17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3692 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við vorum rétt áðan að afgreiða frá þessari hv. d. frv. um launaskatt. Samkv. því frv. eru tekjur sjómanna undanskildar 21/2 % launaskatti, ríkissjóður er sviptur tekjum af launaskatti sem nemur 1 1/2 %, en byggingarsjóður ríkisins um 1 %. Auk þess er í þessu frv. ákvæði, sem þýðir það, að tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins almennt af 1% launaskatti, sem var varanlegur tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins samkvæmt l. um launaskatt frá 1965, á núna aðeins að gilda til áramóta. Í sambandi við þetta síðara atriði gerði ég fsp. til fjmrh. í þessari hv. d. í gær, og hann upplýsti, að það hefði verið fyrir mistök, sem tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins af launaskatti væri látin renna út um næstu áramót. Hann lofaði að gera ráðstafanir til þess, að tekjur byggingarsjóðsins af launaskatti yrðu varanlegar, eins og ákveðið var með l. frá 1965. En nú kemur einnig í ljós, eins og ég hef áður lýst hér í d., að þetta frv. um launaskatt felur í sér, að byggingarsjóðurinn er strax sviptur, eins og ég sagði áðan, tekjum af launaskatti sjómanna. Þetta nemur, að því er ætla má, a.m.k. um 25 millj. kr á þessu ári, miðað við það, að lagt sé til grundvallar, að aflahlutur sjómanna sé 2500 millj. kr. á ári, eins og valkostanefnd ríkisstj. reiknaði með á sínum tíma.

Nú er það frá mínu sjónarmiði mjög alvarlegt mál, að byggingarsjóður ríkisins sé sviptur tekjum, sem hann hefur haft, eða tekjustofnar hans skertir. Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem með því frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir stórauknum útgjöldum byggingarsjóðs ríkisins, án þess að gert sé ráð fyrir að efla tekjustofnana. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. að því, hvernig það sé eins með þessa skerðingu á tekjum byggingarsjóðs ríkisins vegna afnáms launaskatts af sjómönnum. Spurt er um, hvort hér hafi verið um misskilning að ræða, eins og í hinu tilvikinu, eða hvort þetta sé gert af ásettu ráði. Mér þykir nokkru varða að vita um þetta. Ef hér hafa orðið mistök, vil ég leyfa mér að spyrja, hvort þau verði leiðrétt þannig; að ekki komi til þessarar tekjuskerðingar á þessu ári.