17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. ræddi hér nokkuð um starfsemi byggðasjóðs og þær reglur, sem þar hafa verið samþykktar nú nýlega vegna breyt., sem hafa verið gerðar frá hinum sjálfvirku reglum, sem verið hafa í gildi. Finnst mér rétt að koma nokkið nánar inn á það og sömuleiðis út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta sama atriði.

Reglur atvinnujöfnunarsjóðs á sínum tíma voru þær í stórum dráttum, að hann lánaði 5% af matsverði fiskveiðasjóðs til nýbyggingar skipa, hann lánaði 5% vegna kaupa á skipum, til ákveðinna byggðarlaga og 171/2% af endurbyggingarverði skipa samkv. mati fiskveiðasjóðs, sem á þurfti að gera sérstakar endurbætur, sem hækkuðu viðkomandi skip í vátryggingarvirðingu. Þetta var í gildi og voru þær lánareglur í stórum dráttum, sem atvinnujöfnunarsjóður hafði. Síðan kom til greina fjármagn til lánveitinga, sem ríkisstj. útvegaði og var tekið upp af fyrrv. ríkisstj. á sínum tíma til þess að örva skipabyggingar og örva uppbyggingu fiskiskipastólsins. Rétt fyrir kosningar 1971 ákvað fyrrv. ríkisstj. að lækka þessi sérstöku lán úr 10% niður í 5%, en skipti sér auðvitað ekkert af ákvörðun atvinnujöfnunarsjóðs í þessum efnum, og þetta gilti örstuttan tíma. En eftir að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, breytti hún þessum reglum aftur úr 5% upp í 10%. Þessi 10% lán eru í raun og veru ekki lán byggðasjóðs, heldur lán, sem bæði fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. hafa veitt eða útvegar fjármagn til, og voru umfram þau lán, sem fiskveiðasjóður veitir til byggingar fiskiskipa eða kaupa á fiskiskipum. Byggðasjóðslánin voru veitt til þeirra staða, sem byggðasjóður á fyrst og fremst að beina umframlánveitingum til, en þessar lánveitingar, sem ríkisstj. tók upp, alveg eins og lánveitingar fiskveiðasjóðs, eru auðvitað alveg jafnt til allra, hvar sem þeir eru búsettir á landinu.

Ég vil minna hv. þm. á það, að hlutverk byggðasjóðs samkv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum, koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Það er þetta hlutverk og það er þessi grein, sem stjórn byggðasjóðs eða stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins í þessu tilfelli á fyrst og fremst að hafa að leiðarljósi. En nú er ekki þar með sagt, að þá sé um að ræða byggð í öllum kjördæmum landsins nema Reykjaneskjördæmi og Reykjavík. Það getur auðvitað skapazt slíkt ástand á einhverjum ákveðnum stöðum, eins og í Reykjaneskjördæmi eða Reykjavík, að það þyrfti að efla hér byggð, ef allt í einu yrði mikill fólksflótti héðan út á land. En ég held, að fáir þurfi að óttast það, a.m.k. ekki á næstunni, eins og þróun þessara mála hefur verið. Atvinnuleysi er ekki vandamál, sem byggðasjóður á að leysa. Atvinnuleysi er vandamál, sem atvinnuleysistryggingarsjóður á að glíma við. Það hélt ég, að hv. þm. vissi mætavel. Það er hvergi í lögunum um byggðasjóð neitt í sambandi við atvinnuleysi. Og það er það, sem mér finnst, að menn verði að passa sig á, að rugla ekki saman verkefnum ákveðinna sjóða eða ákveðinna stofnana í þessu sambandi. Hins vegar skal ég taka undir það, sem hv. þm. sagði hér áðan í sambandi við þessa samþ. byggðasjóðs, að þá er fyrst og fremst lagt til grundvallar þetta svæði, sem hann las upp, en heimilt er þó að víkja frá þessu ákvæði, verði alvarlegt atvinnuleysi eða vanti atvinnutæki á ákveðna staði, við skulum t.d. segja í höfnum á Vatnsleysuströndinni í Reykjaneskjördæmi., þá vil ég alls ekki fyrir mitt leyti útiloka þessa aðila og mundi aldrei greiða atkv. með því, á meðan ég væri í stjórn byggðasjóðs. En við skulum muna eftir því, að stofnun atvinnujöfnunarsjóðs á sínum tíma var fyrst og fremst gert til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, koma í veg fyrir og reyna að draga úr þeim mikla flótta, sem átt hefur sér stað, ekki á undanförnum árum, heldur á mörgum undanförnum áratugum, úr ákveðnum byggðarlögum landsins. Jafnframt lýstu fulltrúar úr þessum þéttbýlisstöðum, eins og Reykjavík og Reykjaneskjördæmi yfir, þegar álverksmiðjan var byggð og farið var í Búrfellsvirkjun, og voru sammála okkur fulltrúum strjálbýlisins, að það yrði að koma eitthvað á móti til þess að jafn metin, þegar farið er í jafnstórfelldar og dýrar framkvæmdir og þar var gert, sem treysta mjög verulega atvinnulífið á þessum stöðum, — öðrum byggðarlögum, sem áttu í vök að verjast í þessum efnum, yrði að hjálpa með því að auka fjárveitingar til starfsemi þar, og m.a. var stórum hluta af því skattgjaldi, sem álverksmiðjan á að greiða og hefur greitt, varið til atvinnujöfnunarsjóðs og nú til byggðasjóðs, sem er innan Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Ég held, að það eigi að nægja að benda á, hvernig þessi þróun hefur orðið og hefur haldið áfram, að 1910 voru 20.66% landsmanna í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, en í árslok 1972 eru 59.28% þeirra í þessum sömu kjördæmur. Þetta auðvitað sýnir þá alvarlegu þróun, sem átt hefur sér stað í þessu þjóðfélagi, og jafnframt það, að fjármagnið hefur leitað hingað og fólkið líka. Það hefur margt komið hér upp á þessum tíma, og ýmislegt hefur gerzt, sem engum datt í hug, að mundi gerast. Stríðsárin og afleiðing þeirra höfðu mikið að segja fyrir vaxandi fólksfjölgun á þessu svæði. Fólkið leitaði hingað. Það var meiri atvinna og tryggari á þessu svæði á þeim tíma, þó að við getum nú aftur, sem betur fer, glaðzt yfir því, að á síðustu árum hefur orðið stórfelld breyting víðast hvar á landinu í sambandi við atvinnumálin.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri engin breyting í sambandi við útlánareglurnar, þó að sjálfvirka kerfið væri lagt niður. Þetta er hreinn misskilningur. Ég furða mig á þessum misskilningi hjá manni, sem les fundargerðir Framkvæmdastofnunar ríkisins jafnvel og hann sagði hér áðan, að hann gerði. Hann veit það sjálfur, hæstv. forsrh., að byggðasjóður hefur ekkert lánað — (Forsrh.: „Ég sagði það aldrei, að það hefði engin breyting orðið“.) Hæstv. forsrh. sagði áðan, að það væri alveg opið eftir sem áður. Það er bara ekki opið. Það er búið að taka þá ákvörðun að lána ekki. Ég spyr þá hæstv. forsrh. að því, ef einhver maður ætlar að sækja núna um nýbyggingu á skipi, má hann þá reikna með því, að ríkisstj. útvegi 10% lán, eins og verið hafði í gildi? Hvar liggur það fyrir? Hvað mundu 15 millj. endast lengi, sem eru í áætluninni? Hvað segir hæstv. sjútvrh. um það? Hann veit, hverjir prísarnir eru á skipunum núna, og það vitum við líka fleiri. (Gripið fram í.) En af hverju var þá verið að taka þessar reglur af? Því mega þær ekki vera í gildi? Af hverju er verið að snúa aftur með það? Svo á nú að fara að setja aftur í lægri gír og keyra hægt áfram. (Gripið fram í.) Það eru 15 millj. í henni. Hvað hafa 15 millj. að segja?

Formaður Framkvæmdastofnunar ríkisins flutti hér varnarræðu fyrir stofnunina, að vísu ekki eins kraftmikla og Sókrates sálugi, en viðleitnin var sú sama. Hann var að reyna að bera af sér og stofnuninni fyrst og fremst það, sem ég var að deila á. Það var ekki beint stjórnin, því að ég skal taka það fram, að ef þessir kommissarar væru lagðir niður, þá gæti ég vel hugsað mér, að það gæti orðið mjög þokkaleg samvinna á milli manna þarna í stjórninni. En það var aftur mikill misskilningur, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við það mál, sem ég skal síðar koma að.

Formaður Framkvæmdastofnunarinnar, sem er nú þegar að byrja sitt annað ár, þrátt fyrir yfirlýsingar forsrh. um það, að stjórnarflokkarnir ætluðu að skipta formennskunni á milli sín, — hann mun hafa sagt það heima í sínu kjördæmi fyrir rúmlega ári, en einhvern veginn hafa kaupin gerzt þannig á eyrinni innan ríkistj., að formaður Alþb. var settur á a.m.k. annað árið í röð, og það gerði forsrh. Kannske á hann ekki of miklum fögnuði að mæta hjá sínum kjósendum í Norðurl. v., því að þeir hafa sjálfsagt reiknað með því, að röðin væri nú komin að stærsta stjórnarflokknum að fá formennsku, og ekki þætti mér ósennilegt, að hv. 1. þm. Vestf. hafi verið búinn að máta formannsbuxurnar sínar tvisvar, áður en forsrh. skrifaði þetta bréf.

Hæstv. forsrh. spurði mig að því, hvort ég dirfðist að bera það á borð, að það væri litið pólitískum augum á umsóknir, sem berast til stofnunarinnar. Ég segi fyrir mitt leyti, ég kann engann veginn við að fara að gefa hér á Alþ. yfirlýsingar um, hvaða einstakar lánveitingar yrði litið á pólitískum augum. En ég skal bjóða hæstv. forsrh. upp á það að viðstöddum formanni Framkvæmdastofnunar ríkisins að fara yfir þá lista og sýna honum fram á, að ég var ekki að segja þetta út í bláinn.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvernig hefði honum fundizt það, á meðan hann var í stjórnarandstöðu ef fyrrv. ríkisstjórn hefði átt alla nm., en stjórnarandstaðan engan? Hvernig ætli honum fyndist það þingræði vera, ef núna væru eingöngu stjórnarsinnar í öllum n. Alþ. og engir stjórnarandstæðingar? Hvernig ætli andrúmsloftið væri hér á þingfundum í hverju einasta máli, ef stjórnarandstaðan hefði ekki tækifæri til að skoða eitt einasta mál, sem liggur fyrir? En hvað gerist þarna? Það er 7 manna stjórn í Framkvæmdastofnun ríkisins, en samkv. lögum þeim, sem stjórnarflokkarnir afgreiddu hér um Framkvæmdastofnun ríkisins, er komið þar á þriggja manna framkvæmdastjórn. Þessi þriggja manna framkvæmdastjórn er ekki kosin með þingræðislegum hætti, heldur tilnefna stjórnarflokkarnir sinn manninn hver, einn framsóknarmaður, alveg sauðtryggur, annar alveg sauðtryggur Alþb: maður og hinn þriðji alveg sérstakur sendiboði og agent fyrir Samtökin. Og það eru þessir herrar, sem skoða hverja einustu lánsumsókn, og það eru þessir herrar, sem koma með þær inn á fundi, þegar þeim sýnist. Það var þannig, hæstv. forsrh., að ég þurfti að láta bóka eftir mér, að ég óskaði eftir því að fá lista yfir þær lánsumsóknir, sem höfðu borizt, en þá hafði ekki verið lagður fram listi fyrir stjórnina í um 3 mánuði. Var það ekki rétt, formaður stjórnarinnar? Þá lágu þessir sendimenn ríkisstj. á öllum erindunum, og það þurfti að bóka alveg sérstaklega um það, svo að stjórnin fengi að sjá þau. Þetta er nú lýðræðið þar. Svo segir forsrh., að hann lesi fundargerðirnar og hann sjái, að við gerum litlar aths. og greiðum sennilega ekki nógu oft atkv. gegn. Ég skal lofa honum því, að ég skal taka þetta til athugunar allt saman. En þá verður hann að eyða nokkuð lengri tíma í að lesa fundargerðirnar, því að þegar afgreiddar eru kannske 40-500 lánsumsóknir á einum fundi, þá höfum við haft þann hátt á, að við höfum ekki farið fram á, að blessaður formaðurinn beri undir okkur hverja einustu lánsumsókn. Við höfum yfirleitt reynt að afgreiða þær í einu lagi. Þó að einstakir stjórnarmenn séu andvígir nokkrum lánsumsóknum, geta þeir aftur samþykkt aðrar, eins og gerist og gengur. En ég ætla að minna á það, að þessi vinnubrögð eru auðvitað allt önnur en hafa verið í þeim sjóðum, sem við þm. höfum starfað í áður. Ég segi það fyrir mitt leyti, ég átti sæti í stjórn atvinnujöfnunarsjóðs með Lúðvík Jósepssyni og Halldóri E. Sigurðssyni, svo að einhverjir séu nefndir, og Magnúsi Jónssyni, sem lengst af var formaður atvinnujöfnunarsjóðs. Ég man ekki eftir, að þeir afgreiddu eina einustu umsókn með mótatkv. En það var ekki búið að ákveða það af ákveðnum pólitískum flokkum, hvaða umsóknir skyldu lagðar fram og hvernig ætti að lána. Það kom bara embættismaður, starfsmaður sjóðsins, og það lágu fyrir gögn. Það var engar till. áður búið að gera í þessu sambandi. Þetta var afgreitt á viðkomandi fundi, en ekki á klíkufundum á undan. En það, sem kemur í ljós í Framkvæmdastofnuninni, er að þetta eru saklausir menn, eins og þm. eru, þeir segja sem svo: Þegar ég leit á þetta í gær eða á mánudaginn, þá var þetta svona og þá mun þetta vera svona. Nú skal ég ekki segja, hvort þeir koma saman, allir þessir bræður á stjórnarheimilinu, á einn og sama fund eða hvort fulltrúar Framsfl. heimsækja kommissara Framsfl. og fulltrúar SF heimsækja kommissara Samtakanna og fulltrúi Alþb. sinn mann, það skal ég ekki segja um. Það getur vel verið, að það sé svona eða þá að þeir tali við ríkisstj., áður en stjórnarfundur er haldinn í Framkvæmdastofnun ríkisins. En eitt er víst, að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki svona tækifæri, og það er þetta lýðræði, sem við erum að kvarta undan og teljum, að þurfi að breyta. Og nú vona ég, að hæstv. forsrh. hafi skilið, hvað um er að ræða.

Hv. formaður Framkvæmdastofnunar sagði í sambandi við Norðurlandsáætlunina, að það væri rétt, að hún hefði átt að vera búin, en hann lét að því liggja, að þetta mundi ekki koma svo mjög að sök. En þá kem ég að því, sem ég tel, að skipti töluverðu máli. Við þm. setjum og samþykkjum lög, og við ætlumst til þess, að aðrir þegnar þjóðfélagsins virði þau lög, sem löggjafarsamkoman setur. Þess vegna held ég, að þar sem við erum eða eigum að heita ráðandi, þá eigi það sama að gilda hvað okkur snertir, en í 11. gr. laganna um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem heyrir undir sjálfan hæstv. forsrh., segir, að áætlanir skuli sendar ríkisstj. til samþykktar og geri hún Alþ. grein fyrir þeim. Nú liggur það ljóst fyrir, að Norðurlandsáætlun fyrir árið 1973 liggur ekki enn þá fyrir, aðeins upplýst, að verið er að vinna að þessari áætlun. Það er í vegáætlun ein ákveðin upphæð til vegamála. Það er hugsuð ákveðin upphæð til hafna og flugvalla, að vísu ekki stór upphæð, sem hefur verið hugsuð, en endanlega liggur þetta ekki fyrir. Og þá spyr ég hæstv. forsrh.: Hvenær ætlar hann að gera Alþ. grein fyrir þeim framkvæmdum, sem á að framkvæma samkv. Norðurlandsáætlun í sumar? Hann er alveg staðráðinn í því að koma þinginu heim á morgun, en hvenær ætlar hann þá að gera þinginu grein fyrir þessari áætlun, ef hann ætlar að halda lög, sem hann sjálfur hefur átt aðild að að setja? Mér þætti fróðlegt að fá að heyra álit lagaprófessorsins á því, hvernig hann ætlar að framfylgja þessari gr. laganna. Hitt er svo annað mál, að þótt þetta væri ekki í lögum, þá hlýtur að vera kominn sá tími, að það þurfi að undirbúa þær framkvæmdir, sem á að fara í á þessu sumri. Það veit ég, að allir skilja.

Formaður Framkvæmdastofnunar ríkisins sagði, að það hefði verið ljóti söngurinn í sjálfstæðismönnum í sambandi við þetta frv., þegar það var lagt fram. Var ekki full ástæða til? Ég held það. En það er alveg rétt, menn héldu því fram, að þetta mundi verða alveg ofboðslegt bákn, þar sem allir yrðu að sitja og standa eins og báknið ákvæði. En sem betur fer voru til svo miklir einstaklingshyggjumenn í ríkisstj. meira að segja, hvað þá heldur annars staðar, að þeir vildu ekki gera þetta að þessu bákni, sem því var þá ætlað. Ég t.d. veit, að þó að sjútvrh. kenni sig við sósialisma, er hann mikill einstaklingshyggjumaður inn við beinið, og hann hefur ekki viljað gera Framkvæmdastofnunina stærri og meiri. Hann hefur líka viljað hafa hönd í bagga sjálfur, og svo er um fleiri en hann.

Það hefur verið minnzt hér nokkuð á hagrannsóknadeildina, en hún heyrir samkv. þessum lögum beint undir ríkisstj. Ég vil taka það fram, til þess að það valdi engum misskilningi, að ég tel, að hagrannsóknadeildin eigi ekki einu sinni að heyra undir ríkisstj., heldur á hún að mínum dómi að vera algerlega sjálfstæð. Ríkisstj. getur óskað eftir till. og eftir áliti frá henni á hverjum tíma, en hagrannsóknadeild á að vera sjálfstæð og ekki háð ríkisvaldinu, eins og hagrannsóknadeildin er samkv. þessum lögum. Ég tel það bót, að hún var ekki látin fylgja stjórn þessarar stofnunar, heldur heyrði undir ríkisstj. En það væri enn betra og miklu skynsamlegra, að hagrannsóknadeild væri algerlega sjálfstæð stofnun. Þessi deild hefur unnið mjög mikið og merkilegt starf, og hún hefur ekki verið að dylja mikið af því starfi, sem hún hefur verið að vinna. Hún gaf t.d. á s.l. ári út mjög merka bók, þjóðarbúskapurinn og framvindan 1972 og horfur 1973, sem í voru mjög margvíslegar og mikilvægar upplýsingar. Og það er einmitt þessi deild, sem á að vera þess eðlis, að hver þjóðfélagsþegn geti treyst henni, hver sem er í ríkisstj. á hverjum tíma. Það er ekki nein ádeila á ríkisstj., þó að ég segi, að ég telji, að þessi deild eigi að vera sjálfstæð, því að hún yrði það, hvaða ríkisstj. sem færi með völd.

Ég fékk í dag fundarboð á 33. stjórnarfund í Framkvæmdastofnuninni, og þar er ekki Norðurlandsáætlunin á dagskrá, því miður, svo að ekki ná till. þinglausnum, ef Ólafur Jóhannesson heldur stíft við sitt, og þar af leiðandi getur hvorki hann né aðrir þm. Norðurlands, hvorki Norðurl. v. né e., eða við, sem förum með þingmennsku fyrir Strandabyggð, tilkynnt neitt um það, hvernig þessar framkvæmdir verða, og það af þeirri einföldu ástæðu, að þetta er allt svo síðbúið þrátt fyrir alla skipulagningu.

Ég skal svo ekki þreyta menn öllu lengur, en þó vil ég koma, áður en ég lýk máli mínu, að kostnaðinum við Framkvæmdastofnunina. Rétt fyrir þinglok í fyrra svaraði, að mig minnir, hæstv. forsrh. fsp. hér á þingi og þá segir hann í því svari, að Framkvæmdastofnunin hafi tekið á leigu húsnæði fyrir starfsemi sína að Rauðarárstig 31 í Reykjavík. Húsnæðið er 3 hæðir ásamt hluta af kjallara. Stærð hverrar hæðar er 360 fermetrar, en kjallarans 280 fermetrar. Á hæðunum er skrifstofuhúsnæði, en skjalageymslur og kaffistofa í kjallara. Tvær efstu hæðirnar eiga að vera tilbúnar 1. júli n. k., en götuhæð og kjallari 1. sept. n.k. Húsaleiga á fermetra á mánuði verður 120 kr. að vísitölu húsnæðiskostnaðar meðtalinni og verður það, þangað til útborguð vísitala húsnæðiskostnaðar fer yfir 130 stig. Samt. verður húsaleigan á mánuði 163 þús. og 200 kr. Í reikningum Framkvæmdastofnunarinnar er húsaleiga, ljós og hiti 1 millj. 904 þús. Ef húsaleiga hefði verið tekin ein sér, þó að engin breyting hefði verið á vísitölunni, þá hefði hún orðið á ársgrundvelli liðlega þetta eða 1.958 þús., en þá er eftir allur kostnaður við ljós og hita, svo að aths. hv. 1. þm. Sunnl. átti við nokkur rök að styðjast. Það er alveg hárrétt hjá formanni Framkvæmdastofnunarinnar, að starfsemin var auðvitað í gangi allt árið. Starfsemin var hálfann fyrsta mánuðinn með sama hætti og áður var. Húsnæði hafði svo stofnunin svo hálft árið annars staðar, því að það er ekki flutt í þetta húsnæði, sem ég var að skýra frá, fyrr en á miðju ári, svo að það var eðlileg aths., sem hv. 1. þm. Sunnl. gerði, að hér er ekki tala, sem er byggð á ársgrundvelli, miðað við þá starfrækslu, sem nú er. En ég tók það fram í minni ræðu áðan, að auðvitað hafa orðið víða hækkanir, því að verðhækkanir eru miklar í landi voru, og þá gengur það eðlilega út yfir Framkvæmdastofnun ríkisins eins og aðra. En það hefur verið nokkuð talað um þennan kostnað og þó sérstaklega stofnkostnaðinn. Það er sagt í þessu bréfi, að Framkvæmdastofnunin hafi veitt leigusala fyrirgreiðslu, sem getið er í svari forsrh., til þess að ljúka við innréttingar á hans kostnað, sem endurgreiðist með húsaleigu mánaðarlega, og þetta er að upphæð 2,9 millj. kr. Svo kemur aftur í stofnkostnaði fyrir 1.972 breyting á húsnæði, sem Framkvæmdastofnunin tekur á sig og hefur þá verið umfram það, sem leigusalinn hefur átt að greiða, en ekkert er minnzt á í þessu svari hér í þinglok. Þessi breyting er hvorki meira né minna en 1.253 þús. Öryggishurðir, hillur og húsgögn eru 1.520 þús. Skjalaskápar og aðrir skápar og skrifstofuvélar eru 851 þús. Svo koma eldhúsvélar, kæliskápar upp á 199 þús., lampar og ljós 688 þús., gardínubrautir 94 þús., gluggatjöld 357 þús., innréttingar, — einhverjar aðrar innréttingar en þær, sem áður voru taldar, — 741 þús., svo kemur gólfteppi 1.219 þús., og svo er klykkt út með veggfóðri 79 þús. Það hefur víst ekki verið með í húsaleigunni að veggfóðra, svo að stofnunin hefur keypt veggfóður og fært á stofnkostnað upp á 79 þús. kr. Ég ætla að láta þetta nægja, þangað til framhaldsumr. verða í haust.