16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú varla, að maður fái sig til þess að eiga hér orðakast við hv. 3. landsk. þm., og ekki ætla ég að fara út í efnisumr. við hann um það mál, sem hér liggur fyrir. En ég get vart undir því setið að gera ekki nokkrar aths. við lokaorðin í síðustu ræðu hans hér áðan. Það er nærri því, og er mér þó ekki klisjugjarnt, að mann klígi við því, þegar þessi hv. þm. leyfir sér hér á hv. Alþ. að koma þeirri skoðun sinni á framfæri, að hann líki stjórn heildarsamtaka íslenzkrar alþýðu við mesta íhaldshreiður hér á landinu. Það skyldi nefnilega vera, að þessi hv. þm. hefði efni á slíku orðbragði sem hér um ræðir. Ég efast um, að þessi hv. þm. hafi nokkurn tíma komið nálægt því að vinna fyrir íslenzka verkalýðshreyfingu. Það skyldi ekki vera, að þau væru aðrar stéttir þessa þjóðfélags, sem hann telur sér skyldara að vinna fyrir og mæla fyrir hér á Alþ. Ég vísa því a.m.k. heim til föðurhúsanna og tel mig þekkja þar betur til en þessi hv. þm., að stjórn Alþýðusambands Íslands sé mesta íhaldshreiður, sem um getur á landinu. Mér hefur virzt það vera svo síðustu vikurnar, kannske mánuði, að þessi hv. þm. hafi viljað slá einhverjum geislabaug um sig sem hinn eina og sanna réttlætismann, að því er varðaði mesta heiðarleikann, hér á hv. Alþ. En það get ég sagt þessum hv. þm., að það væri hægt, ef maður fyndi hvöt hjá sér til þess, að draga ýmislegt upp úr pokahorninu, svo að hann væri ekki maður að meiri á eftir. Ég vísa því þessum ummælum hans um Alþýðusamband Íslands og stjórn þess algerlega til föðurhúsanna.