17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3401)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér hafa orðið nokkrar umr. um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og mun ég taka upp þráðinn, þar sem hann slitnaði hér fyrir kvöldmatinn, þótt ekki verði sagt, að tekið sé til óspilltra málanna, þar sem flestir þm. eru nú í burtu og fáir komnir aftur og sumir þeirra, sem hér voru helzt að ausa af sínum vizkubrunnum, láta sig síðan vanta.

Svo að ég víki hér aðeins að orðum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og kvörtunum hans yfir því, að skýrsla um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hefði ekki verið lögð öll fyrir stjórn hennar, áður en efni hennar var kynnt, þá er rétt að gera grein fyrir því hér, að um er að ræða 2 skýrslur í þessu máli. Í fyrsta lagi er það skýrsla Framkvæmdastofnunarinnar, sem er mjög ítarleg greinargerð um alla starfsemi stofnunarinnar á s.l. ári. Þessi skýrsla hefur enn ekki verið gefin út formlega, ekki verið birt. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að við það verði staðið, sem ákveðið var og tilkynnt var á síðasta stjórnarfundi, að stjórnarmönnum gefizt kostur á að skoða hana og gera athugasemdir við hana, áður en hún verður endanlega frágengin og gefin út. Hin skýrslan, sem um er að ræða, er svo aftur sú, sem hæstv. forsrh. er ætlað að flytja og hann hefur flutt hér, að sjálfsögðu á eigin ábyrgð, þar hefur hann fyrst og fremst stuðzt við drög að hinni væntanlegu skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar. En eins og hér kom fram áðan, las hann ekki upp úr þeirri skýrslu nema litinn hluta og hefði sjálfsagt þurft að vera að meiri hluta dagsins til þess að koma henni allri til skila hér á fundinum. Ég kem þessu hér að, til þess að þetta valdi ekki neinum misskilningi.

Hér urðu áðan nokkrar umr. um samgöngumálaáætlun Norðurlands, einkum vegna ummæla hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Lárusar Jónssonar um hana og fsp. þeirra til hæstv. forsrh. í því sambandi. Hv. þm. Lárus Jónsson hélt því fram, að engin samráð hefðu verið höfð við heimamenn í sambandi við þessa áætlunargerð og þeir hefðu þar hvergi nærri komið. Ég þarf næstum ekki að taka það fram, að fullyrðing hv. þm. byggist á misskilningi. (Gripið fram i: Það var átt við 1973.) Já, ég er líka að tala um áætlun fyrir 1973. Og ég get upplýst, að það hefur verið unnið að þessari áætlun undanfarnar vikur og haft hefur verið samráð við heimamenn í þessu sambandi og þá fyrst og fremst við samgn. Fjórðungssambands Norðurlands. Það er verið að setja á blað einmitt um þessar mundir fyrstu drög þessarar áætlunar í beinu framhaldi af því, að nú hefur verið samþykkt formlega hér á Alþ. fjárveiting til þessarar áætlunar, og það er ætlunin, að þessi fyrstu drög verði rædd frekar í samgn. Fjórðungssambandsins, áður en að lengra verður haldið. Þessi áætlun er að sjálfsögðu samin ekki aðeins af starfsmönnum áætlunardeildar Framkvæmdastofnunarinnar, heldur og með ráðum vegamálaskrifstofunnar, og það eru þessir aðilar, sem ganga frá þessum fyrstu drögum. Ég geri síðan ráð fyrir því, að innan skamms verði unnt að leggja þessa áætlun fyrir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, sem fjallar þá endanlega um hana af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar, og síðan verður hún send til ríkisstj. til endanlegrar staðfestingar.

Ég tel eðlilegt og er sammála hæstv. forsrh. um það, að á einhverju stigi málsins gefist þm. þessara tveggja kjördæma tækifæri til að fylgjast með því, sem verið er að setja á blað í þessu sambandi, og gefist kostur á að gera athugasemdir við áætlunina, áður en hún verður fullfrágengin. Í sambandi við þessa athugasemd vil ég minna hv. þm. á, að það hefur aldrei staðið til, að samgönguáætlun af þessu tagi yrði afgreidd á Alþ., ekki frekar en aðrar áætlanir. Í lögum um Framkvæmdastofnunina er tiltekið, með hvaða hætti áætlanir hér á landi skuli samdar og gerðar og samþykktar, og það gerist fyrst og fremst á þennan hátt, að áætlunin er samin í Framkvæmdastofnuninni í samráði við ýmsa aðila og síðan er hún send ríkisstj. til staðfestingar, en þessar áætlanir eru ekki afgreiddar með einum eða neinum hætti hér á Alþ., þannig að þáttur þm. Norðurl. í þessu sambandi hlýtur fyrst og fremst að vera sá, að þeim gefist kostur á að koma á fund með þeim mönnum, sem að áætluninni vinna, og ræða við þá um efni áætlunarinnar.

Ég get tekið undir það, að kannske er þessi áætlunargerð helzt til seint á ferðinni og hefði verið æskilegt, að hún hefði verið fullbúin fyrr. En ástæðurnar eru að sjálfsögðu fyrst og fremst þær, að bæði hafa arðsemisútreikningar í sambandi við hina ýmsu möguleika, sem til greina koma, dregizt á langinn, og í öðru lagi lá ekki fyrir, hversu mikið fjármagn yrði til ráðstöfunar, og var auðvitað ekki eðlilegt að fara að drífa í því að ganga frá þessari áætlun, fyrr en það lægi fyrir.

Nokkrir hv. þm. gerðu fjárhagsmálefni Framkvæmdastofnunarinnar að umræðuefni sínu hér áðan og nefndu þar m.a., að kostnaður við störf hinna þriggja stofnana, sem runnu inn í Framkvæmdastofnunina, hefði numið 20 millj. 840 þús. kr. á árinu 1971, en samkv. reikningum kæmi nú í ljós, að kostnaður við starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hefði numið 32 millj. 817 þús. kr., og menn hafa viljað halda því fram, að þarna væri um einhvern gífurlegan ofvöxt að ræða eða óeðlilega eyðslu fjár. Þar við bættist, að hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, reyndi að gera því skóna, að raunverulega væri kostnaður við starfsemi stofnunarinnar á ársgrundvelli miklu meiri en þessu næmi, vegna þess að stofnunin hefði ekki starfað allt árið, heldur sennilega í hæsta lagi í 9 mánuði og því væri rekstrarkostnaðurinn hlutfallslega þeim mun meiri. Allt er þetta að sjálfsögðu á miklum misskilningi byggt.

Ég vil taka fram í sambandi við aukningu rekstrarkostnaðarins almennt, að þar er að sjálfsögðu fyrst og fremst um aukinn launakostnað að ræða, sem skýrist m.a. af talsvert mikilli sveiflu í launakostnaði almennt hjá opinberum starfsmönnum milli þessara tveggja ára. Í öðru lagi kemur þarna að sjálfsögðu til ýmiss konar kostnaður, sem er í tengslum við samruna þessara stofnana, og að sjálfsögðu enginn vafi á því, að kostnaður við rekstur þessarar stofnunar á fyrsta ári hennar er meiri, þegar hún býr við mjög óhentug starfsskilyrði, og fyrstu 9 mánuðina er hún m.a. á þremur stöðum til húsa. Ég held, að það þurfi ekki mikilla skýringa við, að kostnaðurinn sé m.a. af þessum sökum heldur meiri en ætti að vera, þegar starfsemin er komin á eðlilegan grundvöll.

Hvað snertir fullyrðingu hv. þm. Ingólfs Jónssonar um starfstímann, þá er því ósköp einfaldlega til að svara, að starfstími stofnunarinnar hófst formlega séð 1. jan. 1972, og þar er enginn einn mánuður undanskilinn, heldur allir meðtaldir. Og það voru engir tveir eða þrír mánuðir, sem liðu, þar til stofnunin komst öll til húsa á einum stað, það voru 9 mánuðir, sem liðu þar til svo varð, stofnunin var ekki komin á einn stað fyrr en 1. sept. á s.l. ári, og allan þann tíma voru ákveðnir þættir í starfsemi stofnunarinnar á vegum annars vegar Seðlabankans og hins vegar Landsbanka Íslands. Í upphafi ársins voru gerðir samningar af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar við þessa tvo ríkisaðila um, að þeir önnuðust rekstur þessara þátta stofnunarinnar, — það var annars vegar starfsemi framkvæmdasjóðs og hins vegar starfsemi atvinnujöfnunarsjóðs, — þar til stofnunin væri komin í eitt húsnæði, hefði húsnæði fyrir sína starfsemi. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að leggja mikið á mig til að sannfæra menn um það, að að sjálfsögðu tóku þessar stofnanir fulla greiðslu fyrir þá þjónustu, sem þær veittu stofnuninni, og það kom að sjálfsögðu í hlut Framkvæmdastofnunarinnar að greiða laun þeirra manna, sem á þann hátt voru að störfum hjá stofnuninni, þó að þeir væru ekki formlega séð á launalista þar.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson vék hér nokkuð að gerð Suðurlandsáætlunar og get ég ekki annað sagt um hans málflutning en að þar kom fram kurteisleg ábending um, að við gerð þessarar áætlunar hefði verið eytt svo og svo miklu fjármagni og það þyrfti að leita leiða til að leysa þann vanda, sem þar væri upp kominn, og hef ég í sjálfu sér ekkert við hans málflutning að athuga. Ég verð hins vegar að segja það hreinskilnislega, að það gegnir nokkuð öðru máli um þann málflutning, sem forstöðumenn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi hafa haft í frammi á opinberum vettvangi í þessu sambandi, því að þeirra málflutningur hefur vægast sagt verið fyrir neðan allar hellur og þeir hafa leyft sér að ráðast með ósönnum ásökunum á Framkvæmdastofnunina af litlu tilefni.

Í sambandi við svokallaða Suðurlandsáætlun vil ég strax taka það fram, að enn sem komið er er ekki um neina áætlun að ræða, sem getur borið nafn með réttu. Það, sem gert hefur verið, er að sjálfsögðu fyrst og fremst það, að safnað hefur verið gögnum og samdar miklar og stórar skýrslur til undirbúnings því verki, sem mun vonandi hefjast innan tíðar, að gerð verði sérstök Suðurlandsáætlun. Þessi gagnasöfnun og skýrslugerð hefur borizt flestum þm, að ég hygg, og er í bók af þykkara taginu, eins og flestir munu vita. Framkvæmdastofnunin hefur greitt samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi til þessa verks 500 þús. kr. á s.l. ári, og á þessu ári verður upphæðin hækkuð sem nemur launahækkun starfsmanna, sem við slík áætlunarstörf fást, og auk þess verða nú greidd öll launatengd gjöld, sem áður voru ekki greidd, þannig, að upphæðin er allmiklu hærri en hún var á síðasta ári. Á næsta ári mun áfram verða haldið þessum greiðslum, og mun ekki standa neitt á því. Ég get fullvissað hv. þm. um, að sérstakar óskir samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi um, að Framkvæmdastofnunin taki þátt í kostnaði þeim, sem samtökin hafa haft af þessari áætlunargerð umfram það, sem ég hef nú talið, verða að sjálfsögðu teknar til athugunar, þegar gerð verður næsta fjárhagsáætlun fyrir Framkvæmdastofnunina, og ég tel, að það geti vel komið til greina, að einhver kostnaður, sem samtök sveitarfélaga hafa haft af þessu verki verði greiddur. Það verður að sjálfsögðu að skoðast í samhengi við það, sem gert er fyrir önnur landshlutasamtök. En ég er sannfærður um það, að hv. þm. Ingólfur Jónsson er það sanngjarn maður, að hann sér, að það er alveg útilokað mál, að ein landshlutasamtök geti ráðið næstum því eins marga starfsmenn og þeim kemur til hugar og látið þá starfa í langan tíma og sent síðan reikninginn á opinbera stofnun eins og Framkvæmdastofnunin er, án þess að nokkrar ákvarðanir hafi áður verið um það teknar eða um það fjallað með eðlilegum hætti í stjórn þessarar stofnunar eða gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun hennar. Ég er hræddur um, að hv. þm. Matthías Bjarnason yrði nú dálitið skrýtinn á svipinn og færi að býsnast eigi litið yfir hækkuðum rekstrarkostnaði hjá þessari ágætu stofnun, ef þannig væri farið að, og ég er sannfærður um, að við erum sammála um það, að slík vinnubrögð gætu ekki gengið.

Hvað gerð byggðaáætlana snertir í þessari stofnun, get ég fúslega tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að það verk gengur sjálfsagt hægar en við hefðum margir óskað eftir. Ég verð hins vegar að gefa þá yfirlýsingu, að vonir mínar um mjög verulega aukinn skrið í áætlunargerð á þessu sviði eru fyrst og fremst bundnar við landshlutasamtök eins og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi, og ég tel engum vafa undirorpið, að frumkvæðið verði þar að vera fyrst og fremst. Framkvæmdastofnunin mun hins vegar veita ýmiss konar almenna þjónustu í þessu sambandi. Hún mun veita starfsmönnum, sem við þessa áætlunargerð fást, ýmiss konar leiðsögn. Nú er verið að vinna að því að safna gögnum um mannafla, tekjuskiptingu og félagslega aðstöðu í öllum landshlutum. Og það er unnið að því að setja þessi gögn upp í kerfi, sem hægt verði að halda við, þannig að stöðugt sé hægt að afla upplýsinga um það, hvernig staðan er í hverjum landshluta á hverjum tíma, svo að ekki þurfi að gera út af örkinni sendinefnd aftur og aftur, eins og löngum hefur tíðkazt hjá okkur, til þess að safna gögnum og gera langar skýrslur, heldur sé hægt að hafa þessar upplýsingar við höndina á einum stað og grípa til þeirra, þegar á þeim þarf að halda. Ég er sannfærður um, að einmitt þetta verk verður landshlutasamtökunum geysilega mikill styrkur í starfi þeirra að áætlunargerð, og ef þetta verk hefði þegar legið fyrir, er ég viss um, að æðiháar fjárhæðir, sem Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi hafa nú eytt í gagnasöfnun og skýrslugerð, hefði mátt spara. Framkvæmdastofnunin mun hverju sinni leggja áherzlu á að athuga sérstaklega vandamál þeirra staða, sem eiga við erfiðust vandamál að glíma og hægt er að segja að séu að dragast aftur úr að einhverju leyti. Á meðan starfskraftar stofnunarinnar eru ekki meiri en þeir eru, verður hún að binda sig fyrst og fremst við þessar tvær hliðar málanna, almennar upplýsingar og gagnasöfnun, sem sett yrði í samræmt kerfi, og þá tilsvarandi leiðsögn þeirra starfsmanna, sem að þessum málum vinna hjá landshlutasamtökunum, og svo hins vegar áætlunargerð fyrir þau svæði, sem hægt er að segja að standi sérstaklega á um. Þetta starf er hafið að fullum krafti hjá Framkvæmdastofnuninni, og fyrsti áfanginn í því hefur verið gerð Skagastrandaráætlunar. Nú er einnig byrjað að starfa að áætlunargerð fyrir vestanvert Norðurland og Strandir og þá sérstaklega Húnaflóasvæðið í heild sinni. Einnig mun í vor hefjast af fullum krafti áætlunargerð fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Það er hvort tveggja slíkir þættir. En eins og ég segi og hef sagt, þetta starf gengur kannski hægar en vera þyrfti, og ég held ég geti leyft mér að fullyrða, að það sé ekki vegna þess, að viljann skorti, heldur er það ekki hvað sízt vegna þess, að mjög erfitt er að fá hæfa starfskrafta til að sinna þessum verkefnum.

Byggðasjóður hefur orðið hér nokkuð að umtalsefni og ég vil aðeins víkja að þeim orðum, sem hv. þm. Lárus Jónsson hafði hér, en hann gaf í skyn, að í raun og veru væri til lítils að vera að tala um það, að byggðasjóður hefði nú miklu meira fjármagni á að skipa en atvinnujöfnunarsjóður hefði haft, vegna þess að byggðasjóður hefði lent í því að greiða út svo geysilega mikið af sjálfvirkum lánum, að litið hefði orðið eftir til annarra hluta. Ég held, að þarna gæti talsvert mikils misskilnings, og ég vil reyna að leiðrétta hann. Ef litið er á samþykktar lánveitingar byggðasjóðs á árinu 1972, námu þær alls 480 millj. kr. Ef aftur á móti er litið á lánveitingar atvinnujöfnunarsjóðs á árinu 1971, munu þær hafa numið nálægt 180 millj. kr. Ég hef töluna ekki nákvæmlega fyrir framan mig, en það mun ekki vera fjarri, — þannig að þarna er um talsvert meira en tvöföldun að ræða. það er hins vegar alveg rétt, að talsvert stór hluti af samþykktum lánum byggðasjóðs á nýliðnu ári er sjálfvirkar lánveitingar til nýsmíði fiskiskipa. Í sjálfvirk 5% lán hafa farið 168 millj. kr., og í nýsmíði fiskiskipa, 10% lán, en þá er að sjálfsögðu átt við innlendu smíðina, hafa farið 66 millj. kr., þannig að samtals gera þessir tveir liðir 232 millj. kr. Til annarra lána hafa því verið veittar um 250 millj. kr. Ef við tökum aftur á móti öll sjálfvirk lán til fiskiskipa, sem veitt voru á liðnu ári, mun láta nærri, að þar sé um að ræða rétt um 300 millj. kr., þannig að sjóðurinn hefur þá lánað 180 millj. kr., þegar frá eru talin sjálfvirk lán til fiskiskipa. Ef við aftur á móti lítum á tölurnar varðandi atvinnujöfnunarsjóð, en hann lánaði, eins og ég sagði áðan, um 180 millj. á árinu 1971, þá var að sjálfsögðu einnig um að ræða hvað atvinnujöfnunarsjóð snertir, að verulegur hluti af hans lánum var sjálfvirk lán til fiskiskipa. Af þessum 180 millj. kr., sem atvinnujöfnunarsjóður lánaði á árinu 1971 eða samþykkti, — í báðum tilvikum er miðað við samþykkt lán, — voru hvorki meira né minna en 120 millj. til sjálfvirkra lána, — 120 millj. af 180. Ég held þess vegna, að það geti ekki dulizt neinum, að lánveitingar úr byggðasjóði eru a.m.k. tvöfalt meiri en þau voru úr atvinnujöfnunarsjóði, og breytir þá engu, hvort sjálfvirku lánin eru talin með eða ekki. Það er greinilega um að ræða liðlega tvöföldun, hvernig sem á málið er litið. Ég vil bæta því við, að mjög verulegur hluti af þessum sjálfvirku lánum hefur komið landsbyggðinni að gagni, um það þarf enginn að efast, því að langstærsti hlutinn af þeim lánum eru einmitt lánin til togaranna, sem að miklum meiri hluta koma til þeirra landshluta, sem byggðasjóður á einmitt að hafa hugann við sérstaklega.

Ég vil að lokum segja það um ræður þeirra stjórnarandstæðinga, sem hér töluðu áðan, að þær voru almennt heldur hófsamlegar. Í sjálfu sér kemur mér ekkert á óvart, að hv. þm. Benedikt Gröndal skuli tala í heldur stillilegum tón um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar, því að Alþfl. var stofnun hennar fylgjandi og greiddi atkv. með því, að hún yrði sett á fót, og hefur alla tíð verið mjög jákvæður til þeirrar skipulagsbreytingar, sem þar var gerð. En hið sama verður því miður ekki sagt um hinn stjórnarandstöðuflokkinn, Sjálfstfl. Ég geri ráð fyrir því, að flestum muni enn þá í fersku minni, hvílíkar upphrópanir voru uppi hafðar, þegar þessi stofnun var sett á laggirnar. Það var gjarnan talað um, að hér væri um hræðilegt bákn að ræða, sem ætti að setja upp, einhvers konar allsherjar kolkrabba í ríkiskerfinu, sem mundi teygja anga sína í allar áttir. (Gripið fram i.) Já, ég kann nú ekki öll þessi stóryrði, sem þá voru uppi höfð, og þarf að sjálfsögðu ekki að rifja þau upp fyrir hv. þm. En ég held, að það liggi nú nokkuð ljóst fyrir, að tónninn hefur æðimikið breytzt, síðan þetta var, og hv. stjórnarandstæðingar hafa fyrir löngu jafnað sig á þessum ýkjum sínum og eru nú farnir að ræða þessi mál í svolítið stillilegri og þekkilegri tóntegund.

Hvað Framkvæmdastofnunina almennt snertir, vil ég aðeins segja það, að ég lít svo á, að mikið hafi áunnizt með stofnun hennar og starfi. Ég fer ekki ofan af því, sem ég hef áður sagt um það efni, að ég tel, að stofnun hennar hafi tvímælalaust falið í sér talsverða einföldun og talsverða hagræðingu. Ég tel, að með starfsemi hennar fáist betri yfirsýn yfir þjóðarbúskapinn og yfir heildarstöðuna í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar heldur en áður var kostur á. Í þessari stofnun er tvímælalaust hafin víðtækari áætlunargerð en áður hefur þekkzt hér á landi. Hv. þm. Benedikt Gröndal vildi að vísu reyna að koma því inn hjá þm., að áætlunargerðin væri í nokkuð svipuðu fari og áður var. En ég býst við, að þeir, sem vilja eitthvað kynna sér hið rétta í þessu máli, geti verið mér sammála um, að þarna hefur orðið talsvert mikil breyting á og það er unnið af fleiri starfsmönnum og af meiri krafti að áætlunargerð en áður var. Þar við bætist, að fastari tök hafa fengizt á fjárfestingarkerfinu almennt. Ég er hins vegar ekki að segja, að þau tök séu jafntraust og vera þyrfti, en það hefur tvímælalaust miðað í rétta átt.

Hiklaust má segja, að afskipti framkvæmdasjóðs og hlutur hans að fjárfestingarmálunum hafi vaxið. Það hefur gerzt í raun og veru einfaldlega með því, að Framkvæmdasjóður tekur nú miklu, miklu stærri þátt í fjármögnun annarra fjárfestingarsjóða en áður var og hefur þar af leiðandi meira eftirlit og meiri afskipti af þeim en var. Má vel vera, að svo hefði alla vega farið, jafnvel þótt ekki hefði komið til, að þessi stofnun hefði verið sett á fót. En það, sem alveg sérstaklega skiptir máli, er þó það, að áætlunargerðin hefur verið tengd við fjárfestingarstjórnina, og það held ég, að sé það mikilvægasta við starfsemi þessarar stofnunar.

Það mikilvægasta hvað þetta snertir, stærsta verkefnið, sem unnið hefur verið að, er að sjálfsögðu framkvæmdaáætlun ríkisins, en hún var unnin fyrr á árinu en nokkru sinni áður hefur tíðkazt og var sem sagt tilbúin í nóv. í haust, mörgum mánuðum fyrr en áður hefur verið. Það er áreiðanlega mikill kostur, að þessi áætlun sé unnin í sömu stofnun og síðan fjallar um fjármögnunarþáttinn. Það er eðlilegt, að þarna séu nokkur tengsl á milli.

Af öðrum áætlunum, sem mikið starf hefur verið lagt í og eðlilegt er að efla í þessu sambandi, má alveg sérstaklega nefna hraðfrystihúsaáætlunina, sem unnið hefur verið að í vetur. Í því sambandi hefur að sjálfsögðu verið haft náið samband við fiskveiðasjóð og þá, sem hafa unnið að heilbrigðis- og hollustumálum þessarar atvinnugreinar undanfarin misseri. Það hefur sem sagt verið reynt að átta sig á því til fulls, hver væru framkvæmdaáform hraðfrystihúsanna almennt í landinu. Þau munu vera um 100 talsins, sem hafa áformað breytingar, nýbyggingar, stækkanir og aðrar endurbætur, og það hefur verið kannað mjög rækilega, hver væru þeirra áform. Síðan hefur verið farið yfir það af sérfróðum mönnum, hversu skynsamleg þessi áform væru, hvort teikningar og fjármögnunaráætlanir væru með þeim hætti, að hægt væri að leggja blessun sína yfir þær. Haft hefur verið náið samráð við fiskveiðasjóð í þessu sambandi og reynt að átta sig á, hver yrði hlutur hans við útlán til frystihúsanna á þessu ári, hver gæti orðið hlutur byggðasj. og atvinnuleysistryggingasjóðs og hvert yrði að vera eigið fjármagn fyrirtækjanna hvers um sig. Þessi áætlun hefur verið til endanlegrar afgreiðslu í stjórn stofnunarinnar nú síðustu daga og verður væntanlega frágengin á morgun.

Ég get fúslega viðurkennt, að kannske er það heldur í seinna lagi, sem þessi áætlun er fullfrágengin, og hefði verið æskilegt, að hún hefði verið tilbúin fyrir nokkrum mánuðum. En á það ber þó að líta, að gerð áætlunar af þessu tagi er raunverulega einsdæmi hér á landi, á sér ekkert fordæmi. Það á sér ekkert fordæmi, að slík áætlun sé gerð um svo stórfelldar fjárfestingar í heilli atvinnugrein, það sé reynt að átta sig á því alveg ofan í kjölinn, hvað gert verði yfir allt árið. Ég tel, að ekki leiki neinn vafi á því, að þessi vinnubrögð hljóti allir að vera sammála um, að séu til fyrirmyndar, og þó að menn geti að vísu kvartað yfir því, að þetta sé of seint á ferðinni, þá sé þó hitt aðalatriðið og það, sem upp úr standi, að þarna er verið að stíga mikilvægt framfaraspor og þarna er verið að taka upp vinnubrögð, sem ekki hafa áður tíðkazt.