18.04.1973
Efri deild: 100. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að tefja ekki um of tímann, en menn verða að virða mér það til vorkunnar, að ég hafði ekki kynnt mér þetta mál í gær, þegar það var hér til umr., eins og vert væri, því að skammt er síðan það var afgreitt í Nd. En það eru örfá atriði, sem ég vil koma að, og einkum og sér í lagi eru hér nokkur atriði, sem ég hygg, að hafi hreinlega orðið mistök við í sambandi við of hraða afgreiðslu.

Fyrst vil ég, herra forseti, vekja athygli á því, að nú ætlar fjmrh. með heimildum í reglugerð að verðtryggja fyrirframgreiðslu tekju- og eignarskatts til ríkissjóðs. Þetta er út af fyrir sig ekki óskynsamleg ráðstöfun, hvort heldur er af hálfu ríkisins eða gjaldendanna, en ég segi: Fyrst ríkissjóður telur nauðsyn á þessu gagnvart tekju- og eignarsköttum, hvað þá um sveitarsjóðina, sem byggja að meginparti enn tekjur sínar á útsvörum milli 60 og 70% af tekjum sveitarsjóðanna eru útsvör? Þetta tekur til þeirra, nema þá hér í Reykjavík , þar sem er sameiginleg gjaldheimta, af því að þetta tekur til allra gjalda, sem Gjaldheimtan innheimtir. Það var skynsamlegt að breyta ákvæðum um dráttarvextina af tekju- og eignarskatti, vil ég segja, einnig með tilliti til Gjaldheimtunnar. En það held ég að sé óhætt að fullyrða, að það hafi verið vandkvæði við að framkvæma lögin vegna þess ósamræmis, sem þar var á varðandi prósentu dráttarvaxta. Það hefði vissulega verið þörf á því að fá slíkt ákvæði inn eins og þarna er, að innheimta fyrirframgreiðslur með tilliti til verðlags og tekna yfirstandandi árs, fyrir sveitarsjóðina ekki síður en ríkissjóð, en um það er ég ekki að gera neina till., heldur aðeins vekja athygli á þessu. Á fyrri hluta ársins í ár verða sveitarsjóðirnir að byggja tekjur sínar á tekjum gjaldenda sinna árið 1971. Það er ekki fyrr en seinni hluta ársins, sem þeir fá tekjur, sem eru grundvallaðar á tekjum gjaldanda árið 1972, en þeir verða að greiða allan sinn rekstur og framkvæmdir á verðlagi ársins 1973. Ríkissjóður er miklu betur settur, hann er meira í takt, ef svo mætti segja, við verðbólguna í gegnum tolla og söluskatt og annað slíkt.

Það, sem ég ætla fyrst og fremst að vekja athygli á, er 9. gr. frv., sem tekur til 62. gr. laganna. Það bar á góma í umr. hér í gær, en þá hafði ég þetta plagg ekki fyrir framan mig, þegar umr. urðu milli hv. þm. hér í d. um þetta mál. Í 52. gr. l., sem nú gilda, eru 4 tölul. og þeir 4 tölul. eru áfram og einnig fyrstu 4 tölul. í frv. eins og það er núna, og þeir eru lítið breyttir. Það var minnzt hér á, að orðinu „hrörleiki“ er bætt inn í. Áður var látið nægja „veikindi“. Það er einnig orðalagsbreyting, hygg ég, frekar en meiningarmunur á því, sem var áður 3. liður, að þeir, sem voru með á framfæri sínu börn haldin langvinnum sjúkdómum, fötluð, vangefin o.s.frv., áttu samkv. gildandi lögum rétt á tvöföldum barnafrádrætti þeirra vegna, en í 2. tölul. frv., sem tekur yfir sama, er sagt, að fallist skattstjóri á umsókn skattþegns, skuli tekjur hans til álagningar lækkaðar um eigi lægri fjárhæð en nemur barnafrádrætti. Þó að þarna sé um mismunandi orðalag að ræða, hygg ég, að það sé svipuð niðurstaða, miðað við það, sem áður var.

En kjarni málsins og aðalástæðan fyrir því, að ég kem hér upp í ræðustólinn, er, að í frv. er síðan bætt við 5., 6. og 7. tölul., þ.e.a.s. heimildum varðandi 52. gr. Þeir eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„5. Ef skattþegn hefur orðið fyrir verulegu eignatjóni af völdum náttúruhamfara, eldsvoða eða búfjársjúkdóma, enda hafi hann ekki fengið tjón sitt bætt úr hendi annarra aðila.

6. Ef gjaldþol skattþegns hefur skerzt verulega vegna taps á útistandandi kröfum, sem ekki stafa frá atvinnurekstri hans.

7. Ef skattþegn lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum“.

Ég tek mjög undir þá upptalningu, sem þarna er. Ég er ekki að mæla gegn þeim heimildarákvæðum, sem þarna er aukið við 52. gr., heldur kem ég nú að kjarna málsins, að það er ekki aðeins varðandi fyrirframgreiðslurnar, það er kannske miklu frekar varðandi þetta atriði, sem hefði verið ástæða til þess að gera breytingu varðandi sveitarfélögin. Ég ræddi þetta við ráðuneytisstjórann í félmrn. nú rétt fyrir hádegið, og honum var ókunnugt um, að 52. gr. laganna um tekju- og eignarskatt væri að breytast í þá átt, sem þetta frv. stefnir að. En í 27. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

Heimilt er sveitarstjórn að lækka útsvar gjaldanda: a. sem nýtur bóta samkv. II. kafla laganna, eins og þar segir; b. sem stundar nám í skóla 6 mánuði eða lengur á ári; c. af ástæðum, sem upp eru taldar í 1.–4. tölul. 52. gr. laga nr. 68 1971.

Það má kannske segja, að ólánið við afgreiðslu tekjustofnalaganna hafi verið að vísa ekki aðeins til 52. gr. Það er undanþáguatriði í gildandi lögum í fjórum tölul., en nú verða þeir sjö, ef frv. verður að lögum, en samkv. 27. gr. ekki ótvíræðar heimildir fyrir sveitarstjórnir til þess að lækka útsvör nema skv. 1.–4. tölul. Ég veit, að annað hefur ekki vakað fyrir neinum þeirra, sem settu þetta inn í frv., heldur en þetta verkaði eins á báðum sviðunum. Þarna er kannske um að ræða, að það heyrir undir tvo ráðh. og tvö rn. Ég hef verið að bera þetta undir lögfróða menn og bar það undir eina tvo, sem eru á einu máli um, hvernig beri að túlka þetta. En ráðuneytisstjórinn var mér sammála um, að þetta gæti valdið miklum erfiðleikum í framkvæmd og orðið mikið viðkvæmnismál, ef þarna yrði um óljós ákvæði að ræða, sér í lagi, ef væri um mismunandi heimildarákvæði að ræða, annars vegar vegna tekju- og eignarskattsins og hins vegar vegna útsvaranna, þótt svo útsvörin séu orðin miklu léttari skattur en tekjuskatturinn er. Ég er ekki þar með að segja, að það sé nauðsynlegt að gera þarna breyt. á, — mér fróðari menn geta eflaust fundið lausn á því. En mér hefur verið bent á að mínu viti snjalla lausn á þessu, sem raunar þýðir það, að málið þyrfti að fara til Nd., en ég hygg, að það væri ekki nein fyrirstaða á því, að það fengi þá afgreiðslu þar, þ.e.a.s. að í staðinn fyrir, að þarna væri talinn upp 5. 6. og 7. liður, eins og nú er, þá yrði staðnæmzt við 4. tölulið og síðan taldir upp liðirnir a, b, c, d, og þar með væri ekki nema í fjóra tölul. 52 gr. að vitna í sambandi við 27. gr. tekjustofnalaga. Ég endurtek, þetta læt ég mér fróðari menn um að skera úr. En ég ítreka og þekki það af eigin raun sem sveitarstjórnarmaður og sér í lagi sem starfsmaður sveitarstjórnasambandsins, þar sem á reynir að samræma störf og álögur og beitingu heimildarákvæða sveitarstjórnanna, að það getur orðið mikið vandamál, ef þetta verður látið fara héðan óljóst eða með þessu misræmi, eins og hér er greinilega stefnt að, ef ekki verður gerð leiðrétting á.