17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar fundarfrestunar, sem hefur verið, er nú langt um liðið, síðan ég kvaddi mér hljóðs. Ég hafði hugsað mér að víkja nokkuð að löggjöfinni um Framkvæmdastofnun ríkisins, uppbyggingu hennar og starfi. En með því að nú er nokkuð liðið á nótt, ætla ég að leyfa mér að neita mér um þá ánægju að ræða þetta og vona, að hv. þm. misvirði það ekki við mig. Það hefði einnig verið ástæða fyrir mig til þess að ræða nokkuð þær hugmyndir, sem fram komu hjá tveim hv. þm., hv. 3. þm. Reykn. og hv. 10. þm. Reykv., um hlutverk byggðasjóðs. En ég ætla ekki að fara að ræða það, ég skal í því efni aðeins vitna til þess, sem hv. 2. þm. Vestf. ræddi um það mál.

Ég vil samt leyfa mér að víkja að einu atriði. Í skýrslu hæstv. forsrh. kom hann nokkuð inn á það, sem Framkvæmdastofnunin væri að gera í sambandi við byggðaáætlanir. Hann minntist á byggðaáætlun fyrir Norðurland. Það var vikið að byggðaáætlun fyrir Austfirði. Í umr. var talað um byggðaáætlun fyrir Suðurland.

Það var mikil framför, þegar farið var að vinna að jafnvægi í byggð landsins á skipulagsbundinn og markvissan hátt með því að taka upp byggðaáætlanir. Það hófst með því, að tekin var upp Vestfjarðaáætlunin. Um hana ræddi hæstv. forsrh. ekki í sinni skýrslu. Ég saknaði þess, því að Vestfjarðaáætluninni er ekki lokið. Það er aðeins lokið fyrsta þætti hennar, samgöngumálaþættinum. En það var alltaf gert ráð fyrir, að í beinu framhaldi af því hæfust aðrir þættir Vestfjarðaáætlunarinnar.

Ég hef gengið út frá því, að það hafi verið stefna fyrrv. ríkisstj., og ég hef meira að segja gengið út frá því, að það hafi verið stefna núv. ríkisstj. Þetta byggi ég m.a. á því, að strax haustið 1971 gerði ég fsp. til hæstv. forsrh. Þar var spurt um, hvað liði framhaldi Vestfjarðaáætlunar, til hvaða málaflokka áætluninni væri ætlað að taka, hvenær væri gert ráð fyrir, að áætlanagerðinni lyki, hvað væri gert ráð fyrir, að framkvæmd áætlunarinnar tæki langan tíma, og hvernig fjár yrði aflað til framkvæmdanna. Fsp. þessi var rædd í Sþ. 25. nóv. 1971. Hæstv. forsrh. sagði þá, að Efnahagsstofnuninni hefði verið falið að gera atvinnuáætlun fyrir Vestfirði og jafnframt væri gert ráð fyrir athugun á félagsaðstöðu og þjónustustarfsemi í landshlutanum. Hann sagði og, að væntanleg Framkvæmdastofnun ríkisins mundi fjalla um tímasetningu áætlunargerðarinnar og framkvæmd áætlunarinnar, sem líklegast væri, að tæki 5–6 ár. Þá sagði hæstv. forsrh., að fjármagn úr atvinnujöfnunarsjóði og — eins og hann orðaði það — verðandi byggðasjóði yrði til ráðstöfunar við framhald Vestfjarðaáætlunarinnar. Hér er ekki litið sagt. Ég fæ ekki annað séð en það hefði mátt draga þá ályktun af þessum ummælum hæstv. forsrh., að unnið væri af fullum krafti að framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar.

Nú víkur svo við, að hæstv. ráðh. minnist ekki á þetta atriði í sinni skýrslu. Vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé af vangá, að hann hafi ekki minnzt á Vestfjarðaáætlun. Ef svo er, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvernig framkvæmdir standi nú við undirbúning þessarar áætlunargerðar.

Hins vegar er málið alvarlegra, ef svo skyldi vera, að hér væri ekki um vangá að ræða. En í því tilfelli leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort það geti verið, að hæstv. ríkisstj. sé fallin frá þeirri stefnu, sem ég ætla að hún hafi haft, að halda áfram Vestfjarðaáætluninni í beinu framhaldi af samgöngumálaþætti hennar.