17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Auður Auðuns:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr., lét ég þess getið, að í félmn. hefði verið nokkuð rætt um hugsanlegan flutning brtt. við 12. gr. l. um Húsnæðismálastofnun, þ.e.a.s. skyldusparnaðarkaflann, þá grein, sem fjallar um, hverjir séu undanþegnir sparnaðarskyldu.

Nú hefur farið svo, að n. mun ekki flytja brtt. um það efni, og leyfi ég mér því að bera fram hér skriflega brtt., sem er flutt af okkur 1. landsk., Eggert G. Þorsteinssyni, og 5. þm. Vestf., Þorvaldi Garðari Kristjánssyni.

Þessi brtt. er við 12. gr. húsnæðismálastofnunarlaganna. Í þeirri grein segir: „Undanþegnir sparnaðarskyldu eru“. Síðan eru þeir taldir upp undir stafliðum, og er það stafliður D, sem brtt. er við. Hann er svo hljóðandi í l. núna: „Þeir, sem hafa börn eða aðra skylda ómaga á framfæri sínu, þó ekki þeir, sem hafa yfir 75 þús. kr. skattskyldar tekjur, enda hafi þeir ekki fyrir heimili að sjá.“ Núgildandi lög eru frá því í maí 1970, og viðmiðunartala eða hámarkstekjur, sem þarna er miðað við, 75 þús. kr. skattskyldar tekjur, er orðin úrelt. Ég vil taka það fram, að það hefur alltaf verið skilið svo við framkvæmd l., að skattskyldar tekjur þýddu í þessu tilfelli skattgjaldstekjur, þ.e.a.s. tekjur, þegar frádrættir hafa verið frá þeim dregnir. Þessi upphæð er vitaskuld nú orðin úrelt. Það mætti kannske rifja það upp, að upphaflega var viðmiðunin 30 þús. kr. og stóð svo lengi, að ég ætla allt fram til ársins 1970, þegar l. voru endurskoðuð og viðmiðunin hækkuð upp í 75 þús. kr. Nú er hún enn orðin úrelt, svo sem öllum hv. þdm. má ljóst vera. Ég hef fengið upplýsingar frá Framkvæmdastofnuninni um hækkun á Dagsbrúnarkaupi. Meðalhækkun, sem Framkvæmdastofnunin miðar við, og hefur þá bæði vinnuvikustytting svo og lenging orlofs verið reiknuð inn í töluna, er mér gefin upp að sé 99% síðan í maí 1970. Það er því auðsætt, að þessi tala, sem nú stendur í l., 75 þús. kr., er orðin algerlega úrelt. Þó er á hitt að líta, að það er auðvitað ýmislegt, sem hefur áhrif á, hverjar séu skattgjaldstekjur. Það eru frádrættir og skatta- og tekjustofnalög yfirleitt á hverjum tíma, sem hafa auðvitað sitt að segja í þeim efnum. Ég býst við, að við getum orðið sammála um, að það sé óheppilegt að hafa í l. ákveðna tölu, sem eftir örfá ár er komin úr samræmi við það, sem henni var upphaflega ætlað, og það sé rétt að setja einhver ákvæði um, að slíkar tölur breytist til samræmis við — við skulum segja í þessu tilfelli kaupgjaldsvísitölu frekar en framfærsluvísitölu. Því flytjum við skriflega brtt., sem er þannig, að á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., sem sé svo hljóðandi:

„D-liður 12. gr. l. orðist svo:

Þeir, sem hafa börn eða aðra skylduómaga á framfæri sínu, þó ekki þeir, er hafa yfir 125 þús. kr. skattskyldar tekjur, enda hafi þeir ekki fyrir heimili að sjá. Tekjuhámark samkvæmt framansögðu breytist eftir kaupgjaldsvísitölu eins og hún er á hverjum tíma“.

Það, sem í þessari brtt. felst, er sem sé að hækka tekjuhámarkið úr 75 í 125 þúsund kr. Okkur þótti vera fulllangt gengið að tvöfalda það, þó að kaup hafi hækkað um 100%. Hin breytingin, sem í þessari till. felst, er að binda upphæðina við kaupgjaldsvísitölu eins og hún er á hverjum tíma.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa öllu fleiri orð um þessar brtt. okkar eða um frv. Það má geta þess, að áætlað er, að nú á þessu ári gefi skyldusparnaðurinn um 103 millj. kr. Slík breyting sem þessi mundi auðvitað ekki snerta hann nema að einhverju leyti, og mundi að sjálfsögðu valda einhverri lækkun á tekjum byggingarsjóðs. Það er erfitt að áætla þá rýrnun. En ég held, að hún eigi ekki að vega þungt í þeirri stóru tölu, sem heildartekjur sjóðsins munu verða.