16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3677 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Til þess að enginn fari vegvilltur úr þessu húsi hvað varðar ummæli mín um verkalýðshreyfinguna, vil ég segja það, að ég lít svo á, að það sé komið þannig fyrir henni, að menn séu hættir að kjósa þar í stjórnum og í Alþýðusambandinu. Alþb. hefur samvinnu við Sjálfstfl. í ýmsum verkalýðsfélögum, þetta er allt orðið samkrull, enda er alþýðubarátta Alþýðusambandsins fyrst og fremst um kjaramál, en hún þokar ekki þjóðfélagsþrónninni áfram. Þetta er orðið svona traust kerfi, af því að menn eru hættir að kjósa þar. Þetta er mín skoðun. En verkalýðsfélögin eiga orðið digra sjóði, og menn verða þá rólyndir.

En það vil ég segja varðandi ummæli Karvels Pálmasonar, að ég held, að til þess að þm. fái nú örlitla skemmtun hér í kvöld, ætti hann að tína upp úr pokanum það, sem hann hefur að segja varðandi eitthvað, sem ég hef brotið af mér. Ég verð að segja, að mér finnst ég eiga rétt á að fá að vita það, því að það er varla hægt að viðhafa svona ummæli án þess að vita, hvað þm. er að tala um. Ég lýsi þá eftir því við þennan hv. þm., hvað hann eigi við, því að það getur varla talizt eðlilegt að dylgja á þennan hátt. Það mætti ætla, að ég hefði brotizt einhvers staðar inn, framið einhvern glæp eða gert eitthvert ótugtarverk einhvers staðar. Ég vildi gjarnan fá að vita þetta og mælist fastlega til þess, að hv. þm. skýri dálítið mál sitt.