17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

308. mál, olíumöl

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Svar við fsp. sem þessum byggjast að sjálfsögðu á rannsóknum. Það var spurt um kerfisbundna leit að nothæfu efni í olíumöl o. fl.

Í 1. lið fsp. segir: „Hvað líður framkvæmd þál. frá 18. maí 1972 um kerfisbundna leit að nothæfu efni í olíumöl?"

Vegamálastjórinn gefur þetta svar:

„Með bréfi, dags. 22. júní s.l., fól samgrh. vegamálastjóra að annast framkvæmd þál. um kerfisbundna leit að nothæfu efni í olíumöl, sem samþ. var á Alþ. hinn 18. maí 1972. Í byrjun júlí s.l. fól vegamálastjóri Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins að hefja þá þegar kerfisbundna leit að nothæfu efni í olíumöl, sem þál. gerði ráð fyrir, jafnhliða yfirlitsrannsóknum á steinefnum, sem stofnunin hefur unnið að undanfarin ár. Þessum rannsóknum á nothæfu efni í olíumöl var á s.l. ári aðallega beint að Vestfjörðum og Austfjörðum. Þessum rannsóknum er enn ekki lokið, og er enn eftir að taka fyrir nokkur svæði, einkum á Norðurlandi og Vesturlandi. Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins hefur gert bráðabirgðayfirlit um þá 65 staði á landinu, sem rannsóknir hafa beinzt að til þessa, og er áætlað, að þessum yfirlitsrannsóknum verði lokið á yfirstandandi ári. Samkv. bráðabirgðayfirliti þessu eru niðurstöður að sjálfsögðu mjög breytilegar. Mestum vonbrigðum hefur þó valdið, að mjög neikvæðar niðurstöður hafa fengizt við rannsókn á olíumalarefnum bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Rannsóknum á þessum efnum er þó enn haldið áfram og leitað orsaka og aðferða til að bæta efnin, t.d. með þvotti.“ Þetta var svarið við 1. lið.

Þá er það 2. liður: „Hve margir kaflar, 2 km eða lengri, eru tilbúnir til lagningar olíumalar eða annars bundins slitlags á þjóðvegum landsins?“ Og í þriðja lagi: „Hvar eru þessir vegakaflar, og hver er samanlögð lengd þeirra?“

Það er engin leið að gera sér ljósa grein fyrir fjölda allra kafla í þjóðvegakerfinu, sem eru 2 km eða lengri og tilbúnir eða því sem næst til þess að leggja á þá olíumöl eða segja til nákvæmlega, hvar þeir eru. Búast má þó við, að flestir þeir vegakaflar, sem lagðir hafa verið síðustu 3–6 árin, gætu fallið í þennan flokk, svo og fjölmargir aðrir vegakaflar, sem eldri eru. Það er þó allsendis óvíst, að sumir þessara gömlu vegakafla falli inn í framtíðarlegu vega á viðkomandi stað. Og þá er ekki síður mikil óvissa um hagkvæmni þess að leggja olíumöl á þessa vegarkafla, bæði yngri og eldri, þar sem flestir þeirra hafa mjög litla umferð, 100—200 bílar á dag, og aðeins örfáir þeirra eru í flokki hraðbrauta samkv. vegáætluninni.

Þeirri kerfisbundnu leit, sem um var spurt, og rannsóknum, sem nauðsynlegar voru til þess að geta kannað þessi málsatriði, er enn þá haldið áfram. Fullnaðarniðurstöður liggja ekki fyrir, en ég hygg þó, að í þessu svari liggi þær upplýsingar, sem unnt er að gefa eins og stendur.