17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

242. mál, raforkumál

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Á þskj. 592 höfum við 11 þm. Sjálfstfl. leyft okkur að flytja till. til þál. um raforkumál. Okkur er að sjálfsögðu ljóst, að eins og nú horfir, þar sem gert er ráð fyrir, að Alþ. ljúki störfum nú fyrir páska, er engin von til þess, að till. fái afgreiðslu á svo skömmum tíma sem hér er um að ræða. Við töldum þó rétt að leggja till. fram á þessu þingi og fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Eins og kunnugt er, hafa raforkumálin og framtíðarskipan þeirra verið mjög mikið til umr. nú að undanförnu. Það er hvort tveggja, að Samband ísl. rafveitna hefur tekið málið til sérstakrar meðferðar nú á s.l. ári, fyrst með nefndarskipun, en sú n. átti að gera till. um ýmsa þætti raforkumálanna, svo sem um hugsanlega svæðaskipting, um uppbyggingu raforkuvinnslufyrirtækjanna, þar með talin eignaraðild ríkis og sveitarfélaga, hver hún skuli vera, um raforkudreifinguna, hvernig með skuli fara, um dreifiveitur og rekstur þeirra og athuga hugsanlega möguleika á, að komið verði á víðtækri verðjöfnun á söluverði raforkunnar. Þá hafa samtök sveitarfélaga látið þessi mál til sín taka og rætt þau á fundum sínum. Mér er kunnugt um, að Samtök sveitarfélaga í Vesturlandi samþykktu á aðalfundi sínum, sem haldinn var í nóv. 1971, að kjósa n., er athuga skyldi og gera till. um hagkvæmustu lausn á raforkumálum fyrir Vesturland í heild.

Nefnd sú, er Samband ísl. rafveitna skipaði til þess að athuga og gera till. um skipan raforkumálanna skilaði nál. á s.l. hausti, sem tekið var til umr. og afgreiðslu á sérstakri ráðstefnu, sem Samband ísl . rafveitna og Samband ísl . sveitarfélaga efndu til sameiginlega um raforkumál daganna 12. og 13. okt. s.l. Að lokinni þeirri ráðstefnu gáfu stjórnir samtakanna út grg. um það, hver verið hafi meginniðurstaða ráðstefnunnar varðandi framtíðarskipan raforkumálanna. Við töldum rétt, að umrædd grg. væri látin fylgja þáltill. sem fskj.

Hin n., sem kosin var af Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi og ég gat um áðan, skilaði einnig ítarlegu nál., sem tekið var til umr. á aðalfundi samtakanna á s.l. hausti, sem hæstv. raforkumrh. ásamt þm. kjördæmisins var boðið til og til þátttöku í umr. um málið. Í því nál, koma fram ítarlegar upplýsingar um þá möguleika, sem fyrir hendi eru á Vesturlandi til raforkuframleiðslu. Er þar talið, að Kljáfossvirkjun í Hvítá sé tvímælalaust hagkvæmasti valkosturinn til aukinnar raforkuvinnslu fyrir Vesturland. Í sambandi við fyrirbugaða virkjunarframkvæmd hefur nú þegar farið fram ítarleg rannsókn á virkjunaraðstöðu og kostnaðaráætlunagerð. Sýna þær niðurstöður, að hér er um hagkvæma virkjun að ræða í orkuveri, sem er af stærðinni 13.5—15 megawött, en það mun talin mjög hæfileg stærð á orkuveri til jöfnunar og viðbótar hinum stærri virkjunum.

Um framtíðarstefnuna í raforkumálum Vesturlands var n. sammála um, að stefna bæri að því og að heillavænlegast væri, að héraðsbúar sjálfir réðu sem mestu í sínum raforkumálum og að grundvöllurinn í því samstarfi væri, að Andakílsárvirkjunin færði út starfssvið sitt með aðild allra sveitarfélaga í kjördæminu og að öðru jöfnu yrði stefnt að því að nýta þær orkulindir, sem í héraðinu eru.

Ég hef talið rétt að geta þessara tveggja ályktana, annars vegar Sambands ísl. sveitarfélaga og Sambands ísl . rafveitna og hins vegar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Mér er einnig kunnugt um, að í öðrum landshlutum eru mál þessi mikið rædd um þessar mundir, enda er hér um eitt stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar að ræða, og veltur á miklu, hver framtíðarstefnan verður varðandi alla þætti raforkumálanna.

Með þessari till. til þál., sem hér er til umr., má segja, að borin sé fram ákveðin stefnumörkun raforkumálanna, bæði að því er varðar sjálfa raforkuvinnsluna og einnig dreifiveitur og aðra þætti rafvæðingarinnar. Það er öllum löngu ljóst, að í vatnsorkunni og jarðvarmanum búa einhverjar mestu auðlindir okkar lands. Með sífelldri tækniþróun verða allar þessar auðlindir auðnýttari til hvers konar þjónustu fyrir íbúana og til allra framleiðslustarfa. Af þessu leiðir, að eftirspurn eftir raforkunni fer sívaxandi. Þjóðin eygir möguleika á nýjum og nýjum verkefnum til framleiðslu, sem miklar vonir eru bundnar við og skapa munu enn breiðari grundvöll og auka alla fjölbreytni í framleiðslugreinum þjóðarinnar. Það segir sig sjálft, að öll stærstu verkefnin við sjálfa orkuvinnsluna verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki alþjóðar. Kemur m.a. til greina, að ríkið verði eignaraðili á ýmsan hátt, en engan veginn er nauðsynlegt að lögbinda fyrir fram, að hlutur ríkisins skuli vera minnst 50%. Eðlilegt væri, að hinar ýmsu svæðisveitur, sem kæmu til með að kaupa raforkuna, ættu þess kost að vera eignaraðilar og þar með þáttakendur í sjálfri uppbyggingunni á aðalorkuvinnslufyrirtækjunum í landinu. Varðandi þau orkuvinnslufyrirtæki, sem byggð verða í hinum ýmsu landshlutum og eru af þeirri stærðargráðu, að orkuframleiðslan verði að miklu leyti hagnýtt á viðkomandi svæði, er eðlilegast, að fyrirtækið sé að sem mestu leyti í eigu heimamanna og undir þeirra stjórn. Í þeim efnum höfum við góð fordæmi til fyrirmyndar. Þar er t.d. Andakílsárvirkjun, sem er sameign Akraneskaupstaðar, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Skeiðfossvirkjun, sem er eign Siglufjarðarkaupstaðar, Laxárvirkjun, sem er að meiri hluta eign Akureyrarkaupstaðar, og síðast, en ekki sízt orkuverin, sem Reykjavikurborg hefur reist bæði við Elliðaár og Sogið. Til að fullnægja orkuþörf í hinum ýmsu landshlutum, ber að sjálfsögðu að meta þá valkosti, sem um er að ræða í hverju tilfelli, og að sjálfsögðu að velja þá leið, sem tryggir í senn sem hagkvæmast verð raforkunnar fyrir héraðið og veitir einnig sem mest öryggi í rekstrinum.

Þegar um er að ræða orkufrekan iðnað, eins og t.d. álframleiðsluna í Straumsvík, kemur að sjálfsögðu ekki annað til greina en stórvirkjanir í stærstu fallvötnum landsins. En öðru máli gegnir um þjónustu við allan almennan algengan iðnað og til heimilisnota. Í þeim tilfellum ber að kanna rækilega alla þá möguleika, sem fyrir hendi eru heima í héraði, og hagnýta síðan að öðru jöfnu þann valkostinn, sem veitir meira öryggi.

Um uppbyggingu orkuframleiðslunnar í landinu má einnig vitna til þess, að skömmu áður en orkulögin frá 1964 voru sett, hafði Alþ. sett lög um Landsvirkjun og Laxárvirkjun, tvö raforkufyrirtæki í sameign ríkis og sveitarfélaga fyrir tiltekin svæði í landinu. Segja má, að með þeirri samþykkt hafi Alþ. markað þá stefnu, sem einnig kemur fram í þessari till. varðandi allar meiri háttar framkvæmdir eða að skipta landinu í orkuveitusvæði eftir hagkvæmum landfræðilegum mörkum og stjórnunarlegum, t.d. í samræmi við núv. kjördæmaskipun. Í öllum landshlutum eru nú fyrir hendi orkuver, sem eðlilegt væri að mynduðu grunninn undir þessa skipun mála.

Segja má, að raforkumálin standi um þessar mundir á tímamótum. Að því er lýtur að sjálfri raforkudreifingunni, er gert ráð fyrir því, að eftir rúmlega eitt ár verði lokið við að leggja dreifilínur um landið eða að öll þau býli í landinu, sem gert er ráð fyrir að fái rafmagn frá samveitum, hafi þá verið tengd við samveitukerfið. Hitt er svo annað mál, að öll efling raforkuiðnaðarins og allt viðhald og aukning dreifilína verða að sjálfsögðu viðvarandi verkefni framtíðarinnar.

Um vinnubrögð við að koma á þeirri skipulagsbreytingu, sem hér er lögð til í sambandi við hinar nýju samveitur, er að sjálfsögðu eðlilegast, að það eigi sér stað með samningum á milli sveitarfélaganna, og þau skipi samstarfsnefndir til undirbúnings og að sjálf framkvæmdin eigi sér stað í áföngum, eftir því, sem um semst og aðrar ástæður leyfa. Um skipun stjórna fyrir hin nýju fyrirtæki er að sjálfsögðu mikilvægt atriði, að þar ætti að vera auðveldara að finna grundvöll, þar sem gert er ráð fyrir, að stjórn fyrirtækjanna verði að öllu leyti í höndum heimamanna. Í Danmörku, þar sem þróun af þessu tagi hefur átt sér stað með samruna margra rafveitna í sjálfstætt fyrirtæki, oftast sjálfseignarfyrirtæki, eru stjórnir ýmist kjörnar af notendunum sjálfum eða tilnefndar af sveitarstjórnum eða þá sambland af þessu hvoru tveggja. Á Norðurlöndum hefur þróunin orðið sú, að ríkið annast hvergi dreifingu raforkunnar til notenda, nema lítið eitt í Svíþjóð eða um 8%. Á Íslandi munu Rafmagnsveitur ríkisins hins vegar vera með um 20% af dreifingunni, og má segja, að eftir atvikum, með tilliti til þess, á hvern hátt uppbyggingin hefur átt sér stað, hafi verið eðlilegt, að opinber stofnun hafi að nokkru leyti staðið fyrir framkvæmdunum. En nú, þegar þeim er að verða lokið, er jafneðlilegt, að heimamenn yfirtaki samveiturnar, eftir því sem við á og svæðaskipan segir til um. Hvergi á Norðurlöndum er talið, að þróunin miði í þá átt, að ríkið taki upp afskipti af dreifingunni.

Eins og ég áður hef sagt, eru um þessar mundir þáttaskil í starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins. Hinni eiginlegu rafvæðingu er að verða lokið, og það mun sýna sig, að hér á Íslandi ekki síður en á hinum Norðurlöndunum verður affarasælast, að raforkudreifingin verði í höndum notendanna sjálfra, því að sjálfs er höndin hollust og fjarstýringar frá einni allsherjarmiðstöð í Reykjavík er ekki þörf.

Samkvæmt e-lið 1. tölul. er lagt til, að unnið verði að því að koma á verðjöfnun rafmagns um land allt og það eigi sér stað m.a. með því að veita óafturkræft stofnframlag til þeirra dreifiveitna, sem eiga við óhagkvæmastar aðstæður að búa. Ekki er óeðlilegt, að reynt verði að koma á verðjöfnun á raforkunni, þannig að landsmenn allir sitji við sama borð í þeim efnum, hvað snertir raforku til sömu nota. Það er ekkert nýtt, að um slíka verðjöfnun sé rætt, heldur mætti segja, að mismunun landsmanna í þessum efnum verði æ meir áberandi með hverju árinu sem líður. Það er því rétt, að að því verði stefnt, að jafnhliða því, að landsveiturnar tækju raforkudreifinguna í sínar hendur, verði slíkri verðjöfnun komið á. Að sjálfsögðu getur hér verið um fleiri en eina leið að ræða. Það getur komið til greina að fara þá leið, sem hér er lagt til, að greiða óafturkræft stofnframlag í þessu skyni. Það getur einnig komið til greina, að verðjöfnunin eigi sér stað á síðasta stiginu eða smásöluverðinu og þá með niðurgreiðslum til þeirra notenda, sem eiga við hvað óhagstæðast verðlag að búa. Hver sem niðurstaðan verður, er þess að vænta, að með ítarlegri könnun finnist leið til að leiðrétta það mikla misræmi, sem nú á sér stað í þessum efnum, því að um það munu allir sammála, að við svo búið verði ekki öllu lengur unað.

Það var eitt, sem vakti sérstaklega athygli mína varðandi þessa hlið málsins, þegar ég las í nál., sem skilað var til raforkumrh. í árslok 1969, þar sem starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins var gagnrýnd á ýmsan hátt, að þar er því m.a. haldið fram og fullyrt, að fjárhagserfiðleikar og hin háa gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins stafi fyrst og fremst af óhagkvæmum orkuöflunarkostum og dýrum flutningi raforkunnar, en alls ekki af óhagstæðum rekstri dreifiveitna, hvorki í sveitum né í þéttbýli. Þessar upplýsingar gefa vissulega til kynna, að sú leið, sem hér er lagt til að farin verði til verðjöfnunar, sé hin rétta og með henni verði unnt að koma á viðunandi úrbótum.

Einn er þá þáttur þessa máls, sem ég hef ekki enn komið sérstaklega að, en það er að gera sér grein fyrir, með hvaða hætti eignaraðild hinna ýmsu sveitarfélaga, sem engar dreifiveitur eiga nema þær dreifiveitur, sem eru í eign Rafmagnsveitna ríkisins, eigi að eiga sér stað. Sjálfur tel ég, að hér þurfi ekki að vera um mikið vandamál að ræða. Hvort tveggja er, að stofnkostnaðurinn, að svo miklu leyti sem hann er ekki í skuld eða ógreiddum lánum, hefur verið borinn uppi af notendunum sjálfum með stofnframlögum og orkugj., auk þess framlags, sem komið hefur frá ríkissj. árlega um langt árabil og má vissulega segja að sé hliðstæða við framlög ríkisins á ýmsum öðrum sviðum, svo sem til samgöngubóta, bæði vegagerðar og hafnamála, og fleiri skyldra málefna. Það er því ekki ástæða til að ætla annað en að þessi þáttur málsins verði tiltölulega auðleystur.

Herra forseti. Ég hef þá í stórum dráttum vikið að því helzta, sem máli skiptir og snertir einstaka þætti þessarar þáltill. um stefnumörkun í raforkumálum þjóðarinnar, sem hér er til umr. Að sjálfsögðu er margt fleira, sem segja mætti um þetta stórmál, en þar sem tími þm. er nú orðinn mjög takmarkaður, mun ég láta staðar numið, en vil að lokum leggja áherzlu á, að hér er um eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða, og getur það í sumum tilfellum haft úrslitaáhrif á framtíðarþróun þeirrar margumtöluðu byggðastefnu og byggðaþróunar, sem nú er svo mikið talað um, að þurfi að efla á allan hátt, hvernig farið verður með þau málefni, sem hér eru til umr., þ.e. framtíðarskipulag raforkumálanna.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.