16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3662 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson) :

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., og þar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á því. Tvær eru veigamestar: annars vegar, að það er sett í lög, að framlög ríkissjóðs skuli vera 50 millj. kr. á ári, í fyrsta sinn árið 1973, og hins vegar er ákvæði til bráðabirgða um, að þessi lög svo og önnur lög um lánasjóði iðnaðarins skuli taka til endurskoðunar hið fyrsta með það fyrir augum að sameina sjóðina og verkefni þeirra.

Iðnn. er í raun og veru sammála um öll efnisatriði frv. nema eitt, en það er 3. gr. fr., þar sem gert er ráð fyrir, að stjórn sjóðsins skipi 5 menn og jafnmargir til vara, skipaðir af iðnrh. til 2 ára í senn eftir þar tilteknum reglum.'

Við erum sammála um það, að stofnun þessa sjóðs sé mjög mikið og þarft framfaramál fyrir uppbyggingu iðnaðarins í landinu og til aðstoðar við tiltekin verkefni, sem þessum sjóði eru ætluð. Samkvæmt frv. er tilgangurinn í aðalatriðum þessi: að stuðla að aukinni ráðgjöf, þjálfun og tækniþjónustu með framlögum eða lánum, að auka framleiðni með stuðningi við aðgerðir, sem stefna að aukningu afkasta í iðnaði, enn fremur að hvetja til samvinnu og samruna iðnfyrirtækja með lánum eða styrkjum.

Nú er það svo, að ýmsar stofnanir á vegum iðnaðarins eru starfandi í landinu, sem taka til ýmissa af þessum atriðum. Enn fremur eru til a.m.k. tveir sjóðir, sem hugsanlega gætu tekið við stjórn þessa sjóðs. Þess vegna hefur meiri hl. n., hv. þm. Gunnar Thoroddsen, Lárus Jónsson og Bjarni Guðnason ásamt mér, leyft sér að leggja fram á þskj. 753 brtt. um, að stjórn iðalánasjóðs verði falið að fara með stjórn sjóðsins, sem skal vera sérstök deild í iðnlánasjóði. Það er auðvitað hægt að hugsa sér, að hvor sem er af þessum tveimur sjóðum sem ég nefndi, iðnþróunarsjóði og iðnlánasjóði, gæti tekið þetta verkefni að sér. En þar sem yfirstjórn iðnþróunarsjóðs er í höndum útlendinga, gæti verið, að það þyrfti nánari athugunar við, með hvaða hætti slíkt gæti orðið, ef valinn yrði iðnþróunarsjóður. Við tókum því þann kost að velja iðnlánasjóð.

Hv. iðnn. Ed. hafði fengið ýmsir umsagnir um þetta frv., og mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að rekja hér aðeins örfáar.

Það er í fyrsta lagi Seðlabanki Íslands, sem segir í niðurlagi sinnar umsagnar: „Hefur réttilega verið talið æskilegt að vinna að því að fækka fjárfestingarlánasjóðum með sameiningu þeirra sjóða, sem þegar eru starfandi, í stærri og hagkvæmari einingar. Stofnun nýs sjóðs til að vinna að eflingu iðnaðar til viðbótar þeim tveimur, sem fyrir eru, er ekki í samræmi við þessa stefnu“. Undir þetta skrifa tveir af Seðlabankastjórunum, Davíð Ólafsson og Svanbjörn Frímannsson.

Í annan stað segir Landssamband iðnaðarmanna: „Varðandi vörzlu sjóðsins og daglega afgreiðslu telur Landssamband iðnaðarmanna eðlilegt að fela iðnlánasjóði að annast þau mál, enda er að því augljóst hagræði fyrir alla aðila, og ætti það fyrirkomulag að geta orðið til sparnaðar á rekstrarkostnaði beggja sjóðanna“.

Í þriðja lagi segir Framkvæmdastofnun ríkisins í sinni umsögn, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki verður sagt, að frv. til laga um iðnrekstrarsjóð bryddi beinlínis upp á nýmælum, því að tilgang sjóðsins er að finna hjá ýmsum sjóðum og stofnunum, t.d. iðnlánasjóði, iðnþróunarsjóði, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, framkvæmdasjóði, Iðnþróunarstofnun Íslands o. fl. En athyglisverð er sú tilraun, sem hér er gerð til að koma upp öflugri stofnun, sem fjalli um framleiðni og útflutningsmál iðnaðarins á breiðum grundvelli. Þó verður að ætla, að annað tveggja hefði mátt ske, að einhverjum starfandi sjóði eða stofnun hefði verið falið hlutverk iðnrekstrarsjóðs eða að hið opinbera sjóða- og stofnlánakerfi, sem fjallar um iðnað, yrði endurskipulagt með tilkomu hans, því að þróttur hins opinbera til aðstoðar við atvinnuvegina vex ekki nauðsynlega í hlutfalli við fjölgun stofnana. Virðist þetta ekki vera í samræmi við þá viðleitni, sem nú er uppi til að samhæfa eða sameina stofnanir iðnaðarins með markmið iðnþróunaráætlunar fyrir augum“ Undir þessa umsögn skrifa Guðmundur Vigfússon og Bergur Sigurbjörnsson.

Iðnlánasjóði er stjórnað af þremur mönnum, einum tilnefndum af Félagi íslenzkra iðnrekenda, öðrum af Landssambandi iðnaðarmanna og hinum þriðja af ríkisstj. Okkur, sem stöndum að þessari till. um breytingu á stjórn sjóðsins, sýnist, alveg sér í lagi þar sem ákvæði til bráðabirgða hefur verið fellt inn í frv. í hv. Ed., sem væntanlega þýðir það, að ætlunin sé að endurskoða þetta kerfi allt saman á vonandi fáum mánuðum, að það sé óeðlilegt og óhyggilegt að vera nú að setja upp sérstaka stofnun með öllu tilheyrandi — væntanlega þyrfti eitthvert starfslið — í kannske fáa mánuði. Okkur finnst eðlilegt með það fyrir augum, að þessi endurskoðun fari fram, að iðnlánasjóði sé falið þetta, eins og við leggjum til. Ef mönnum sýndist heppilegra, að það væri iðnþróunarsjóður, hef ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, ef það er framkvæmanlegt. Finnst okkur heppilegra, að þessi skipan sé höfð á. Því er lýst yfir í þessu ákvæði til bráðabirgða, væntanlega með vilja hæstv. iðnrh., að þessi endurskoðun skuli fara fram bráðlega, „hið fyrsta“, segir raunar, sem ég a.m.k. átta mig ekki alveg á, hvað þýðir nákvæmlega, hvort það er eins fljótt og hægt er að vinna verkið eða hvort það er það fyrsta, sem hæstv. ráðherra sýnist rétt að gera þessa endurskoðun.

En einmitt með það í huga, að þetta verði gert, finnst okkur það ákaflega merkilegt, að það skuli vera talið nauðsynlegt allt í einu núna að fara að setja yfir þennan sjóð sérstaka stjórn. Ég lít svo á, að þetta frv. geti ekki með neinum hætti verið pólitískt mál. Hér er verið að gera mjög umtalsvert, þakkarvert og að mínu mati stórbrotið atriði til hjálpar iðnaðinum í landinu, og mér finnst, að það hljóti að brjóta í bága við þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að halda fram, að reyna að draga saman slíkar stofnanir eða samræma vinnubrögð stofnana. Alveg sérstaklega hef ég orðið var við þetta í iðnaðinum, þar sem erlendir sérfræðingar hafa verið undanfarið ár, má ég segja, að vinna að þessum málefnum, bæði gagnvart þeim atriðum, sem eru nefnd í þessu frv., og gagnvart markaðsmálum iðnaðarins. Þeir hafa skilað um það skýrslum, sem að vísu eru ekki fullnaðarskýrslur, en voru þó að mati hæstv. iðnrh. nægjanlega merkileg plögg til þess að boða iðnbyltinguna. Þetta er auðvitað alveg bráðnauðsynlegur þáttur til eflingar iðnaðarins, og ég er algerlega sammála þessu meginefni frv. En við, sem flytjum brtt., getum ekki með neinu móti séð, að það sé nein brýn nauðsyn á því að setja sérstaka stjórn yfir þennan sjóð á tímabilinu, þar til þessi endurskoðun hefur farið fram í heild.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en eftir beiðni erum við tilbúnir til að taka brtt okkar til baka til 3. umr.