17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3728 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

211. mál, flugvallargerð við Seyðisfjörð

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svar. Að vísu var töluverð sveifla á því, því að hann benti á, að mjög lítið fé væri til ráðstöfunar til byggingar sjúkraflugvalla, það væri einvörðungu um 7 millj. að tefla, auk þess sem óráðstafað væri um 4,4 millj., og taldi þess vegna vafasamt, hvort hægt væri að verja nálega helmingnum af þessu fé til eins staðar. Að því leyti var svar hans ofurlítið neikvætt. Hins vegar bætti hann um betur, þegar hann tók fram, að það væri fyllsti vilji fyrir því í rn. og hjá flugmálastjórn að hefjast handa um þetta verk. Í trausti þess, að þeim vilja verði fylgt eftir með framkvæmdum, þakka ég svörin.