17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég flutti till. fyrir 2—3 árum, og held, að Jón Skaftason hafi flutt hana með mér, um það, að útgerðarmenn og sjómenn færu að hafa einhver ítök í stjórn fiskveiðasjóðs, því að eins og við vitum leggja þeir fram verulegt fé í fiskveiðasjóð. Fiskveiðasjóður er að miklu leyti, frá upphafi, byggður upp með framlögum frá útgerðarmönnum og sjómönnum. Það, sem útgerðin leggur fram, kemur einnig frá sjómönnum, því að sameiginlega er unnið að því að afla þessara verðmæta. Fiskveiðasjóður er upphaflega byggður upp af þessum framlögum.

Það var áður fyrr, að það var einn framkvæmdastjóri, þó að hann hefði ekki úrslitavald, fyrir fiskveiðasjóð, en svo höfðu bankastjórar Útvegsbankans endanlegt úrslitavald. Elías Halldórsson var lengi fyrir fiskveiðasjóði og réð, held ég, miklu. Ég vissi a.m.k. ekki til þess, að hann væri ofurliði borinn. En svo þurftu hinir bankarnir að fara að skipta sér af þessum málum, og þá var þeirri skipan komið á, sem nú er. Það er með bankastjóra eins og aðra menn, að þeir vilja ráða sem mestu. Seðlabankinn fékk einn mann, Landsbankinn tvo og Útvegsbankinn tvo, þannig að þetta voru 5 menn. Fiskveiðasjóður var sem sé stjórnað af þremur bönkum til þess að gæta hagsmuna allra aðila, og það var nú lítið til bóta, fannst mér, þegar þessi hersing var öll komin þarna. Það var aldrei hægt að tala við þessa menn. Eftir að þessi breyting var orðin á stjórninni, fengum við að tala við Elías Halldórsson, en til þessara herra náðum við ekki nema hlaupa á milli allra bankanna. Þá voru þeir líka afar oft uppteknir, svo að ómögulegt var að ná tali af þeim.

Ég var frá upphafi á móti þessu og beitti mér eins og ég gat á móti því, en við vorum þá í minni hl., framsóknarmenn, og réðum ekki úrslitum. Mér var sagt, að það hafi orðið töluverðar deilur meðal bankastjóranna um það, hvernig þetta fyrirkomulag ætti að vera, og sjálfsagt einhver ágreiningur innan flokksins. En hvað um það, þetta var nú gert, og varð lítil framför í því. Þeir byrjuðu svo á ýmsum kúnstum. Þeir lánuðu okkur með gengistryggingu frá 1963-1967, en svo afnámu þeir hana alveg og lánuðu án gengistryggingar árið 1967 og fram á mitt ár 1968, en þá voru aðalskipin keypt, og þá voru erlend lán tekin. Erlend lán voru borguð niður á tímabilinu, á meðan okkur var lánað með gengistryggingu og við látin borga allt gengistapið. Út af þessu er ég nú búinn að höfða mál á hendur þessari virðulegu stjórn, og það er u.þ.b. að koma til dóms. En hvað um það, það er mál út af fyrir sig.

Ég held, að þarna sé ekki um neina framför að ræða. Útvegsmenn hafa auðvitað engu ráðið og ekkert fengið um þetta að segja. Ég átti t.d. tal um þetta við formann Landssambands ísl. útvegsmanna. Hann var að tala um það við mig um daginn, að það væri einkennilegt, að um leið og álögurnar væru auknar og bætt við 1% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, sem þýðir um 2% af afla eða jafnvel rúmlega það, dytti þinginu ekki í hug að láta þá hafa neitt um þetta að segja. Nú er verið að samþykkja lög vegna tekna til stofnlánadeildar landbúnaðarins, og eiga bændasamtökin að fá að fylgjast með stjórninni, a.m.k. bæði stéttarsambandið og Búnaðarfélagið, og ég hef ekkert nema gott um það að segja. Fjmrh. lét þess getið, þegar hann reifaði þetta frv. fyrir okkur, að ég hafi verið með þessa till. fyrir nokkrum árum. Það er alveg rétt. En ég hef ekki flutt frv. um þetta vegna þess, að ég átti tal um þetta við hæstv. sjútvrh. og hann gerði ráð fyrir, að hann mundi flytja brtt. þess efnis, því að hæstv. ráðh. greiddi einmitt atkv. með þessum till., þegar ég var að flytja þær hér áður fyrr. Af því að ég er frekar hlédrægur, hef ég nú ekki viljað vera að taka fram fyrir hendur á viðkomandi ráðh. með því að vera að flytja þetta, af því að ég bjóst alltaf við frv. frá honum. Nú komu till. frá hæstv. ráðh., en það var ekki minnzt á neina breytingu á stjórn sjóðsins. Þess vegna var það, að ég gerðist meðflm. að þessari till. Ég er ekki að öllu leyti ánægður mað hana. Mín upphaflega till. var, að stjórnin yrði 5 manna stjórn. En það er nú svo, að menn verða stundum til þess að ná samkomulagi að gera fleira en það allra æskilegasta, og ég hefði álitið, að eðlilegast væri, að útvegsmenn hefðu einn mann og sjómannasamtökin annan. Svo má deila um það, hvort þingið ætti að kjósa eitthvað af þessum þremur mönnum eða jafnvel alla.

Ég hef alltaf verið óánægður með, að það væru bankastjórar frá þremur bönkum, sem væru að hafa það fyrir aukastarf að stjórna þessum sjóði. Það var miklu betra, meðan það voru bara útvegsbankastjórarnir. Svo er í þessum ævintýraheimi, sem við lifum nú í, gert ráð fyrir að kaupa marga tugi af togurum. Elías Halldórsson var þannig, að hann lofaði aldrei meiru en hann gat staðið við og átti alltaf peninga fyrir því, sem hann lofaði að lána. En nú vantar peninga í sjóðinn, sem eðlilegt er, því að það er svo mikið keypt af skipum, og þá þarf að útvega þetta fé einhvers staðar.

Út af fyrir sig hef ég aldrei, hvorki gagnvart gjaldinu á bændur né þessu 1% framlagi til fiskveiðasjóðs, deilt mikið á þessi framlög. Mér hefur verið ljóst, að það var ekki hægt að útvega þetta rekstrarfé, nema viðkomandi aðilar legðu eitthvað af mörkum. En ég hef deilt á marga aðra liði, margar aðrar álögur á atvinnuvegina, sem eru miklu óþarfari og óeðlilegri en þetta framlag. Þess vegna hef ég út af fyrir sig verið hlynntur þessu eina prósenti með nokkurn veginn góðri samvizku, hef aldrei rifizt út af því. Raunar er þetta hækkun frá því, sem áður var, líklega sem svarar svona 1/2% af útflutningsverðmæti. Framlagið var lækkað fyrir einu eða tveimur árum, um leið og framlög til trygginganna voru hækkuð. Ég er ekki að segja, að fiskveiðasjóði veiti ekki af þessu viðbótarprósenti. Það er fjarri því. En ég vil bara fá það fram.

Ég get fallizt á að taka þessa till. okkar aftur, — og má vel vera, að hún yrði ekki samþykkt, þó að hún væri borin upp, — ef sjútvrh. vill lýsa yfir, að hann vilji beita sér fyrir því, að breyting verði gerð á stjórn sjóðsins, sem stefni í þá átt, að útgerðarmenn og sjómenn fái a.m.k. að fylgjast með gerðum sjóðsins og hafa tillögurétt og málfrelsi á stjórnarfundum þar, hliðstætt því, sem nú er gert með landbúnaðinn. Ég sé ekki nokkra ástæðu til annars, hvort sem þeir hafa úrslitaatkv., þegar lán eru veitt, eða ekki. Það er mál út af fyrir sig, sem getur verið samningsatriði. Ef sjútvrh. vill beita sér fyrir því, að l. sé breytt þannig, get ég fallizt á, að það verði engar tafir út af þessu máli okkar vegna.

Ég hef heyrt, að fiskveiðasjóður hafi tekið lán og endurlánað að sjálfsögðu, þannig að það eigi að borga byggingarvísitölu af lánunum. Ég tel þetta okurlán. Byggingarvísitalan hækkar svo hratt. Ég hef heyrt nefnt eitthvað á annað hundrað millj. kr., og mjór er mikils vísir. Það getur skeð, að það út af fyrir sig ráði ekki úrslitum um afkomuna. En í sjálfu sér er ekki nokkurt vit í þessu. Ég er ekki sérstaklega að deila á þessa stjórn fyrir þetta lánafyrirkomulag. Ég veit ekki betur en þessi vísitölulán væru boðin út, þegar fyrrv. stjórn sat að völdum, og ef reiknaðir eru út vextirnir af þeim lánum, munu þeir vera á milli 20 og 30%, m.ö.o. okurlán. Ég er ekki að halda því fram, að þessu hafi verið varið til nauðsynlegra framkvæmda. En við eigum að stilla okkar fjárfestingu í hóf, svo að við þurfum ekki að sæta ókjaralánum. Það er talað um að fiskveiðasjóður muni þurfa 1300 millj. til viðbótar við eigið aflafé til þess að geta staðið undir nauðsynlegum lánum í ár, og mér þykir ekkert ólíklegt, að það geti verið rétt. Hvernig á að afla þessa fjár? Á að taka innlent lán eða erlent lán? Það er ekki sama, hvort það er tekið ógengistryggt innlent lán eða erlent lán eða vísitölutryggt lán. Og það er fullkomin neyð að þurfa að taka vísitölutryggt lán eða erlent lán, miðað við það, hvað gengið hefur reynzt ótryggt hér á landi. Það þyrfti, ef mögulegt væri, að reyna að útvega fiskveiðasjóði lán með eðlilegum hætti. Ég hygg, að verðjöfnunarsjóður muni aukast mjög í ár. Mér fyndist ekkert óeðlilegt, þó að eitthvað af fé verðjöfnunarsjóðs væri lánað fiskveiðasjóði í bili, einhver viss hluti, til þess að leysa lánsfjárþörf hans.

Ég var alltaf á móti gengislækkuninni, og ég hygg, að mikill hluti af stuðningsmönnum ríkisstj. hafi verið það. Ég álit, að það hafi verið algerlega óþarft að lækka gengið vegna útvegsins, því að fiskverð fór síhækkandi. Það, sem ég álít, að núv. stjórn ætti að gera, er að hækka gengið a.m.k. til jafns við það, að dollarinn verði 88 kr., eins og hann var áður. Það er ekki það mikil hækkun. Við skulum gera okkur það ljóst, að verðhækkanirnar nú eru að hálfu leyti af gengislækkun. Járnvörur hafa hækkað um 70%. Allt að því helmingurinn af því er vegna gengisbreytingar. Dollarinn hefur lækkað, krónan hefur líka lækkað, svo hefur okkar króna lækkað meira en dollarinn, svo eru gengishækkanir í ýmsum löndum, og þetta hefur valdið því, að u.þ.b. helmingur af öllum þessum geysilegu verðhækkunum, sem eru á ferðinni núna, er vegna gengislækkunar. Að hluta til er þetta verðhækkun á heimsmarkaði. Ég get sagt það sem dæmi, að ég keypti heyvagn í fyrra, sjálfhleðsluvagn fyrir 130 þús. Nú var ég að hugsa um að kaupa annan, en hann kostar 198 þús. Bara þetta tæki hefur hækkað um 70 þús. eða 1/3. Og þannig mun það vera með fleiri vörur. Við þurfum ekki að halda, að það sé fundið fé, algerlega nettótekjur hjá bátaútvegi eða frystihúsum, þó að gengið sé lækkað. Ef allt fer inn í vísitöluna, er þetta bara 3—6 mánaða frestur. Sannleikurinn er sá, að tekjur ríkissjóðs hafa orðið mjög miklar s.l. ár, og það átti sinn þátt í því, að fólkið keypti fyrir alla þá peninga, sem það átti. Vöxtur sparifjárins liggur fyrst og fremst í aukinni söfnun í sjóði, bæði lifeyrissjóði og aðra sjóði, sem almenningur og atvinnufyrirtæki eru neydd til að leggja í. Aðalvöxtur sparifjárins liggur í því, að fólkið eyðir þeim peningum, sem það á. það vill enginn eiga peninga. Ef einhver á 100 eða 200 þús., fer hann að kaupa bíl eða reyna að festa í íbúð, eða gera eitthvað annað við peningana en að eiga þá. Þetta gerir það að verkum, að bankarnir eru orðnir óstarfhæfir. Það er ekki vegur að fá nauðsynjalán í banka. Þeir eiga ekki peninga til. Seðlabankinn frystir verulegan hluta af viðskiptafé bankanna, og svo hirðir hann meira og minna af sjóðum, þ.á.m. verðjöfnunarsjóðinn, og geymir hann. Það má vera, að það þurfi að breyta l. um verðjöfnunarsjóð til þess að mega lána fiskveiðasjóði, og það ætti að vera hægt. Og ríkisstj. ætti ekkert að verða óglatt af því að gefa út brbl., því að þetta eru vel gefnir menn og ekkert feimnir við að gefa út brbl. Ég álit, að það ætti eftir einhverjum slíkum leiðum að reyna að leysa lánsfjárþörf fiskveiðasjóðs að meira eða minna leyti í ár, en ekki að fara að taka erlend lán og allra sízt vísitölutryggt lán. Þó kastar tólfunum, ef á að miða við byggingarvísitölu, því að byggingarefni flýgur meira upp en allar aðrar vörur nú, bæði timbur og járn, svo að það fer að verða alveg fáranlegt.

Það tókst að hafa ríkissjóðinn hallalausan s.l. ár, en það lá fyrst og fremst í því, að fólkið eyddi svo miklu. Við eyddum meira en við öfluðum, og því megum við alltaf vara okkur á. Raunar hefur því verið varið til fjármunamyndunar, en staðreyndin er, að erlendar skuldir jukust. Það er eðlilegt, að tekjur ríkisins aukist þá, því að af öllu, sem flutt er inn til landsins, eru teknar stórar fjárhæðir, bæði í gegnum söluskatt og innflutningsgjöld. En við getum þetta ekki endalaust, og þessa vegna held ég, að hraðinn sé heldur mikill. Það er alls staðar skortur á vinnuafli, og væri réttara að fara hægara.

Nú er verið að ráðgera virkjun við Sigöldu og stóriðjuver, þegar sú virkun er fullgerð. En hvar eigum við að taka mannaflann í þetta? Eigum við að fara að flytja inn Araba og svertingja? Ég er á móti því. Atvinnuvegina vantar vinnuafl, og það skulum við athuga, að með þessari óeðlilegu eftirspurn eftir vinnuafli verða það sveitirnar fyrst og fremst, sem tæmast. Það er verið að hækka atvinnuleysistryggingargjöld, þannig að menn hafa nokkurn veginn full laun, þó að þeir geri ekki neitt. Þá fara þeir ekkert að ómaka sig upp í sveit og anda að sér heyryki eða strita 7 daga vikunnar, ef þeir geta fengið fullt kaup með því að vera rólegir heima hjá sér. Ég veit ekki betur en að iðnaðinn vanti vinnuafl og sjávarútveginn líka. Þó ég væri meðmæltur álverksmiðju í Hafnarfirði, skulum við fara varlega í að bæta við nýjum stóriðjufyrirtækjum, á meðan okkur vantar vinnuafl vegna svo að segja allra atvinnuvega.

Ég ætla að greiða atkv. með þessu eina prósenti, þó að ég hafi oft talað á móti álögum á atvinnuvegina og mínar skoðanir séu alveg óbreyttar í því efni. Það er afsakanlegt fyrir okkur í þetta skipti af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi er hækkandi verðlag á sjávarafurðum. Í öðru lagi hefur söluskattur á bátaútveginn verið lækkaður, þannig að það ætti að vega nokkurn veginn upp á móti þessu aukna gjaldi. Hitt er svo annað mál, að ég legg áherzlu á það í fyrsta lagi, að það verði unnið að því að breyta lögunum, þannig að útgerðarmenn og sjómenn eigi það nokkurn veginn tryggt, að þeir fái að hafa einhver áhrif á meðferð þeirra fjármuna, sem þeir leggja í sjóðinn, og í öðru lagi, að það verði reynt, eftir öllum mögulegum leiðum, að útvega fiskveiðasjóði fjármuni með nokkurn veginn skaplegum lánskjörum og alls ekki meira gert en búið er að því að taka lán með byggingarvísitöluákvæði, því að það eru óhagstæðustu lán, sem til eru. Ég er sannfærður um það, að enn þá eru ólögleg lán hjá fiskveiðasjóði. Það er alls ekki miðað við það nákvæmlega, að erlenda féð sé lánað í réttum hlutföllum með gengisáhættu. Þeir bara gizka á eitthvað. Þeir lána einhverja vissa prósentu, 75% eða eitthvað svoleiðis, með gengisáhættu, eða 50%, ég veit ekki, hvað það er, en þeir reikna þetta ekki nákvæmlega út. En ég hygg, að öll lán, sem lánuð hafa verið með gengisáhættu úr fiskveiðasjóði, séu meira og minna ólögleg. Samkv. lögum eiga þeir ekki með að lána með gengisáhættu meira fjármagn en þann hluta, sem þeir taka erlendis frá.