17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Síðan 2. umr. fór fram, hefur fjh: og viðskn. athugað nánar orðalag og efni 1. gr. frv., eins og ég gat raunar um, að n. mundi gera, í framsögu minni fyrir nál. N. hefur síðan kvatt á sinn fund tollstjóra og tollgæzlustjóra. Form. n. hefur einnig haft samráð við fleiri aðila varðandi þessa gr.

N. varð ásátt um að leggja til nýtt orðalag á 1. gr. og flytur um það skriflega brtt.

Greinin orðist svo:

„Það varðar stjórnanda fars sektum, ef við komu fars frá útlöndum eru eigi gefnar upp á innsiglisskrá, eigi finnast í farinu né heldur er á annan hátt gerð viðhlítandi grein fyrir áfengis- og/eða tóbaksbirgðum, sem samkvæmt skýrslum tollyfirvalda á viðkomustað farsins erlendis hafa verið teknar um borð í farið þar og stjórnandi þess vissi eða mátti vita um. Sama gildir um birgðir, sem samkvæmt innsiglisskrá hafa verið geymdar meðal innsiglisbirgða farsins, enda sé um að ræða verulegt magn umfram nauðsynlegar og eðlilegar birgðir þess. Sömu refsingu skulu og þeir af áhöfn farsins sæta, sem undirritað hafa móttökuskilríki eða innsiglisskrá yfir slíkan varning“.

Þetta er hin skriflega brtt., sem ég mun afhenda hæstv. forseta, er ég hef lokið máli mínu.

Efnisbreytingar eru hér raunar ekki að öðru leyti en því, að bætt er inn orðunum „vissi eða mátti vita um“, þar sem fjallað er um skyldu stjórnanda fars til að gera viðhlítandi grein fyrir birgðum áfengis og tóbaks, sem samkvæmt staðfestum skýrslum tollyfirvalda hafa farið um borð í far hans í erlendri höfn.

Það er rétt að benda á í þessu sambandi, að ákvæði 1. gr. þessa frv., sem verða mundi 2. málsl. í 69. gr. l. um tollheimtu og tolleftirlit frá 1969, eru í raun nánari útfærsla á þar tilgreindum þáttum þeirrar ábyrgðar, sem nú er lögð á herðar stjórnanda fars og annarra yfirmanna þess, með 4. málsgr. 60. gr. téðra laga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það varðar sektum samkvæmt lögum þessum, ef stjórnendur eða aðrir yfirmenn gera ekki það, sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning með förum þeirra, eða vanrækja nauðsynlegt eftirlit í því skyni“.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég vil að lokum bara árétta það, að það var alger samstaða í fjh: og viðskn. um þá brtt., sem ég hef lýst, og að tollstjóri og tollgæzlustjóri, svo og aðrir þeir lögfræðingar og embættismenn, sem rætt hefur verið við um þetta efni, eru þessari till. einnig samþykkir.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta till., því að fyrir henni mun þurfa afbrigði.