17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þessari till., sem hér hefur verið lögð fram skriflega nú. hafði áður verið hreyft í hv. félmn., og var ekki annað að heyra þar en fullur velvilji væri fyrir því að endurskoða þetta ákvæði. Reyndar er auðsætt, að það hafa orðið svo miklar breytingar á öllu verðgildi peninga. að hafi þessi upphæð verið réttmætlega ákveðin 75 þús. kr. 1970, ber auðvitað að hækka hana.

Á hitt ber að líta, að við erum hér á síðustu dögum þingsins og höfum trúlega aðeins rúm fyrir einn örstuttan fund fyrir utan það, sem við kunnum að geta lokið nú á þremur stundarfjórðungum. Það er því svolitið hættuspil fyrir framgang mála að vísa þeim á milli d., og við erum þess sinnis, a.m.k. í meiri hl. félmn., að við teljum, að hér sé um mál að ræða, sem þurfi að ganga fram fyrir þinglok. Ég hef, eins og allir aðrir í félmn., fulla samúð með þessari brtt. eða einhverri annarri, sem gengi í svipaða átt, og tel nauðsyn á, að þessi upphæð sé endurskoðuð. En ég vil líka geta þess, þar sem hæstv. félmrh. er hér ekki viðstaddur, að ég ræddi þetta mál við hann og hann var einnig þess sinnis, að það bæri að athuga þetta, og kvaðst mundu beita sér fyrir endurskoðun á þessu ákvæði svo fljótt sem við yrði komið. Hann var hins vegar andvígur því, að málið færi nú að flytjast milli d. og afgreiðsla þess yrði lögð í hættu. Ég held, að það sé nokkuð til í þessu. Hér er um mál að ræða, sem a.m.k. mjög auðvelt er að koma með brtt. við. Það hafa legið frammi brtt., og að sumu leyti eru skiptar skoðanir um þetta, þannig að þá er ekki hættandi á það, ef menn vilja koma málinu fram á annað borð, að fara nú að gera á því breytingar. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn brtt., en játa hins vegar, að hér er um mál að ræða, sem sjálfsagt er að athuga og breyta sem fyrst.