16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu frsm. meiri hl., eru eiginlega allir sammála um, að það þurfi að fara fram endurskoðun á því lánakerfi, sem iðnaðurinn býr við í dag, og þeim stofnunum, sem vinna sérstaklega að málum hans. Þetta er líka viðurkennt í ákvæði til bráðabirgða í frv., en þar segir: „Lög þessi, svo og önnur lög um lánasjóði iðnaðarins, skal taka til endurskoðunar hið fyrsta með það fyrir augum að sameina sjóðina og verkefni þeirra.“ Og ég get bætt því við, samkv. upplýsingum, sem form. iðnn. hefur aflað sér, að þess er að vænta, að frv. um þessa sameiningu verði lagt fram á næsta þingi og tekið til meðferðar þar. Eigi að síður, þó að það sé samkomulag um, að slík endurskoðun og endurbót skuli eiga sér stað, voru allir nm. iðnn. Ed. sammála um, að það ætti að stofna þennan sjóð, hann fengist við verkefni, sem eru nauðsynleg, og það væri engin ástæða til að draga stofnun hans, þó að slík endurskoðun stæði fyrir dyrum. Ágreiningurinn var um, hvaða aðili eða aðilar ættu að fara með stjórn sjóðsins, þangað til þessi endurskoðun hefði farið fram.

Það var niðurstaða meiri hl., að það ætti að fela stjórn þessa sjóðs stjórn iðnlánasjóðs, en hún er þannig skipuð, eins og frsm. meiri hl. minntist á, að í henni eru þrír menn. Ráðherra skipar form., Landssamband iðnaðarmanna tilnefnir einn mann og Félag íslenzkra iðnrekenda tilnefnir einn. Það eru þessi tvö samtök, Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenzkra iðnrekenda, sem hafa meiri hl. í stjórn sjóðsins. Nú má segja, að þetta hafi ekki verið óeðlilegt, á meðan megintekna iðnlánasjóðs var aflað á þann hátt, að það var sérstakt gjald, sem meðlimir þessara samtaka greiddu, iðnlánasjóðsgjaldið svonefnda. Og það var ekkert óeðlilegt, á meðan þeir greiddu meginhlutann í sjóðinn, þó að þeir hefðu líka ráðstöfunarréttinn með höndum.

Nú er þessum sjóði ætlað að sumu leyti allt annað eða a.m.k. þrengra verkefni en iðnlánasjóði. Þessi sjóður á eingöngu að sinna málum útflutningsiðnaðarins, og tekna til hans er aðallega aflað á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með því, að sá gengishagnaður, sem varð hjá útflutningsiðnaðinum í sambandi við síðustu gengisfellingu, skal renna í sjóðinn. Er gert ráð fyrir, að það verði allt að 40 millj. 0g svo í öðru lagi, að ríkissjóður leggur fram 50 millj. kr. framlag á þessu ári.

Samkv. þeim reglum, sem hafa gilt um iðnlánasjóð, er ekki óeðlilegt, að þeir, sem fara með stjórn iðnrekstrarsjóðs, séu fyrst og fremst þeir aðilar, sem leggja fé í sjóðinn, þ.e. útflutningsiðnaðurinn. Þess vegna er lagt til í þeirri till., um stjórn sjóðsins, sem er í frv., að í stjórninni skuli vera fulltrúar frá Félagi íslenzkra iðnrekenda og Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, en innan þessara tveggja samtaka er svo að segja allur útflutningsiðnaðurinn í dag. Aftur á móti eru mjög fáir aðilar í Landssambandi iðnaðarmanna, sem standa að útflutningsiðnaði. Þess vegna finnst okkur í minni hl. og þeim, sem hafa lagt þetta frv. fram, að það sé miklu eðlilegra, að þessir tveir aðilar, meginaðilar útflutningsiðnaðarins, standi að stjórn sjóðsins og til viðbótar þeim, auk hins stjórnskipaða form., komi fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands. Okkur finnst eðlilegt, vegna þess að iðnaðarmennirnir, sem standa að útflutningsiðnaðinum, eru stór aðili í þessu sambandi, að meginsamtök þeirra fái að tilnefna þarna einn mann. Fimmti maðurinn á svo að vera frá iðnþróunarsjóði, en iðnþróunarsjóður er sú stofnun í dag, sem aflar sér mestrar þekkingar um útflutningsiðnaðinn.

Okkur þykir eðlilegt, á meðan ekki er búið að koma á þeirri framtíðarskipan, sem að er stefnt, og meðan iðnrekstrarsjóður starfar sem sérstakur aðili, eins og allir eru sammála um, sé stjórn hans skipuð með þessum hætti, þannig að það séu meginaðilar útflutningsiðnaðarins, sem tilnefni tvo fulltrúa í stjórn hans, þar til viðbótar komi einn fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, einn frá iðnþróunarsjóði og svo sé form. stjórnskipaður, eins og er í stjórn iðnlánasjóðs. Þegar litið er á það, að hér er fyrst og fremst um sjóð að ræða, sem á að styrkja útflutningsiðnaðinn, og þar sem tekna hans er að verulegu leyti aflað frá útflutningsiðnaðinum, er t.d. ekki talið eðlilegt, að samtök eins og Landssamband iðnaðarmanna eigi aðild að sjóðnum, vegna þess að þótt það séu merkileg samtök út af fyrir sig, snertir útflutningsiðnaðurinn mjög lítið þá aðila, sem eru í því sambandi. Þeir eru fyrst og fremst, eins og ég áðan sagði, í samvinnusamtökunum og í Félagi íslenzkra iðnrekenda.

Ég hygg, að þegar menn bera þetta tvennt saman, komist þeir að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt sé, að sú bráðabirgðastjórn, sem á að vera á sjóðnum, þangað til heildarathugun þessara mála liggur fyrir, sé skipuð með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv. og við í minni hl. leggjum til, en ekki sé fækkað í stjórninni og það séu eingöngu þessir tveir aðilar, Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, sem hafi þar meiri hl. Ég tel óeðlilegt með tilliti til þess, hvernig sjóðurinn er uppbyggður, og þess hlutverks, sem honum er ætlað, að jafnstór aðili að útflutningsiðnaðinum og Samband íslenzkra samvinnufélaga eigi t.d. ekki fulltrúa þar, og ég tel líka óeðlilegt, þar sem í vaxandi mæli er nú farið að taka tillit til aðildar launastéttanna að slíkum málum, að þarna sé ekki líka fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands. Það er svo að sjálfsögðu til bóta, að þarna sé líka fulltrúi frá iðnlánasjóði, vegna þeirrar miklu þekkingar, sem þar liggur nú fyrir um stöðu útflutningsiðnaðarins og útflutningsfyrirtækja.

Ég vænti þess, að þegar menn athuga þetta mál þannig rækilega frá öllum hliðum, komist þeir að þeirri niðurstöðu, að það sé eðlilegra að skipa bráðabirgðastjórn, sem þessi sjóður kemur til með að hafa, þangað til heildarendurskoðun hefur farið fram, á þann veg, sem lagt er til í frv., en að fela þetta stjórn iðnlánasjóðs, eins og hún er í dag.