17.04.1973
Neðri deild: 96. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3714 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

225. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er mikið rætt um verðjöfnun á ýmsum vörum. Nýlega er búið að afgreiða þál. um að athuga verðjöfnun á flutningum um allt land. En þetta frv. snertir aðeins sement.

Í 1. gr. segir: „Jöfnun flutningskostnaðar samkv. lögum þessum nær til allra verzlunarstaða á landinu, sem jafnframt eru aðaltollhafnir.“ Svo kemur viðbót: „Heimilt er viðskrh. að ákveða með reglugerð, að jöfnun þessi á flutningskostnaði skuli einnig ná til annarra tilgreindra verzlunarstaða!“

Það er út af fyrir sig ágætt að hafa heimild fyrir viðskrh. til þess að verðjafna flutninga á víðtækan hátt. En ég sé sérstaka ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi ákveðið, hvernig þetta heimildarákvæði verði notað eða hvort það verði yfirleitt notað.

Sement er oft flutt langan veg á landi, t.d. hér frá Reykjavik austur í Skaftafellssýslu. Það er flutt 100, 200 og kannske 250 km á landi. Hingað til hafa þeir, sem flytja sementið langa leið, orðið að borga flutningskostnaðinn að öllu leyti sjálfir. Þau lög, sem hér á að setja, ná ekki tilgangi sínum, nema heimildarákvæðið verði notað og verðjöfnunin nái til sem flestra verzlunarstaða á landinu, þótt þeir séu langt frá innflutningshöfn.

Mér þætti fróðlegt, áður en þetta frv. verður afgr. sem lög, ef hæstv. ráðh. vildi gefa einhverjar yfirlýsingar í sambandi við framkvæmd á þessari væntanlegu löggjöf.