17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans, en ég verð að lýsa megnri óánægju minni og vonbrigðum yfir efni svarsins. Ég fæ ekki annað séð af orðum hæstv. forsrh. en að það sé ekki lögð nein áherzla á undirbúning á framhald Vestfjarðaáætlunarinnar, önnur verkefni séu látin ganga fyrir og þá þau verkefni, sem hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega í skýrslu sinni.

Ég tel, að þetta sé mjög alvarlegt mál. Ef við ætlum að vinna skipulega og markvisst að þessum málum, verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það nægir ekki að taka einn og einn þátt mála út úr og vanrækja aðra. Það þarf að vera um alhliða uppbyggingu þess landshluta að ræða, sem verið er að aðstoða. Að öðrum kosti er ekki að vænta verulegs árangurs. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið, að hið opinbera færist ekki meira í fang í þessu efni á hverjum tíma en það ræður við.

Nú er það svo, að þegar Vestfjarðaáætlunin hófst, var viðurkennt, að svo væri ástatt á Vestfjörðum, að það væri eðlilegt að láta það verkefni ganga fyrir. Þess vegna er það, að það er ekki nóg með, að það hafi alvarlegar afleiðingar að Ijúka ekki þeim þáttum sem fyrst, sem eftir eru, heldur hefur það í sjálfu sér þau áhrif, að það, sem gert hefur verið, nær ekki tilgangi sínum. Ég verð að lýsa megnustu óánægju með þetta. Ég óttast, ef svo heldur áfram, sem mér virðist ýmis teikn benda til, að það eigi að breiða sig yfir allt landið í senn og gera alla hluti fyrir alla á sama tíma. Þá missi slíkar aðgerðir marks til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Slíkar aðgerðir eru almennar framfarir um land allt, sem eru sjálfsagðar, en það er allt annað en beinar aðgerðir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Þá verð ég að segja, að ég tel, að hæstv. forsrh. misskilji hrapalega eigin ummæli, sem hann gaf í svari við fsp. 25. nóv. 1971, ef hann leggur þann skilning í svar sitt, að það muni taka 5–6 ár að undirbúa áætlunina. Það hefur mér aldrei komið til hugar. Ég vil fullyrða, að það, sem hæstv. forsrh. átti við, þegar hann mælti þessi orð, var það, að þegar til framkvæmda kæmi, þá tækju framkvæmdirnar sjálfar 5–6 ár. Það er skiljanlegt.

Ég vil nú leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. að taka þessi mál til yfirvegunar á ný með það fyrir augum, að það verði hægt að halda við þær fyrirætlanir, sem fyrrv. ríkisstj. hafði uppi og ég hef ætlað, að núv. ríkisstj. hafi haft uppi í byrjun, að vinna nú hið bráðasta að undirbúningi að framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar, svo að framkvæmdir geti hafizt sem fyrst. Það er enginn ókostur í mínum augum, þó framkvæmdir taki 5–6 ár, vegna þess að ég vænti, eins og má marka af orðum hæstv. forsrh. í nóv. 1971, að framhald Vestfjarðaáætlunarinnar verði á víðtæku sviði.