08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður er nú búinn að tala í a.m.k. þrjú korter, og ég held, að hann hafi nefnt mig í næstum því öðru eða þriðja hverju orði og með viðeigandi einkunnum. Og ég verð að segja það, að ég er nú ekkert hnugginn yfir þessum einkunnum, sem hann hefur gefið mér. Þetta er ungur þm. og dálítið ör enn þá og ætlar sér að breyta þjóðfélaginu snarlega, og mér þykir hann ætla að verða róttækur, því að eitt af því síðasta, sem bann sagði hér í ræðu sinni, var það, að enginn ætti að lúta neinum boðum eða bönnum. Þjóðfélagið ætti að vera þannig, að það ætti enginn að lúta boðum eða bönnum. En hvernig þjóðfélag mundi það verða, ef við hættum að hafa lög? Lögin eru ekkert annað en boð og bönn um það, sem má og má ekki. (EBS: þetta voru orð hæstv. ráðh.) Mér heyrðist hv. þm. taka þessi orð sér í munn og gera þau að sínum. En ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. mælti slík orð. En auðvitað er mikið undir því komið að hafa boðin og bönnin, sem við höfum í löggjöf, þannig, að þau séu eðlileg og samrýmist eðlilegum sambúðarháttum manna. Og það held ég, að sé aðalatriðið, að reyna að finna það út, hvernig þau geta sem bezt samrýmzt menningarlegum viðskipta- og sambúðarháttum manna. Við Íslendingar eigum nú nokkuð langa sögu. Og það væri freistandi að fara út í þá sögu, hvernig ástandið var, á meðan kaupmannavaldið í landinu réði einsamalt boðum og bönnum í verzlun og viðskiptum við landsmenn. Ég vildi ekki fá það skipulag aftur yfir okkur, þó að ég telji, að kaupmenn séu ekki lakari menn en aðrir, það er síður en svo.

Hv. 9. landsk. þm. ræddi mjög mikið um óbilgirni og þröngsýni, sem ég væri haldinn og mínir samstarfsmenn í Mjólkursamsölunni, og okkar afstaða til þessa frv. og annarra frv. af þessu tagi, sem komið hafa fram, væru ekki af málefnalegum ástæðum sprottin, heldur af þessari óbilgirni og þröngsýni. Hann sagði, að ég gæti ekki gert lítið úr hagsmunum kaupmanna og ætti ekki að gera lítið úr þeim. Ég geri auðvitað alls ekki lítið úr hagsmunum kaupmanna. Ég veit, að þeir þekkja vel sjálfir sína hagsmuni og hvað þeim muni vera fyrir beztu, og þeir álíta, að frv, hv. 9. landsk. þm. og félaga hans mundi þjóna þeirra hagsmunum vel. Þeir eru þess vegna með frv., vilja gera það að lögum. Nú er ég ekkert viss um, að það mundi þjóna hagsmunum þeirra allra vel. Ég er ekkert fyrirfram sannfærður um, að það mundi vera heppilegt fyrir kaupmannastéttina í landinu, að það kæmi mjólk í þessar 160 matvöruverzlanir, sem eru hér í Reykjavík. Ég er alls ekki fyrirfram sannfærður um, að það væri kaupmannastéttinni í heild nokkur hagur, og hygg, að það sé ranglega ályktað hjá þeim. Ég hygg, að það yrði ekki til langframa hagur þeirra allra að minnsta kosti. Það mundu einhverjir þeirra verða þar útundan.

Hv. 9. landsk. þm. segir, að ég hafi gefið í skyn, að kaupmenn gættu ekki heilbrigðisreglna. Ég hef ekkert gefið í i skyn um þetta. Rannsókn sú, sem Mjólkursamsalan lét fara fram á aðbúnaði í þeim kaupmannaverzlunum, þar sem mjólkin er til sölu, leiddi það í ljós, að á mörgum stöðum var mjög ábótavant. Það er ekki Mjólkursamsölunnar að sjá um, að þetta sé í lagi. Það er heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík. sem verður auðvitað að tryggja, að þetta sé í lagi. Mjólkursamsalan á ekki að þurfa annað en að kæra það, sem miður fer. Þetta er það, sem ég sagði, og ég stend við, að þetta var svona við þessa athugun, sem gerð var. Hann segir, að Mjólkursamsalan hafi nýlega veitt stórverzlun söluleyfi, og hann heldur því fram, að þar séu skilyrði ekki nógu góð og að Mjólkursamsalan hafi ekki gert athugasemdir við þau skilyrði, sem þar eru. Ég held því hins vegar fram, að það sé heilbrigðiseftirlitið hér í borginni, sem eigi að sjá um það, en ekki Mjólkursamsalan, að hver kaupmaður eða hver verzlun gæti fullkomlega reglna, sem eru í gildandi heilbrigðisreglugerð, um það að hafa allan aðbúnað í lagi.

Þá furðar hann sig á því og telur það óbilgirni af mér, að ég skuli gera athugasemd við till. í frv. um það, hvernig n., sem þar er gert ráð fyrir, á að vera skipuð. Þar er gert ráð fyrir 7 mönnum í n., sem eiga að fjalla um þessi mjólkursöluleyfi, en það eru aðeins 2 af þessum 7, sem hægt er að telja fulltrúa framleiðenda í n. Það er þetta, sem fyrst og fremst er mótmælt af mér og þeim, sem hafa gert um þetta ályktun nýlega á fundi í Mjólkursamsölunni. Hann segir, að við höfum gert ályktun um að vera á móti hvers konar breyt. á þessu skipulagi. Það stendur ekkert um það í till. Við höfum aðeins sagt það, sem stendur hér í lok till.: „Verði framleiðendur sviptir rétti til að ráða sölu framleiðsluvara sinna, þá hljóta þeir að vera undanþegnir slíkri skyldu“, þ.e.a.s. að bera ábyrgð á sölunni. „Fundurinn varar því alvarlega við samþykkt umrædds frv. og mótmælir því, að skipulagsbreyting verði gerð á mjólkursölumálum án samráðs við sölusamtök framleiðenda landbúnaðarins, framleiðsluráð og Stéttarsamband bænda.“ Við höfum engin mótmæli uppi gegn því, að það sé athugað, hvort ekki sé hægt að finna upp betra skipulag á þessum málum. En við mótmælum því hins vegar, að þetta sé gert án þess að hafa samráð við þá, sem framleiða mjólkina, dreifa henni og selja hana. Ef á að taka af Mjólkursamsölunni öll ráð um það, hvar og hverjir eigi að hafa mjólkina til sölu, þá sjá allir, að hún verður um leið að vera firrt allri ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna er það, eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði í ræðu sinni hér í fyrradag, að það eru uppi þau sjónarmið í stjórn Mjólkursamsölunnar að afsala sér allri ábyrgð á þessu, og Mjólkursamsalan yrði þá aðeins heildsöluaðili. Ef til þess kæmi, að þetta frv. yrði samþykkt, eins og það liggur hér fyrir, þá tel ég, að það yrði að firra Mjólkursamsöluna allri þeirri ábyrgð, sem hún hefur haft. Þá yrði hún aðeins heildsöluaðili, og smásalarnir bæru alla ábyrgð á vörunni, eftir að hún væri komin í þeirra hendur. En það er algerlega rangt, sem hv. 9. landsk. sagði hér áðan, að Mjólkursamsalan sé ekki ábyrg, á meðan varan er í hennar höndum.

Hv. 9. landsk. ræddi nokkuð um það, að þó að sú breyting yrði gerð, sem hér er rætt um, þá mundi dreifingar- og sölukostnaður ekki hækka. Auðvitað þori ég ekkert að segja um það. Ég get ekki dæmt um það. En ég verð að segja, að það er full ástæða til þess að ætla, að hann mundi hækka, því að það hefur komið fyrir, að fyrirsvarsmenn verzlananna hér í borginni hafa komið á fund Mjólkursamsölunnar og krafizt hærra verðs fyrir dreifinguna og söluna. Og þegar þetta væri komið í þeirra hendur, þá sýnist mér, að þeir einir gætu ráðið um þetta, nema því aðeins að uppi væri eitthvert vald, sem gæti bannað þeim það.

Það má benda á það t.d., sem ég hef hér hjá mér, að eitt sinn ætluðu kaupmenn að stöðva sölu á smjöri og annað skiptið á kartöflum, í bæði skiptin til þess að knýja fram hækkun á sölulaunum. Þá benti Framleiðsluráð landbúnaðarins á, að Mjólkursamsalan gæti tekið að sér söluna á þessum vörum, og þá varð ekkert úr sölustöðvuninni. Þannig er nú það, að ég held, að það sé ekkert ónýtt fyrir neytendur að hafa hér þetta skipulag í sambandi við dreifinguna, því að auðvitað er Mjólkursamsölunni hagur í því að reyna að halda dreifingarkostnaðinum sem mest niðri, vegna þess að hún telur, að þeim mun meira seljist af vörunni sem minni álagning er á henni, svo að við teljum það okkar hag, að þessi dreifingarkostnaður sé í því lágmarki, sem hægt er að hafa. Og við höfum reynt að halda honum það. Við rekum sumar búðir okkar með tapi, vegna þess að dreifingarkostnaðurinn er nú ekki hærri en hann er. (Gripið fram í: Hver borgar þetta?) Sumar búðirnar bera sig betur en aðrar, svo að þetta jafnast.

Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir hans innlegg hér í þetta mál. Ég get tekið undir það, að það væri skynsamlegt að setja n. til þess að kanna, hvort þessi rök eru rétt, sem fram er haldið um það, að úrelt skipulag sé í þessum efnum, og hvort það þurfi að breyta til. Ég mundi vilja stuðla að því, að hæstv. landbrh, veldi n. til þess að kanna þetta, sem væri þá skipuð fulltrúum framleiðenda og neytenda.

Ég sagði áðan, að Mjólkursamsalan vildi halda dreifingarkostnaðinum í skefjum. Og ég sagði það líka, að hún teldi sig hafa gert það og geri það með góðum árangri, ekki sízt með tilliti til hagsmuna beggja aðila, bæði framleiðenda og neytenda. Við höfum skýrslur um það, að þegar skerfur bænda af innkomnu andvirði mjólkur hefur í nágrannalöndum okkar verið 40–50%, að undanteknum Noregi, þar sem þessi hlutfallstala hefur verið nokkru hærri, en þó er hún lægri heldur en hér hjá okkur, þá greiðir Mjólkursamsalan framleiðendum t.d. fyrir árið 1970 72.06% af andvirði mjólkur og mjólkurvara. Þá var að sjálfsögðu búið að greiða allan kostnað, þ.e. allan rekstrar- og vinnslukostnað mjólkurbúanna á svæðinu og Mjólkursamsölunnar, flutningskostnað mjólkurinnar og mjólkurvaranna frá búunum á sölustaði og flutningskostnaðinn frá stöðvunum í búðirnar. Er oft um mjög langan veg að fara með þessar vörur, en þó gátum við skilað rúmlega 72% til framleiðenda.

Í öðru lagi vill Mjólkursamsalan tryggja sem mest vörugæði með því að skapa vörunni sem bezt geymslu- og hreinlætisskilyrði á útsölustöðum. En eins og ég drap á áðan, skortir nokkuð á það, að þeim skilyrðum sé fullnægt.

Þá leggjum við mjög mikla áherzlu á það einnig hjá Mjólkursamsölunni, að þeir, sem selja mjólk, hafi allar aðrar mjólkurvörur einnig á boðstólum í sínum búðum. En við þá athugun, sem gerð var og ég hef áður komið að, eru nokkuð mikil brögð að því, að megináherzlan er lögð á sölu mjólkurinnar, en ýmsar aðrar vörur eru hafðar út undan, því að það þykir ekki eins ábatavænlegt að hafa þær eins og mjólkina, sem dregur að sér meira af fólki til annarra viðskipta.

Þá vil ég segja það, að ég held, að það sé óframkvæmanlegt að veita hvaða matvöruverzlun sem um mjólkursöluleyfi sækir slíkt leyfi og reka samtímis mjólkurútsölur á vegum Mjólkursamsölunnar. Mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar eru mjög sérhæfðar og mundu vitanlega ekki þrífast innan um ótakmarkaðan fjölda matvöruverzlana, sem seldu mjólk. Ef mjólkurbúð hefur sæmilega hagstætt verksvið eða hæfilegt verksvið, gengur rekstur hjá henni yfirleitt vel. En nú má benda á það, að meiri hlutinn af búðum Mjólkursamsölunnar er staðsettur við hliðina á matvörukaupmönnum, og ef þeir matvörukaupmenn fengju einnig mjólk í sína búð og báðir hefðu hana til sölu, þá væri vitanlega útilokað fyrir Mjólkursamsöluna að reka slíkar búðir. Eftir sem áður stæði það, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að Mjólkursamsalan yrði að hafa búðir, þar sem kaupmenn annaðhvort eru ekki eða kæra sig ekki um að vera með mjólkursölu, og á þeim mjólkurbúðum mundi verða tap. Þess vegna er það, að ég tek það enn fram, að ég tel, að ef þá skipulagsbreytingu á að gera, sem hér er farið fram á, þá verður Mjólkursamsalan að vera algerlega óháð um alla ábyrgð á því, að markaðinum sé fullnægt og að þessi vara sé alls staðar á boðstólum. Það verða aðrir að taka það að sér.

Ég sagði hér áðan, að samkv. upplýsingum, sem ég hef frá kaupmannasamtökunum, mundu vera um 160–170 matvöruverzlanir hér í Reykjavík og í Kópavogi. En á þessum sömu stöðum eru samsölubúðir 56. Það er þess vegna nokkurn veginn augljóst, að ef breytingin yrði, sem frv. gerir ráð fyrir, þá yrði hér að fjölga útsölustöðum eitthvað í kringum 100 í viðbót við það, sem fyrir er. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram.

Hv. 9. landsk. þm. ræddi mjög um það ráðleysi, sem ríktí hjá mjólkursamsölustjórninni í fjárfestingarmálum og hún hefði verið að byggja rándýrar mjólkurbúðir í stað þess að láta mjólkina til sölu hjá kaupmönnum á viðkomandi stöðum. Ég get upplýst það hér, hvað Mjólkursamsalan hefur bundið mikið fé í búðum sínum, svo að það liggi fyrir og menn viti það. Það er ekkert leyndarmál, að það eru bundnar í búðum Mjólkursamsölunnar 11.5 millj. kr. En hugsum okkur nú, að sú breyting yrði gerð, sem frv. fer fram á, og Mjólkursamsalan yrði að aka mjólkinni út, a.m.k. hér í Reykjavík, í 100 fleiri staði en hún hefur gert, auk þess í miklu fleiri staði hér í nágrannabæjum, við skulum segja Keflavík, Hafnarfirði og öðrum nágrannabæjum, þá mundi hún verða að bæta við starfsliði og bílum. Og við skulum segja, að hún fengi út úr þessum búðum það verð, sem í þeim stendur. Það yrði þá að gera þá kröfu, að hið opinbera, sem tæki af henni söluna, sæi um þetta, eins og gert var í Svíþjóð. Sænska ríkið tók að sér að borga framleiðendum það fjármagn, sem þeir áttu í mjólkurbúðunum. Það yrði að gera þá kröfu hér einnig. (Gripið fram í.) Það væri náttúrlega enn þá betra að láta kaupmennina kaupa þetta, það væri hægara fyrir ríkið a.m.k. og þægilegra. Nýjustu búðirnar hafa kostað 1.4 millj. En nýr bíll, sem væri keyptur í þessu skyni, kostaði fyrir ári 1.2 millj., svo að þarna er ekki mikill munur á búð og bil. En auk þess þyrfti að ráða starfsmenn til þess að aka þessum bílum.

Þá er eitt enn, sem ég tel mjög mikið atriði. Og það er það, að lögð er áherzla á það af bændunum, sem framleiða mjólkina, að þeir fái greitt út mánaðarlega 75% af andvirði vörunnar, þeirrar mjólkur, sem þeir leggja inn. Nokkuð af þessu andvirði er venjulega bundið í óseldum vörum, ýmiss konar vörum, sem framleiddar eru úr mjólkinni, svo að þarna verður vitanlega að nota að nokkru leyti lánsfé til þess að geta staðið við þetta. En það er mjög mikið atriði fyrir mjólkursamsöluna, svo að hún geti staðið við þessar skuldbindingar og komið 75% af andvirðinu til bændanna strax, að hún fáí féð í hendurnar fyrir vöruna sem fyrst. Og hver einasta mjólkurbúð, sem Mjólkursamsalan rekur, skilar andvirði seldrar vöru hvern dag að kvöldi í kassa Mjólkursamsölunnar. Það er komið í hennar hendur að kvöldi þess sama dags og varan er seld. En við aðra aðila, sem selja mjólk fyrir samsöluna, verður auðvitað að gera samninga um vissan tíma, sem Mjólkursamsalan þá á þessar vörur inni hjá þeim. Nú skal það viðurkennt, að margir þessir menn eru ágætir og skilvísir og standa fyllilega við það, sem um er samið. En það hefur líka komið fyrir, að menn hafa ekki getað eða af einhverjum ástæðum ekki staðið í skilum, og það hefur orðið á því nokkur töf, en þó miklu minni töf hjá Mjólkursamsölunni, vegna þess að hún hefur gert stífa samninga um þetta, heldur en t.d. hjá ýmsum öðrum verzlunum. Hjá kjötverzlunum er t.d. greiðslufresturinn 2–3 mánuðir. 90% af þeim, sem verzla með kjötið, fá þann gjaldfrest. Við í stjórn Mjólkursamsölunnar óttumst það mjög að verða smátt og smátt með því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, dregnir inn í það viðskiptaform og verða að veita svo og svo langan gjaldfrest á þessari vöru. Og hvernig eigum við þá að fara að því að skila andvirðinu jafnharðan til framleiðendanna og sjá um rekstur mjólkurbúanna?

Mjólkursamsalan hefur ekki, — ég skal taka það fram, — orðið fyrir miklum töpum, þó hefur það komið fyrir. Ég held þess vegna, að það sé ekkert vafamál, að ef Mjólkursamsalan og mjólkursamlögin úti um land hætta hvert á sínum stað að annast eða sjá um þetta, muni sölukostnaðurinn aukast, og ekki getur það lent annars staðar en á neytendum og framleiðendum. Það eru þessir aðilar, sem bera það. Ég vil ekki gera neitt til þess, að það ástand geti skapazt.

Ég skal láta öll stóryrði hv. 9. landsk. þm. eiga sig. Það er eðlilegt, að ungir menn og blóðheitir séu nokkuð örir og taki munninn fullan, og þessi ungi hv. alþm. er jafnágætur í mínum augum fyrir því, þó að það hafi komið fyrir hann að vera stórorður. Ég held, að hann vinni samt ekkert á með því. Ég held, að ef honum er í einlægni alvara að vilja bæta það skipulag, sem við búum við núna, verði hann að vinna með öðrum hætti og reyna að laða menn til samstarfs um þær leiðir, sem hann heldur að séu til bóta, fremur en að hrinda mönnum þannig frá samstarfi með stóryrðum hér á löggjafarsamkomunni.

Það voru nokkrar umr. hér í fyrradag um málið. Þar talaði fyrstur hv. 7. þm. Reykv. og taldi þetta frv. vera spor í rétta átt. Ég verð að segja það, að ég varð dálítið hissa, vegna þess að ég hef veitt því athygli, að hann er einn af flm.þáltill., þar sem hann leggur til að fækka mjög útsölustöðunum á olíu í landinu og gera þar á mikla skipulagsbreytingu. Hann telur, að dreifing og sala olíunnar sé mikils til of dýr, að mér skilst, vegna þess hve útsölustaðirnir eru margir. En hv. 7. þm. Reykv. telur hins vegar, að það sé spor í rétta átt að fjölga útsölustöðum á mjólk. Þetta stangast á að mínu viti. Ég held, að það sé skynsamlegt að reyna að halda í hófi fjölda útsölu- og dreifingarstaða á vörum og reyna að halda þeim kostnaði sem mest í skefjum, hvort heitir það er olía eða mjólk eða hvað annað sem um er að ræða.

Þá talaði hér hv. 1. þm. Sunnl., ágætur samþm. minn, og ræddi þetta frv. nokkuð. Ég verð að segja það, að þegar hann var að tala, kom það óvart upp í huga minn, hvort það gæti verið, að hann ætti einhvern hlut í þessum króga, því að mér fannst eins og hann væri að verja hann og vildi bjarga honum. En þó var þetta nokkuð sitt á hvað hjá honum. Hann sagði, að þar sem kjörbúðir væru ætti mjólk alveg skilyrðislaust að vera. Nú er það svo, að mjólk er í fjölda kjörbúða hér í Reykjavík og nágrenni og einnig austanfjalls. Hann sagðist álíta, að það væri ekki rétt, sem ég hefði haldið fram, að frv. hefði þann tilgang, að kaupmennirnir fengju mjólk, og það mundu sennilega fáir þeirra fá mjólk, sagði hann. Svo sagði hann: Frv. hefur tvennan tilgang: Að fleiri fái mjólk til sölu og að neytendur fái heimsent. — Þannig rak þetta sig hvað á annars horn hjá honum. Ég var að reyna að taka vel eftir því, sem hann sagði, og hann sagði, að þó að frv. yrði að l., þá ætti Mjólkursamsalan að gefa út leyfið, og það kannske gerir hún alls ekki, sagði hann. Þetta er algerlega rangur skilningur, því að samkv. frv. hefur Mjólkursamsalan í raun og veru ekkert um það að segja. Það er 7 manna n., sem er sett á stofn, sem ákveður, hverjir fái mjólkursöluleyfi. Mjólkursamsalan er þar algerlega útundan og hefur þá ekkert um það að segja lengur. Enn fremur sagði hann, að Mjólkursamsalan yrði að tryggja, að búðir stæðu í skilum. Ég get ekki með nokkru móti skilið, hvað hann á við, hvernig hægt er að tryggja það nema með því móti, að tekin yrðu upp alger staðgreiðsluviðskipti og þær verzlanir, sem vildu hafa mjólk, sæktu þá mjólk og mjólkurvörur sjálfar, sem þær vilja fá til sölu, og greiddu andvirðið um leið. Á þessu veit ég, að eru þó ýmsir vankantar og mjög erfitt að koma þessu fyrir. Ég hygg, að það yrði að leita mjög að nýjum leiðum í viðskiptaháttum, til þess að þetta væri hægt. Hann sagði, að það dygði ekki að vera á móti, — það verður ekki staðið á mótí því, að kjörbúð, sem uppfyllir öll skilyrði, fái mjólk, — segir hann. Það má vel vera rétt, að maður eigi aldrei að vera á móti. En ég segi fyrir mig, að meðan mér er trúað til þess að hafa einhverja hönd í bagga um starfsemi Mjólkursamsölunnar, þá játa ég ekki á augnabliki, hverri þeirri till., sem upp kemur um breytingar. Ég vil vera viss um, að það skaði hvorki fyrirtækið, sem ég á að stjórna, né heldur þá, sem eru aðalviðskiptamenn þess. Ég álít, að það sé fyrst og fremst þetta, sem mér og öðrum þeim, sem þarna eiga að standa í fyrirsvari, ber að gera. Hitt dettur mér ekki í hug, eins og ég hef áður sagt, að vera lokaður fyrir ýmsum breytingum, sem geta orðið til bóta. Ég vil taka það fram, að ég veit ekki betur en við í stjórn Mjólkursamsölunnar höfum á undanförnum árum lagt okkur fram um það að verða á allan þann hátt við óskum neytenda, sem við höfum mögulega getað. Við höfum ráðizt í hverja breytinguna á fætur annarri, rándýrar breytingar, til þess að koma til móts við óskir neytenda, t.d. í umbúðamálum. Það hefur kostað mikla fyrirhöfn og mikla fjármuni að koma þannig til móts við óskir neytenda, sem við höfum þar gert. Ég álít, að það hafi verið sjálfsagt að gera það. Þess vegna neita ég því algerlega, að við séum á móti öllum breytingum.

Mér fannst hv. 1. þm. Sunnl. líka ganga framhjá því atriði, þegar hann var að ræða þetta mál. að það þarf að selja fleira en mjólk. Það þarf líka að selja ýmsar aðrar vörur. Það er ekki nema helmingurinn af mjólkurframleiðslunni, sem fer til sölu beint sem neyzlumjólk. Hinn helmingurinn er unninn í alls konar vörur, sem líka þarf að selja, og ber að leggja áherzlu á, að þeir, sem mjólkina hafa til sölu, vilji selja aðrar vörur úr mjólkinni. — Hann talaði um það, að ræða mín hefði ekki verið rökheld. Það getur vel verið, ég ætla ekkert að dæma um það. En mér fannst þetta vera hvað upp á móti öðru hjá honum og ekki vera rökhelt heldur, fyrr en kom að endanum, og þá fór mér fyrst að líka vel við hv. 1. þm. Sunnl. Mér líkar oft vel við hann, þó að stundum sé það á annan veg. En þá var hann þeirrar skoðunar, að þessi mál ætti að skoða, flýta sér hægt, gera þetta allt með vandvirkni og athuga þessi mál vel. Þarna er ég honum algerlega sammála, og við erum þar alveg í sama báti. Það á að ræða þessi mál öfgalaust og reyna að finna lausnir á þeim, sem sýnast skynsamlegar og geta komið þeim aðilum að gagni, sem við þetta eiga fyrst og fremst að búa, sem eru bæði framleiðendur og neytendur vörunnar, og ég vil alls ekki undanskilja kaupmenn frá því. Þeir eiga vitanlega að eiga sinn þátt í þessari sölu, eftir því sem skynsamlegt telst, og það hafa þeir haft. Þeir eru með meiri hlutann af mjólkurbúðunum í dag. Aðrir en Mjólkursamsalan hafa meiri hlutann af mjólkurbúðunum, og ég sé ekki, að þeir hafi verið sniðgengnir á nokkurn hátt, þó að það hafi ekki verið hægt að verða við hverri einustu ósk og kröfu um, að hver kaupmaður fengi mjólk í sina búð. Þá væru búðirnar núna sjálfsagt orðnar 260–270 í stað 160. Ég held, að það væri engum greiði gerður með því. Ég hef a.m.k. ekki þann skilning á málinu, að það væri nokkrum aðila greiði gerður með því að fjölga svo mikið útsölustöðunum.

Ég hef nú hlaupið yfir það, sem til mín hefur verið beint og læt máli mínu lokið.