18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3814 í B-deild Alþingistíðinda. (3457)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil ekki skilja till. meiri hl.. á þá lund, að með því sé verið að koma þessu máli fyrir kattarnef. Hvað sem ég kann að hafa skrifað áður um þann afgreiðslumáta, er alveg öruggt, að sá afgreiðslumáti að vísa máli til ríkisstj. hefur farið sérlega mikið í vöxt, eftir að ég skrifaði þessa bók, sem til var vitnað, og virðist það bera vott um, að Alþ. telji þeim málum að nokkru borgið, sem fara til ríkisstj. Þannig er líklegt, að það sé að breytast eitthvað skoðun í þessu efni, þó að ég telji, að þetta hafi verið rétt, miðað við þá hætti, sem þá tíðkuðust. Ég skil þessa till. meiri hl. og vil skilja hana á þann veg, að meiri hl. vilji og það sé vilji Alþ. einnig þar með, að vísa þessu til ríkisstj. með því hugarfari, að það verði ekkert til sparað að gera landhelgisgæzluna þannig úr garði, að hún geti sinnt sínu hlutverki, og geti í því sambandi komið til greina miklu, miklu hærri upphæðir og með miklu skjótari hætti en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það þýðir ekkert að vera með neina smámunasemi í þessu sambandi eða nefna einhverjar tölur, sem varið hefur verið í landhelgisgæzluna. Við það ástand, sem við erum í nú varðandi landhelgisgæzlu, þá er það sambærilegt á vissan hátt við það að vera í stríði. Ef við getum ekki leyst þessa deilu með bráðabirgðasamkomulagi og áfram halda árekstrar, getum við verið vissir um, að við verðum að kosta meiru til.

Við, sem förum með þessi mál, höfum orðið að þola ásakanir og ögranir um það að hafa ekki farið fram með nægri hörku í þeim. Það er ekki hægt og mögulegt að verja þetta stóra svæði með þeim skipakosti, sem við höfum yfir að ráða nú. Þetta verður hv. Alþ. að horfasti í augu við. Þess vegna mun ég gera, ef ég fer með þessi mál, kröfu til þess, að það verði ekkert sparað til að kaupa skip. Og það er ekki satt, að það dugi eitt skip í því sambandi, heldur getur þurft mörg og það getur þurft að leigja mörg skip. Þetta vil ég gera hv. Alþ. alveg ljóst og endurtek, að það þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut að vera að telja eftir 10—20—30—40 millj. eða eitthvað slíkt í þessu sambandi. Spurningin er bara: Ætlum við að standa við það, sem við höfum sagt, ætlum við að standa við að verja þessi fiskimið eða ekki? Ég mun ekki sætta mig við að vera sakaður um að gera ekki hið ýtrasta til þess að verja miðin og fá ekki í hendur nægilega fjármuni til þess að standa undir kostnaði við það.

Það hafa komið fram ýmsar ábendingar í þessu sambandi, t.d. frá skipstjórum. Allar þær ábendingar hafa verið fyrir hendi og verið athugaðar hjá landhelgisgæzlunni. Okkur er auðvitað ljóst, að það er mjög þýðingarmikið að hafa varaáhafnir, en það þarf til þess fjárveitingar. Ég hef lagt áherzlu á það í sambandi við meðferð landhelgismálanna, að það yrði tekinn upp sá háttur að hafa a.m.k. eina varaáhöfn, sem væri í landi, og væri þá líka hægt að nota þann tíma, sem hún er í landi, til þess að æfa hana með ýmsum hætti, sem ekki er alltaf gott að koma við um borð í skipunum.

Það er fullur áhugi hjá mér til þess að efla landhelgisgæzluna, og ég tek ekkert aftur af því, sem ég sagði, þegar þetta frv., sem hér er til umr., var flutt. Ég tel það út af fyrir sig skynsamlegt að ætla landhelgissjóði ákveðna tekjustofna. En hitt skulum við ekki láta okkur detta í hug, ef svo fer fram, sem nú horfir, að það sé endilega hægt að binda sig við einhvern sjóð í þessu sambandi. Það getur þurft margfaldar fjárveitingar fram yfir það og af mikilli skyndingu. Hitt er jafnrétt að mínum dómi, að honum séu tryggðir vissir fastir lágmarkstekjustofnar. Ég gerði mitt til þess á sínum tíma ég vil segja við hátíðlegt tækifæri, þegar landhelgin var færð út, að hrinda af stað almennri frjálsri fjársöfnun meðal landsmanna allra, landssöfnun til landhelgissjóðs. Ég var svo barnalegur að halda, að hver og einn einasti Íslendingur mundi finna til og telja sér skylt að taka þátt í henni og leggja sitt lóð þar af mörkum, stórt eða smátt eftir atvikum. Það var reynt að skapa samstöðu um þessa söfnun, og voru fengnir menn úr öllum flokkum til þess að taka sæti í þeirri n., sem átti að standa fyrir henni. Þessi n. hefur nú starfað og raunar skilað af sér, og það starf, sem hún hefur unnið, vil ég ekki á nokkurn hátt vanþakka, heldur þakka. Það hafa safnazt líklega um svona 27 millj. kr., það er ekki alveg að fullu uppgert, vegna þess að enn er nokkuð útistandandi, auk þess sem ekki eru komin full skil af sölu peninga, sem gerðir voru í þessu skyni. Þetta er engan veginn litil fjársöfnun. Þetta er stór fjársöfnun miðað við íslenzkar aðstæður, enda lögðu margir aðilar af mörkum mjög myndarlegar fjárhæðir í þessu sambandi. En því miður varð samt þátttakan í þessari fjársöfnun ekki eins almenn og ég hefði vonazt til og hefði kosið. Það, sem valdið hefur mér mestum vonbrigðum í sambandi við þessa fjársöfnun, er það, að mér hefur fundizt sorglega skorta á framlög af hálfu þeirrar stéttar, sem ég hélt að teldi þetta málefni allra brýnast, þó að það sé málefni allra landsmanna, þ.e.a.s. sjómannastéttarinnar. Að vísu eru margar heiðarlegar undantekningar þar frá, og áhafnir sumra skipa hafa skilað framlagi, en þátttakan hefði samt mátt vera meiri og almennari af þeirra hálfu, og áreiðanlega hefðu menn fundið miklu meiri þunga liggja á bak við bréfið, sem talið er vera frá 18 skipstjórum á togurum, ef kunnugt hefði verið um, hvað þeir og þeirra áhafnir hefðu lagt af mörkum til þess að efla landssöfnun til landhelgissjóðs. Það vil ég segja, og það er gott að það berist til þeirra. En 27 millj. kr. eru þó nokkur fjárhæð, og hún er í sjóði, og enn fremur höfum við 100 millj. kr. lántökuheimild, þannig að það er í rauninni ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að hefjast handa nú þegar um kaup eða byggingu á skipi. En ef á að láta smíða skip, sem að sumu leyti er auðvitað æskilegast, því að þá er hægt að fá skip, sem örugglega hentar, þá tekur það nokkuð langan tíma.

Ég hef skipað n., eins og ég hef áður sagt, til þess að athuga þessi málefni, nefnd manna, sem ég hef áður nefnt, forstjóra landhelgisgæzlunnar, skipaverkfræðing, hæstaréttarlögmann og svo elzta skipstjórann í landhelgisgæzlunni, Guðmund Kjærnested, þannig að ég hygg, að vel verði að þessu hugað.

Það hefur verið og er verið að reyna að vinna að því að athuga, hvort ekki er hægt til bráðabirgða að fá leigð skip til að sinna landhelgisgæzlu, og allt verður gert, sem hægt er, til þess að fá slík skip. Við höfum gert ráð fyrir að sleppa því leiguskipi, sem við höfum haft, ef mögulegt er, en það hefur reynzt á allan hátt vel. En við viljum þó reyna að koma því að hvalveiðum og ekki taka það frá þeim veiðiskap, ef hægt er. Ég held, að það sé ekkert ofsagt, þótt sagt sé, að leigunámið á því skipi hafa af sumum aðilum á sínum tíma verið nokkuð talið eftir.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, að erindi mitt hingað var að lýsa því yfir, með hvaða skilningi ég tek á móti samþykkt Alþ. um að vísa málinu til ríkisstj., og vil undirstrika það, að Alþ. getur ekki gert kröfu til þess samtímis, að það sé að öllu leyti skilvirk varzla á þessu stóra hafsvæði, og talið eftir peninga, sem þarf að veita til þess að gera landhelgisgæzluna þannig úr garði, að hún geti annazt hana á þann hátt, sem þarf.

Ég vona og við vonum það sjálfsagt öll, að hægt sé fljótlega að finna einhverja bráðabirgðalausn á deilumálum okkar við Breta og Vestur–Þjóðverja. Mér er það mikið áhugamál, að það takizt. Þá eins og alltaf, þegar á að semja um mál, verða báðir aðilar að vera við því búnir að slaka eitthvað á. Það er mín skoðun, að það sé giftusamlegra að leysa málið til bráðabirgða með þeim hætti heldur en að þurfa að standa í hálfgerðri styrjöld a.m.k. á miðunum. En ef það á að gerast og ef ekki tekst að ná samkomulagi, veit ég, að vilji allra landsmanna er, að landhelgi. sé varin og landhelgisgæzlan geri það af fullum þunga. Og meðan ég fer með stjórn þeirra mála, mun ég gefa landhelgisgæzlunni þau fyrirmæli. En þá vil ég líka heimta, að það sé sýndur skilningur á því, að landhelgisgæzlan fái þau skip og tæki í hendur, sem hún þarf til þess að geta varizt.