17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3724 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

306. mál, radíóstaðsetningartæki skipa

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þann 18. apríl 1967 var samþ. á Alþ. þál. till., sem við fluttum nokkrir þm. Sjálfstfl. fyrir forgöngu þáverandi fiskimálastjóra Davíðs Ólafssonar. Hún hljóðar svo:

Alþ. ályktar að fela ríkistj. að skipa n. sérfræðinga til að gera athugun og till. um radíóstaðsetningarkerfi fyrir siglingar við Ísland með sérstöku tilliti til fiskveiða.“

Um langa hríð heyrðist ekkert frá störfum þessarar n. En snemma árs 1969 flutti ég samhljóða fsp. og ég flyt nú. 5. marz svaraði þáv. hæstv. sjútvrh. þessari fyrirspurn, og voru efnisleg svör hans á þá leið, að sama ár og hún var samþykkt, eða 22. maí, hefði ráðh. skipað þriggja manna n. til þessarar athugunar. Ráðh. skýrði frá því, að störfum væri langt komið og álit n. væntanlegt innan tveggja mánaða, að sögn formanns. Það kom enn fremur fram í svari ráðh., að n. hefði kannað, hvaða kosta væri völ varðandi slík kerfi, hver væru almennt notuð erlendis. Þessir umræddu tveir mánuðir liðu, án þess að álit n. sæi dagsins ljós, og enn hef ég ekki séð niðurstöður hennar, og eru þó 4 ár liðin frá fsp. minni.

Þegar alvarlega var farið að ræða um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, vakti ég margoft athygli á nauðsyn slíks kerfis hér á landi, ekki aðeins til að auðvelda gæzluskipum töku landhelgisbrjóta, heldur einnig til að auðvelda fiskiskipum staðsetningu, svo að þau brytu ekki lög og reglur um friðun veiðisvæða og bann við ákveðnum veiðum. Síðast, en ekki sízt væru staðsetningartæki stórkostlega hagkvæm fiskiflotanum vegna staðsetningar skipa á þröngum veiðisvæðum, t.d. ef um hraunbotn er að ræða allt um kring. Má með notkun slíkra kerfa við slíkar aðstæður spara stórfé með betri nýtingu tíma, veiðarfæra og skips.

Áður en Norðmenn settu upp sínar 6 staðsetningarkeðjur á árunum 1967-1968, gerðu þeir umfangsmiklar rannsóknir. 1960 hóf stjórnskipuð n. könnun á leiðum og þörf til að setja upp slíkt kerfi fyrir fiskimenn og aðra notendur slíkra tækja, eins og sagði í skipunarbréfinu. En aðrir notendur eru að sjálfsögðu allir sæfarar svo og flugmenn. En sérstök áherzla var lögð á staðsetningartæki fyrir fiskveiðiflotann, enda var það forsenda rannsóknarinnar. Þessi norska nefnd skilaði einróma áliti í júní 1961, og var þar mælt með 4 höfuðþáttum væntanlegrar framkvæmdar. N. var þeirrar skoðunar, að uppsetning Decca-stöðva í Noregi mundi hleypa nýju blóði í sjávarútveginn og þörf slíkra staðsetningartækja væri knýjandi nauðsyn. Þessi skýrsla var talin sérlega merkileg, enda unnin á breiðum vísindalegum grundvelli, og þykja koma fram í henni víða mjög skarplegar athugasemdir. Við skipulagningu og könnun á uppsetningu slíkra stöðva í Perú var norska skýrslan lögð til grundvallar rannsóknum þar. Í Noregi voru þarfir eftirtalinna aðila kannaðar mjög gaumgæfilega: fiskiflotans, landhelgisgæzlunnar, sjómælingastofnunarinnar, hafrannsóknanna, björgunarþjónustunnar, heimskautastofnunarinnar, norska flotans og einnig verzlunarflotans og fyrir flugið. N. komst að þeirri niðurstöðu, að með nákvæmari staðarákvörðunartækjum mundi nýting landgrunnsins verða margfalt betri, einkum á ytri brúnum landgrunnsins, þar .sem sérstök skilyrði í sjónum vegna seltu, hitastigs og strauma skapa fiskisæld, og svo á þröngum veiðisvæðum á sjálfu landgrunninu, sérstaklega á blettum með góðum botni umgirtum steinum og festum, eins og ég sagði áðan. Þá gerði n. áætlun um betri afkomu meðal togskipa af stærðinni 250-300 tonn vegna betri staðarákvörðunartækja. Var miðað við 200 úthaldsdaga og reyndist verðmætisaukningin 18%.

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðh. er í tveim liðum. Fyrri liðurinn hljóðar á þessa leið :

„Hvað líður framkvæmd þál. um athugun á radíóstaðsetningarkerfi fyrir siglingar með sérstöku tilliti til fiskveiða, sem samþykkt var í Sþ. 18. apríl 1967?“

Og síðari liðurinn:

„Hefur nokkur ákvörðun verið tekin um að setja slíkt kerfi upp hér á landi, annað en Lorankerfið?“