17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3737 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

312. mál, endurskoðun á loftferðalögum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi las hér þá þál., sem liggur til grundvallar fsp. Ég taldi ástæðulaust að setja nokkra sérfræðinganefnd til þess að kanna þetta mál, en taldi einsætt, að leita bæri til þess manns, sem er aðalhöfundur loftferðalaganna, en það er Gizur Bergsteinsson fyrrv. hæstaréttardómari, og kveðja hann til að athuga þetta mál ásamt Kristni Gunnarssyni lögfræðingi, fulltrúa í samgrn. Það svar, sem hér er gefið við þessari fsp., er því frá Gizuri Bergsteinssyni fyrst og fremst og Kristni Gunnarssyni lögfræðingi með honum. Þeir segja á þessa leið í tilefni af fsp.:

Við höfum haft til athugunar þál. frá 8. febr. 1972 um endurskoðun á l. nr. 34 1964, um loftferðir. Frv. til nefndra laga var lagt fram á Alþ. 1963. Því fylgdi all ítarlegt skýringarrit, þar sem gerð var grein fyrir því, að nútíma loftréttur er í eðli sínu alþjóðlegur eigi síður en þjóðlegur. Eru þannig milliríkjasamningar grundvallaratriði hans. Grundvöllur íslenzkra lagareglna um loftflutninga er alþjóðasamningur um loftflutninga, sem undirritaður var í Varsjá hinn 12. okt. 1929, með þeim breytingum, sem á honum voru gerðar með sáttmálaauka gerðum í Haag hinn 28. sept. 1955. Milliríkjasamningur þessi hefur lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 41 frá 1949 og lög nr. 46 frá 1956. Hann telst eftir ákvæðum sínum gilda um loftflutninga milli landa, og er í samningnum nánar tilgreint gildissvið hans.

Nauðsyn ber hins vegar til að samræma reglur loftflutninga innanlands og milli landa. Að dæmi annarra ríkja voru þess vegna ákvæði IX. kafla l. nr. 31 frá 1964, um loftferðir, sniðin eftir ákvæðum Varsjársáttmálans og sáttmálaaukans svo sem nánar er rakið í nefndu skýringarriti. Var þá við það miðað, að ákvæði laganna henti bæði innanlandsloftferðum og milliríkjaloftferðum. Undantekningarákvæði 130. gr. veita þó heimild til að beita einfaldari reglum um farseðla, farangursmiða og flugfarmbréf í loftferðum, sem einungis fara fram á íslenzku yfirráðasvæði.

III. kafli Varsjársáttmálans ber yfirskriftina „ábyrgð flytjanda“. Um ábyrgð flytjanda fjalla ákvæði 113.—126. gr. l. nr. 34 frá 1964. Í skýringarriti því, sem fylgdi lagafrv. á sínum tíma, segir: „Flytjandi er hver sá, sem tekst loftflutninga á hendur með samningi eða samningsígildi og framkvæmir hann á sinn kostnað“. Eigi er skilyrði, að flytjandi sé eigandi loftfars þess, sem hann notar. Orð á erlendum málum, sem tákna það sama og flytjandi, eru carrier, transporteur, luftfragtführer. Orðið carrier er notað bæði í milliríkjasamningum, svo sem Varsjársamningnum, og innanlandslögum, og er dómstólum og fræðimönnum fengið það verkefni að hnitmiða innihald orðsins carrier í ensku og samsvarandi orða í öðrum málum, þá er því er að skipta. Ekkert orð í lagamáli er svo einskorðað að merkingu, að það þarfnist ekki nánari skýringar í einstökum tilvikum, þegar leggja skal dóm á mál. Er fráleitt að hrófla við lagatextanum um ábyrgð flytjanda, sem saminn er í samræmi við milliríkjasamninga og erlend lög, er gengið hafa í gegnum hverja prófraunina á fætur annarri.

Í þál. er talað um, að setja þurfi reglur um ábyrgð eiganda flugvéla gagnvart flugmönnum. Virðist hér vera átt við reglur, sem herði ábyrgðina frá því, sem nú er. Við erum tilbúnir að kanna till., sem okkur kunna að berast um þetta efni. Í 137. gr. 3. og 4. mgr. loftferðalaga segir svo:e

„Rétt er flugmálaráðh. að kveða á um vátryggingu eða aðra tryggingu gegn tjóni á mönnum eða hlutum í loftfari eða við för eða flutning þeirra í loftfar eða úr því og svo gegn tjóni á innrituðum farangri og varningi, meðan flytjandi ber ábyrgð á honum samkv. IX. kafla.

Flugmálaráðh. er rétt að setja nánari reglur um vátryggingu eða tryggingu, þ.á.m. um afleiðingar þess, að vátryggingu eða tryggingu er eigi haldið í gildi“.

Við teljum rétt, að settar séu miklu ítarlegri reglur um vátryggingu vegna loftferða en gert hefur verið með reglum nr. 116 frá 1965. Þyrfti vitaskuld að leita álits flugfélaga, áður en frá reglum þessum yrði gengið. Ekki er ósennilegt, að slíkar reglur gætu stuðlað að því öryggi, sem alþm. telji nú vera ábótavant.

Hér með fylgir útdráttur úr tveimur fræðiritum og téð reglugerð.

Reykjavík, 13. apríl 1973.

Virðingarfyllst,

Gizur Bergsteinsson,

Kristinn Gunnarsson.

Til samgönguráðuneytisins.

Mér virðist af þessari fræðilegu umsögn liggja í augum uppi, að þessir fræðimenn telja, að ef breyta ætti íslenzkum loftferðalögum varðandi það, sem fsp. fjallar um, þyrfti jafnframt að taka tillit til alþjóðareglna og alþjóðalaga, sem við erum að nokkru leyti bundnir við um þessi atriði. En sjálfur get ég ekki lagt dóm á þetta mál, því að það er mjög háfræðilegs efnis