17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3694 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svar hans, um leið og ég 1ýsi miklum vonbrigðum yfir efni svarsins. Í raun og veru svaraði hann ekki spurningu minni. En hann sagði, að það væri furðulegt að vera að spyrja um það, hvort hér væri um ásetning að ræða eða tilviljun, að skertir væru tekjustofnar byggingarsjóðs ríkisins með afnámi launaskatts af tekjum sjómanna. Mér finnst þetta ekkert furðulegt. Mér finnst það furðulega í þessu, að það kemur fram í svari ráðherra, að hann virðist ekki vita, hvort það hafi verið tilgangurinn með frv. um launaskatt að skerða tekjur byggingarsjóðs, eins og ég áður greindi, eða hvort það hafi orðið fyrir tilviljun. Þetta þykir mér ákaflega lélegt svar, vægast sagt. Þegar ég spurði um hitt atriðið varðandi launaskattinn og ég lýsti því hér áðan, var hæstv. fjmrh. ekki í neinum vafa, hvað hafði skeð varðandi það. Það höfðu orðið mistök, eftir því sem hann upplýsti, og hann ætlaði að leiðrétta þau.

En það er ekki hægt að fá það út hjá hæstv. félmrh., hvort það séu mistök, að frv. um launaskattinn sviptir byggingarsjóðinn álitlegum tekjum, eða hvort það hafi verið ásetningur að gera slíkt. Það breytir að sjálfsögðu engu í þessu efni, þó að hæstv. félmrh. segi, að það þurfi að efla almennt tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins. Um það var ég ekki að ræða og ætla ekki að fara að ræða. Ég hygg, að það sé enginn ágreiningur milli okkar um það, þó að það sé náttúrlega mikill munur á orðum og athöfnum hæstv. félmrh. í því efni. Hann hefur sagt, frá því að hann tók við stjórn húsnæðismálanna að þessu sinni, að hann ætlaði að efla tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins, en hann hefur ekkert gert í því efni. En nú er það svo, að það á að skerða tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins sem þessari upphæð nemur, sem ég hef greint frá. Kann að vera, að hæstv. félmrh., sem talar um brýna þörf fyrir að efla tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins. sjái það úrræði til að bæta úr því, sem gert hefur verið, að ríkissjóður leggi fram þessa fjárhæð á þessu ári. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum yfir því, ef hæstv. félmrh. getur ekki svarað jafnsjálfsagðri spurningu og gefið jafneðlilegar upplýsingar og hér er spurt um. Og í tilefni af því, að honum þótti í sínum orðum ástæða til að lýsa þörfinni á því að efla byggingarsjóð ríkisins, ítreka ég það, sem ég hef þegar sagt. Mun hann þá hugsa sér að fara þá leið til þess að bæta úr því, sem hefur verið gert. að ríkissjóður veiti 26 millj. á þessu ári til að bæta tekjumissi byggingarsjóðsins?