17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl., skrifa ég undir með fyrirvara, en með þessu frv. er verið að staðfesta brbl., sem voru gefin út í sumar. Þar segir, að í ljós hafi komið, að við álagningu tekjuskatts á árinu 1972 hafi tekjuskattur á hluta af hinum tekjulægri í hópi elli- og örorkulífeyrisþega reynzt mun meiri en gert var ráð fyrir, þegar lögin voru sett. Þetta reyndist mun meira. Menn sáu eftir á, að þau varnaðarorð höfðu reynzt rétt, sem stjórnarandstaðan hafði, bæði Sjálfstfl og Alþfl., vegna skattalaganna. Þá voru ekki teknar til greina margfaldar ábendingar í því efni, og komu jafnan fram ýmiss konar útreikningar, er áttu að afsanna aðvörunarorð okkar í stjórnarandstöðunni um það, að frv. stefndi að löggjöf, sem mundi leggja óhóflega skatta á gamla fólkið, enda reyndist það svo, og ríkisstj. sá sig nauðbeygða til þess að gefa út brbl. með einstökum hætti, eins og drepið var á hér áðan. Hins vegar tel ég, að vonlaust hafi verið að reyna að koma fram brtt. nú á síðustu klukkutímum af starfstíma Alþ. Ég vil því stuðla að því, að þessi litla bragarbót, sem frv. gerir ráð fyrir með hækkuðum skattfrádrætti, nái fram að ganga. Hins vegar vil ég einnig lýsa því yfir, að ég er fylgjandi brtt. á þskj. 746 og tel þann áfanga, sem þar er gert ráð fyrir að bæta við frv., eðlilegan og ég vænti þess, að hann fái stuðning.

Að öðru leyti eru engin tök á því að ræða þetta mál nánar. Það hefur engin grein verið gerð fyrir því, hvernig endurskoðun skattal. gangi, sem æði oft hefur verið boðuð. Það er heldur engin grein gerð fyrir því, hvar breiðu bökin eru, því að þau fundust ekki s.1. ár, nema þá á gamla fólkinu, og svo fram eftir götunum. Skattvísitalan er enn í lausu lofti og ekkert liggur ljóst fyrir um hana. Sem sagt, þessi mál eru langt frá því að vera á hreinu, enda er það eins og fleira, það gefst ekkert tækifæri til að ræða þau nánar, og ég bara vona, að hv. d. telji brtt. á þskj. 746 þess virði að taka þær með, þegar við afgreiðum lítils háttar lagfæringar vegna gamla fólksins.