17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3764 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki freista þess að ræða þessa skýrslu hér í heild, sem hæstv. forsrh. hefur flutt okkur um störf Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég ætlaði aðeins að gera hér nokkrar athugasemdir við einstök atriði.

Þá vil ég fyrst vekja athygli á því, sem kom hér fram í máli hv. 2. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, að í vegáætlun, sem afgreidd var á síðasta þingi, var gert ráð fyrir því, að 120 millj. kr. færu til Norðurlandsáætlunar á árinu 1972. Reyndin varð sú, að það var ekki framkvæmt fyrir nærri svo háa fjárhæð, heldur mun í reynd hafa verið unnið fyrir um 105 millj. kr. á því ári. Síðan var í vegáætluninni gert ráð fyrir, að ákveðnar fjárhæðir gengju óskiptar til vegáætlunar á Norðurlandi 1973 eða á yfirstandandi ári, 1974 og 1975. Síðan ekki söguna meir. Hv. alþm. hafa ekki fengið neinar upplýsingar um, hvernig þessu fjármagni skuli varið. Það verður því ekki eingöngu það, að við þm. Norðurl. getum ekki sagt fólki, hvernig verja eigi vegafé á Norðurlandi, við getum ekki heldur sagt því, hvernig verði yfirleitt með framkvæmdir, vegna áformanna um 15% niðurskurð á fjárlögum. Það verða því heldur litlar upplýsingar, sem við getum gefið umbjóðendum okkar um það, hvernig á að standa að framkvæmdum þar í sveit á yfirstandandi ári. En ég vil freista þess að spyrja hæstv. forsrh., hvenær upplýsingar um það séu væntanlegar, hvernig fjármagni til vegáætlunar á Norðurlandi, Norðurlandsáætlunar, verði skipt. Hvenær er upplýsinga um það að vænta, og er það hugmynd hæstv. ríkisstj. og Framkvæmdastofnunar ríkisins að skipta þessu fé án alls samráðs við þm. og við heimamenn? Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið haft samráð við heimamenn um þetta heldur. Ég vildi vænta þess, að hæstv. ráðherra svaraði því, hvenær upplýsinga um þetta er að vænta og hvernig ætlunin er að standa að þessu. Þetta, að það hefur ekki einu sinni tekizt að skipta þessu fé og setja fram skipulega áætlun um þetta, finnst mér nokkuð dæmigert um það, hvernig unnið hefur verið að þessum málum í Framkvæmdastofnun ríkisins. Kom fram í máli hæstv. ráðherra, að það væri mannaflaskortur hjá stofnuninni, sérstaklega á því sviði, er varðaði landshlutaáætlanir eða byggðaáætlanir. Ég þykist persónulega kunnugur því, að það fólk, sem starfar við slíkar áætlanagerðir, er a.m.k. mjög hæft fólk, en hvort það fær skipulega leiðsögu, hvort það fær að vita á hvaða forsendum það getur byggt sínar áætlanir, það er aftur önnur saga.

Hæstv. ráðherra var ákaflega hógvær, þegar hann var að tala um byggðaáætlanirnar. Ég minnist þess frá umr. um Framkvæmdastofnun ríkisins, að það átti að gera áætlanir um alla skapaða hluti milli himins og jarðar, og hv. 4. þm. Norðurl. v. hafði a.m.k. ekki mikið álit á þeim áætlanagerðum, sem áður höfðu verið gerðar í byggðamálum. En mér sýnist, að sáralitið hafi bætzt við, nema ef vera kynni uppkast að Skagastrandaráætluninni, uppkast að áætlun fyrir eitt ákveðið byggðarlag, sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert. En er nú ástæða til þess að guma mjög af slíku afreki? Það hefur verið upplýst hér á hv. Alþ. áður, að það hefur ekki fengizt samvinna við Framkvæmdastofnun ríkisins um ýmsar byggðaáætlanir, sem menn hafa á prjónum heima fyrir. En ég skal ekki lengja þessar umr. með því að ræða frekar um þetta. Þessi frammistaða finnst mér ákaflega ömurleg í einu orði sagt.

Ég vil þá aðeins víkja að því, sem hæstv. ráðherra sagði, þegar hann lauk máli sínu, að hann sagðist hafa lagt áherzlu á það, þegar lög um Framkvæmdastofnun ríkisins voru hér til umr. á hinu háa Alþ., að reynslan af stofnuninni skæri úr um það, hvort gera þyrfti breytingar á þeim lögum eða ekki. Hins vegar forðaðist hann að setja fram eitthvert mat á því, hvort hann teldi, að sú reynsla, sem fengin væri af stofnuninni, gæti tilefni til breytinga. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við sjálfstæðismenn vorum ákaflega gagnrýnir á það fyrirkomulag að hafa 3 pólitíska kommissara í stjórn þessarar stofnunar og raunar ýmis önnur ákvæði þeirra laga, þótt við værum efnislega samþykkir ýmsu, sem í frv. var. T.d. vorum við samþykkir því, að hagrannsóknadeildin starfaði eins og hún starfar nú, þ.e.a.s. ekki undir þessari pólitísku stjórn, heldur beint undir stjórn ríkisstj., sem er eðlilegt, því að það er beinlínis hlægilegt, að slík starfsemi sem hagrannsóknir heyri undir pólitíska stjórn, slíka stjórn, sem þarna er. Við vorum fylgjandi ýmsu af því, sem í þessu frv. var, en aðalgagnrýni okkar beindist að því, hvernig stjórn stofnunarinnar væri háttað. Nú væri ekki úr vegi, að hæstv. ráðherra segði okkur hér á hv. Alþ., hvert hans mat væri, hvort þessi stjórnskipan stofnunarinnar hefði gefizt vel að hans mati.

Að lokum þá vil ég aðeins ræða um fjármögnun byggðasjóðs, um það ráðstöfunarfé, sem hann hefur haft. Það hefur mikið verið gumað af því, að ráðstöfunarfé hans hafi verið mjög aukið frá því sem var í tíð fyrrv. ríkisstj., vegna þess að honum eru ætlaðar nú 100 millj. kr. á ári á fjárlögum, en þetta framlag var einungis 15 millj. kr. áður. Hér er náttúrlega um umtalsverða aukningu að ræða á framlögum ríkissjóðs til byggðasjóðs. En það, sem hefur skeð í þessu efni, er að byggðasjóður hefur verið látinn taka á sig verulegar skuldbindingar vegna almennra stofnlána í landinu og þá fyrst og fremst vegna nýbyggingar fiskiskipa, sem nema hvorki meira né minna á s.l. ári, eftir því sem ráðherra gaf hér upplýsingar um, en um 150 millj. kr. Nú er það svo, að ýmsir af þessum ágætu skuttogurum koma náttúrlega byggðarlögum á landsbyggðinni til góða. Hitt er svo annað mál, að þegar við sjáum þetta, annars vegar þá hækkun, sem er frá ríkissjóði til byggðasjóðs, og hins vegar þær skuldbindingar, sem byggðasjóður hefur verið látinn taka á sig vegna þessara skipakaupa, þá er ráðstöfunarfé til annarra hluta beinlínis skert, og þetta álít ég að þurfi að hafa oftar í huga og stjórnarsinnar að upplýsa oftar en þeir gera, þegar þeir eru að tala um, hvað byggðasjóður hafi verið efldur, enda held ég, að öllum, sem hafa komið nálægt þeim málum, beri saman um, að þar þurfi að gera allmiklu betur. Raunar kom það fram í ræðu hæstv. ráðherra, því að hann gat þess, að 233 millj. kr. hefði vantað upp í lánsloforð um áramót.