17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3727 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

211. mál, flugvallargerð við Seyðisfjörð

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Mér var fljótt eftir að ég tók við mínu starfi í samgrn., ljóst, að einn þeirra staða á Austfjörðum, sem ekki hafði neinn sjúkraflugvöll, væri Seyðisfjörður, og þar hefði staðið í vegi, að tæpast væri hægt að finna þar undirlendisræmu, sem fullnægði þeim skilyrðum, sem gera yrði til flugvallar á staðnum. Ég gerði því för mína þangað austur og gekk með staðkunnugum mönnum þar á þær slóðir, sem helzt væri að leita að slíku landssvæði, og kom þá í ljós, að þar var helzt um 2 staði að ræða. Annar var í einkaeign, og var sett upp geysilega hátt verð fyrir. Hann útilokaðist þegar af þeirri ástæðu, að flugmálastjórnin hefur ekki viljað eyða takmörkuðu fé sínu til flugvallagerða í að kaupa land undir slík mannvirki. Og þá var; að þessu frágengnu, litið á annan stað og komizt að þeirri niðurstöðu, að þar mundi vera fært að gera sjúkraflugvöll með sæmilegri aðflugsaðstöðu. Svarið við þessari fsp. er í sem stytztu máli á þessa leið:

Árið 1971 og aftur s.l. sumar var rannsakað hvort stæði fyrir flugbraut væri finnanlegt við Seyðisfjörð. Varð niðurstaðan sú, að helzt kæmi til greina staður í landi jarðarinnar Þórarinsstaða, sem nú eru í eyði, utarlega við fjörðinn sunnanverðan. Annar staður, sem til greina kom, var á svonefndum Hánefsstaðaeyrum niðri við sjóinn. Þar var unnt að koma fyrir allt að 1300 metra langri braut. Hins vegar var það land í einkaeign, og upplýsingar um landverð á þeim slóðum bentu til þess, að land undir flugbrautina yrði mjög dýrt. Þórarinsstaðaland er hins vegar í eigu Seyðisfjarðarkaupstaðar, og var því horfið að hönnun brautar þar, en 900 metra braut er talin nauðsynleg brautarlengd, og sú brautarlengd kemst þar fyrir. Ólafur Pálsson, verkfræðingur hefur hannað brautina, og barst samgrn. skýrsla hans 22. f.m. Er gert ráð fyrir því að byggja nú fyrst í stað 600 metra braut í fyrri áfanga, og er heildarkostnaður við þann hluta brautarinnar áætlaður 5,2 millj. kr. Síðari áfangi er hlutfallslega dýrari vegna mikillar fyllingar í gili utan við enda fyrri áfangans, enda þótt stutt sé að sækja fyllingarefnið. Í þeim áfanga er einnig áætlaður kostnaður vegna flugskýlis í sambandi við brautina. Það er ekki gerð grein fyrir greiðslum fyrir land undir brautina eða efnistöku þar, sem hvort tveggja er í landi kaupstaðarins. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það enn, hvenær byrjað verður á verkinu, enda er kostnaðaráætlunin nýgerð, eins og fyrr segir, og málið hefur verið til athugunar fram að þessu. Til sjúkraflugvallagerða um land allt eru

nú til ráðstöfunar á árinu 1973 7 millj. kr., og auk þess er óráðstafað 4,4 millj. kr. af fé til flugvallaframkvæmda. Af þessu er ljóst, að það fé hrekkur skammt og naumast hægt að verja nærri því helmingi þess fjár til eins staðar. En þó verður kannað, hvort unnt sé að byrja á fyrri hluta framkvæmdarinnar á Seyðisfirði á þessu ári, og til þess liggur fyllsti vilji flugmálastjórnar og rn.

Ég hygg, að fullyrða megi á þessari stundu, að Seyðfirðingum verði heimilað að hefja byggingarframkvæmdirnar á flugbrautinni á þessu ári. En aðalvandinn var sá að finna land undir flugbrautina, og það vafðist fyrir fyrirrennara mínum og mér, þangað til ég fór á staðinn.