17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

310. mál, lögn háspennulínu frá Sigölduvirkjun til Norðurlands

Sjútvrh. (Lúðvik Jósepsson):

Herra forseti. Mér hafa borizt þessi svör frá iðnrn. varðandi þær fsp., sem hér eru á dagskrá:

Að sjálfsögðu verður að reikna með varaafli í stærstu þéttbýliskjörnum norðanlands eða í grennd þeirra. Slíkt varaafl er nauðsynlegt, án tillits til þess, á hvern hátt raforkunnar er aflað. Varaaflsþörfin er nokkuð mismunandi á mismunandi stigum í uppbyggingu raforkukerfisins á Norður- og Suðurlandi. Áætlun um varaaflsþörfina á því stigi, þegar einungis ein lína liggur um hálendið milli Norður- og Suðurlands og áður en stórar virkjanir hafa verið reistar norðanlands, verður að sjálfsögðu einn hluti áætlunarinnar um línulögnina.

Eðlilegt verður að teljast, að sá aðili, sem í framtíðinni sér um öflun raforku á Norðurlandi, reisi og reki varaaflsstöðvarnar þar, og á þessar stöðvar ber að líta sem hluta af raforkuöflunarkerfi Norðurlands, á sama hátt og varastöðin við Elliðaár og gasaflsstöð í Straumsvík er hluti af samsvarandi kerfi á Suðurlandi.

Tilvist varaaflsstöðvar á Norðurlandi breytir engu um ákvörðunina um sama heildsöluverð norðanlands og sunnanlands.

Og hér er til viðbótar:

Nú er af kappi unnið að undirbúningi línunnar milli Norður- og Suðurlands, þ.á.m, að frumhönnun og kostnaðarsamanburði mismunandi línugerða. Þessum athugunum er enn ekki lokið og því ekki að svo stöddu unnt að nefna kostnaðartölur umfram það, að lausleg áætlun gerir ráð fyrir 250 millj. kr. fyrir 130 kv. línu, að verulegu leyti á tréstaurum, og 600 millj. kr. fyrir 220 kv. línu, alla á stálmöstrum.

Þetta eru algerar bráðabirgðatölur. Vonir standa til, að áreiðanlegri tölur verði fáanlegar nú með vorinu. Áætlunin tekur einnig til tímasetningar framkvæmda, og því er ekki heldur á þessu stigi máls unnt að tilgreina, hvenær línan yrði tilbúin, en áætlunin er við það miðuð, að tíminn þangað til verði eins stuttur og frekast er kostur og að framkvæmdir geti hafizt á næsta ári.

Rannsókn sú, sem nú fer fram á línustæði yfir hálendið, er hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Allar línur, sem hingað til hafa verið lagðar hér á landi, stórar og smáar, hafa verið lagðar án rannsókna af því tagi, sem hér um ræðir.

Að rannsókn þessi fer fram, er vottur um það, hversu mikilvæg lína þessi er talin. Niðurstöður þessarar rannsóknar til þessa eru í stuttu máli á þá lund, að ekki sé ástæða til að ætla annað en að finna megi línustæði yfir hálendið, er sé veðurfarslega ekki til muna örðugra en sumar þær leiðir yfir fjöll, sem háspennulínur liggja nú um.

Það þykir einsýnt að gera hærri hönnunarkröfur fyrir þessa línu en flestar aðrar linur, sem hér hafa verið lagðar, bæði vegna mikilvægis hennar og eins vegna þess, um hversu langan veg hún liggur í óbyggðum. Verður í því efni höfð hliðsjón af norskum línum um fjallendi, er svipaðar mega teljast að mikilvægi, en að sjálfsögðu miðað við niðurstöður athugana á línuleiðum og almenna vitneskju um það, í hverju íslenzkar aðstæður helzt víkja frá norskum.

Ákvörðun um tengingu Norðurlands og Suðurlands er ekki tekin í þeim tilgangi einum að sjá með því Norðurlandi fyrir raforku að sunnan í stað virkjunar á Norðurlandi. Þessi ákvörðun hefur það fyrst og fremst sem markmið að vera undirstaða þeirrar aðstöðujöfnunar í raforkumálum milli landshluta, sem ríkisstj. hefur tekið upp í stefnuskrá sína. Þessi aðstöðujöfnun tekur bæði til raforkuverðs í heildsölu og til möguleika á hagkvæmri nýtingu virkjunarvalkosta. Með tengingu Norðurlands og Suðurlands breytist öll aðstaða til virkjana á Norðurlandi til hins betra, eins og oft hefur verið bent á. Nú vinnur Orkustofnunin einmitt að rannsóknum á mörgum virkjunaraðstöðum á Norðurlandi með hliðsjón af þeim nýju viðhorfum, sem skapast við tenginguna. Af þessu má sjá, að línulögnin milli Norður- og Suðurlands hefur margs konar tilgang. Af því leiðir, að ekki er rétt að bera stofnkostnað tengilínunnar saman við aðeins eitt af markmiðum, þ.e. að flytja raforku að sunnan norður yfir á vissum tímum. Línulögnina ber að skoða sem lið í viðtækari aðgerðum og meta stofnkostnaðinn í samræmi við það.

Eins og margsinnis hefur verið lýst yfir, er það stefna núv. ríkisstj. að koma á sama heildsöluverði á raforku í öllum landshlutum. Í samræmi við það mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að sama heildsöluverð verði á raforku á Akureyri og á öðrum heildsölustöðum norðanlands eins og á Suðurlandi á hverjum tíma, eftir að landshlutar þessir hafa verið tengdir saman.

Þessar ráðstafanir eru liður í þeirri endurskipulagningu raforkumála, er iðnrn. vinnur nú að. Eins og hér að framan hefur verið vikið að, ber ekki að skoða línulögnina milli Norður- og Suðurlands sem einangrað mannvirki, heldur í tengslum við annað, sem lið í langtíma ráðstöfunum til aðstöðujöfnunar milli landshluta í raforkuverðlagi og virkjunarmöguleikum. Að frátalinni Laxá, sem ákvörðun hefur verið tekin um, að ekki verði virkjuð frekar en orðið er, er litið um hagkvæmar virkjanir á Norðurlandi, ef miðað er við heimamarkaðinn einan. Hins vegar er þar mikið um hugsanlegar virkjanir, er henta mundu samtengdu kerfi Norður- og Suðurlands. Orkustofnunin vinnur nú einmitt að rannsóknum á þessum möguleikum. Þessir möguleikar eru m.a. við Dettifoss, við Kröflu, við Skjálfandafljót, í Jökulsá eystri og vestri og í Blöndu.

Ég sleppi því að lesa ýmislegt nánar útfært um þetta, sé ekki, að tími sé til þess, en vænti, að þessi grg. frá iðnrn. uppfylli í meginatriðum óskir fyrirspyrjanda um upplýsingar varðandi málið.