08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér við, þegar þetta mál var til 1. umr., og þakka hæstv. forseta og hv. flm. fyrir, að það skyldu verða framhaldsumr., þar sem ég hafði óskað eftir því að fá að koma að skoðunum mínum í sambandi við þetta mál. Ég hef hins vegar átt kost á því að kynnast af frásögnum blaðanna þeim umr., sem fram fóru um málið hér við umr., og ætla mér ekki að fara hér út í neinar kappræður um þetta mál, heldur víkja að því almennt séð og því, sem ég hef verið að velta fyrir mér í sambandi við málið.

Ég álít, að það séu tvö meginatriði, sem máli skipta í sambandi við dreifingu mjólkur. Það er í fyrsta lagi hreinlætiskröfur og í öðru lagi kostnaður. Mjólkin er sú vara, sem allir neyta, og er mikill útgjaldaliður í búi hvers heimilis, og mjólkin er einnig sú vara, sem er mikill tekjuliður hjá bændastétt landsins, þar sem mjólkurframleiðsla er orðin mikil, þó að það hafi hins vegar gerzt á síðari árum, að mjólkurframleiðendum í landinu hafi verulega fækkað. Ég held því, að allar umr. og allar kröfugerðir í sambandi við mjólkurdreifingu verði að byggjast á þessu tvennu. Hreinlætiskröfur gagnvart mjólkurútsölu verða að vera geysilega strangar. Hér er um þá vöru að ræða, sem þarf hins fyllsta hreinlætis við, og þess vegna má ekki slaka á þeim kröfum, og hafa þær reyndar verið auknar ár frá ári og skipulag hnigið í þá átt að tryggja það og fylgjast með því, eins og fram kom í þeirri ræðu, sem hv. 2. þm. Sunnl. flutti hér, þar sem hann gerði mjög góða grein fyrir þessum þætti málsins sem og öðru, eins og hans var von og vísa.

Það, sem skiptir líka meginmáli í þessu, er kostnaðurinn við dreifinguna, og það verður að segjast eins og er, að kostnaður við dreifingu mjólkur hér á landi hefur verið tiltölulega mjög lítill. Ef það er borið saman við það, sem gerist hjá öðrum þjóðum, þá hefur þessum kostnaði verið mjög í hóf stillt, og við verðum að hafa það í huga í sambandi við dreifingarkostnaðinn, að raunverulega er það alltaf hið endanlega verð, sem neytandinn spyr um, en ekki hvernig það dreifist milli framleiðandans og þeirra annarra, sem annast flutninginn frá fram leiðanda til neytanda. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að hafa þetta hugfast í sam bandi við allar þær breytingar, sem gerðar eru á skipulagi mjólkursölunnar. Það verður líka að segjast eins og er, að það skipulag, sem hér hefur þróazt í nærri 4 áratugi, undir forustu Mjólkursamsölunnar, hefur reynzt mjög vel. Dæmi um það, hvað þetta kerfi hefur reynzt vel, er, hve þróunin hefur farið hægt í því og það hefur t.d. enginn landbrh. treyst sér til að láta verða þar neina stökkbreytingu á. Á þeim 12 árum, sem hv. 1. þm. Sunnl. var landbrh., beitti hann sér ekki fyrir því að gera þar neina byltingu á, heldur lét þetta kerfi halda áfram að þróazt, eins og það hefur verið að gera.

Þó að kerfið hafi reynzt vel og þróun þess verið farsæl, þá segir það í raun og veru, að það eigi að halda áfram að þróa þetta kerfi, og hlýtur þá að leiða til þess, að fleiri aðilar geti komið inn í dreifinguna, en það verði allt að gerast með skipulegum hætti og með farsælli þróun. Það hefur t.d. gerzt í verzlunarmálum hér í höfuðborginni á síðari árum, að bæði hafa einstök fyrirtæki og kaupmenn sameinað sig um stærri og fullkomnari verzlanir, og slík breyting hlýtur auðvitað að leiða til þess, að Mjólkursamsalan geti orðið þar aðili að og átt þar innhlaup, vegna þess að búðirnar eru fullkomnar og þær eru stórar og kostnaður við rekstur þeirra minni. Hins vegar ef ætti að fara inn á það að selja mjólkurvörur í öllum búðum, þá er ég sannfærður um, að það mundi verða til þess að auka dreifingarkostnaðinn verulega, og það mundi líka verða til þess, að hreinlætiskröfunum yrði ekki fylgt eins vel eftir. Þess vegna vil ég undirstrika það, að þó að ég telji, að ekkert form sé svo fullkomið, að það eigi ekki að vera sífellt í endurskoðun, gera á því nauðsynlegar breytingar, þá verður það að gerast með þeim hætti í þessu máli, að það sé gert með skipulegum hætti og fyrrnefnd höfuðatriði höfð til hliðsjónar.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir og hv. 9. landsk, þm. er 1. flm. að, um breyt. á I. um framleiðsluráð o.fl., sem er á þskj. 38, þá vil ég segja það um till. hv. flm. um nefndarskipun, að hún er að minni hyggju ekki í samræmi við þá lífsskoðun, sem ég hélt, að væri þeirra boðskapur í viðskiptum, því að nefndarskipun sú, sem þar á að eiga sér stað, á að vera uppbyggð með þeim hætti, að sveitarstjórn á viðkomandi stað á að eiga þar tvo fulltrúa, Kaupmannasamtök Íslands eða samtök kaupmanna heima á staðnum eiga að eiga einn fulltrúa, Mjólkursamsalan einn fulltrúa, framleiðsluráðið einn fulltrúa, neytendur einn fulltrúa og heilbrigðisnefnd viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags einn fulltrúa. Bændasamtökin eiga ekki að eiga þarna nema fulltrúa gegnum Mjólkursamsöluna og framleiðsluráðið. Hinir aðilarnir 5 gætu allir verið af þeim toga spunnir, að bændasamtökin í landinu og bændur sem framleiðendur hefðu þar ekkert að segja og gætu átt þá alla sem sína andstæðinga. T.d. tek ég eftir því, að samvinnuverzlun á staðnum á ekki að eiga fulltrúa í þessari n., þó að kaupmannaverzlunin eigi fulltrúa — eða landssamtökin, ef enginn félagsskapur kaupmanna væri þar á staðnum. Nú finnst mér þetta — skjóta nokkuð skökku við. T.d. í byggðarlagi, þar sem samvinnuverzlunin væri höfuðatriði í verzlun staðarins og kannske ein lítil búð hjá kaupmanni, þá ætti hún að hafa þar fulltrúa, en samvinnuverzlunin ekki.

Ég held, að með þessu móti gerist ekki þróun í þessu máli, það verði að gerast með öðrum hætti en hér er lagt til. Og ég vil líka segja það, að mér finnst, að sveitarstjórn á viðkomandi stað fái þarna nokkuð mikil völd, því að segja má, að hún gæti fengið 3 af 7 nm. og jafnvel þann fjórða í gegnum neytendasamtökin, ef þessi uppbygging væri.

Ég held, að það muni yfirleitt ekki vera svo í okkar verzlun og viðskiptum hér á landi, að við mundum vilja setja framleiðendum svo stólinn fyrir dyrnar um verzlun sinnar vöru, að þeir yrðu að lúta boði og banni annarra, eins og hér er lagt til. Og í raun og veru held ég, að hv. flm. hafi ekki hugsað alveg út í þetta, því að hér er auðvitað ekki um annað að ræða heldur en það, að það er verið að fjalla um framleiðsluvöru ákveðinnar framleiðslustéttar, sem auðvitað hefur sinn rétt til meðferðar á sínum málum eins og aðrir. Og ég vil líka segja það í sambandi við það, sem oft hefur verið drepið á um einhvers konar einokun í þessu, að það er síður en svo, að svo sé. Þeim réttindum, sem Mjólkursamsölunni og mjólkursölunni eru tryggð, fylgja líka afar miklar skyldur, því að það fylgja þær skyldur að sjá neytendum fyrir nægilegri neyzlumjólk. Og það hefur orðið allverulegur kostnaður við það að flytja neyzlumjólk á milli staða, vegna þess að það hefur verið skortur á henni á einum stað á ákveðnum tíma. T.d. hefur stundum orðið að flytja mjólk norðan úr landi á markaðinu hér. Þetta hafa mjólkurseljendurnir talið sér skylt að sjá um í sambandi við þá tryggingu, sem þeir hafa í mjólkursölunni.

Ég er alveg undir það búinn að ræða þessi mál og hafði reyndar hugsað mér í fyrra í sambandi við endurskoðun á lögum um framleiðsluráð að láta taka þetta mál til sérstakrar athugunar. En þegar ég sá fljótlega, að átök mundu verða um það mál. taldi ég ekki rétt að fara að blanda því inn í, því að þetta er viðkvæmt mál, sem bezt er, að um sé hinn mesti friður, og þær breytingar, sem gerðar eru á því, séu gerðar á friðsamlegan hátt. Yfirleitt hefur þróunin orðið sú, að það hefur alltaf verið að færast meira og meira í þá átt, að samkomulag hefur orðið um breytingar. Ég gæti því vel hugsað mér að láta skoða þetta mál, eins og framleiðsluráðið lagði til í fyrra, og ég hef reyndar ætlað mér að gera, að láta skoða þennan þátt þessara laga sérstaklega og blanda því ekki inn í önnur atriði, þó að það sé á vissan hátt eðlilegt, að það kæmi heildarlöggjöfinni, því að það er öllum fyrir beztu, að þarna náist sem bezt samkomulag og útfærslan á þessu frá einum til fleiri seljenda sé byggð upp með skipulegum hætti og þá ekki sízt eftir því sem búðirnar batna og það er tryggt, að meðferðin sé góð og kostnaðinum í hóf stillt.

Ég vil því segja það að lokum, að ég ætla mér ekki að fara að þreyta hér neinar kappræður. Ég tel. að það megi ekkert gera í þessum málum annað en það, sem tryggi þau höfuðsjónarmið, sem hefur verið fylgt í mjólkurdreifingunni, þ.e. fyllstu hreinlætiskröfur og sem minnstan kostnað. Þetta hefur tekizt með mjög giftusamlegum hætti hjá Mjólkursamsölunni og undir hennar forustu, og því kerfi verður að halda áfram á þann hátt, þó að fleiri aðilar komi inn í dreifinguna heldur en nú er. Ekki sízt á það sér stað með betri og vaxandi uppbyggingu verzlana, sem nokkrir aðílar standa að og eru höfuðverzlanir á stöðunum. En ég get ekki fellt mig við það að ætla að skipa þessum málum eins og er lagt til í þessu frv., að skipa n. með þessum hætti og samsölustjórn væri svo skylt að veita leyfi, ef á þetta væri fallizt.