18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta var rætt á mörgum fundum allshn. allt frá því í nóv. s.l. Nefndin fékk á sinn fund ráðuneytisstjórann í dómsmrn. og forstjóra Landhelgisgæzlunnar. Óskaði n. eftir að fá upplýsingar um, hver smíðakostnaður hliðstæðs skips og Ægis sé nú, um lánskjör í því sambandi og líklega greiðslubyrði af slíku skipi, ef byggt yrði. Enn fremur var óskað eftir að fá kostnaðaráætlun um að byggja yfir landhelgisgæzluna í landi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að fá þessar upplýsingar hefur n. ekkert svar borizt um þessi atriði annað en það, að árið 1971 hafi verið talið, að skip af svipaðri gerð og Ægir mundi kosta um 22 millj. kr. danskar. Ekkert liggur því fyrir um fjárþörf í þessu sambandi á næstu árum og engin leið að meta, hver hún kann að verða. Hins vegar liggur það fyrir, að samkv. fjárlögum hefur verið varið til landhelgisgæzlunnar sem hér segir á undanförnum árum:

1971 111.5 millj. kr., 1972 147.1 millj. kr. og á fjárlögum í ár 276.6 millj. kr. Við þetta má bæta yfirteknum lánum ríkissjóðs vegna landhelgisgæzlunnar: vegna þyrlukaupa 50.9 millj. kr., vegna kaupa á Fokker–flugvél 32.9 millj. og vegna viðgerðar á Þór 52.3 millj., eða 136.1 millj. samtals. Greiðslubyrði á yfirstandandi ári vegna þessara yfirteknu skulda er 38.8 millj. kr., og er því varið til landhelgisgæzlunnar á þessu ári 315.4 millj., eða 203.9 millj. meira en árið 1971. Enn fremur hefur Alþ. heimilað ríkisstj. að taka lán, allt að 100 millj. kr., á þessu ári til byggingar eða kaupa á varðskipi.

Eins og rakið hefur verið hér að framan, hefur ríkisstj. tekið mjög myndarlega á þessum málum. Er ekkert til sparað að búa landhelgisgæzluna sem bezt úr garði, og er ekki líklegt, að á því verði nein breyting. Hins vegar liggja engar kostnaðaráætlanir fyrir um þau verkefni, sem nauðsynlegt er að framkvæmd verði á vegum landhelgisgæzlunnar á næstu árum, og því allar fjárhæðir í því sambandi ágizkunartölur einar.

Að þessu athuguðu og í fullu trausti þess, að landhelgisgæzlunni verði séð fyrir nægu fjármagni, eins og gert hefur verið á síðustu tveimur árum, svo að hún geti innt af hendi þau verkefni, sem henni eru ætluð, leggur meiri hl: n. til, að frv. verði vísað til ríkisstj.