16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það var nú dálítið skemmtileg ræða, sem hv. 2. landsk. þm., Pétur Pétursson, flutti hér áðan. Hann talaði um, að eiginlega allir í kjördæminu, að mér skildist, vildu skipta fjórðungssambandinu í tvennt. En svo flytur þm. á þskj. 658 till. um, að þetta skuli vera gert með valdboði. Hvað hindrar þessa menn? Hvað hindrar þá í að gera þetta? Þetta er merkilegur málflutningur. Það skyldi nú ekki vera, að þm. óttist innst inni með sér, að það væri ekki meiri hl. fyrir þessu í vestra kjördæminu, eða hvers vegna er þá verið að flytja þessa till? Hvers vegna lætur ekki þm. reyna á þetta? Það er það eina, sem ég vil, ekkert annað. Ef sveitarstjórnarmenn fyrir norðan, t.d. í vestra kjördæminu, vilja skipta, eiga auðvitað þeir að gera það. Það er alveg sjálfsagt mál. En að fara að gera það með valdboði, það er það, sem okkur greinir á um.

Nú vill svo vel til eða illa kannske að dómi hv. þm., að ég er formaður félmn. þessarar d. Þess vegna er ég að ræða þessi mál, af því að þetta mál kom til þessarar n. Ég vil ekki stuðla að því, að það sé verið að svipta menn sjálfræði í svona máli. En það er það, sem hv. þm. er að tala hér fyrir, og ekkert annað. Ef sveitarstjórnarmenn fyrir norðan vilja á annað borð skipta þessu fjórðungssambandi, eiga þeir auðvitað að gera það. Það er ekkert sem hindrar þá. En þessi aðferð er ekki eðlileg, og það er þess vegna, sem ég tala á móti henni. Það er alveg rétt, sem þm. sagði, að eystra kjördæmið er sterkari aðilinn í þessu. En það breytir ekkert málinu. Ef hinir í vestra kjördæminu telja, að þeir hafi verið einhverjum rangindum beittir þar, geta þeir auðvitað sjálfir klofið sig frá, enginn heldur í þá. En ef það skyldi hins vegar vera, eins og mætti ætla af síðustu ræðu þm., að því væri öðruvísi farið, að það væri kannske ekki meiri hl. fyrir þessu og þess vegna væri ekki hægt að gera það öðru vísi en með valdboði, er málið ekki nógu gott að mínum dómi. Hverju breytir það, sem þm. sagði áðan í sambandi við þessa landshluta eða þessa áætlun Skagastrandar? Er ekki Framkvæmdastofnunin að vinna það verk? Hefur nokkuð verið unnið að neinni áætlun fyrir norðan fram að þessu? Nú er hins vegar verið að ráða einn eða tvo menn að fjórðungssambandinu til þess að gera þetta. Og það kann að vera, að þetta sé eitt af þeim verkefnum, sem þeir eiga að vinna að. Ég veit það ekki, en mér þykir það líklegt. En það er alveg nýtt fyrir mér, ef vestra kjördæmið verður útundan að þessu eða öðru leyti. Ég hef nefnilega líka talað við sveitarstjórnarmenn í vestra kjördæminu, og ég veit hug þeirra sumra a.m.k. þ

Ég ætla ekki að stuðla að næturfundi um þetta mál, ég var í raun og veru búinn að ræða allt áðan, sem ég þurfti. En fyrst þm. var sérstaklega að gera mér boð um að koma hingað í salinn til að hlusta á sitt mál, gat ég ekki annað en orðið við því að svara þessari ræðu hans. En ég vil taka það enn og aftur fram, að ég mun ekki, hvorki í löggjöf né öðru, hindra það, að þessi kjördæmi geti skilið, ef sveitarstjórnarmenn í vestra kjördæminu, meiri hl. að segja, óskar þess. Og það er rétta leiðin.