17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvik Jósepsson):

Herra forseti. Við þetta frv. hefur komið fram brtt. á þskj. 741. Með þeirri till. er lagt til að gerbreyta um skipun stjórnar fiskveiðasjóðs. En eins og öllum hv. þdm. er ljóst, er það frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um fiskveiðasjóð, einvörðungu um tekjuhlið þeirra laga, sem þar er fjallað um. Það er sem sagt verið að gera ráð fyrir því að auka við tekjustofna fiskveiðasjóðs, en um aðra þætti löggjafarinnar er ekki fjallað í þessu frv.

Það er kunnugt, að það hafa komið hér fram á Alþ. nokkrum sinnum áður ýmsar skoðanir um það, hvernig eðlilegast væri að skipa stjórn fiskveiðasjóðs. Ég hef m.a. verið í þeim hópi, sem hefur túlkað það, að annar háttur ætti þar að vera á en verið hefur með skipan stjórnarinnar. En ég tel óeðlilegt í sjálfu sér að fara að blanda því máli inn í það frv., sem hér er um að ræða nú. Ég vil því mjög fara fram á það við flm. þessarar brtt., að þeir fallist á að draga þessa brtt. alveg til baka. Það er auðvitað auðvelt að koma fram með till. um þetta efni síðar, t.d. strax á næsta þingi, og sjá þá, hvaða möguleikar eru á því að ná einhverju samkomulagi um breytingu á þeim reglum, sem í gildi hafa verið um skipan sjóðsstjórnarinnar. En það er hvort tveggja, að ég get ekki fallizt á þá till., sem hér liggur fyrir, og tel, að það sé óeðlilegt að setja hana inn í þetta frv.. sem hér er um að ræða. Því vil ég beina því mjög eindregið til þeirra, sem flytja till., og alveg sérstaklega til hv. 10. þm. Reykv., 1. flm. till., hvort hann sjái sér ekki fært að fallast á að taka þessa till. alveg til baka í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þar sem augljóslega er hægt að taka þetta mál upp síðar