til þjóðarinnar og könnum þessi mál og vitum, hvort vinstri menn í landinu geti ekki stokkað upp spilin í flokkunum. En það er eitt, sem er víst, og það er, að ekki er verjandi, hvorki fyrir ríkisstj. né stjórnarandstöðuna, að fá ekki hreinar línur í þessu máli.