17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3797 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

248. mál, kennsla í haffræði við Háskóla Íslands

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skal lofa því að vera mjög stuttorður um þetta mál. Þessi till. til þál. um kennslu í haffræði og skyldum greinum við Háskóla Íslands er flutt af mér og hv. þm. Jóni Árnasyni, Geir Gunnarssyni, Jóni Árm. Héðinssyni, Karvel Pálmasyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni. Tillgr. hljóðar þannig: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna svo fljótt sem verða má, hvort ekki sé tímabært að hefja kennslu í haffræði og skyldum greinum við Háskóla Íslands“.

Við segjum í grg., að á Íslendingum hvíli sérstök skylda um það að hefja rannsóknir á hafinu, auk þess sem þekking á eðli sjávarins hafi hagnýtt gildi fyrir þjóðarbúskapinn. Ég býst við, að allir séu sammála um þetta, og þetta er meginástæðan til þess, að við flytjum þessa till., að við teljum, að á þessari þjóð hvíli sérstök skylda um rannsóknir á hafinu, vegna þess að við erum eyþjóð og hafið er raunar hluti af okkar umhverfi og þar er höfuðauðlind þjóðarinnar að finna, sem eru fiskimiðin í sjónum.

Við flm. höfum haft fyrir okkur merkilegar till., sem komnar eru frá dr. Unnsteini Stefánssyni haffræðingi, sem lengi starfaði hér á landi við Hafrannsóknastofnunina og er okkar kunnasti haffræðingur, en hann hefur nú um nokkuð margra ára skeið verið starfsmaður hjá Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna og haft m.a. það hlutverk á hendi að skipuleggja kennslu í haffræði í ýmsum löndum og þá ekki sízt í hinum svonefndu þróunarlöndum.

Sem fskj. með þessari till. eru till. dr. Unnsteins um kennslu í haffræði við Háskóla Íslands. Þar er að finna nánari útlistun á þessu máli, og vegna tímaskorts ætla ég aðeins að vísa til þessara heimilda, sem hér liggja fyrir, en láta að öðru leyti máli mínu lokið.

Ég legg til, herra forseti, að þessari umr. verði nú frestað og málinu vísað til fjvn.