16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki að fara að lengja þessar umr. eða blanda mér inn í það deilumál, sem hér ei orðið aðalatriði málsins. Ég hygg, að ég sé einn í hópi þeirra manna, sem hafa komizt það mikið í snertingu við sveitarfélögin, að mínar tilfinningar og hugsanir séu kannske allt að því of miklar sem sveitarstjórnarmanns, miðað við þau verkefni, sem ég sinni nú. Mér er það afskaplega vel ljóst, að sveitarfélögunum er þörf á miklu meira samstarfi en áður var. Þau eru farin að fást við miklu stærri og meiri verkefni, sem eru ókleif, nema þau hafi um það samstarf sín á milli. Mér finnst því, að það fari vel á því, að þau hafi sjálf átt forustu um frjálst samkomulag til þess að hrinda áfram hinum stærri verkefnum, og það þurfa þau að gera.

Ég þykist nú sjá það, að þeir tímar komi, að ýmislegt breytist varðandi skipun sveitarfélaga, og væri ánægjulegt, ef það gæti gerzt með þeim hætti, að það væri afleiðing af þeirra vinnubrögðum. Út í þetta ætla ég ekki að fara sérstaklega núna, m.a. tímans vegna, en ég vildi segja það í tilefni af því, sem hér hefur komið fram um samstarf sveitarfélaganna og ríkisins, að þetta hefur lauslega verið rætt í ríkisstj. Ég mun reyna að styðja að því, að upp verði tekið samstarf á milli ríkistj. og sveitarfélaga, og þá stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, um verkaskiptingu eða athugun á verkaskiptingu á milli þessara aðila. Ég held, að nauðsynlegt sé, að það sé gert með frjálsu og óþvinguðu samkomulagi þessara tveggja aðila. Báðir eiga þeir mikið undir því, að samstarfið sé mjög gott, og það getur verið það. Þeir geta með sameiginlegri vinnu fundið það bezta út úr verkaskiptingunni, sem á að vera þeirra á milli, því að það er með hana eins og annað, að breyttir tímar krefjast endurskoðunar þar á. Með þeim breytingum eins og t.d. voru gerðar í fyrra og gerðar hafa verið áður hefur ýmislegt færzt til í þeim efnum, og nauðsynlegt er, að það verði endurskoðað og reynt að samræma það.

Það, sem ég vildi því aðeins segja um þetta, er, að mér hefði þótt skemmtilegra, að slíkt mál sem þetta þyrfti ekki að vera deilumál hér í þinginu, sérstaklega ekki deilumál á milli aðila innbyrðis, en út í það skal ég ekki blanda mér. Ég vil hins vegar segja það, að ég tel brýna nauðsyn að taka upp samstarf á milli ríkisstj. og Sambands ísl. sveitarfélaga um verkaskiptingu og tekjuskiptingu þessara aðila og mun reyna að eiga aðild að því, eftir því sem geta mín leyfir.