17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3746 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í 11. gr. laga um Framkvæmdastofnun ríkisins segir:

Ríkisstj. skal gefa Alþ. skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Samkvæmt þessu lagaboði er þessi skýrsla, sem hér fer á eftir, gefin.

Framkvæmdastofnunin starfar lögum samkv. í þrem deildum, hagrannsóknadeild, áætlanadeild og lánadeild. Sú skýrsla, sem hér verður lesin á eftir, er miðuð við þessa deildaskiptingu, og er að sjálfsögðu útdráttur úr skýrslu, sem frá þessum deildum hefur komið í mínar hendur. Verður þá fyrst vikið að hagrannsóknadeildinni.

Starfsemi deildarinnar á árinu 1972 fól í aðalatriðum í sér framhald þess starfs, sem áður var unnið í hagdeild Efnahagsstofnunarinnar og af forstöðumönnum hennar. Í sem allra stytztu máli má lýsa verkefni deildarinnar þannig, að það sé að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum, veita almenna upplýsingaþjónustu á sviði efnahagsmála, og vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum. Hér á eftir verður gripið á nokkrum helztu viðfangsefnum deildarinnar á árinu, en þó engin tilraun gerð til þess að gefa tæmandi yfirlit. Þá er hér fyrst vikið að ráðstöfunum verðmæta, þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum.

Hagrannsóknadeildin tók við því verkefni Efnahagsstofnunarinnar að færa þjóðhagsreikninga. Þær tölur um þróun þjóðarframleiðslu og tekna á Íslandi, sem birzt hafa opinberlega á undanförnum árum, hafa nær allar byggzt á uppgjöri þessarar stærðar frá ráðstöfunarhlið, verið skýrslur um einkaneyzlu, samneyzlu og fjármunamyndun, sem allar eru unnar frá grunni í deildinni og eru undirstaða þar undir. Síðan er hér rætt um framleiðslu og atvinnuvegi.

Annað meginviðfangsefni hagrannsóknadeildar er athuganir á þróun framleiðslu og rekstrarafkomu atvinnuvega. Á þessu sviði eru athuganir á sjávarútvegsgreinum lengst komnar. Deildin vann á árinu 1972 heildaryfirlit úr ársreikningum og skattframtölum nær allra frystihúsa á landinu og úr mjög stóru úrtaki annarra fiskiðnaðargreina. Gott samstarf var við útflytjendur sjávarafurða við þessa athugun. Þá voru samdar í deildinni heildaráætlanir um rekstur fiskveiða í samvinnu við Fiskifélag Íslands og Reikningastofu sjávarútvegsins og á grundveili gagna frá þessum aðilum. Í deildinni eru einnig unnar á grundvelli gagna hagstofu Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Búnaðarfélagsins yfirlitsskýrslur um framleiðslu landbúnaðarafurða. Þá var unnið á árinu heildaryfirlit yfir rekstur og efnahag iðnfyrirtækja á árinu 1971 á grundvelli úrtaks 800 iðnfyrirtækja og skattframtölum, auk þess sem ýmsar aðrar framleiðslu- og rekstrarathuganir voru unnar. Á árinu var einnig unnið að úrtaksathugun á rekstri annarra atvinnugreina, og skipulögð var úrtaksathugun á verzlun og viðskiptum með 500 fyrirtækja úrtaki með svipuðum hætti og fyrir iðnaðinn. Er þess að vænta, að heildaryfirlit verzlunar og viðskipta liggi fyrir í sérstakri skýrslu á þessu ári og síðan reglulega á hverju ári. Í samvinnu við hagstofu og skattyfirvöld hóf deildin á árinu úrvinnslu úr veltutölum í söluskattsskýrslum eftir atvinnugreinum og árshelmingum. Þessar skýrslur verða, þegar þær ná til alls landsins og komast í reglufast horf, mikilvæg uppspretta upplýsinga, bæði fyrir neyzlu- og rekstrarathuganir. Þá er hér næst vikið að því, sem nefnist tekjur og atvinna, og segir þar svo:

Á s.l. vetri voru gerðar veigamiklar breytingar á l. um tekju- og eignarskatt, og annaðist deildin ýmsa tölulega undirbúningsvinnu vegna þessara breytinga. Einnig voru sett ný lög um tekjustofna sveitarfélaga, og vann deildin nokkuð við upplýsingasöfnun vegna þeirrar lagasetningar. Voru m.a. gerðar tekjuáætlanir fyrir öll sveitarfélög á landinu, meðan málið var til meðferðar hjá Alþ. og einnig veitti deildin mörgum sveitarfélögum aðstoð við gerð tekjuáætlana eftir endanlega afgreiðslu hinna nýju laga á Alþ. Tekjuáætlun fjárlagaársins fyrir árið 1973 var unnin af deildinni og jafnframt var fylgzt með innheimtu ríkistekna á árinu og fyrri áætlanir endurskoðaðar. Af öðrum verkefnum á sviði atvinnu og tekjumálefna má nefna reglubundnar athuganir á tekjum einstaklinga og félaga, m.a. með úrvinnslu úr skattframtölum. Á árinu var áfram unnið að heildaruppgjöri þjóðartekna frá tekjuhlið og þáttaskiptingu þjóðartekna. Þess er að vænta, að niðurstöður þessara athugana fyrir nokkur síðustu ár birtist á næsta ári og framvegis með þjóðhagsreikningatölum frá ráðstöfunarhlið og væntanlega einnig frá framleiðsluhlið.

Þá er vikið að því, sem nefnt er þjóðhagsspár og áætlanir, og segir þar um svo:

Deildinni er ætlað að semja þjóðhagsspár og áætlanir. Á árinu 1972 lagði deildin fram við upphaf ársins í ársskýrslu Íslands til OECD og í skýrslum til stjórnvalda þjóðhagsspá fyrir árið 1972, þar sem m.a. var spáð rúmlega 7% aukningu þjóðarframleiðslu, auk þess sem sett var fram almennt mat á öðrum horfum í efnahagsmálum. Þessar áætlanir voru síðan endurskoðaðar nokkrum sinnum á ári, bæði í sambandi við skýrslur til ríkisstj., í skýrslum deildarinnar um þjóðarbúskapinn í júlí og okt. og í skýrslugerð til alþjóðastofnana á sviði efnahagsmála. Í skýrslunni um þjóðarbúskapinn í okt. 1972 hafði spá um aukningu þjóðarframleiðslu lækkað niður í 6%, sem enn virðist sennileg niðurstaða. Í þessu riti voru einnig sett fram frumdrög þjóðhagsspár fyrir árið 1973 sem undirstaða skoðanamyndunar og töku ákvarðana um efnahagsmál. Hér gefst ekki kostur að ræða niðurstöður þessara spáa nánar. Undirstaða þjóðhagsspánna er að sjálfsögðu vinna deildarinnar á sviði þjóðhagsreikninga og hagskýrslna, en jafnframt tölfræðilegar athuganir á samhengi helztu þjóðhagsstærða. Deildin hefur nokkuð unnið að slíkum athugunum á árinu, einkum að því er varðar samhengi innflutnings ráðstöfunarverðmæta og innflutningsverðlags, tekna og neyzlu og loks verðmætaráðstöfunar og söluskattsveltu. Þá hefur hagrannsóknadeild unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum, sem hér verða ekki nánar tilgreind.

Þá kemur næst yfirlit yfir starfsemi áætlanadeildar 1972:

Verkefni áætlanadeildar eru samkv. lögum aðallega þrenns konar:

1. Áætlanir um uppbyggingu og þróun mikilvægustu atvinnugreina og um heildarþróun atvinnulífsins, 7. gr. laganna.

2. Áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land, þ.e. byggðaáætlanir, almennar og sérgreindar 8. gr. laganna.

3. Áætlanir um framkvæmdir ríkisins og aðrar opinberar framkvæmdir, 9. gr. laganna.

Stjórn stofnunarinnar ákveður í samráði við ríkisstj., hvaða áætlunarverkefni skuli tekin fyrir og hver skuli vera markmið og forsendur áætlana. Við töku þeirra ákvarðana er jafnframt höfð hliðsjón af þörfinni fyrir leiðbeinandi áætlanir til stuðnings við starf á vegum lánadeildar til samræmingar á starfsemi stofnlánasjóðanna. Við áætlanagerðina hefur áætlanadeild eftir atvikum samráð við rn. og aðrar opinberar stofnanir, aðila vinnumarkaðarins og samtök og stofnanir atvinnuveganna. Að því er byggðaáætlanir varðar, er sérstaklega haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og einstakar sveitarstjórnir, landshlutasamtök verkalýðsfélaga og atvinnurekendur, og við aðra héraðsaðila.

Nokkur dráttur varð á því í upphafi, að Framkvæmdastofnunin tæki að fullu til starfa vegna skiptingar starfsfólks Efnahagsstofnunarinnar milli hagrannsóknadeildar og áætlunardeildar og upptöku verkefna samkv. því. Enn fremur varð að ætla starfsmönnum áætlunardeildar um sinn ýmis verkefni óskyld þeirri áætlanagerð, er þeir höfðu með höndum á vegum Efnahagsstofnunarinnar, svo sem umsagnir um verðákvarðanir opinberra fyrirtækja og þess háttar. Var það tímafrekt og entist fram á vor árið 1972. Starf að helztu áætlunarverkefnum deildarinnar hófst þó í marz mán. Starfsáætlun áætlunardeildar fyrir 1972—1973 var samin í júní árið 1972 og samþykkt í meginatriðum af stjórn stofnunarinnar. Helztu verkefni, sem unnið hefur verið að og eru í undirbúningi samkv. starfsáætlun og síðari ákvörðun, verða rakin hér á eftir í þeirri röð, sem verksviðin eru talin hér að framan.

Þá eru það fyrst atvinnuvegaáætlanir.

Frá upphafi reglubundins starfs í Framkvæmdastofnuninni hafa tvær áætlanir á sviði sjávarútvegs haft forgang, fiskiskipaáætlun og hraðfrystihúsaáætlun. Fiskiskipaáætlun var í fyrstu bundin hinum umfangsmiklu áformum um skuttogarakaup. Í júní var birtur fyrsti áfangi þeirrar áætlunargerðar, sem nefnd var bráðabirgðaskýrsla um togarakaup, fjármögnun og greiðsluraðir, og tók skýrslan til öflunar 49 togara fyrir alls um 600 þús. millj. kr. Með samþykkt stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í okt. var ákveðið að víkka út svið þessarar áætlunar og láta hana ná til öflunar fiskiskipa almennt næstu 4 árin. Hraðfrystihúsaáætlunin miðar að því að mynda yfirsýn yfir framkvæmdaáform hraðfrystihúsanna af hvers konar tilefni: bættra hollustuhátta, hráefnisaukningar við öflun skuttogara og annarra fiskiskipa, hagræðingar og vélvæðingar til bætts rekstrar. Safnað hefur verið upplýsingum beint frá hraðfrystihúsum um áform þeirra. Úrvinnslu þeirra var lokið fyrir árslok, og var yfirlitsskýrsla þess efnis, sem nefndist „Áform hraðfrystihúsanna um framkvæmdir og fjármögnun“, birt sem trúnaðarmál í jan. sl. Að undanförnu hefur verið unnið að mati þessara áforma út frá horfum um fiskafla, vinnuafl, samræmi þátta í rekstrinum og öðrum tæknilegum og hagrænum atriðum. Hefur náðst um það náið samstarf við framkvæmdaaðilana sjálfa, fiskveiðasjóð og viðskiptabanka frystihúsanna.

Samningu iðnþróunaráætlunar átti að fela stofnuninni samkv. málefnasamningi ríkisstj. Starf að slíkri áætlun var þá þegar í undirbúningi og síðar hafið á vegum iðnrn. með aðstoð Sameinuðu þjóðanna. Varð því að ráði, að áætlanadeild fylgdist með því starfi og yrði til samráðs við stofnanir iðnaðarins. Að lytkum þess starfs hefur áætlanadeild samið umsögn um áætlunardrögin samkv. beiðni Iðnþróunarstofnunar Íslands.

Landbúnaðaráætlun hefur verið í undirbúningi. Lokið er tölfræðilegum rannsóknum á þróun eftirspurnar eftir búvörum innanlands og spám um þörfina fyrir framleiðslu landbúnaðarins næstu árin. Hefur orðið að samkomulagi við framleiðsluráð landbúnaðarins, að spár þessa efnis verði framvegis unnar á vegum ráðsins. Unnið er að könnun á framkvæmdahorfum í landbúnaði með tilliti til endurnýjunar og hagræðingar.

Um aðrar áætlanir um atvinnugreinar er þetta að segja: Samhliða framangreindum áætlunum er jafnan unnið að skýrslum og spám um mannafla hinna ýmsu atvinnugreina, fjármunamyndun þeirra o.s.frv. Hefur deildin m.a. annazt skýrsluskil til alþjóðastofnana um mannfjölda og mannafla. Þá hefur deildin samið spár um fjármunamyndun atvinnuveganna fram á við til næsta árs til nota við áætlanir um útlán fjárfestingarlánasjóða.

Þá er hér næst um áætlun opinberra framkvæmda. Starfið á þessu sviði hefur einkum beinzt að undirbúningi árlegrar framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. Undirbúningur þessi fer fram í samvinnu við fjárlaga– og hagsýslustofnun fjmrn., hinar ýmsu framkvæmdastofnanir ríkisins og rn. og að því er fjáröflun varðar við Seðlabankann. Hefur áætlanadeild að mestu annazt samningu áætlunardaga og till., svo og skýrslu fjmrh. um áætlanir. Skýrslan tekur einnig til fjárfestingarlánasjóða og fjármunamyndunar almennt. Var skýrsla fjmrh. um áætlunina fyrir 1972 lögð fyrir Alþ. 5. maí 1972. Undirbúningi áætlunar opinberra framkvæmda 1972 var að mestu lokið fyrir áramót og frv. lagt fram, þótt afgreiðslu þess og endanlegri skýrslugerð væri frestað.

Landshlutaáætlanir: Mörg verkefni hafa verið á döfinni á sviði landshlutaáætlana og fleiri en áætlanadeild gæti hugsanlega komizt yfir. Er því verið að þreifa fyrir sér um, hve mikinn þátt landshlutasamtök sveitarfélaga geti tekið í áætlunargerðinni. Til þess að greiða fyrir því eru eftir föngum unnar heimildir um fagræna og félagslega aðstöðu landshlutanna, einkum þróun mannfjölda og mannafla, tekjumyndun og þess háttar. Verið er að ljúka samgönguáætlun Norðurlands, og hefur bráðabirgðaársáfangi hennar 1972 þegar komið til framkvæmda. Skagastrandaráætlun um atvinnumál og almenna þróun þess staðar liggur fyrir í uppkasti. Fólksfæð áætlanadeildar hefur sérstaklega hamlað umsvifum á sviði landshlutaáætlana. Þó er hafið starf eða undirbúningur þriggja almennra byggðarþróunaráætlana til viðbótar, þ.e. fyrir Norðurl. v., Norður-Þingeyjarsýslu og Austurland. Loks hefur deildin verið til samráðs um sérstakar áætlanir og verkefni landshlutasamtakanna, veitingu framlaga til þeirra o.s.frv.

Auk ofangreindra meginverkefna hafa áætlanadeild verið falin ýmis sérstök verkefni og athuganir mála, umsagnir, þ.á.m. samkv. tilmælum Alþ., rn. o.s.frv. Meðal þeirra má nefna áætlunargerðir um nýtingu aðstoðar frá UNDP —Tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Skýrslu um það efni lagði deildin fram í okt. 1972, en endanlega áætlun í marz á þessu ári.

Þá er í þriðja lagi yfirlit um starfsemi lánadeildar.

Starfsemi lánadeildar hófst formlega í byrjun sept. við flutning framkvæmdasjóðs og litlu síðar byggðasjóðs til Framkvæmdastofnunarinnar, en samkv. lögum skulu þessir sjóðir starfræktir innan lánadeildar. Lánadeild tekur við umsóknum um lán úr sjóðunum, annast athugun þeirra, úrvinnslu og sér um afgreiðslu þeirra lána, sem samþ. eru af stjórn stofnunarinnar. Lánadeild sér um bókhald sjóðanna, innheimtu lána og önnur samskipti við lántakendur, eftir því sem þörf er á, og ýmiss konar skýrslugerð varðandi lánamál. Lánadeild annast enn fremur bókhalds- og gjaldkerastarf fyrir stofnunina sjálfa. Náin samvinna á sér stað milli lánadeildar og fjárfestingarlánasjóðanna um gerð áætlana um fjáröflun.

Jafnframt er haft samráð við sjóðina um athugun einstakra lánaumsókna, þegar þörf er á, en algengt er, að fleiri en einn fjárfestingarlánasjóður taki þátt í fjármögnun þeirra framkvæmda, sem um ræðir. Þá eru einnig náin samskipti við atvinnuleysistryggingasjóð, sem í sumum tilvikum tekur þátt í sameiginlegri lausn fjárhagsvanda fyrirtækja ásamt byggðasjóði. Einnig er haft samráð við viðskiptabankana varðandi einstök lánamál, sem til athugunar eru. Þá er og þess að geta, að náin samskipti eru við bankana varðandi kaup þeirra á skuldabréfum framkvæmdasjóðs samkv. sérstöku samkomulagi þar um.

Eins og að framan er lýst, er meginstarfsemi lánadeildar fólgin í umsjá og rekstri framkvæmdasjóðs og byggðasjóðs og samskiptum við fjölmarga aðila varðandi lánamál. Einnig lætur deildin í té ýmsa þjónustu fyrir Framkvæmdastofnunina í heild.

Þá er um byggðasjóð sérstaklega: Byggðasjóður tók til starfa í ársbyrjun 1972 samkv. hinum nýju lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Sjóðurinn tók við eignum og skuldbindingum atvinnujöfnunarsjóðs, sem stofnaður hafði verið árið 1966. Samkv. hinum nýju lögum eru tekjur byggðasjóðs þessar: 1) Eignir atvinnujöfnunarsjóðs samkv. l. nr. 69 1966. 2) Framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 1.000 millj., sem greiðist með jöfnum fjárhæðum á næstu 10 árum, í fyrsta sinn á árinu 1972. 3) Skattgjald af álbræðslu í Straumsvík, að frádregnum 25% skattgjaldsins, sem renna til Hafnarfjarðarkaupstaðar og 4,1%, sem rennur til iðnlánasjóðs. Frá og með okt. 1978 lækkar hlutdeild Hafnarfjarðarkaupstaðar í 20%, en hluti byggðasjóðs eykst að sama skapi. 4) Vaxtatekjur.

Framkvæmdastofnuninni er heimilt að afla byggðasjóði lánsfjár, allt að 300 millj. kr. á ári, næstu 5 árin frá gildistöku laganna, gegn ábyrgð ríkissjóðs.

Hlutverk byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum. bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Um lánsloforð og ráðstöfunarfé er þetta sagt :

Í ársbyrjun 1972 átti byggðasjóður í lausafé og óteknum lánum um 39 millj., en á sama tíma voru óútborguð lánsloforð 111 millj. kr., þannig að á skorti 72 millj. kr. til að fullnægja þessum lánsloforðum. Á árinu 1972 samþykkti byggðasjóður lán og styrki að fjárhæð um 480 millj. kr. Þá var um að ræða hækkun á gefnum lánsloforðum um 29 millj. kr.. mest vegna hækkunar á kostnaði við nýsmíði fiskiskipa frá upphaflegu samningsverði. Enn fremur var endursamið um afborganir og vexti í vanskilum að fjárhæð um 21 milli. Alls nema gefin lánsloforð þannig 641 millj. kr. miðað við árslok 1972. Fé til greiðslu þessara lánsloforða nam 39 millj. kr. frá árinu 1971, eigið ráðstöfunarfé sjóðsins nam 244 millj. og nýjar lántökur hjá framkvæmdasjóði og iðnþróunarsjóði 125 millj. kr., eða alls 408 millj. kr. Í árslok 1972 vantaði því 233 millj. kr. á, að fé væri fyrir hendi til að fullnægja gefnum lánsloforðum. En þess er að gæta, að langur tími líður oft, þar til hægt er að ganga frá lánveitingum, en þær miðast við framgang þess verks, sem lán er veitt til, svo sem á sér stað við smíði fiskiskipa og ákveðnar byggingarframkvæmdir.

Á árinu 1972 veitti byggðasjóður ný lánsloforð og styrki að fjárhæð 480,4 millj. kr. Alls voru þetta 432 lán og styrkir, og skiptist fjárhæðin þannig eftir framkvæmdum: 1) Nýsmíði fiskiskipa, 5% lán, bátar 27,5 millj., skuttogarar 140,5 millj., eða samtals 168 millj. kr. 2) Nýsmiði fiskiskipa, 10% lán, bátar 52,7 millj., skuttogarar 13,2 millj., eða samtals 65,9 millj. — 3) Kaup á notuðum fiskiskipum, bátar 31,2 millj., skuttogarar 11,5 millj., eða samtals 42,7 millj. 4) Endurbætur fiskiskipa 21,2 millj. 5) Fiskiskip sérstök fyrirgreiðsla, bátar 14,4 millj., skuttogarar 25 millj., eða samtals 39,4 millj. 6) Fiskvinnsla 53,2 millj. 7) Niðursuða 6,1 millj. 8) Framleiðsluiðnaður 28,7 millj. 9) Þjónustuiðnaður 15,8 millj. 10) Sveitarfélög 22,2 millj. 11) Vaxtastyrkir vegna raflínulána sveitarfélaga 1,4 millj. 12) Annað, ósundurgreint, 15,8 millj. Samtals sama tala og áður var nefnd, 480,4 millj. kr.

Útborguð lán og styrkir byggðasjóðs á árinu 1972 námu alls 394 millj. kr.

Um reikninga byggðasjóðs er þetta sagt: Á árinu 1972 námu hreinar tekjur byggðasjóðs 18,3 millj. kr. Eiginfjárreikningar byggðasjóðs, að meðtöldum mótvirðissjóði námu í árslok 1972 527,2 millj. kr. og höfðu þá vaxið um 145,6 millj. kr. á árinu. Hin mikla aukning eigin fjár sjóðsins stafar fyrst og fremst af framlagi ríkissjóðs, sem nemur, sem fyrr getur, um 100 millj. kr. árlega samkv. hinum nýju lögum. Framleiðslugjald af áli nam 36,4 millj. kr., var þó nokkru lægri upphæð en árið áður. Þá var hluti atvinnujöfnunarsjóðs af gjaldi þessu 40,5 millj. kr. Veittir styrkir námu 4,6 millj. kr. Af lánum var afskrifað 1,2 millj. kr. og af gengistapi 6,8 millj. kr.

Þá er um framkvæmdasjóð: Með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins er svo kveðið á. að stjórn sjóðsins sé í höndum Framkvæmdastofnunarinnar. Engar breytingar urðu á fjármálum framkvæmdasjóðs með hinni nýju lagasetningu. Hlutverk framkvæmdasjóðs er þannig skilgreint í lögunum: Hlutverk framkvæmdasjóðs er að beina fjármagni til aðkallandi framkvæmda, sem æskilegar eru taldar fyrir þjóðarbúið að dómi stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, og eru í samræmi við þau markmið, sem felast í áætlunum hennar. Þessu hlutverki gegnir sjóðurinn með því: 1) Að veita fé til fjárfestingarsjóða, sem veita lán til einstakra framkvæmda, enda sé því fé varið til lána, sem eru í samræmi við fjárfestingaráætlanir stofnunarinnar. 2) Að veita lán til einstakra framkvæmda, þegar stjórn stofnunarinnar þykir sérstök nauðsyn bera til þess. 3) Að veita lán til meiri háttar opinberra framkvæmda. Það er nýmæli í l., að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar er heimilt að veita fé til rannsókna á nýjungum í atvinnulífi. Einnig er heimilt að verja fé til undirbúnings nýrra fyrirtækja, sem Framkvæmdastofnunin hyggst beita sér fyrir.

Á árinu 1972 veitti framkvæmdasjóður ný lán að fjárhæð alls 1.348,4 millj. kr., sem skiptast þannig: byggðasjóður 95 millj., ferðamálasjóður og lán til hótela 37,5 millj., fiskveiðasjóður Íslands 594,6 millj., iðnlánasjóður 40 millj., lánasjóður sveitarfélaga 100 millj., stofnlánadeild landbúnaðarins 200 millj., stofnlánadeild samv. félaga 10 millj., veðdeild Búnaðarbanka Íslands 35 millj., verzlunarlánasjóður 10 millj., ríkissjóður vegna Austurlands- og Norðurlandsáætlunar 178,6 millj., ríkissjóður vegna Rannsóknaráðs 2 millj., Björgun h/f í Reykjavík 5 millj., Gunnar Guðmundsson h/f, Reykjavík, 5 millj., Jón og Páll Ólafssynir, Brautarholti, 2 millj., Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis 7,5 millj., Olíumöl h/f í Garðahreppi 4 millj., Samband ísl. samvinnufélaga 8 millj., Tungulax h/f, Ölfushreppi, 5 millj., Vöruflutningamiðstöðin h/f, Reykjavik, 1,5 millj., Gunnar og Kjartan s/f, Egilsstöðum, 3 millj., Jarðýtur h/f, Ísafirði, 2 millj., Björn Guðmundsson, Hólabraut, Suður-Þingeyjarsýslu, 1,2 millj., Ólafur E. Ólafsson, Bolungarvik, 0,9 millj., Skóflan h/f, Arkarlæk, Borgarfirði, 0,6 millj. Samtals 1.348,4 millj. kr. Lán þessi voru útborguð að fullu á árinu. Í ársbyrjun nam ógreiddur hluti veittra lána 18,3 millj. kr., en í árslok 0,5 millj. kr. Útborguð lán hafa alls numið 1.366,2 millj. kr. á árinu 1972.

Lántökur framkvæmdasjóðs: Á árinu 1972 tók framkvæmdasjóður tvö erlend lán. Hið fyrra þessara lána var tekið hjá First National City Bank í New York. Fjárhæð lánsins var 5 millj. dollarar eða 437 millj. kr. Lánið endurgreiðist á árunum 1975-1980. Andvirði lánsins var endurlánað fiskveiðasjóði og lánasjóði sveitarfélaga. Síðara lánið var tekið hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins. Upphæð lánsins var 90 millj. Lúxemborgarfrankar eða jafnvirði 177 millj. kr., miðað við gengið, sem gilti, þegar lántakan fór fram. Lánið endurgreiðist á árunum 1978-1987. Andvirði láns þessa mun varið til framkvæmda í samgöngumálum á Austurlandi og Norðurlandi. Á árinu 1972 voru á ný gerðir samningar milli framkvæmdasjóðs og viðskiptabankanna þess efnis, að bankarnir lánuðu framkvæmdasjóði 10% af aukningu innlána bankanna á árinu 1972. Lán samkv. þessu samkomulagi, að viðbættum eftirstöðvum frá fyrra ári námu 254 millj. kr., en ógreiddar til framkvæmdasjóðs í árslok 1972 voru 66 millj. kr. Lán þessi endurgreiðast á 15 árum. Framkvæmdasjóður tók lán hjá ríkissjóði á árinu 1972 að fjárhæð 360 millj. kr., en fé þetta var hluti af andvirði spariskírteinaútgáfu ríkissjóðs á árinu 1972. Lánið endurgreiðist ríkissjóði á 12 árum með 51/4% vöxtum, og eru árlega greiðslur afborgana og vaxta tengdar vísitölu byggingarkostnaðar, en hún var 683 stig, þegar lántakan fór fram. Fé þetta var endurlánað til fjárfestingarlánasjóðanna.

Í samræmi við hið nýja ákvæði í l. um framkvæmdasjóð um heimild til að veita fé til rannsókna auglýsti Framkvæmdastofnunin í lok okt. mánaðar eftir umsóknum um styrki til rannsókna á undirbúningi nýrra fyrirtækja og nýjunga í framleiðslu eldri fyrirtækja. Skyldu umsóknir þessar hafa borizt fyrir árslok 1972. Umsóknir bárust frá 25 aðilum til hinna margvíslegustu viðfangsefna, en þau voru á milli 50 og 60 að tölu. Fjárhæðar var ekki getið í öllum tilfellunum, en sennilega er hér um að ræða umsóknir að fjárhæð 40—50 millj. kr. samanlagt. Umsóknir þessar eru til athugunar og umsagnar og verða að því búnu teknar fyrir til samþykktar eða synjunar hjá stjórn Framkvæmdastofnunarinnar.

Eiginfjárreikningar framkvæmdasjóðs og mótvirðissjóðs námu í árslok 1972 991,8 millj. kr. og höfðu þá hækkað á árinu um 57,7 millj. kr. Hinir hækkuðu útlássvextir framkvæmdasjóðs munu stuðla verulega að bættri eiginfjárstöðu sjóðsins, en hagstæð enginfjárstaða er framkvæmdasjóði sérlega þýðingarmikil í sambandi við erlendar lántökur.

Lánveitingar framkvæmdasjóðs til fjárfestingarlánasjóða uxu mjög mikið á árinu 1972 og námu það ár 1.110 millj. kr., en námu árið 1971 377 millj. kr. og árið 1970 398 millj. kr. Heildarlánveitingar og styrkir þessara sömu sjóða námu 2.498 millj. kr. árið 1972, en árið 1971 námu þau 1.662 millj. kr. og árið 1970 1.250 millj. kr. Hafa þau þannig tvöfaldast á þrem árum. Ljóst er, að lánveitingar þessar fara enn vaxandi árið 1973. Þessar auknu lánveitingar stafa sumpart af hækkuðum kostnaði við framkvæmdir og sumpart af mjög mikilli aukningu lánsfjárstofnana. Á það einkum við um þá sjóði, sem undanfarin ár hafa starfað að miklu leyti eftir sjálfvirkum lánareglum. Eigið ráðstöfunarfé sjóðanna hefur hins vegar ekki vaxið nema lítið eitt, og þurfa sjóðirnir því að öðru óbreyttu að fjármagna aukningu útlána sinna með lánsfé. Miðað við þá sérlega lágu vexti, sem sumir sjóðirnir hafa á útlánum sínum, en taka lán með mun hærri vöxtum, hefur þessi mikla aukning á lántökum í för með sér mikla skerðingu á eigin fé sjóðanna, svo að ekki sé talað um þau tilvik, þar sem tekið er að láni fé með verðtryggingu, en það endurlánað án slíkrar tryggingar.

Að lokum er hér yfirlit um starfslið Framkvæmdastofnunarinnar og kostnað.

Við ráðningu starfsfólks til stofnunarinnar var sú stefna mörkuð að ráða til starfa þjálfað starfslið þeirra stofnana, sem sameinaðar voru í Framkvæmdastofnun ríkisins. Þótt verkefni Framkvæmdastofnunarinar séu miklum mun meiri en þeirra stofnana, hefur verið farið mjög hægt í ráðningar á starfsfólki til viðbótar. Í árslok 1972 var starfsliðið sem hér segir:

Í hagrannsóknadeild voru 14 fastráðnir starfsmenn, þar af í skýrslugerð og við hagrannsóknir 10, en við reikni- og skrifstofuþjónustu 4. Í áætlanadeild voru starfsmenn sem svaraði 91/2 starfi, þar af 71/2 við sérfræðistörf og 2 við ritarastörf. Fastráðið starfsfólk lánadeildar var í árslok samtals 10 manns. Auk þessa starfsliðs eru svo forstöðumenn deilda, framkvæmdaráðsmenn og ritari. Samtals er því starfsfólk Framkvæmdastofnunarinnar um 40 manns, auk lausráðinna stúdenta með svipuðum hætti og tíðkaðist hjá Efnahagsstofnuninni á sínum tíma.

Rekstrarkostnaður Framkvæmdastofnunarinnar á árinu 1972 nam samtals 32.816.955,40 kr. samkvæmt endurskoðuðum og samþykktum reikningum. Hliðstæður kostnaður framkvæmdasjóðs, atvinnujöfnunarsjóðs og Efnahagsstofnunarinnar umreiknaður fram til ársins 1972 mundi hafa numið 26,3 millj. kr.

Ég hef þá lesið nokkurn úrdrátt úr skýrslu, sem mér hefur borizt í hendur um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Mér er það ljóst, að það er erfitt fyrir hv. alþm. að átta sig á upplestri sem þessum. En ég taldi mér skylt að fullnægja lagaboði með því að gera þetta nú. Hins vegar er þess að geta, að innan skamms — og er raunar þegar komið af stað með það —mun Framkvæmdastofnunin gefa út ítarlega prentaða skýrslu um ala starfsemi sína, og verður þar að sjálfsögðu að finna allar þessar upplýsingar, sem ég hef hér lesið, og ýmsar fleiri. Sú skýrsla, ásamt reikningum Framkvæmdastofnunarinnar og skrá yfir allar lánveitingar byggðasjóðs og framkvæmdasjóðs, verður send öllum hv. alþm., jafnskjótt og prentun þeirra er lokið. Og vitaskuld er miklu auðveldara að ræða þessi atriði, þegar slík skýrsla liggur fyrir.

Þó að ég hafi gefið þessa skýrslu nú, sé ég út af fyrir sig ekkert því til fyrirstöðu, að á næsta Alþ. sé tekin upp sérstakur dagskrárliður, þar sem skýrsla Framkvæmdastofnunarinnar verður rædd og verður það þá auðvitað miklu auðveldara fyrir hv. alþm. en eftir lestur svona skýrslu, sem ég veit, eins og ég sagði, að er erfitt að átta sig á, þar sem farið er m.a. með ýmsar tölur.

Ég vil svo að lokum segja það, að þegar ég mælti fyrir frv. um Framkvæmdastofnunina á sínum tíma, sagði ég, að fyrsta starfsár hennar a.m.k. yrði að skoða sem nokkurs konar reynslutíma. Ef sú reynsla sýndi, að gera þyrfti breytingar á þessari stofnun, þar sem að verulegu leyti var farið inn á nýjar brautir, mundi ekki verða hikað við að gera þær breytingar.