17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

313. mál, skaðabótamál vegna slysa

Fyrirspyrjandi (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég hef einnig leyft mér á þskj. 606 að flytja eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Hvað líður framkvæmd á þál. frá 8. febr. 1972 um afgreiðslu skaðabótamála vegna slysa?“

Þál. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj., að hún geri, með undirbúningi lagasetningar, ef með þarf, ráðstafanir til þess, að skaðabótamál vegna slysa fái hraðari afgreiðslu en verið hefur almennt. Sé þá hafður í huga sá möguleiki, að þegar dæmt er um bótaskyldu sérstaklega án þess að dæmt sé jafnframt um bótafjárhæðir, verði settar reglur um greiðsluskyldu hinna bótaskyldu og vátryggjenda þeirra á ákveðnum fjárhæðum upp í endanlegar skaðabótagreiðslur, sem síðar yrðu ákveðnar með dómi“.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja tímann við að rökstyðja þetta frekar. Það eru sömu flm. að þessari þál., ég og hv. 4. þm. Norðurl. e., en menn hafa dæmin fyrir sér, að það taki allt upp í áratug að fá úrskurð í slíkum málum, og sjá allir, að þó að sé ekki um svo langan tíma að ræða, þá er í mörgum tilfellum um allt of mikinn drátt á því að ræða, að úrslit fáist á þessu sviði.