16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (3290)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. vita, fjallar þetta frv. um það að setja eitthvað um tilvist landshlutasamtakanna inn í sveitarstjórnarlögin. Landshlutasamtök hafa verið stofnuð í öllum fjórðungum landsins, og það munu vera ákaflega fá sveitarfélög í landinu, sem standa utan þeirra. Það hefur þegar verið tekið inn í önnur lög sitthvað um tilvist þeirra, þó að það finnist enginn stafur um þau í sveitarstjórnarl., eins og þau eru í dag. Hins vegar er ekkert í þessu frv., sem hér liggur fyrir, í raun og veru um hvernig eigi að skipta verkefnum á milli landshlutasamtakanna og annarra aðila, t.d. sýslunefndanna og annarra þeirra aðila, sem um svipuð málefni fjalla. Það hefur ekki verið tekið á því málefni í þessu frv.

Þetta frv. er samið og flutt eftir ítrekaðar samþykktir landshlutasamtakanna, og ég mun ekki eyða hér löngum tíma í ræðuhöld, vegna þess að ég hef fyrst og fremst áhuga á því, að þetta frv. geti komizt í gegnum þingið og orðið að lögum.

Það hefur komið fram hér í umr. hjá hæstv. forsrh., að síðari málsliður þeirrar brtt., sem n. flytur við 110 gr., væri ekki skiljanlegur, eins og hann komst að orði. Ég ætla ekki að fara að deila við forsrh. um lagaskýringar, en ef mönnum finnst, að síðari málsl. ætti að falla burt, þá getur hver og einn af hv. þm. óskað eftir því, að þessi brtt. sé borin upp í tvennu lagi og aðeins fyrri málsl. borinn upp fyrst. Ég vil það a.m.k. miklu frekar en að þetta verði til þess að stöðva málið.

Hér hefur verið lögð fram önnur brtt., sem ég botna lítið í, hvað á bak við liggur. Ég sagði áðan, að landshlutasamtökin hefðu verið stofnuð alls staðar með frjálsum samtökum kaupstaða og hreppa á viðkomandi landssvæði. Á Norðurlandi hefur þetta verið þannig, að það samband nái yfir tvö kjördæmi. Mér finnst það vera eðlilegt, að heimamenn ráði því sjálfir, hvort þessu er skipt eða hvort haldið er áfram eins og þeir sjálfir hafa kosið og stofnað til. En vegna ræðu hv. fyrri flm. þessarar till. ætla ég aðeins að segja þetta:

Lítið virðir lýðræði.

Ljóst er, hvar hann stendur.

Svipta vill hann sjálfræði

sína umbjóðendur.