07.11.1972
Sameinað þing: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

9. mál, lánsfé til hitaveituframkvæmda

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 9 flyt ég ásamt hv. 5 landsk. þm. svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda.“

Það hefur oft verið bent á gagnsemi þess að hagnýta jarðvarma til húsahitunar hér á landi. Þjóðhagslega er þetta mjög mikilvægt og sparast við það dýrmætur gjaldeyrir, þar sem við höfum notað olíu víðast hvar á landinu. Sem dæmi má nefna, að t.d. í Kópavogi og Hafnarfirði er talið, að olíuhitunarkostnaður nemi hátt í 300 millj. á ársgrundvelli miðað við verðlag í dag. Það er því mikið hagsmunamál fyrir íbúa þessara svæða t.d. að geta hagnýtt sér heitt vatn í húsahitun og aðra notkun.

Rannsóknir á þessu svæði, sem við leggjum sérstaklega til að verði athugað, þ.e. á Reykjanessvæðinu, hafa farið fram undanfarið, og vildi ég byrja á Suðurnesjum í því sambandi. Þar hefur verið boruð ein hola í landi Keflavíkur, sem gefur von um áframhaldandi hita. Holan var aðeins 43 metrar, en gufuborinn getur tekið við, en 8 millj. kr. þarf, til þess að þar verði haldið áfram. Áætlað er að bora niður á 1500–2000 metra dýpi, og sérfræðingar segja mér, að ekki sé að vænta annars en að þar sé nægilegt vatn.

Á Svartsengi í námunda við Grindavík var borað um s.l. áramót. Þar var árangur mjög góður. Þar eru tvær holur, 250 metra og 400 metra, og er þar mikill og öruggur hiti fyrir hendi. Það má virkja þar beint, og er áætlað, að virkjun þar kosti 30–40 millj. kr. Það er mjög mikilvægt fyrir staði eins og sjávarplássin að fá heitt vatn, bæði fyrir íbúa og starfsemi, þar sem fiskvinnsla er mjög mikil, og eru menu þar spenntir að fá lausn sinna mála. En það kemur að hinu sama: Spurningin er um fjármagnsútvegun og hagkvæm lán í því sambandi.

Í Hafnarfirði hefur lengi verið á döfinni undirbúningur að hitaveitu, og hefur þar starfað sérstök hitaveitunefnd lengi. Nokkur ágreiningur hefur verið í n., með hvaða hætti ætti að hita upp, hvort það ætti að vera rafmagn eða heitt vatn. Lengi hefur verið talað um Krýsuvíkursvæðið í því sambandi. Krýsuvíkursvæðið er á svokölluðu háhitasvæði, og verður ekki vatn þaðan tekið beint inn í kerfið. Það er of mikill brennisteinn í því. Hins vegar er gufa þar mikil og mætti hafa óbeina hitun, þannig að hitaorkan er notuð við hitun á venjulegu vatni. Vandamálið er fjármögnunin, en sú hitaveita mun kosta um eða yfir 300 millj., eftir því sem mér hefur verið tjáð.

Sama má segja um Garðahreppinn. Hann þarf og vill fá hitaveitu. Þeir hafa unnið að því þar og hér eru menn á hv. Alþ., sem vita betur um það mál. Tölurnar þar eru aðeins lægri en í Hafnarfirði.

Nýlega var kunngerður samningur, eftir að þessi till. var lögð fram, milli Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um lausn á hitaveitumálum hans, sem við Kópavogsbúar flestir erum ánægðir með. Reykjavíkurborg mun fjármagna þær framkvæmdir og Kópavogur fær heitt vatn á næstu þremur árum. Þegar hefur nokkur hluti hans fengið hitaveitu.

Lán hafa verið tekin í þessu skyni fyrir ýmis sveitarfélög. Seltjarnarneshreppur hefur t.d. fengið 30 millj. kr. á þessu ári úr Lánasjóði sveitarfélaga. Alls hefur sjóðurinn lánað 66 millj. á þessu ári, og hafa sex aðilar fengið lán úr sjóðnum á þessu ári: Seltjarnarneshreppur 30 millj. kr., Hvammstangahreppur 12 millj., Hveragerðishreppur 12 millj., Kópavogshreppur 10 millj., Dalvíkurhreppur 1 millj. og Skútustaðahreppur 1 millj. Ef árangur verður hins vegar af borunum í þeim sveitarfélögum, sem vonir standa til, að muni bora á næstunni, vantar örugglega fjármagn, sem er 600–800 millj., ef af virkjunarframkvæmdum á að verða á næstunni. Því vildum við hreyfa því máli hér á hv. Alþ., að það yrði gerð gangskör að því að tryggja þessum sveitarfélögum eðlileg stofnlán til framkvæmda, þannig að ekki þyrfti að standa á því, að hægt væri að leggja heitt vatn í viðkomandi byggðarlög. Húsavík réðst í hitaveitu á s.l. ári á stuttum tíma og með góðum árangri, og eru allir þar mjög ánægðir. Sama verður örugglega varðandi önnur sveitarfélög, er kost eiga á heitu vatni, en vantar til þess fjármagn. Á Álftanesi hafa verið gerðar tilraunaboranir, sem gefa ótvírætt í skyn, að þar sé heitt vatn, en hvort sem þar verður borað eða vatn fengið úr Krýsuvík eða frá Reykjavík handa Hafnarfirði og í Garðahverfið, er frumskilyrðið, að fjármagn verði tryggt, svo að vatnið verði hagnýtt í hreppunum og kaupstöðunum eins fljótt og hægt er að ná því upp, ella verður hagsæld ekki tryggð fyrir viðkomandi íbúa. Við höfum því leyft okkur að flytja þessa þáltill. og að svo mæltu legg ég til, að hlé verði gert á og tili. vísað til atvmn.