17.04.1973
Neðri deild: 96. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3715 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. landbn. lýsti nál. n. við 2. umr. hér rétt áðan. N. mælir með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Þegar hafa 2 nm., við hv. 2. þm. Norðurl. v., flutt tvær brtt. við frv. og kem ég að þeim síðar. Sú samstaða, sem náðist í n., á einvörðungu rætur sínar að rekja til þess, að frv. er nú mjög breytt frá því, sem það var fyrst lagt fram í hv. Ed. Hæstv. landbrh. og þingmeirihl. hefur fallizt á samkv. eindregnum óskum okkar sjálfstæðismanna að draga til baka þrjá síðustu kafla frv. og afgreiða einungis á þessu Alþingi 1. kafla þess. Ég mun því ekki á þessu stigi ræða þá kafla frv., sem nú hafa verið niður felldir, til þess mun nægur tími gefast síðar.

Það meginatriði, sem felst í þessu frv., eins og það nú er orðið, er bundið fjármögnun stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það er höfuðatriði þessa frv. að afla deildinni aukinna tekna og það með því að leggja fram aukið fjármagn úr ríkissjóði, sem nemur 21 millj. kr. árlega, lögfesta til 1980 hið svokallaða stofnlánadeildargjald, sem lagt hefur verið á framleiðslu bænda, og hækka álagt gjald á útsöluverð landbúnaðarvara úr 0,75% í 1%, enn fremur, að ríkissjóður skuli greiða jafnvirði þess fjár, sem innheimt er af búvöruframleiðslunni og útsöluverði landbúnaðarvara. Hér er farið að nokkru eða mestu leyti í sömu slóð og gert hefur verið, frá því að þessi lög voru sett 1962, og þó gengið nokkru lengra í álögum en fyrri ríkisstj. hafði gert.

Því þarf ekki að lýsa fremur en gert hefur verið fyrr í þessum umr., hver þörf það er fyrir stofnlánadeild landbúnaðarins að fá aukið fjármagn, aukið eigið ráðstöfunarfé. Að þessu hefur verið vikið af fyrri ræðumönnum, en ég vil þó vegna þeirra ummæla, sem hv. frsm. n., 4. þm. Norðurl. e., lét falla hér áðan, segja um þetta örfá orð.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið fullyrt, að fé mundi vanta til stofnlánadeildarinnar á þessu ári. Nú veit ég ekki til þess, að neinn hafi fullyrt um þetta út af fyrir sig. En eins og sakir standa, eru horfur á því, að stofnlánadeildin fái til ráðstöfunar á yfirstandandi ári um 420 millj. kr. Lánsumsóknir eru hins vegar eftir því sem að ég hef komizt næst, um 640 millj. kr. Þess vegna er ljóst, að miðað við þessar tölur vantar til þess að fullnægja lánsumsóknum um 220 millj. kr. Hér skal engu um það spáð hverjar verða framkvæmdir bænda á þessu ári, hvort tekst að framkvæma allt það, sem lánsumsóknir segja til um, að bændur hafi í hyggju. Það verður að koma á daginn. En ef svo færi, þá er ljóst, að þarna vantar mikið fé. Það eru einnig möguleikar á því, að hæstv. fjm-. og landbrh. kunni að útvega aukið fjármagn síðar á þessu ári. Um það hafa engar yfirlýsingar verið gefnar á þessu stigi, og um það skal ég ekkert fullyrða, en ástandið er sem sagt þannig, eins og nú standa sakir, að langt bil er á milli þeirra umsókna frá bændum og vinnslustöðvum landbúnaðarins, sem borizt hafa, og þess fjármagns, sem þegar er séð, að deildin hafi til ráðstöfunar. Það er því ekki undarlegt, þó að velt sé vöngum yfir því, hvort svo kynni að fara, að á þessu ári verði ekki hægt að fullnægja þeim lánsumsóknum, sem borizt hafa, ef framkvæmdir verða í samræmi við umsóknir.

Um fjármögnun deildarinnar að öðru leyti vil ég segja það, að við fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. Nd. höfum ákveðið að styðja þær till., sem felast í frv. um aukna fjármögnun, þótt það sé gefið í skyn, að verulegt átak sé gert til þess að bæta úr fjárskorti deildarinnar, þá er vert að vekja á því athygli, að þarna er ekki um neitt stökk að ræða. Ef litið er á það, hver hlutur eigin ráðstöfunarfjár var í útlánum á t.d. árinu 1968, þá var það 45,2%. Með því móti, að þetta frv. verði afgreitt eins og það liggur nú fyrir, má heita, að hlutur eigin ráðstöfunarfjár deildarinnar verði hinn sami í útlánum, ef svo fer, að framkvæmdir og lánsfjárþörf verða í samræmi við þær umsóknir, sem fyrir liggja. Þarna er því alls ekki um neitt stökk að ræða til þess að auka ráðstöfunarfé deildarinnar frá því, sem var fyrir fáum árum, en það hefur þó farið mjög niður á við nú hin síðustu ár, m.a. vegna þeirrar geigvænlegu verðbólguþróunar, sem geisað hefur, og vegna þess, hve byggingarvísitala hefur tekið stórkostleg stökk upp á við og það mun meira en almenn verðlagsþróun í landinu hefur gefið tilefni til. Einnig má vitaskuld benda á það, að fastaframlag ríkissjóðs hefur ekki farið hækkandi.

Í framhaldi af þessum umræðum um fjármögnun deildarinnar vil ég aðeins ítreka það, að við fulltrúar sjálfstæðismanna í landbn. munum styðja þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, og halda þannig við fyrri stefnu okkar sjálfstæðismanna, sem mörkuð var með lögunum 1962.

Það er auðvitað nokkuð freistandi að ræða það, hvað núv. hæstv, stjórnarflokkar virðast leggja mikið kapp á að afsanna flest það, sem þeir hafa sagt, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Verk núv. ríkisstj. í fjölmörgum málaflokkum virðast því marki brennd, að þau ganga í þveröfuga átt við það, sem oddvitar núv. ríkisstj. héldu fram, meðan þeir sjálfir voru í stjórnarandstöðu. Og ef þessi saga væri rakin; þá yrði það næsta brosleg saga. Hér skal ég ekki fara út í það að rekja þessa sögu, sem mætti segja um flesta málaflokka, sem á góma hefur borið í íslenzkum stjórnmálum, frá því að þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Ég get þó ekki á mér setið að minna á það, að þegar stofnlánadeildarlögin voru sett árið 1962, börðust talsmenn núv. stjórnarflokka og þá sérstaklega talsmenn Framsfl. harkalega gegn þeirri lagasetningu, og sú barátta var fyrst og fremst háð gegn þeirri fjármögnun, sem stofnlánadeildinni var séð fyrir með þeim lögum. Það má auðvitað vitna til þess, að við þær umr., sem fóru fram hér á hv. Alþ., þegar þessi lög voru sett, tóku fjölmargir þm. Framsfl. til máls og héldu langar ræður, þar sem þeir lýstu andstöðu flokksins við þessi ákvæði og töldu, að með þeim væri stefnt út í sérstakan voða fyrir landbúnaðinn. Ég ætla nú ekki að fara að rekja þessar umr., enda mundi það æra óstöðugan og væri hægt að sinna því nálega þangað til dagur rinni. En mig langar þó til þess að vitna til örfárra setninga, sem fram komu í þessum umr.

Ég lít svo á, að hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hafi um langt skeið verið einn galvaskasti málrófsmaður Framsfl., enda ekki að undra, þar sem að hann hefur verið meðal forustumanna þess flokks um áratugaskeið. Þessi hv. þm. komst m.a. svo að orði í umr. um stofnlánadeildarfrv. 1961 hér á Alþ., að með þessum aðförum, þ.e.a.s. að leggja stofnlánadeildargjaldið á búvöruframleiðsluna og þar með á bændastéttina, væri stefnunni í landbúnaðinum breytt stórkostlega. Hann sagði, að stefnan hlyti hreinlega að vera við það miðuð að draga stórkostlega úr uppbyggingu landbúnaðarins og beina uppbyggingunni í aðrar áttir. Hún væri við það miðuð að fækka bændum og brjóta niður sjálfstæða bændastétt. Hv. þm. sagði, að grátlegt væri að hugsa til þess, ef þessar aðfarir yrðu til þess, að jarðir legðust í eyði í stórvaxandi mæli.

Hv. 1. þm. Austf. talaði vissulega þarna mjög í sama dúr og margir aðrir þm. flokksins. En það er næsta broslegt, að þegar Framsfl. og þessir sömu hv. talsmenn hans komast í valdastóla, þá skuli það vera meðal fyrstu verka þeirra við breytingu löggjafar um landbúnaðarmálefni að framlengja þetta stofnlánadeildargjald í lögum og fella niður þau skerðingarákvæði, sem búið var að lögfesta og voru á þann veg, að stofnlánadeildargjaldið skyldi frá og með árinu 1976 lækka í áföngum og mást út. Þar með hafa þessir talsmenn og forustumenn Framsfl. sannað það, svo að ekki verður um villzt, að þau ummæli, sem þeir viðhöfðu um þetta efni á árinu 1961 og æ síðan, hafa verið hreinræktaður skrípaleikur og marklaus áróður, sem engin meining hefur verið með. Þannig hefur farið fyrir þessum hv. þm., hæstv. ráðherrum og stuðningsmönnum þeirra í fjölmörgum öðrum greinum.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf., sagði einnig um 0,75% álagið á söluvörur landbúnaðarins, að það væri ósæmilegt að leggja tolla á mjólk og kjöt. Nú er það væntanlega meining þessa hv. þm. og hæstv. ríkisstj., hæstv. landbrh. og annarra þm. Framsfl., sem fyrr á árum töluðu harðast gegn þessum ákvæðum, ekki einasta að viðhalda þessu í lögunum, heldur hækka þennan toll, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson kallaði svo, úr 0,95% upp í 1%. Þannig voru nú heilindin í þeim málflutningi. Það má og minna á það, að í þessum málflutningi hv. framsóknarmanna 1961 vitnuðu þeir títt til samþykkta búnaðarþings og ýmissa mótmælasamþykkta bændafunda úti á landi. Nú er svo komið, að þessir hv. þm. og hæstv. ríkisstj. hirða ekki um að leggja frv. sem þetta fyrir búnaðarþing eða skjóta því á nokkurn hátt til bændasamtakanna. Þrátt fyrir það hefur núv. hæstv. landbrh. margsinnis lýst því yfir í mín eyru, að hann vilji hafa sem nánast samstarf við bændasamtökin um stefnumörkun í landbúnaðarmálum og hann vilji fara að vilja þeirra helzt í einu og öllu. Nú er hins vegar ekki hirt um að bera þetta undir þessi sömu samtök.

Hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni við 1. umr. að ekkert vopn væri eins sterkt í stefnumótun við uppbyggingu landbúnaðarins og lánveitingar. Ég hygg, að þetta sé nokkuð sannmæli. Þess vegna er það enn ein höfuðforsenda þess, að

mikil uppbygging og framkvæmdir verði í landbúnaði, að þannig sé búið að lánasjóðum landbúnaðarins, að unnt sé að veita framkvæmdalán til að örva bændur til framfara. Þetta er þveröfugt við það, sem þessi hæstv. ráðh. og fleiri flokksbræður hans sögðu þegar stofnlánadeildarlögin voru sett 1962. Þá var, eins og ég þegar hef lýst, tónninn sá, að með þessu fyrirkomulagi, með fjáröflun til stofnlánadeildar landbúnaðarins og eflingu hennar, væri verið að grafa undan bændastéttinni, brjóta niður sjálfstæða bændastétt og fækka bændum. Þannig fór um sjóferð þá. Og þetta er sannarlega ekkert einsdæmi, eins og ég þegar hef að vikið, og það mun gefast tími til þess seinna að sýna fram á, að gerðir þessarar hæstv. ríkisstj. í fjölmörgum öðrum málaflokkum hafa verið algerlega í samræmi við þetta. Þeir hafa framkvæmt flest það, sem þeir fordæmdu harðast áður. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta atriði. Ég taldi nauðsynlegt að vekja nokkra athygli á þessari málsmeðferð og hversu núv. talsmenn þessa frv. og þingmeirihl. hefur gersamlega ómerkt öll sín fyrri ummæli um uppbyggingu stofnlánadeildarinnar og fjáröflun til hennar. Það var enda sagt í þeim umr. af hv. 1. þm. Sunnl., að framsóknarmenn hefðu snúizt gegn málinu á þeim tíma gegn betri vitund, gegn sannfæringu sinni, og þessi orð hv. 1. þm. Sunnl. hafa sannazt, eins og svo mörg önnur orð, sem sá hv. þm. hefur látið sér um munn fara.

Ég vil aðeins í sambandi við önnur ákvæði þessa frv. eins og það liggur nú fyrir, víkja að þeim brtt., sem við hv. 2. þm. Norðurl. v. flytjum á þskj. 780. Þær till. miða að því að fella niður tvær breytingar, sem fyrirhugað er að lögleiða með þessu frv. nú á þessum síðasta degi Alþ. Í fyrsta lagi eru það breytingar, sem fyrirhugað er að lögfesta samkv. þessu frv. á útlánareglum stofnlánadeildarinnar. Þar segir svo í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Lánareglur deildarinnar skulu miðaðar við það, að bændur, sem hafa minna en verðlagsgrundvallarbú, en hafa möguleika til að ná aukinni hagkvæmni með stækkun búanna, njóti hagkvæmustu lánakjara til umbóta á jörðum sínum að því marki, að náð sé bústærð, sem svarar 11/2 verðlagsgrundvallarbúi, eins og það er á hverjum tíma.“ Enn fremur segir í 4. málsgr.: „Nú hefur bóndi stærra bú en sem svarar 11/2 verðlagsgrundvallarbúi eða sækir um lán til framkvæmda, sem svara til stærra bús. og er þá heimilt að skipta lánum til viðkomandi framkvæmda þannig. að hluti þeirra sé með öðrum kjörum eða lægri hundraðshluti verði veittur út á framkvæmdina.“

Með þessum ákvæðum er stefnt að því. að bændur, sem vilja byggja stærri peningshús en sem svarar fyrir bústofn 11/2 verðl.grv.bús, fái verri lánskjör en þeir, sem byggja fyrir minni bústofn.

Nú sagði hv. frsm. n., 4. þm. Norðurl. e., áðan, að það væri mun dýrara að byggja litlar byggingar en stórar og það svo, að í 24 kúa fjósi væri básinn 25% dýrari en í 48 kúa fjósi, og í 12 kúa fjósi væri básinn 40% dýrari en í 48 kúa fjósi. þetta sannar okkur, að ef stefnt er til aukinnar hagkvæmni í landb. og um leið fyrir þjóðarheildina, þá er hyggilegt að örva til þess að byggja fremur stærri byggingar en smáar. Það er enn fremur vitað með nokkurri vissu, enda þótt óyggjandi rannsóknir hafi ekki farið fram, að bú með einhliða búrekstri, sem byggja á einni búgrein að meginstofni, veita meiri hagkvæmni en blönduð bú. Þess vegna er hyggilegt að haga svo landbúnaðarstefnunni að örva til meiri verkaskiptingar í landbúnaðarframleiðslunni og forðast að beita lánareglum og ríkisframlögum, þannig, að með þeim myndist eins konar þröskuldur fyrir framfarir í landbúnaði.

Það var reyndar svo, þegar stofnlánadeildarlögunum var síðast breytt og ný lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum voru sett 1971, að þá voru felld niður þau mörk, sem áður höfðu takmarkað styrkveitingar út á ræktun eftir stærð ræktunarlanda. Þetta var gert vegna þess, að þessar takmarkanir höfðu leitt til þess, að farið var í kringum ákvæðin, jörðum var skipt, svo að til óhagræðis leiddi. og það mátti líta svo á auk þess, að þetta verkaði sem hemill á eðlilegar framfarir.

Ég lít svo á, að það sé mjög óhyggilegt að móta þannig lánareglur og binda í lögum, að það sé gert ráð fyrir því. að þeir, sem eru duglegustu bændurnir, og þeir, sem búi á beztu jörðunum, fái lakari kjör en aðrir. Ég viðurkenni hins vegar, að þörf kann að vera á því að spyrna nokkuð við fótum. að jarðir séu ekki um of yfirbyggðar, eins og kallað er, þannig að á kostarýrum jörðum, sem ekki veita möguleika til mikillar framleiðslu, verði ekki veitt lán til stærri bygginga en svo, að þær rúmi þann bústofn, er jörðin getur framleitt. Þetta mál er allt annað og er ekki bundið neinum mörkum, er ákvarðast af verðl.grundvallarbúi, heldur verður að ákvarðast af kostum hverrar jarðar fyrir sig. eins og hún er frá. náttúrunnar hendi, og því, hvernig unnt er að bæta búskaparaðstöðu hennar. Og það er sú stefna. sem mörkuð var með stofnlánadeildarlögunum 1971. að reyna að haga svo stefnunni í þessum málum, að kostir hverrar jarðar fengju notið sín og að reynt væri að örva bændur til framfara til samræmis við það. Í samræmi við þessa skoðun. sem ég hef hér lýst. hófum við hv. 2. þm. Norðurl. v.. flutt brtt. á þskj. 780 um það, að 2. og 4. málsgr. 6. gr. falli niður.

Við 9. gr. frv. flytjum við brtt., sem lýtur að sama efni og er um það, að niður falli málsgr., sem kveður á um heimildir til mishárra vaxta af lánum til sömu framkvæmda eftir bústærð.

Þá flytjum við tvær brtt. Í fyrsta lagi við 2. tölul. 5. gr., sem hljóðar svo í frv., með leyfi forseta: „Til nýbygginga og endurbyggingar íbúðarhúsa á lögbýlum.“ Brtt. felur í sér að breyta þessu í: „Til nýbygginga og endurbyggingar íbúðarhúsa á sveitabýlum.“

Nú kann einhver að ætla, að þarna sé ekki mikill munur á. en hann er þó nokkur. Það hefur tíðkazt nú hin síðari ár. að viðurkennd hafa verið af landnámi ríkisins svokölluð smábýli. þjónustubýli og jafnvel iðnaðarbýli í sveitum landsins, og þessi býli hafa fengið lán til íbúðarhúsa úr stofnlánadeild landbúnaðarins og hafa raunar ekki átt í annað hús að venda. Ef frv. er samþ. í því formi, sem það er, þá fer það þannig, að þeir menn. sem vilja byggja úti í sveit. t.d. ráðunautar eða menn, sem annast aðra þjónustu fyrir landbúnaðinn, t.d. reka vélaverkstæði, aka mjólkurbíl eða þess háttar, fá ekki lengur lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins, vegna þess að þeir búa ekki á lögbýlum. Húsnæðismálastofnun ríkisins lánar ekki til íbúðarhúsa í sveitum, og þeir eru þess vegna knúðir til þess að byggja í þéttbýli. Við hv. 2. þm. Norðurl. v., Gunnar Gíslason, lítum svo á, að það sé rangt að útiloka með lagasetningu, að þessir menn geti áfram byggt í sveitum landsins. Þeir hafa styrkt sveitirnar og verið góðir gjaldþegnar sinna sveitarfélaga, og við þá staðreynd er miðuð sú brtt. að breyta orðinu „lögbýlum“ í „sveitabýlum“.

Sömu sögu er að segja um síðustu brtt. á þskj. 780, við 12. gr. Þar leggjum við til, að breytt verði orðinu „lögbýlum“ einnig í orðið „sveitabýlum“.

Þessar litlu brtt., sem við fulltrúar Sjálfstfl. í hv. landbn. Nd. flytjum, raska ekki í neinu uppbyggingu þessa frv., og stofnlánadeildinni kemur það á engan hátt illa, þó að þær verði samþykktar.

Það liggur fyrir yfirlýsing um það frá hæstv. ráðh. að þess sé að vænta, að endurflutt verði frv. á næsta Alþ., sem hér hafa verið lögð fram sem fylgifrv. þessa frv., og ef hæstv. ráðh. óskar þess að endurflytja frv. til nýrra stofnlánadeildarlaga með þeim ákvæðum, sem við leggjum til, að nú verði felld niður, þá gefst vitaskuld nægur tími til þess að leggja þessi atriði undir dóm samtaka landbúnaðarins, leggja þau fyrir búnaðarþing og aðra fundi í samtökum bænda. Það væri í samræmi við yfirlýsta stefnu hæstv. ráðh. og það væri í samræmi við venju fyrirrennara hans í sæti lbrh. Enda þótt ekki hafi alltaf verið farið eftir þeim samþykktum, sem gerðar hafa verið á búnaðarþingi, hefur það verið venja við alla stefnumörkun í löggjöf um landbúnaðarmálefni, að málin væru lögð undir dóm samtaka bænda, áður en þau fengju afgreiðslu Alþ. Þess vegna vil ég vænta þess, að hæstv. ráðh. geti á það fallizt og meiri hl. Alþ., að þessar brtt. okkar fulltrúa Sjálfstfl. í landbn. verði nú samþ. Það gefst, eins og ég hef þegar sagt, nægur tími til þess að taka þær upp síðar, ef það þykir henta.

Ég hygg, að ekki sé ástæða fyrir mig að hafa um þetta fleiri orð. Ég get aðeins sagt það út af þeirri brtt., sem hv. 12. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, hefur flutt, að í samræmi við þær yfirlýsingar, sem við fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. höfum gefið um stuðning okkar við fjármögnun stofnlánadeildar, munum við ekki greiða þeirri till. atkv.